Skráð trúfélög

Fimmtudaginn 16. desember 1999, kl. 19:27:42 (3206)

1999-12-16 19:27:42# 125. lþ. 47.16 fundur 69. mál: #A skráð trúfélög# (heildarlög) frv. 108/1999, GHall
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 125. lþ.

[19:27]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Við 1. umr. um frv. til laga um skráð trúfélög gerði ég athugasemdir við það að hér stendur að forstöðumenn trúfélaga þurfi ekki að vera íslenskir ríkisborgarar. Ég er ekki á þeirri skoðun. Ég gat líka um að til þess að fullnægja þeim skilyrðum sem hér væru sett í lög skyldu þeir sem ætluðu sér að ná fótfestu í sértrúarflokki á Íslandi ástunda trú sína af festu og skyldurækni eins og sagt er í frv. Þeir þyrftu að sýna fram á að þeir væru þess verðugir að trúarbrögð þeirra næðu fótfestu gagnvart löggjafanum.

Ég er enn þá þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að þeir sem stofni til trúfélaga á Íslandi séu íslenskir ríkisborgarar og hef ekki vikið frá þeirri hugsun. Ég teldi því eðlilegt svo væri í þessu frv.