Vitamál

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 12:08:06 (3226)

1999-12-17 12:08:06# 125. lþ. 48.15 fundur 57. mál: #A vitamál# (heildarlög) frv. 132/1999, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[12:08]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Aðeins um það frv. sem liggur fyrir um vitamál. Eins og kom fram hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni þá höfum við ákveðið að sitja hjá við afgreiðslu frv. þó að margt sé gott í því. En ég vek aðeins athygli á því sem hæstv. samgrh. fjallaði um að við segjum að sá skattstofn sé mjög ósanngjarn af 1.600 nýjum gjaldendum eru menn sem hafa mjög takmörkuð not af bátum sínum. Þriðjungur þessara báta eru svokallaðir skemmtibátar og um 300 bátar hafa einungis heimild til að sækja sjó í 23 daga á ári, á tímabilinu 1. apríl til 31. október. Og það er kannski ekki þessi þrjúþúsundkall sem menn eru að tala um núna heldur sú tilhneiging sem mun verða á næstu árum til að hækka þennan skattstofn þegar þetta á annað borð er komið á.

Það er því ekkert sanngjarnt við það að leggja slíkt á varðandi vitagjaldið hjá þeim sem mega ekki róa nema 23 daga í dag og dögunum þeirra getur þess vegna farið fækkandi.