Málefni fatlaðra

Föstudaginn 17. desember 1999, kl. 23:36:09 (3349)

1999-12-17 23:36:09# 125. lþ. 48.25 fundur 274. mál: #A málefni fatlaðra# (ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs 2000) frv. 116/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 125. lþ.

[23:36]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hér held ég að ég verði að fara varlega með orð, þau geta verið dýr. Ég held að óskir fatlaðra í þessu tilviki séu ekki óskir um lúxus eða bruðl í húsakosti. Hér er fyrst og fremst verið að tala um óskir um það form búsetu sem menn telja að henti sér best, það er sambýli, það er eigin íbúð í fjölbýlishúsi með þjónustu eða einhver enn önnur úrræði. Spurningarnar eru ekki um einhverja óhófsemi í óskum.

Það er alveg ljóst og ég er ánægður með að hæstv. félmrh. viðurkennir að þessir fjármunir duga engan veginn til að byggja þau úrræði í húsnæðismálum fatlaðra sem menn hafa þegar ákveðið að leggja rekstrarfé til. Þá er verið að vísa í raun og veru á leigumarkaðinn en hann er mjög erfiður og um það fengum við m.a. upplýsingar í félmn. að það er bæði skortur á leiguhúsnæði, reyndar skortur yfir höfuð, það er sérstaklega erfitt að finna hentugt leiguhúsnæði. Á leigumarkaði finnst alls ekki húsnæði sem uppfyllir sérþarfir þeirra sem mestar hafa slíkar. Svo er að einu enn að hyggja og það er að leigumarkaðurinn er á fljúgandi uppleið í verði og það er að verða einfaldlega mjög dýrt ef þarf að fara út á almenna markaðinn að keppa um leiguhúsnæði. Meira að segja er ekki hægt að útiloka að þróunin í kostnaði á leiguhúsnæði hafi áhrif á eftirspurnina vegna þess að fleiri fatlaðir einstaklingar hafi ósköp einfaldlega ekki ráð á því að leysa sín mál úti á almennum leigumarkaði. Þá banka þeir upp á hjá þeim samtökum og stofnunum sem þeir geta helst leitað ásjár hjá þannig að allt getur þetta haft pínulítil áhrif hvað á annað.

Ég held að þessi mál verði ekki leyst á farsælan hátt öðruvísi en þannig að það geti á hverjum tíma komið til verulegt viðbótarhúsnæði sem er sérstaklega sniðið að þörfum fatlaðra og það munu samtök þeirra og/eða opinberir aðilar sameiginlega verða að sjá um að gerist.