Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 13:47:33 (3625)

1999-12-21 13:47:33# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[13:47]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það líður senn að lokum umræðunnar um þetta stóra mál sem hér hefur verið til umfjöllunar á síðustu vikum og mánuðum raunar og árum í þessu samfélagi. Hún hefur leitt margt nýtt í ljós þó að mörg þau rök sem hér hafa verið tínd fram séu kunnugleg frá fyrri tíð. Það er býsna merkilegt að fylgjast með umræðunni í því ljósi að það var hæstv. ríkisstjórn sem um það tók ákvörðun að fara með þetta mál inn á hið háa Alþingi og leita eftir sérstökum stuðningi Alþingis við framhald framkvæmda þegar fyrir liggur og ítrekað hefur verið og ég deili ekki um að ekki var á því brýn nauðsyn. Margar kenningar hafa verið á lofti um ástæður þess að hæstv. ríkisstjórn kaus að fara þá leið að færa þetta mál inn í sali Alþingis og ekki ætla ég svo sem að kvarta yfir því. Ein kenningin er sú, sem kannski er ekki fjarri lagi, að ríkisstjórnin hafi talið það nauðsynlegt til þess að berja sitt fólk til hlýðni við málstaðinn og það virðist hafa tekist að langstærstum hluta til.

Það er hins vegar áhyggjuefni að það mál sem hér um ræðir hefur í vaxandi mæli vegna verklags og vinnubragða ríkisstjórnarinnar skipt þjóðinni í tvo helminga, klofið hana í herðar niður raunar í heitfenginni afstöðu með málinu og móti því. Nú er það svo sem ekki nýtt að umræður og skoðanir hafi verið skiptar um ágæti virkjanaframkvæmda og álverksmiðja en ég hygg að sjaldan sem nú hafi skoðanir verið jafnskiptar og heitar og ég vil kenna því um að ríkisstjórnin hafi haldið óhönduglega á málinu, hafi sumpart keyrt það fram með of miklu offorsi, hafi sumpart ekki áttað sig á kalli tímans og hefði getað farið fram með þetta mál með öðrum hætti. Ég er hins vegar ekki það barn að ætla að þó að ríkisstjórnin hefði kosið --- að réttu að minni hyggju --- að fara að eigin frumkvæði með þetta mál í lögformlegt umhverfismat, við skulum segja fyrir ári síðan, að þá hefði sett niður allar deilur í landinu og í þessum sal um ágæti þessarar virkjunar. Ég er ekki í þeim hópi sem hefur litið á umhverfismat sem allra meina bót og hinn eina stórasannleik sem leysi úr öllum álitaefnum sem uppi eru vegna virkjana fyrr og nú. Umhverfismat er auðvitað ekkert annað en söfnun upplýsinga fyrst og síðast, sérfræðinga og fræðimanna sem koma að málinu frá hinum ýmsu hliðum og reyna að skýra það og skilgreina. Niðurstöður umhverfismats verða auðvitað aldrei þannig að það taki af stjórnmálamönnum þá ábyrgð að þurfa að taka afstöðu. Ég er því ekki í þeim hópi alþingismanna og annarra stjórnmálamanna sem hefur talið að umhverfismat leysi okkur stjórnmálamenn undan ábyrgð á því að taka afstöðu, enda er umhverfismat í raun og sanni ekkert annað en stærra og viðameira skipulagsferli sem a.m.k. þeir sem starfað hafa í sveitarstjórnum þekkja býsna vel. Það skipulagsferli er smærra í sniðum og gjarnan þannig að gerðar eru athugasemdir við skipulag, annaðhvort af einstaklingum eða sérfræðingum og sveitarstjórnir reyna að mæta því og laga að þeim athugasemdum ef kostur er. Stundum er þó aldrei hægt að ganga alla þá leið. Það er aldrei hægt að koma þannig til móts við alla aðila að full sátt verði um og þá er það auðvitað á ábyrgð stjórnmálamanna í sveitarstjórnum og hér í þjóðmálunum að taka af skarið. Ekki ætla ég að víkjast undan því í þessum sal þó að ég ítreki að aðkoma málsins hingað inn sé nokkuð sérkennileg.

