Ættleiðingar

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 19:10:23 (3202)

1999-12-16 19:10:23# 125. lþ. 47.14 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[19:10]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki tjáð mig í þessari umræðu núna um þetta mál. Ég vil þess vegna koma upp í andsvari og þakka sitjandi formanni allshn. forustuna í þessu máli, í vinnunni í allshn., hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur. Hún hefur haldið vel á því og nefndin er afar samhuga eins og hún lýsti hér.

Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson er vissulega ekki einn um áhuga fyrir jöfnum rétti og jöfnum skyldum samkynhneigðra á við annað fólk. Þeir eru að sjálfsögðu að biðja um að skyldur þeirra við blessuð börnin verði viðurkenndar. Við megum ekki gleyma því að það eru ekki bara réttindi, það eru skyldur líka. Það ágæta fólk hefur haldið vel á sínu máli í viðtölum við allshn.

Nú hefur hæstv. dóms- og kirkjumrh. sagt hér að lögin um staðfesta samvist muni verða tekin upp á vorþingi. Allshn. er áhugasöm um að vinna vel í því máli og það hefur líka komið fram. Hins vegar kemur þingið til með að taka ákvarðanir, ekki eingöngu hæstv. dóms- og kirkjumrh. og hv. allshn. heldur þingið sjálft í okkar lýðræðisþjóðfélagi.