Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 15:34:19 (3149)

1999-12-16 15:34:19# 125. lþ. 47.11 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, MF
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[15:34]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er komið til 2. umr. frv. um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem fékk þó nokkra umræðu þegar það var lagt fram og hefur fengið töluverða umfjöllun í hv. efh.- og viðskn. Um er að ræða kosningaloforð Sjálfstfl. og Framsfl. það sem er í stjórnarsáttmálanum að mér skilst um að heimila að fullu nýtingu á ónýttum persónuafslætti millifæranlegum milli hjóna. En þó skal það vera þannig að aðeins komi til framkvæmda 5% á hverju ári. Þar sem 80% eru millifæranleg núna á ónýttum persónuafslætti þá komi 5% á hverju ári út kjörtímabilið og er áætlað að þessi aðgerð kosti allt í allt um 400 miljónir, 100 milljónir á ári. Við það er miðað að sá fjöldi verði óbreyttur sem hefur nýtt að hluta eða einhverju leyti ónýttan persónuafslátt fram til dagsins í dag, þ.e. nýtt þá heimild sem er til staðar í lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Það eru rétt rúmlega 19 þúsund hjón eða einstaklingar með staðfesta samvist eða í sambúð þar sem er um samsköttun að ræða sem hafa nýtt þessa heimild.

Það kom í ljós þegar við vorum að skoða ónýttan persónuafslátt að í flestum tilvikum er um að ræða mjög ungt fólk og síðan eldra fólk. Þeir sem kannski nýta þetta hvað minnst eru á miðjum aldri og með eitt, tvö eða þrjú börn. Að vissu leyti getur því ákveðinn takmarkaður hópur þjóðfélagsþegna nýtt sér ónýttan persónuafslátt maka. Eins og fram kemur í nál. sem við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir skrifum undir með fyrirvara þá styðjum við þessa breytingu en við teljum þó að það hefði átt að fara betur yfir þau svið skatta sem snúa að fjölskyldufólki, sérstaklega ungu fólki með börn, til þess að athuga hvort ekki hefði mátt nýta þessar 400 milljónir sem eiga að fara þarna til sérstakra úrbóta fyrir þá sem greiða skatta, á annan eða markvissari hátt í þágu ungs barnafólks eða fjölskyldufólks sem er ekki stærsti hópurinn af þeim sem nýta ónýttan persónuafslátt í dag.

Ég hlýt að láta það koma fram að ætlað er að þessi aðgerð kosti um 100 milljónir á ári, 400 milljónir í allt. En það gerist nú á milli 2. og 3. umr. um fjárlög íslenska ríkisins að tekjuskattur einstaklinga hækkar um 400 milljónir, þ.e. það sem kemur inn í ríkiskassann á milli 2. og 3. umr. hækkaði um 400 milljónir vegna breyttra forsendna. Þannig að tekjuskatturinn, sú aukning sem verður á milli 2. og 3. umr. fjárlaga er sama tala og áætlað er að nýta til þessara hluta á öllu kjörtímabilinu.

Það stingur óneitanlega í augu að sérstaklega einn hópur kemur alls ekki til með að geta nýtt á nokkurn hátt þessa breytingu um tekjuskatt og eignarskatt en það eru einstæðir foreldrar. Einstæðir foreldrar sem telja fram eru rúmlega 8.600 á landinu öllu og þeir koma ekki til með að geta nýtt þessar skattaúrbætur sem ríkisstjórnin leggur til. Við höfum líka skoðað sérstaklega umsögn eða réttara sagt skýrslu ASÍ og BSRB um skattamálin og farið yfir þær tölur sem þar eru og þau úrræði sem bent er á sérstaklega fyrir fjölskyldufólk og ég verð, virðulegi forseti, að lýsa undrun minni á því að ekki skuli hafa verið notað tækifærið til þess að taka þessa peninga, þessar 400 milljónir, og fara þá leið sem er samkvæmt mati þeirra sem unnu skýrslu ASÍ og BSRB mun betri en þessi og mundi nýtast fleirum og þá fyrst og fremst barnafólki. Það er hugmyndin um svokölluð barnakort sem voru tillögur Framsfl. í kosningabaráttunni og áætlað er að þegar þau komi að fullu til framkvæmda kosti það um 2 milljarða. Það segir okkur að hægt hefði verið að fara í hluta af þeirri framkvæmd fyrir 400 milljónir og auðvitað veltir maður því fyrir sér miðað við þann mikla tekjuauka sem ríkissjóður hefur haft á þessu ári og áætlaður er á næsta ári umfram það sem forsendur fjárlagafv. gerðu ráð fyrir, þar sem um er að ræða tæplega 30 milljarða, að ekki skuli hafa verið ráðist í að nota þennan hluta góðærisins þá sérstaklega til þess að hrinda í framkvæmd tillögum Framsfl. um barnakortin sem sannarlega nýtast barnafjölskyldum og barnafólki betur en þær tillögur sem hér er um að ræða.