Herra forseti. Umræðan hefur af þessum sökum farið um víðan völl og að mestu leyti verið háð í skotgröfum. Mér hefur fundist sem einstakir hópar hafi verið fastir í sínum skotgröfum og viljað draga upp hina svart/hvítu mynd í þessum málum, hafi því illa náð saman í eðlilegri rökræðu um málið. Annars vegar eru þeir sem sjá fjandann í hverju horni, finna þessu máli allt til foráttu, nánast sama hvar drepið er niður, og svo eru hinir í hópi stjórnarliða sem vilja ganga mjög hart fram í málinu og sjá ekkert nema plúsa. Auðvitað er þetta mál ekki þannig vaxið. Það eru á því vankantar og það eru á því stórir kostir. Þetta þurfa menn að vega og meta og því sakna ég þess að menn hafa sett þetta mál í þennan harða hnút og þannig komið í veg fyrir að eðlileg skoðanaskipti ættu sér stað hér.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill biðja hv. þm. að hafa þögn í salnum, sýna ræðumanni tilhlýðilega virðingu.)

Ég þakka fyrir, herra forseti. Þeir hlusta sem á þurfa að halda. Hinir gera það ekki. (Gripið fram í: Gott ef ekki.) Þeir gera það. (SJS: Sennilega er það alveg öfugt.)

Herra forseti. Ég hef aldrei verið í þeim hópi sem trúir á mátt sérfræðinga, hinn algilda mátt þeirra. Ég rifja það gjarnan upp af því að menn læra auðvitað af reynslunni á eigin beinum hvernig þessi mál ganga fram, og ég hef stundum sagt þá sögu opinberlega og í einkaviðræðum, að þegar fyrir dyrum stóðu breytingar á rekstri álversins í Straumsvík forðum daga þá var hér stofnun sem heitir enn Hollustuvernd ríkisins. Hafnfirðingar ætluðu þá að þróa byggð í syðri enda bæjarins á svokölluðu Hvaleyrarholti. Reis þá upp sérfræðingur nokkur frá Hollustuvernd og reiknaði það út samkvæmt líkindareikningi að það fólk sem þar mundi reisa sér byggð og bú mundi verða mikilli brennisteinsmengun frá álverinu í Straumsvík að bráð. Það horfði allt til þess að settar yrðu verulegar hömlur og nánast bann á þessa nýju byggð sem nú er að sönnu risin og reis fyrir átta eða níu árum síðan. Þá stóð sveitarfélagið frammi fyrir því að þurfa að afsanna þennan meinta glæp og það gerði sveitarfélagið. Hvernig gerði það það? Það gerði það á þann einfalda hátt að setja upp mælitæki í þessu væntanlega íbúðarhverfi. Þetta mælitæki var rekið og um það séð af hálfu bæjarins og á þess kostnað og niðurstöðurnar komu eftir ár. Þær leiddu í ljós að mengun frá álverinu í Straumsvík á þessu svæði var langt undir viðmiðunarmörkum. Raunar var það svo að þegar hæstu gildi mældust stóð vindur frá Reykjavík þannig að í ljós kom að þessi nálgun sérfræðingsins frá Hollustuvernd var fjarri lagi. Það var leitt í ljós að þessi líkindanálgun hennar, þetta var raunar kona, stóð hvergi nærri neinum veruleika.

Þetta dreg ég upp bara til þess að undirstrika það að menn mega ekki í blindni horfa á niðurstöður ágætra einstakra sérfræðinga á hvaða vettvangi sem það er. Menn verða sjálfstætt að reyna að afla sér upplýsinga sem víðast og ef ekki vill betur, eins og í tilfelli Hafnfirðinga forðum daga, að rannsaka sjálfir. Mér er kunnugt um að menn á þessum vettvangi hafi kannski dálítið lært af þessum mistökum fyrri tíðar. Þau eru ekkert mjög gömul. Ef ég man kom þetta mál upp fyrir um tíu árum. Nú er þarna tvö þúsund manna byggð og öllum líður vel. Þessa sönnu dæmisögu set ég fram til að vara menn við því að trúa blint á mátt og megin sérfræðinga hversu ágætir sem þeir eru því að hér hafa auðvitað farið fram á völlinn sérfræðingar á hinum ýmsum sviðum og menn hafa eðlilega lesið upp niðurstöður þeirra á báða bóga.

Herra forseti. Íslenska þjóðin er ekki mjög rík af náttúruauðlindum í jörðu. Hér eru engin kol. Hér er engin olía. Í gegnum árin og áratugina höfum við gjarnan horft til þess að verðmætin sem í okkar þjóð búa eru auðvitað í okkur sjálfum, fólkinu sem yrkir landið. En ekkert síður höfum við vísað til heita vatnsins í iðrum jarðar og fallvatnanna. Alveg undir það síðasta hafa menn svo sem ekki velt mikið vöngum yfir því hvort að nýta ætti þessar orkulindir okkar, fallvötnin, heldur hafa menn kannski öllu heldur eðlilega deilt um það og rætt hvernig það ætti að gerast.

