Fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 13:48:05 (3242)

1999-12-17 13:48:05# 125. lþ. 48.96 fundur 230#B fréttaflutningur af kjarnorkuvopnum á Íslandi# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[13:48]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Að ala á tortryggni gagnvart Bandaríkjamönnum og veru hersins og varnarliðsins hér á landi hefur lengi verið það mál sem helst hefur sameinað vinstri menn gegn Sjálfstfl. Þannig hefur gengið á með ásökunum um lygar Bandaríkjamanna um starfsemi sína hér og að hún væri önnur en þeir hafa sagt. Síðasti draugurinn var þegar svokallaður sérfræðingur frá Bandaríkjunum lýsti því yfir að hér hefðu verið geymd kjarnorkuvopn og hann hefði sannanir fyrir því. Auðvitað gripu vinstri menn þetta hálmstrá og það sameinaði þá eina ferðina enn í að ráðast gegn Sjálfstfl. og veru varnarliðsins hér. Betra er að veifa röngu tré en öngvu, segir einhvers staðar.

Dapur allaballi sagði við mig fyrir margt löngu þegar múrinn féll: ,,Sennilega verð ég eftir þetta að trúa því að öll moggalygin hafi verið sannleikur um Sovét-Ísland.`` Það virðist því miður, herra forseti, vera sama hlutskipti vinstri manna í þessu máli að allt það sem Bandaríkjamenn hafa sagt um veru sína hér á landi er sannleikanum samkvæmt og það sem vinstri menn hafa verið að reyna að búa til í gegnum árin hefur verið lygi.