Við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir leggjumst ekki gegn þessu frv. en erum með brtt. sem ég mun fara yfir síðar. En mig langar til þess, virðulegi forseti, að það komi fram að þó að umsagnir um frv. hafi í flestum tilvikum verið jákvæðar þá er þess getið af hálfu umsagnaraðila að það hefði mátt skoða aðrar leiðir en þarna er verið að fara og þá sérstaklega með tilliti til skattaúrbóta fyrir fjölskyldufólk. Þar er fyrst og fremst um að ræða umsagnir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusambandi Íslands en einnig frá Öryrkjabandalagi Íslands og mig langar til þess, virðulegi forseti, að drepa aðeins niður í þessum umsögnum því að mér finnst að þær eigi fullt erindi inn í þá umræðu sem hér fer fram og við höfum kannski ekki tekið nógu ítarlega, hvorki í hv. efh.- og viðskn. né í sölum Alþingis, þ.e. á hvern hátt við nýtum þessar 400 milljónir, ef það er staðföst ákvörðun ríkisstjórnarinnar að þær úrbætur sem á að fara í a.m.k. á þessu eða næsta ári skuli einskorðast við 400 milljónir. Það þarf að fara yfir þær leiðir sem mögulegar eru og hvernig peningarnir nýtast best, þessar 400 milljónir, 100 á ári.

Ég ætlaði fyrst að drepa aðeins niður í umsögn sem okkur barst frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Í ályktun síðasta bandalagsþings BSRB um skattamál kemur fram stuðningur við fullnýtanlegan persónuafslátt maka, en auk þess er lagt til að heimilt sé að nýta persónuafslátt barna á aldrinum 16--21 árs.``

Virðulegi forseti. Ég vil í þessu sambandi benda á það að ef foreldrum verður heimilt að nýta ónýttan persónuafslátt barna á aldrinum 16--18 ára, þá er sá kostnaður rétt rúmlega um einn og hálfur milljarður ef hann er að fullu talinn. En miðað við þær upplýsingar sem ég hef þá munu auðvitað aldrei allir foreldrar sem eiga börn á þessum aldri nýta persónuafsláttinn þannig að það mætti áætla með réttu að kostnaðurinn við að heimila foreldrum að nýta ónýttan persónuafslátt barna sinna á aldrinum 16--18 ára yrði í kringum 800 milljónir. Þá ber þess að geta að flest þau börn sem þannig háttar til um að foreldrar fengju að nýta ónýttan persónuafslátt þeirra yfir veturinn, stunda vinnu á sumrin og eiga því ekki með uppsafnaðan persónuafslátt þannig að þau greiða að einhverju leyti skatta þannig að það skilar sér að hluta til til baka.

Einnig segir í ályktuninni, með leyfi forseta:

,,Eins og fram kemur í ályktuninni er í henni lögð áhersla á ýmis önnur atriði varðandi skattkerfið. Ber þar hæst kröfuna um hækkun skattleysismarka og að stuðningur ríkisins við barnafólk verði efldur. BSRB hefur jafnan talið mikilvægt að forgangsröðunin sé rétt þegar gripið er til breytinga á skattkerfinu.