Nú er hins vegar svo komið að ákveðin tímamót, vatnaskil, eru að verða í málum af þessum toga og menn ræða það hér hispurslaust, sem er tiltölulega nýtt í hinni stjórnmálalegu umræðu, hvort hér eigi að láta við sitja. Ég hygg að það sé ekki ofsagt að þessi deila um Eyjabakkana sé af þeim toga hvort menn taki til þess afstöðu að nú sé komið nóg eða hvort menn telji enn þá vera svigrúm til þess að virkja þessi verðmæti okkar, þessi orkuverðmæti sem við höfum átt og nýtum og eigum. Þetta er í raun ein stóra spurningin í þessari umræðu og við tökum afstöðu til.

Önnur stóra spurningin í þessari umræðu er sú hvaða skilaboð Alþingi Íslendinga er að senda dreifðari byggðum landsins. Það er auðvitað sárara en tárum taki að rekja raunir landsbyggðarinnar, ekki síst á síðasta yfirstandandi áratug þar sem fólksfjölgunarþróun hérlendis er slík að maður er farinn að trúa því að sá ótti sé raunverulegur að byggðir leggist af í stórum stíl og að við stefnum óðfluga í borgríki á suðvesturhorni landsins. Ég segi það, herra forseti, að ég hef af því áhyggjur hvaða skilaboð það eru austur á firði, og ekki aðeins austur á firði heldur líka vestur á firði, heldur líka á Norðurlandið, ef það yrði niðurstaða Alþingis Íslendinga rétt við aldahvörf að komið hafi í ljós að virkjun fallvatna norðan hálendis og orkan sem frá henni kæmi mætti ekki nýtast úti á landi. Það er óhjákvæmilegt annað, herra forseti, en að rifja það upp að árið 1983 --- þessa upprifjun vil ég fara í vegna þess að ég sjálfur var einn af þátttakendum í þeirri þróun allri --- voru uppi áform einu sinni sem oftar um virkjun á Fljótsdal. Þá var um það rætt að nýta þá orku til að reisa kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Ég var í framboði fyrir Alþfl. í þá daga. Hann var ekki mjög sterkur á svellinu í því kjördæmi. (HBl: Það var mesta furða.) Það veit ég ekki um. Atkvæðin sýndu annað á þeim tíma en það hafa nú orðið betrumbætur þar á sem betur fer og ýmsir góðir hlutir gerst þar í millitíðinni.

[14:00]

Mér er hins vegar minnisstætt að allir frambjóðendur allra flokka, og þeir voru ófáir í þeim kosningum 1983, átta talsins held ég að þeir hafi verið, studdu það heils hugar og með ráðum og dáð að kísilmálmverksmiðja risi á Reyðarfirði. Þar var ekki sístur baráttumanna þáv. iðnrh., Hjörleifur Guttormsson, sem er raunar andlegur leiðtogi eins flokks á hinu háa Alþingi í umhverfismálunum. Ekki minnist ég þess á þeim 14 framboðsfundum sem haldnir voru í þeirri kosningahríð að sá hv. þm. og þá hæstv. ráðherra hafi skorið sig sérstaklega úr í hópi þeirra baráttumanna sem vildu sjá kísilmálmvinnslu rísa á Reyðarfirði. Ekkert varð úr áformum þá af ýmsum ástæðum sem ég hirði ekki um að rekja hér en árið 1991 var kosið til Alþingis Íslendinga á ný. Þá voru enn uppi áform um að virkja á Fljótsdal. Þá voru raunar uppi áform um það að leiða orkuna sem frá henni kæmi suður yfir heiðar og í mitt kjördæmi, Reykjaneskjördæmi, á Keilisnesið. Það voru margir baráttumenn fyrir því (Gripið fram í: Og konur.) og konur (Gripið fram í: Konur eru menn.) og margt það fólk sem er í þessum sal hélt margar og merkar ræður fyrir því máli. Ég held að ég geti fullyrt að það hafi verið í öllum flokkum sem menn sáu kosti þess. Ég var meðal þeirra stuðningsmanna og studdi það með ráðum og dáð. Það varð því miður ekkert úr framkvæmdum á þeim tíma af ýmsum ástæðum.

