Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 16:22:36 (3155)

1999-12-16 16:22:36# 125. lþ. 47.11 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[16:22]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir má ekkert aumt sjá. Um daginn miskunnaði hún sig yfir Kaupþing í baráttu þess fyrirtækis við hæstv. forsrh. Nú eru það einstæðir foreldrar sem njóta miskunnar hennar og hún ætlar að laga stöðu þeirra. En hver á þá eiginlega að borga skattana, herra forseti? Ég spyr hv. þingmenn: Hver á að borga skattana ef það eru ekki einstæðir foreldrar og hjón?

Þannig er að til mín hefur komið margt sambýlisfólk og hjón sem segjast vera að borga mörg hundruð þúsund á ári fyrir að skilja ekki, að vera ekki einstæðir foreldrar úti í bæ. Grófustu dæmin sem ég hef séð eru um hálf milljón sem fólk getur sparað sér á því að skilja, á því að bóndinn sem oft er með hærri tekjurnar flytji heim á hótel mömmu og konan njóti hærri barnabóta, leikskólaforgangs, lægri leikskólagjalda, húsaleigubóta o.s.frv.

Ég held nefnilega, herra forseti, að þeir sem kannski eru í verstri stöðu séu hjón með þrjú eða fleiri börn. Þá borgar sig ekki fyrir annan aðilann, yfirleitt konuna, að vinna. Þannig þarf annað hjónanna að vinna fyrir fjórum eintaklingum fyrir utan sjálfan sig. Hann þarf af tekjum eins að fæða fimm. Þessir aðilar eru kannski hvað verst settir.

Ég er á móti þessari brtt. Ég held að farið sé að halla um of á hjón með nokkuð mörg börn.