Eitt af meginmarkmiðum skattkerfisins er að mati BSRB að það á að vera tæki til tekjujöfnunar. Eitt helsta tækið til þeirrar tekjujöfnunar er þróun skattleysismarka. Í skýrslu BSRB og ASÍ, Skattkerfið frá sjónarhóli launafólks, kemur fram að skattleysismörk hafa á undanförnum árum hækkað mun minna en laun og því hefur meðalskattbyrði lágtekjuhópa og millitekjuhópa aukist og tekjujöfnun kerfisins því minnkað. Í ljósi þeirra markmiða sem sett eru fram í stefnumörkun BSRB hafa samtökin talið brýnast að skattleysismörkin séu hækkuð og þau látin fylgja launaþróuninni í landinu og að gripið sé til annarra ráðstafana sem bæta stöðu tekjulágs fólks.``

Fyrir hönd BSRB skrifar Svanhildur Halldórsdóttir undir. Síðan er birt með þessu ályktun BSRB um skattamálin og þar eru taldir upp þeir liðir sem 38. þing BSRB krefst að verði farið í að lagfæra: Þeir eru, með leyfi forseta, að:

1. Skattleysismörk verði hækkuð.

2. Stuðningur ríkisins við barnafólk verði ekki tekjutengdur. Barnabætur eru stuðningur við barnafólk og ættu því ekki að vera tekjutengdar, jafnframt ættu þær að vera þær sömu allt frá fæðingu barns og til 18 ára aldurs.

3. Viðmiðunarmörk varðandi útreikning á ívilnun vegna menntunarkostnaðar barna á aldrinum 16--21 árs verði hækkuð verulega.

4. Endurskoðaðir verði og afnumdir úr skattkerfinu þeir þættir sem valda mismunun á milli skattþegnanna.

5. Ekki sé gert upp á milli tekna eftir því hvernig þeirra er aflað. BSRB fagnar því að fjármagnstekjuskatti hafi verið komið á en krefst þess að breyting verði gerð á útfærslu fjármagnstekjuskatts þannig að ekki sé gert upp á milli tekna eftir uppruna heldur verði þær skattlagðar með sama hlutfalli og aðrar tekjur.

6. Virðisaukaskattur af vinnu við íbúðarhúsnæði á byggingarstað eða endurbætur á eldra húsnæði verði aftur endurgreiddur að fullu (í stað 60% eins og nú er).

7. Heimilt verði að fullnýta persónuafslátt maka.

8. Heimilt verði að nýta persónuafslátt barna á aldrinum 16--21 árs.

9. Viðmiðunarmörk í hátekjuskatti verði á mánuði 215.000 kr. hjá einstaklingi og 400.000 kr. hjá hjónum

[15:45]

Virðulegi forseti. Þarna kemur mjög skýrt fram að BSRB raðar þessu atriði ekki sem fyrsta forgangsmáli. Þó að BSRB leggist ekki gegn þeim breytingum sem hér er verið að leggja til að er það ekki það fyrsta sem þeir leggja áherslu á. Á undan eru sex liðir af níu. Það segir töluvert og ég veit ég það og er fullkunnugt um að töluvert hefur verið um þetta mál fjallað á þingum BSRB sem og hjá Alþýðusambandi Íslands og þetta er niðurstaðan. Ég velti því auðvitað fyrir mér hversu mikið samráð var haft eða rætt við samtök launafólks í landinu þar sem tugir þúsunda launafólks fjalla um kjör sín og þær aðferðir sem eru best til þess fallnar að bæta kjör millitekjuhópanna og láglaunafólks. Millitekjuhóparnir svokölluðu eru auðvitað að langstærstum hluta ungt fólk með börn.

