Mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 10:48:20 (3398)

1999-12-18 10:48:20# 125. lþ. 49.94 fundur 239#B mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[10:48]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa æ fleiri lýst því yfir að ekki sé skynsamlegt að færa ríkisstofnanir út á land. Ég er að vísu ósammála því en síðan hafa menn bætt því við að þess í stað eigi menn að færa verkefni út á land. Hér er einmitt verið að velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að færa verkefni af þessum toga út á land og ég vil hvetja hæstv. landbrh. til þess að reyna að styðja við þá viðleitni að færa verkefni af þessum toga út á land.

Því er að vísu haldið fram að ekki sé hægt að gera það hvað varðar rannsókna- og vísindastarfsemi. Það er rangt. Ég vil benda á að öflugasta matvælarannsóknastofnun á Íslandi er Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, RF, og hún hefur einmitt gert þetta með mjög góðum árangri, hefur verið að byggja sig upp á síðustu árum einmitt með þeim hætti að efla starfsemina úti á landi. Menn eru þar þeirrar skoðunar að það sé forsendan fyrir því að hægt sé að ná vísindalegum árangri að starfa í sem bestum tengslum við atvinnulífið eins og það er hverju sinni á landinu.

Varðandi RALA vil ég segja það sérstaklega að auðvitað eru mjög miklir möguleikar í því fólgnir að færa einstök verkefni þeirrar stofnunar út á land, inn í háskólastofnanirnar bæði á Hvanneyri og líka á Hólum. Það er líka fráleitt að ímynda sér að það sé forsenda fyrir öflugu rannsóknastarfi í landbúnaði að þar fari fram í nýjasta íbúðahverfi í Reykjavík. Allir sjá í hendi sér að það á að vera stefna okkar að reyna einmitt að styrkja og bæta og efla starfið í háskólunum á landsbyggðinni, háskólum landbúnaðarins og ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. landbrh. að unnið verði að því að reyna að færa þessi verkefni út á land og inn í háskólastörfin.

Ég veit vel að alltaf þegar farið er að huga að því að reyna að færa verkefni af þessum toga út á landsbyggðina verða fyrir okkur bæði möppudýr og kerfiskarlar. Það er bara gömul reynsla og við stjórnmálamennirnir stöndum stundum frammi fyrir þessu gjörsamlega ráðþrota. Ég vil þess vegna hvetja hv. þm. sem hafa verið að tala fyrir því á undanförnum árum að efla rannsókna- og vísindastarfsemi á landsbyggðinni að við einhendum okkur í að reyna að styrkja líka þennan þátt rannsóknastarfsins í landinu.