Mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 10:54:30 (3401)

1999-12-18 10:54:30# 125. lþ. 49.94 fundur 239#B mennta- og rannsóknastofnanir í landbúnaði# (umræður utan dagskrár), KLM
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[10:54]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Hér er góðu máli hreyft að ræða þetta á Alþingi. Þetta er enn eitt dæmið um það hvað skal flytja hingað suður til Reykjavíkur og sífellt erum við landsbyggðarmenn að koma í varnarbaráttu í varnarleik. Skemmtilegra væri að koma einhvern tíma og geta spilað almennilegan sóknarleik. (Landbrh.: Hestamiðstöðin.) Hér er rifjað upp gott mál og það er rétt, hæstv. landbrh. með hestamennskuna, það er gott og ég vona að þú dugir vel í öðru. Ég vona að þú dugir t.d. vel við það að koma Veiðimálastofnun út á land.

(Forseti (HBl): Það ber að segja hæstv. ráðherra.)

Aðalskrifstofa Veiðimálastofnunar er í Reykjavík. Hún má sannarlega vera úti á landi. Hér eru nokkur smáútibú úti á landi, á Hólum í Hjaltadal, í Borgarnesi og á Selfossi með einum manni, stofnanir í fjársvelti í spennitreyju. Þetta má að ósekju flytja út á land og væri mikil þörf á enda eru hér mest unnin rannsóknastörf við þjónustu og vötn úti á landsbyggðinni og sennilega þurfa menn að hafa dýra bíla og annað slíkt til að keyra út á land til að stunda þessar rannsóknir. Þessi hugmynd er eins og ég segi enn ein árásin á landsbyggðina.

Það bréf sem ráðuneytisstjórinn í landbrn. sendi norður er með ólíkindum. Það skýrir kannski allt í þessu máli að ráðuneytisstjórinn, Björn Sigurbjörnsson, er fyrrverandi forstjóri RALA og mér sýnist og hefur sýnst að hann sjái ekki mikið upp fyrir Ártúnsbrekkuna. Það skyldi ekki vera ástæðan fyrir því að hann sendir þetta bréf og vill halda þessu svona?

Það er eitt í viðbót. Loftskeytastöðvar hringinn í kringum landið hafa verið lagðar niður og þær hafa verið færðar upp í Gufunes. Þar segja menn að tæknibyltingin sé þannig að hún virki bara af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Að ræða hér um fjarskipti á eftir, það mikla frv. er táknrænt fyrir alla þessa vitleysu. Loftskeytastöðvar hringinn í kringum landið hafa verið lagðar niður. Enn eitt dæmið. Íslensk miðlun hefur verið að festa sig í sessi úti á landi. Þar eru eingöngu verkefni á vegum einkaaðila sem hafa verið flutt en ríkisvaldið situr eftir.