Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Laugardaginn 18. desember 1999, kl. 16:34:29 (3465)

1999-12-18 16:34:29# 125. lþ. 49.19 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, Frsm. meiri hluta HjÁ (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 125. lþ.

[16:34]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Vegna þeirra ummæla sem hér féllu um ólýðræðisleg vinnubrögð, blekkingaleik og annað í þeim dúr þá er þetta náttúrlega alveg með eindæmum undarleg framsetning á málinu. Það kom fram, og strax við kynningu, m.a. frá starfsmönnum Alþingis, hvernig heimasíður og vefur einstakra nefnda yrði notaður. Gögn þar eru varðveitt til sjö ára en þau verða ekki sjálfkrafa að formlegum fundargögnum nema einstakir þingmenn óski eftir því. Hver einasti þingmaður hverrar einustu nefndar á þann rétt og getur nýtt sér þann rétt að óska eftir því að gögnin verði lögð fram sem fylgigögn með máli. Frá þessu var greint þegar þessi aðferð var tekin upp og þess vegna botna ég ekkert í því hvers vegna hv. þingmenn sem hér töluðu tveir á undan mér eru að reyna að gera þessa aðferð tortryggilega. Hv. þingmönnum hefði verið í lófa lagið að leggja þessi gögn fram.

Hitt er svo annað mál ...

(Forseti (GÁS): Forseti vill að gefnu tilefni vekja á því athygli að þessi liður þingskapa, að bera af sér sakir, er nýttur til þess að gera það en ekki að halda áfram almennri umræðu um málið.)

Ég er með þessu að bera af mér sakir, herra forseti.

(Forseti (GÁS): Forseti óskar þess að hv. þm. stytti ræðu sína.)

Hann mun gera það.

Ég var þar kominn í máli mínu, sem fer nú að styttast, herra forseti, að þingmönnunum hefði verið í lófa lagið að leggja þessi gögn fram og ég geri jafnframt ráð fyrir því að þingmenn hafi kynnt sér það sem fram kemur á heimasíðunni. Þar að auki vitnaði ég í ræðu minni til fleiri umsagna, m.a. umsagna frá Austfirðingum, skriflegra umsagna frá Austfirðingum, tæplega þúsund talsins. Hér getur enginn talað í nafni þjóðarinnar. Jafnvel skoðanakannanir eru aðeins vísbendingar. En samkvæmt þeim skoðanakönnunum sem fram hafa komið þá virðist þjóðin þrískipt í þessu mjög viðkvæma máli.