Póst- og fjarskiptastofnun

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 20:24:04 (3303)

1999-12-17 20:24:04# 125. lþ. 48.17 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[20:24]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir að upplýsa mig um hverjir mættu fyrir nefndina. Ég vissi það reyndar. En það eru margir aðrir aðilar í samfélaginu sem ég hefði gjarnan viljað að hefðu komið þar til og hefði átt að kalla til. Miðað við upptalningu hans þá liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir að áhyggjur mínar af stöðu mála á landsbyggðinni eru e.t.v. enn þá meiri vegna þess að kannski hefði átt að kalla til aðila sem eru notendur á hinum endunum. Það sem stendur upp úr mörgum þessara manna sem hafa verið kallaðir til er ásetningurinn um að einkavæða og hvernig eigi að fara að því. Ég held að þetta hafi allt saman verið ákveðið fyrir fram en ekki að skoða ætti hlutina hlutlaust.

Ég er líka að lýsa áhyggjum mínum og vanþóknun á því hversu lítil umræða fer í þessi mál á þinginu öllu. Við höfum ekki notað sérstaklega mikinn tíma í þetta. Og við þessa umræðu núna er ekkert óeðlilegt að menn lýsi eftir skoðunum annars stjórnarflokksins, Framsfl., á þessu máli sem hefur varla látið sjá sig hér í umræðunni í dag. Það er mjög mikið áhyggjuefni.