Þá kemur að annarri umsögn sem er í svipuðum dúr en hún er frá Öryrkjabandalagi Íslands, og þar segir, með leyfi forseta:

,,Öryrkjabandalag Íslands hefur borist til umsagnar frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt, 5. mál, persónuafsláttur maka. Hér er um gott og þarft mál að ræða sem Öryrkjabandalag Íslands mælir með að fái samþykkt Alþingis. Sýnu brýnna væri þó að leiðrétta skattleysismörk til samræmis við þróun launavísitölu síðasta áratug. Þessi þróun hefur komið mjög harkalega niður á okkar fólki enda eru þeir einstaklingar sem ekkert hafa nema bætur almannatrygginga nú farnir að greiða tugi þusunda á ársgrundvelli í tekjuskatt og útsvar, nokkuð sem óþekkt var fyrir örfáum árum.

Hvað jaðarskatta snertir er ekki aðeins brýnt að leiðrétta skattleysismörk heldur einnig og enn frekar að hækka frítekjumörk almannatrygginga vegna atvinnutekna. Hér með sendist meginályktun nýafstaðins aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands.

Með vinsemd og virðingu, Garðar Sverrisson formaður og Helgi Seljan framkvæmdastjóri.``

Og ályktunin segir, með leyfir forseta:

,,Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn laugardaginn 6. nóv. 1999, skorar á Alþingi að aflétta því neyðarástandi sem ríkir í tryggingamálum öryrkja og búa svo um hnútana að örorka verði ekki framar ávísun á efnahagslega útskúfun. Þá ítrekar fundurinn fyrri áskorun sína til Alþingis um að það viðurkenni hina margvíslegu sérstöðu öryrkja með því að hækka örorkulífeyri sérstaklega og mest hjá þeim sem verða fyrir varanlegri örorku snemma á starfsævinni. Einnig skorar fundurinn á stjórnvöld að leiðrétta lífeyrisgreiðslur til samræmis við þróun launa á síðustu árum og að tryggja að þær dragist aldrei aftur úr þróun launavísitölu.

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands vekur athygli á því að jaðarskattar eru hvergi hærri en hjá þeim öryrkjum sem reyna að hasla sér völl á vinnumarkaði. Það er ríkissjóði og samfélaginu öllu til fjárhagslegs skaða að sporna svo mjög gegn atvinnuþátttöku fatlaðra. Til að bæta hér úr ber brýna nauðsyn til að hækka verulega frítekjumörk vegna atvinnutekna og leiðrétta skattleysismörk til samræmis við þróun launavísitölu síðustu tíu ára. Þá er ekki síður brýnt að hverfa þegar í stað frá skattlagningu húsaleigubóta.``

Þarna sést, virðulegi forseti, að þó að Öryrkjabandalag Íslands mæli á sinn hátt með frv. á sama hátt og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja þá er þetta ekki forgangsmál. Því miður verður að segja það, virðulegi forseti, að hér í dag á hv. Alþingi er búið að fella tillögur um úrbætur í öllum þeim liðum sem Öryrkjabandalagið telur upp í ályktun sinni. Það eru kaldar kveðjur.

Þess ber einnig að geta að þegar Öryrkjabandalagið gekk frá ályktun aðalfundar sem haldinn var 6. nóv. þá lá frv. fyrir en engu að síður er það þannig að þetta er ekki forgangsmál hjá Öryrkjabandalaginu.

Þriðja umsögnin, sem mig langar til þess að vitna hér til, er frá Alþýðusambandi Íslands og að öllum öðrum ólöstuðum tel ég að það sé sú umsögn sem er hvað best unnin og gefur mjög glöggar upplýsingar um frv., innihald þess og þýðingu, hvað það þýðir í raun og veru í úrbætur fyrir þá einstaklinga eða hjón sem koma til með að nýta sér það, þ.e. þessi 19 þúsund hjón eða sambúðarfólk sem ætlast er til að nýti frv. vegna þess að útreikningur á kostnaði sem frv. hefur í för með sér er, eins og ég sagði áðan, miðaður við það að ekki bætist fleiri í þennan hóp, það verði um sama fjölda að ræða.

