Póst- og fjarskiptastofnun

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 20:31:39 (3308)

1999-12-17 20:31:39# 125. lþ. 48.17 fundur 240. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 110/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[20:31]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. vil ég segja að Íslandspóstur hefur lagt töluverða vinnu í að gera áætlanir um sína þjónustu. Það liggur ekki endanlega fyrir hvernig hún muni aukast. Það fer auðvitað eftir afkomu félagsins.

Það er rétt að minna á að póstþjónustan var árum saman rekin með halla og var talin svona vera í fóstri hjá Landssímanum eða símaparti Póst- og símamálastofnunar. En nú horfir mun betur með þessa starfsemi. Náðst hefur prýðilegur árangur, að ég tel, í rekstri Íslandspósts og að því er stefnt að auka þessa þjónustu. Ég vil ekki gefa neinar yfirlýsingar um það núna. Ég tel eðlilegt að fyrirtækið tilkynni það sjálft. Ég hef átt fund með stjórnarformanni Íslandspósts og forstjóra fyrirtækisins og það er verið að undirbúa það að auka þessa þjónustu úti í dreifbýlinu, sérstaklega þar sem er starfsemi á borð við skóla og þvílíka þjónustu þannig að að því er stefnt að þjónustan verði aukin. En ég vil ekki gefa neinar yfirlýsingar hér og nú um hvernig það verður. Það verður kynnt af hálfu fyrirtækisins.