Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 22:13:01 (3588)

1999-12-20 22:13:01# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[22:13]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að Landsvirkjun vill leggja eitthvað af mörkum. Það var erfitt að ráða það úr skýrslu fyrirtækisins.

Ég held að það sem hv. þm. var hér að lesa upp og hefur áður reifað í þessum ræðustól hafi komið frá fyrirtækinu vegna þrýstings frá hv. þingmönnum stjórnarliðsins sem blöskraði það, fleirum en hv. þm. Kristjáni Pálssyni, að í skýrslunni var að finna ákaflega ófullburða umfjöllun um mótvægisaðgerðir. Út af fyrir sig getur maður verið þakklátur fyrir það en ég ítreka það sem ég sagði um hæstv. ráðherra að það er með ólíkindum að það skuli þurfa að toga þetta með töngum út úr stofnuninni fyrir utan að ég tel þetta fjarri því að vera fullnægjandi. Svona átti að vera reifað í skýrslunni sjálfri. Það var ekki gert eins og ég reifaði áðan vegna þess að mér sýnist að á bls. 120 komi fram í skýrslunni að þar sé Landsvirkjun að reyna að skjóta sér undan þeirri ábyrgð sem hæstv. ráðherra taldi þó að hún hefði, a.m.k. siðferðilega vegna fordæma í málinu. En þar er það einfaldlega sagt af hálfu höfunda skýrslunnar að ekki sé ljóst hvort Landsvirkjun þurfi að sæta tilteknum ákvæðum landgræðslulaganna um mótvægisaðgerðir ef gróður eða votlendi tapast. Það tel ég vera fordæmanlegt af hálfu Landsvirkjunar en gleðst yfir því ef það verður niðurstaðan, sem ég dreg ekkert í efa eftir að stjórnarliðið er farið í málið.

Aðalatriði málsins er þetta: Þessar upplýsingar koma ekki fram í skýrslunni. Hún er að verulegu leyti ónýt hvað varðar mótvægisaðgerðir, hún er ónýt hvað varðar náttúrufarsþáttinn og einungis stjórnarliðið er að berja stofnunina til að sýna einhvern lit en fjarri því nógan í þessu máli.