En í umsögn Alþýðusambands Íslands segir, með leyfi forseta:

,,Alþýðusambandi Íslands hefur borist til umsganar frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, mál nr. 5. Í frv. er lagt til að hjónum eða sambýlisfólki verði í áföngum heimilað að nýta persónuafslátt maka að fullu. Samkvæmt mati fjárlagaskrifstofu fjmrn. verður tekjutap ríkissjóðs um 400 milljónir þegar breytingin er að fullu komin til framkvæmda.`` --- Ég ætla að skjóta því inn aftur, með leyfi forseta, að tekjuskattur einstaklinga hækkaði á milli 2. og 3. umr. fjárlaga núna um 400 milljónir þannig að það er búið að dekka tekjutapið sem verður allt kjörtímabilið.

,,Þessi breyting hefur í för með sér að ef annað hjóna eða sambýlisfólks er tekjulaust fá þau 4.127 kr. í auknar ráðstöfunartekjur á mánuði. Til þess þurfa tekjur þess sem er útivinnandi einnig að vera hærri en sem nemur tvöföldum skattleysismörkum, þ.e. 126.772 kr. á mánuði. Ef tekjurnar eru lægri eru þær undir skattleysismörkum og hluti persónuafsláttar makans nýtist ekki.

Til þess að ávinningur hjóna eða sambýlisfólks verði fullar 4.127 kr. þarf makinn jafnframt að vera tekjulaus. Með orðinu ,,tekjulaus`` er átt við að makinn fái hvorki launatekjur né greiðslur úr lífeyrissjóðum, almannatryggingum eða Atvinnuleysistryggingasjóði. Ef makinn hefur einhverjar tekjur en er þó undir skattleysismörkum er ávinningur hjóna eða sambýlisfólks vegna breytinganna alltaf minni en 4.127 kr.

Sem dæmi má nefna að ef maki er með 20 þús. kr. í tekjur á mánuði og sá sem er útivinnandi hefur tekjur yfir 126.772 kr. þá er ávinningur hjóna eða sambýlisfólks 3.092 kr. á mánuði.

Alþýðusamband Íslands telur að þetta mál þurfi að skoða út frá fleiri hliðum en þeirri hver ávinningurinn verður fyrir þá sem þessi breyting nýtist. Í fyrsta lagi er mikilvægt að gera sér grein fyrir að ekkert fæst fyrir ekki neitt í þessum efnum frekar en öðrum. Þær 400 milljónir sem aðgerðin kostar þarf að fjármagna með einum eða öðrum hætti. Ríkissjóður hefur nokkrar leiðir til að bæta sér tekjutap, draga úr þjónustu, auka kostnaðarþátttöku eða skerða skattheimtu á öðrum sviðum. Sú aðferð sem notuð hefur verið síðustu árin til að fjármagna skattbreytingar er að láta skattleysismörkin síga miðað við launaþróun í landinu. Við það aukast tekjur ríkissjóðs. Fyrir hvert prósentustig sem tekjur aukast vaxa tekjur ríkissjóðs af tekjusköttum um a.m.k. 2%.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 2000 er einungis gert ráð fyrir 2,5% hækkun persónuafsláttar á meðan gert er ráð fyrir að laun hækki um 4--5%. Þá breytingu sem lögð er til í frv. á því að fjármagna með því að hækka persónuafslátt minna en laun í þjóðfélaginu.

Þegar tekið er tillit til þessarar fjármögnunar verður hámarksávinningur hjóna eða sambýlisfólks minni en 4.165 kr. eða 3.527 kr. þar sem fyrir sömu upphæð og ríkissjóður verður af vegna breytinganna hefði verið hægt að hækka persónuafsláttinn um 300 kr. Einstaklingar og hjón/sambýlisfólk undir skattleysismörkum hagnast ekkert á þessari breytingu. Hún er hins vegar fjármögnuð af einstaklingum og hjónum og sambýlisfólki sem eru fyrir ofan skattleysismörk. Einstaklingur tapar þannig 300 kr. en hjón og sambýlisfólk 600 kr. í ráðstöfunartekjum á mánuði.

Eins og fram kemur í töflu sem fylgir með hefur þróun skattleysismarka mun meiri áhrif á aukningu ráðstöfunartekna vegna launalækkana hjá fólki með lágar tekjur en þeim sem hafa háar tekjur.

