Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 14:06:00 (3439)

1999-12-18 14:06:00# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, Frsm. 2. minni hluta RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[14:06]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég er afskaplega undrandi og slegin vegna þess að formaður iðnn. er að vísa í fund sem haldinn var að minni ósk eftir að úrskurður var felldur um álverið. Ég hafði ekki hugsað mér að fjalla um álverið í ræðu minni í dag vegna þess að við erum fyrst og fremst að fjalla um Fljótsdalsvirkjun. En þannig háttar til að ég óskaði sérstaklega eftir því til að hafa hárréttar upplýsingar um það sem spurt var um á fundi iðnn. og bað um að fá á blaði frá Skipulagsstofnun. Ég er með það hér ef mér leyfist að lesa upp nokkrar setningar, með leyfi forseta:

,,Lagði Skipulagsstofnun til við framkvæmdaraðila í bréfi, dags. 28. sept. 1999 og á fundi með framkvæmdaraðila 29. sept. 1999`` --- og nú óska ég eftir að þingheimur hlusti vel --- ,,að tilkynnt yrði til stofnunarinnar frummat á umhverfisáhrifum 120 þús. tonna álvers og kynnt áform um fyrirhugaða stækkun. Á þetta sjónarmið var ekki fallist. Þann 12. okt. 1999 tilkynnti framkvæmdaraðili með bréfi`` --- takið eftir þessu, hv. þm. --- ,,þvert á tillögur skipulagsstjóra 480 þús. tonna álver í Reyðarfirði til skipulagsstjóra ríkisins og var framkvæmdin auglýst þann 15. okt. 1999.``

Þetta var góður fundur með þremur fulltrúum Skipulagsstofnunar sem svöruðu skilmerkilega öllu sem um var spurt. Mér fannst mikilvægt að fá þennan fund. Ég þakkaði formanni iðnn. fyrir að hafa orðið við þessari ósk. Ég er því afar hissa þegar ég hlusta á hv. þm. ata þennan embættismann auri. Okkur var sagt frá því í iðnn. að hann hefði sjálfur lagt til að menn kynntu ekki stærra álver en 120 þús. tonn en framkvæmdaraðilinn valdi annað.