Framhaldsskólar

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 21:07:05 (3319)

1999-12-17 21:07:05# 125. lþ. 48.18 fundur 101. mál: #A framhaldsskólar# (aðlögunartími, fornám, samræmd lokapróf o.fl.) frv. 100/1999, JB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[21:07]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til 2. umr. frv. til laga um breyting á lögum um framhaldsskóla, með síðari breytingum. Fátt hefur meiri þýðingu fyrir uppbyggingu samfélags okkar og framtíð þjóðarinnar en menntun og skipan hennar og ekki síst sú menntun sem hér er til umfjöllunar. Ég harma það, herra forseti, að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera viðstaddur umræðu um jafnmikilvægan málaflokk og þessi er. Hæstv. menntmrh. hefur lagt kapp á að taka menntamálin og stjórn þeirra sem mest inn í sitt ráðuneyti og stýra því þaðan. Ég harma að hann skuli ekki vera viðstaddur þó ég beri jafnframt fulla virðingu fyrir og meti mikils formann hv. menntmn., Sigríði Önnu Þórðardóttur. Ég veit að hún getur vel svarað fyrir þann málaflokk sem að nefndinni snýr og vinnu hennar. En málaflokkurinn er hins vegar á ábyrgð menntmrh. Við erum í sjálfu sér að fjalla um stórmál og ástæða til þess að hann væri hér og fylgdi þessum málum eftir. Ég geri samt ekki kröfu til þess að hann verði sóttur.

Herra forseti. Ég vil fyrst spyrja hv. nefndarformann hverjir hafi verið kallaðir fyrir nefndina. Voru kallaðir til fulltrúar frá iðngreinunum, frá atvinnulífinu, frá hinum ýmsu starfsmenntagreinum, frá tæknigreinum? Sérstaklega 4. gr. frv., og reyndar 2. gr. einnig, fjallar í rauninni um ákveðið verðmætamat eða gildismat á því hvað nám sé og hún fjallar um hvaða staðlaðar kröfur eru settar á nám sem er þóknanlegt og að þær kröfur séu samræmdar.

Við lifum í margbreytilegu þjóðfélagi. Margt gerist frá degi til dags og stöðugt er ný tækni og ný verkefnasvið að koma inn þannig að hugtökin menntun og þekking hafa fengið allt aðra merkingu en áður. Þetta eru ekki bara latínu- og prestaskólar núna með fullri virðingu fyrir því námi. Sviðið er svo víðtækt. En þessi mikla áhersla sem lögð er á bóknámsbrautir og bóknámsbrautir til stúdentsprófs er ákveðin vísbending um það hvernig þjóðfélagið metur menntun.

Sú þróun var komin í gang að menntun ætti sér víðtækari skilgreiningu þannig að fólk gæti farið í háskólanám með fjölbreytilegan bakgrunn, þ.e. að þekkingin sjálf skiptir máli, að þekkingin væri menntunin. Í 4. gr. frv. stendur, með leyfi forseta:

,,Námi á bóknámsbrautum framhaldsskóla er veita undirbúning til náms á háskólastigi lýkur með stúdentsprófi. Í reglugerð skulu sett ákvæði um samræmingu stúdentsprófa, framkvæmd þeirra og heimildir nemenda sem stunda nám á öðrum námsbrautum til þess að þreyta samræmd stúdentspróf.``

Nemendum sem eru í öðru námi en bóknámi er hins vegar gert skylt samkvæmt frv., ef þeir ætla að fá inngöngu í háskóla, að ljúka því sem kallað er stúdentspróf hér og á að vera inngönguleið í háskóla. Þrátt fyrir að þeir geti verið með margs konar annars konar menntun sem er nauðsynlegur undirbúningur undir háskólanám, þá skulu þeir líka, til þess að fá þennan stimpil, hafa þreytt einhvers konar samræmd framhaldsskólapróf sem ráðherra síðan kveður nánar á um.