Í öðru lagi telur Alþýðusamband Íslands að aðrar leiðir en þær sem lagðar eru til í frv. séu markvissari til að auðvelda foreldrum að vera meira með börnum sínum. T.d. væri hægt að draga úr tekjuskerðingarhlutfalli barnabóta. Útgjaldaauki ríkissjóðs vegna lækkunar skerðingarhlutfalls um eitt prósentustig er svipaður og við að heimila fulla millifærslu á persónuafslætti maka. Einnig væri hægt að hækka viðmiðunarmörk tekjuskerðingar barnabóta sem eru nú 97.464 kr. hjá hjónum eða sambýlisfólki og 48.732 kr. hjá einhleypum foreldrum. Útgjaldaauki ríkissjóðs vegna hækkunar viðmiðunarmarka tekjuskerðingar um 15 þús. kr. er svipaður og kostnaðarauki fyrirhugaðra breytinga.

Í nýútkominni skattskýrslu Alþýðusambands Íslands og BSRB er lögð á það áhersla að áður en breytingar eru gerðar á skattkerfinu verði áhrif þeirra metin fyrir mismunandi hópa í þjóðfélaginu. Nauðsynlegt er að almenningur og ekki síst þeir sem taka hinar pólitísku ákvarðanir geri sér grein fyrir áhrifum skattbreytinga og fjármögnunar þeirra áður en breytingarnar eru gerðar. Alþýðusamband Íslands telur að áður en sambandið tekur afstöðu til frv. þurfi að liggja fyrir upplýsingar um hverjum þessi breyting nýtist og hver ber kostnaðinn svo hægt sé að meta hvort og þá hversu markviss leið til tekjujöfnunar þessi skattbreyting er. ASÍ áskilur sér allan rétt til þess að koma á framfæri síðar athugasemdum sínum við einstakar greinar frv.``

Ég tek undir það sjónarmið, virðulegi forseti, sem fram kemur í þessari umsögn Alþýðusambands Íslands, bæði hvað varðar útreikningana hverjum þetta nýtist og ekki síður að það þarf áður en svona tillögur eru lagðar fram og ræddar á Alþingi að meta heildaráhrif á einstaka hópa og hvar þessar breytingar og hverjum þær koma til með að nýtast best. Miðað við þær athuganir sem hafa verið gerðar og þær upplýsingar sem hv. efh.- og viðskn. hefur munu þessar breytingar ekki nýtast best þeim hópum sem við vildum gjarnan sjá að tekið yrði sérstaklega á hvað varðar leiðréttingu kjara og það er láglaunafólkið og síðan og ekki síður það fólk sem er með millitekjurnar og er með eitt, tvö, þrjú börn á framfæri eða fleiri.

Ungt fjölskyldufólk kemur sem sagt ekki til með að nýta þessa jólgjöf hæstv. ríkisstjórnar heldur verða það fyrst og fremst þeir sem eru í hópi eldri borgara og svo aftur allra yngsta fólkið. Út af fyrir sig dregur það verulega úr vægi þessara breytinga eða gæðum þeirra, ef svo má orða, miðað við þá skoðun sem við höfum verið með á málinu í efh.- og viðskn.

[16:00]

Virðulegi forseti. Ég nefndi það sérstaklega áðan að það er mjög stór hópur framteljenda og skattgreiðenda sem þessi breyting kemur ekki til með að nýtast að neinu og það eru einstæðir foreldrar. Framteljendur eru í þeirra hópi 8.600 en við skoðun á kjörum þeirra í samanburði við þær ráðstafanir sem hér er verið að gera kom í ljós að einstæðir foreldrar sem fá sérstaka viðbót, þá er ég að tala um barnabætur, vegna barna umfram eitt yngra en sjö ára fá og 30.176 kr. á ári sem sérstaka viðbót við barnabætur sem eru með börnum umfram eitt, þá eru þær 179.389 miðað við þessa töflu sem við höfum fengið. Við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir létum reikna það út hvað það mundi þýða ef þessar sérstöku viðbótarbarnabætur yrðu hækkaðar um 20 þús. kr. ári, þ.e. að í stað þess að vera 30.176 á ári yrðu þessar sérstöku viðbætur við barnabætur 50.176 kr. Það mundi kosta 45 millj. kr. og það er vegna þess að fjöldi einstæðra foreldra sem fær þessa sérstöku viðbót við barnabæturnar vegna barna umfram eitt yngra en sjö ára er 1.927 og þeir fá hana vegna 2.247 barna.