Nú rennur upp árið 1999. Herra forseti. Ég hef ekki skipt um skoðun og get það ekki samvisku minnar vegna. Ég studdi þetta mál vegna þess að ég taldi það skynsamlegt þá og tel það skynsamlegt enn þann dag í dag. Auðvitað er ég meðvitaður um það eins og allir aðrir að tiltekin viðhorfsbreyting hefur átt sér stað í samfélaginu. Það er ekkert launungarmál að augu manna, ekki bara hér á landi heldur um heimsbyggð alla, hafa opnast fyrir mikilvægi þess að vernda náttúruna og vernda umhverfið. Þó að sumir haldi því fram að þeir hafi fundið upp hjólið í gær eða fyrradag hvað þetta varðar og umhverfisvernd hafi verið fundin upp einhvern tíma rétt fyrir síðustu kosningar er það auðvitað fjarri lagi. En vissulega hafa augu manna opnast fyrir mikilvægi þess að við göngum vel um náttúru okkar og umhverfi og ég fagna þeim sinnaskiptum. Ég vil hins vegar að þau sinnaskipti verði með þeim hætti að menn haldi ró sinni og yfirvegun og yfirsýn og geti lifað áfram í landinu en missi sig ekki út í öfgar.

Menn hafa sett á þetta ýmsa merkimiða. Sumir eru kallaðir verndunarsinnar, og það þykir sennilega best, og merkir að það má þá helst ekkert gera og þýðir í raun og sanni að því svæði sem við ræðum hér, Eyjabakkasvæðinu, ætti að loka fyrir umferð manna með öllu og leyfa þá gæsunum og öðru því náttúrulífi sem þar ræður ríkjum að vera í friði. Síðan eru til aðrir menn sem vilja blanda þessu saman, eru umhverfissinnar, vilja láta umhverfisþáttinn vera framar öllu en nýtingu mannsins á náttúrunni í öðru sæti. Síðan eru til menn sem telja að þetta geti vel farið saman. Ég tel mig vera í þeirra hópi. Ég tel mig vera framkvæmdasinnaðan umhverfismann og sé ekkert að því. Þannig hef ég í stjórnmálastörfum mínum sem ég hef haft tök á reynt að haga mér. Það gerði ég í þeim málum sem ég hafði tök á að móta heimabyggð mína og taldi mig geta gert það býsna bærilega og vel enda fannst mér á þeim tíma að kjósendur skildu það. Síðan eru þeir menn til væntanlega líka, þó að ég telji þá tæpast vera til í þessum sal þó að sumir fari auðvitað mikinn í þessu máli, sem vilja bara framkvæma framkvæmdarinnar vegna. Í þessa fjóra höfuðflokka er hægt að skilgreina þetta en auðvitað er hægt að gera það með víðfeðmari og margslungnari hætti.

Herra forseti. Það er kannski þessi hætta, að vera að setja menn í þessar skotgrafir, setja þessa merkimiða á stjórnmálamenn og einstaklinga. Málin eru ekki svona svart/hvít eins og við höfum rætt í tvo eða þrjá sólarhringa eða eins og ég var kannski að reyna áðan, að setja merkimiða á stjórnmálamenn og einstaklinga. Að þessi sé umhverfissinni og þá geti hann ekki verið framkvæmdarsinni og umhverfissinni sé eitthvað gott og framkvæmdarsinni sé eitthvað slæmt. Svona einföld er myndin auðvitað ekki. Hún er langtum flóknari eins og ég gat um áðan. Enn þá flóknari er myndin þegar við skoðum stjórnmálaflokkana í dag í þessum efnum. Það er þannig, herra forseti, að í öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi eru skiptar skoðanir um þetta mál nema ef vera skyldi hjá vinstri grænum. Ég rifja það upp að á árum áður voru þeirra helstu talsmenn, varaþingmenn, miklir ákafamenn um þessar framkvæmdir og raunar voru einnig einstakir þingmenn vinstri grænna í þessum sal áfram um það, töldu það mikilvægt til þess að rétta hag íslenskrar alþýðu að fara í framkvæmdir af þessum toga. Þá skiptust menn hins vegar dálítið í tvö horn um það hvort ætti að fjármagna slíkar framkvæmdir með erlendu fé eða hvort Íslendingar ættu að eiga meiri hluta eða helst kannski alla framkvæmdina. Þá stóðu deilurnar helst og fyrst um það. Nú hafa orðið nokkrar breytingar þar á.

