Skýrslutaka af börnum við héraðsdómstóla

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 10:16:31 (3387)

1999-12-18 10:16:31# 125. lþ. 49.93 fundur 238#B skýrslutaka af börnum við héraðsdómstóla# (umræður utan dagskrár), GÖ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[10:16]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég verð að játa að ég er hálfhissa á hæstv. dómsmrh., að hún skuli kveinka sér undan því að þessi umræða skuli fara fram. Ég vakti máls á þessu í umræðunni um fjárlögin og þá kom fram að í raun væri hægt að kippa grundvellinum undan Barnahúsinu. Ég er alveg klár á að það var hvorki meining fjárln. né þeirra sem þar komu að.

Við verðum að hafa hagsmunir barnanna að leiðarljósi í jafnalvarlegum málum og hér er um að ræða. Fram hefur komið sáttatillaga í þessu máli. Hún er sú að börn undir 14 ára aldri verði yfirheyrð og rannsökuð í Barnahúsi en þau sem eru eldri fari í dómhús hér. Einnig hefur verið rætt um hvort þetta væri landsbyggðarmál, að svo mikið atriði væri að þetta færi út um byggðir. Svo er auðvitað ekki. Það er staðfest með viðtali í Degi í dag sem fjallar um þetta mál. Börn þurfa undir öllum kringumstæðum að koma hingað suður til sérhæfðra rannsókna á Barnaspítala Hringsins.

Mér finnst að hæstv. dómsmrn. eigi að svara því, enda veit ég að dómsmrn. þekkir vel til allrar barnaverndarvinnu og hefur staðið sig með prýði þar, hvort henni finnist barnavinsamlegt að dómari í hempu sitji yfir börnum sem hafa orðið fyrir miklu áfalli og spyrji þau út úr um málið. Mér finnst þetta forneskjulegt og mjög mikið afturhvarf ef þetta á að gerast.

Félmrh. upplýsti líka að það er hægt að setja dómþing í Barnahúsi. Þar er umhverfið vinsamlegt og ekkert því til fyrirstöðu. Ef við höfum gert rangt með þessum nýju lögum, að þetta verði að fara fram í héraðsdómi, þá verðum við bara að skoða það aftur. Ég lít þannig á málið. Markmiðið hlýtur að vera að bæta stöðu brotaþola. Barnahúsið er úrræði sem fagnað var um alla Evrópu og hefur verið gert að fyrirmynd annars staðar.