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja hv. þm. að leggja niður fundi hér, það er einungis einn fundur í salnum.)

Virðulegi forseti. Ég skil að hv. þm. liggi mikið á hjarta að ræða þessi mál við hæstv. fjmrh. og tel fullvíst að þeir séu að reyna að sannfæra hann um að tillaga sem við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flytjum sé hin besta. Sérstaklega treysti ég á að hv. þm. Pétur Blöndal sé í þeim verkum að sannfæra hæstv. fjmrh.

En eins og komið hefur fram flytjum við brtt. sem felur í sér 20 þús. kr. hækkun á sérstökum barnabótum til einstæðra foreldra vegna barna umfram eitt og kostnaðurinn sem þetta felur í sér er aðeins um 45 millj. kr. á ári. Þarna yrði um verulegar kjarabætur fyrir þennan hóp einstæðra foreldra, að ræða og í þeim hópi --- ég sé að hv. þm. Pétur Blöndal bendir mér á að hann sé í þeim sérstaka hópi sem fái þessar sérstöku viðbætur við barnabæturnar. Ef hann er í þeim hópi að hafa sérstaka þörf fyrir viðbótarbarnabætur, þá tel ég sjálfsagt að hv. þm. Pétur Blöndal fái þær eins og aðrir þeir sem hafa þörf fyrir auknar tekjur til að sjá sér og sínum farborða.

En ég vildi gjarnan heyra viðhorf hæstv. fjmrh. til þessarar brtt. sem ekki felur í sér meiri útgjöld en þetta, um 45 millj. kr. á ári, og það má segja að e.t.v. hefði átt að skoða það áður en afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár lauk, en þá ber þess að geta að mál frá efh.- og viðskn. voru hér á dagskrá á undan fjárlagaafgreiðslunni til að byrja með en var frestað og þess vegna töldum við rétt og eðlilegt að það kæmi til umræðu þegar þetta frv. ríkisstjórnarinnar væri rætt hér og treystum á að það yrði á undan afgreiðslu fjárlaga þannig að hægt yrði að taka þetta inn, en það er auðvitað hægt þrátt fyrir það þar sem ekki er um meiri fjárútlát að ræða.

Ég segi það enn og aftur, virðulegi forseti, þó að e.t.v. sé ekki rétt að taka einn lið fjárlaganna út umfram annan eða þær viðbætur sem hafa komið inn í frv. og nú samþykktum fjárlögum ríkisins, að þá verð ég að segja að 45 millj. í kjarabætur til einstæðra foreldra sem þurfa sérstaklega á því að halda á næsta ári, tel ég hafa meiri forgang heldur en ýmis þau atriði sem ég hef séð á fjárlögum ríkisins, þar á meðal uppbyggingu á hestamiðstöð á Norðurlandi eða framlög til hrossamiðstöðvar. Þetta er auðvitað alltaf spurning um forgangsröðun. Við höfum lagt þessa tillögu fram og vonumst til þess að hún fái góða afgreiðslu hjá hv. þm. En ég vil gjarnan geta þess að þegar við gengum frá tillögunni og lögðum hana fram vegna þess að þessi mál voru komin á dagskrá þingsins, sem hefur nú tekið miklum breytingum á undanförnum dögum svo ekki sé meira sagt, þá var hv. þm. Ögmundur Jónasson ekki að störfum í nefndinni. Við náðum því ekki til hans til að ræða þetta við hann þannig að ég veit ekki hvort hægt er að segja að þetta sé afstaða stjórnarandstöðunnar, en býst við því að málum sé svo háttað, en hluti af efnahags- og viðskiptanefndarfulltrúum þurfti að sinna störfum á erlendri grund, æðiþétt á undanförnum vikum.