Í hinum þremur flokkunum eru skiptar skoðanir og það er svo sem ekkert að undra. Í Samfylkingunni, í þessari stóru breiðfylkingu hafa menn mismunandi áherslur í þessum málaflokki og það er ekkert launungarmál. Í Sjálfstfl. er það sama uppi við og ég þori nánast að fullyrða það við þessa umræðu að væru ekki til staðar handjárn ríkisstjórnaraðildar þá væru það sennilega fjórir eða fimm þingmenn sem hrykkju undan. Í Framsfl. er þetta svipað. Væru ekki til staðar ríkisstjórnarhandjárn utanrrh. væru það sennilega þrír eða fjórir aðilar sem mundu hrökkva undan. Þetta get ég auðvitað ekki fært sönnur á en ef maður skoðar málflutning manna fyrir síðustu kosningar og á umliðnum árum getur maður ímyndað sér slíka niðurstöðu. (Utanrrh.: Það er ímyndun.) Ja, ímyndun og ekki ímyndun. Við skulum ekki fara í deilur um það. Ég held hins vegar að aldrei sé hægt að færa á þetta sönnur því að þessi ríkisstjórnarhandjárn eru svo sannarlega á þessum sömu þingmönnum.

Það er hins vegar merkilegt að fylgjast með því hvernig ríkisfjölmiðlarnir og Morgunblaðið reynir að skilgreina einmitt þessa pólitísku stöðu. Í Reykjavíkurbréfi á sunnudaginn var farið yfir hana og þess getið að Framsfl. mundi sennilega tapa miklu fylgi í Reykjavík --- og fer þá eðlilega utanrrh. á dyr, þolir illa að hlusta á það --- en það yrði sennilega Framsfl. til björgunar að einn þingmanna einmitt héðan úr Reykjavík væri andstæðingur Fljótsdalsvirkjunar. Á sama hátt sagði höfundur Reykjavíkurbréfs, væntanlega ritstjóri blaðsins, að Sjálfstfl. mundi sigla lygnan sjó í þessu máli og sennilega græða á öllu saman. Ástæðan væri sú að hann væri einhuga utan þess að hv. þm. Katrín Fjeldsted væri merkimiði umhverfisverndar á flokknum og mundi þar með víkka ásýnd Sjálfstfl. Með öðrum orðum þegar Morgunblaðið skilgreinir Sjálfstfl. og þeirra breidd og skoðun á viðhorfum sem þar eru annars vegar, þá sýnir það umburðarlyndi og vídd hans. Hins vegar þegar Samfylkingin sýnir ekkert ósvipaða ásýnd og þessa breidd viðhorfa, sýnir það klofning. Þetta segi ég bara, herra forseti, þó að þetta komi auðvitað ekki umræðunni við, hvað hægt er að skekkja þessa fjölmiðlaumræðu í blöðum og gera úr henni eitthvað sem alls ekki er.

Herra forseti. Ég lofaði því að vera ekki langorður. Ég ætla því að lyktum aðeins að segja að ég mun vitaskuld styðja brtt. Samfylkingarinnar um að í undanfara framkvæmda fari fram lögformlegt umhverfismat og ég geri ráð fyrir því að ríkisstjórnin sjái að sér á lokasprettinum og það verði sáttargjörðin í málinu því það virðist vera ráðrúm í tíma til að fara þá leiðina. Ég hygg að það mundi sætta mjög viðhorf og við gætum séð niðurstöðu þar sem upp undir 50 þingmenn af 63 eða jafnvel fleiri gætu fylgt framkvæmdinni undir þeim formerkjum. Ég bind því við það vonir í lengstu lög að hæstv. ríkisstjórn sjái að sér. Ef hún er hins vegar föst í sinni og vill ekki hreyfa sig og vera í þessum harða hnút áfram sem hún hefur sett málið í mun ég ekki láta Austfirðinga gjalda hins slaka verklags ríkisstjórnarinnar. Þá mun ég ekki láta landsbyggðina gjalda fyrir forklúðrun ríkisstjórnarinnar og greiða málinu atkvæði. Austfirðingar hafa beðið eftir þessu í 20 ár. Landsbyggðin hefur beðið eftir raunverulegum stuðningi og nýjum atvinnutækifærum úti á landi í jafnlangan tíma og ég vil ekki láta Austfirðinga eða landsbyggðina gjalda klúðurs ríkisstjórnarinnar í málinu og mun því fylgja málinu og styðja það.