Herra forseti. Þetta er spor aftur á bak ef eitthvað er, þ.e. að við skulum binda þetta í lög um framhaldsskóla. Þeirri skoðun hefur vaxið fylgi og er það þegar komið í lög og ákvæði margra annarra skóla, háskóla og tækniskóla, að þeir setja sínar eigin inntökukröfur. Má ég vitna til nýsettra laga um háskóla þar sem kveðið er almennt á um inngöngu í háskólann:

,,Nemendur, sem hefja nám í háskóla, skulu hafa lokið stúdentsprófi, öðru sambærilegu námi eða búa yfir jafngildum þroska og þekkingu að mati stjórnar viðkomandi háskóla.

Tryggja skal að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari jafnan til þess sem krafist er í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis.

Háskólar geta ákveðið sérstök viðbótarinntökuskilyrði ef þörf gerist, þar á meðal að láta nemendur sem uppfylla framangreind skilyrði gangast undir inntökupróf eða stöðupróf.``

Nú vil ég samt ekki skilja þessa tillögu þannig --- en frá því getur hv. formaður menntmn. hafa skýrt --- að þarna sé í sjálfu sér verið að binda háskóla þannig að þeir megi ekki taka inn aðra nemendur en þarna er talað um. Ég skil það ekki svo og vona að svo sé ekki. En þarna er verið að gefa alvarlega vísbendingu og það er ástæðulaust að greina svo alvarlega á milli þess sem kallað er bóknám og þess sem er kallað verknám. Þetta er ekki hugsunarháttur næstu aldar, herra forseti. Þetta er ekki sú menntunarsýn sem við eigum að hafa til næstu aldar. Þetta er skömmtunarsýn, þetta er takmörkunarsýn. En það sem er alvarlegast, herra forseti, er að það þarf stöðugt að vera að berjast fyrir rétti tæknináms og starfsnáms. Það þarf stöðugt að vera að berjast fyrir stöðu þess náms og auðvitað á það líka mjög erfitt uppdráttar vegna þess að það fær ekki lagalega viðurkenningu.

Ég leyfi mér að benda á þetta, herra forseti, vegna þess að ég tel að þarna sé verið að leggja fram afar veikan og í raun slæman grunn. Það ber að styrkja og efla tækni- og starfsnám og það ber að gefa því aukinn rétt. Nemendur sem ætla sér í háskóla ætla sér það því þeir telja sig hafa menntunarlegan grunn undir það og þeir vilja fá tækifæri til að takast á við það. Þeir geta hafa sótt sér þennan grunn með ýmsum hætti, með skólagöngu, með þekkingu úr atvinnulífinu og starfslífinu og hinu daglega lífi, með sérhæfðu námi og með kunnáttu og færni.

[21:15]

Ég þekki það, herra forseti, úr starfi mínu að þeir nemendur, sem koma inn með þennan ásetning og fjölbreyttan bakgrunn, bakgrunn sem þeim er virkilega styrkur í, standa sig best í námi. Ég hefði ekki viljað fá þær kröfur á skólann að mér yrði algjörlega sett fyrir hverjir mættu koma þar inn með reglum um að þeir hefðu lokið stúdentsprófum með einkunnir úr einhverjum samræmdum ákveðnum greinum sem hefðu verið ákveðnar miðstýrt frá einhverju skrifstofuvaldi hjá framkvæmdarvaldinu.

Skólar og menntun eiga að fá aukið sjálfstæði, aukið svigrúm, til þess að þróa sig og tækni- og starfsnám verður að fá hærri sess, okkur er svo mikil nauðsyn á því að tækni- og starfsnám fái hærri sess í þjóðfélaginu en nú er, á því byggist framþróunin.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta öllu meira, en þær kröfur sem þarna er verið að setja fram, eru kröfur um meiri miðstýringu á námi, það er framsetning um miðstýrðar kröfur og þær geta virkað hamlandi á þróun náms og menntunar. Skólar út um hinar dreifðu byggðir munu líka eiga erfiðara með að uppfylla þessar kröfur, þær væntingar sem þarna eru settar fram, því út um hinar dreifðu byggðir er það tæknimenntunin, starfsmenntunin, færnin og það að geta gert hlutina en ekki bara talað um þá og skrifað um þá, sem skiptir máli og fleytir fólki áfram og við eigum ekki að vera að setja neinar hindranir með lagasetningum í þá veruna.