Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 15:51:41 (3654)

1999-12-21 15:51:41# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[15:51]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt að það virkar eins og hálfgerð tugga að fara yfir þessi skipulagsmál og leyfi. En það er mjög erfitt að komast hjá því að láta það virka þannig vegna þess að þetta eru mjög flókin mál og það er afar erfitt að setja þau fram á mjög einfaldan hátt. Því miður er það þannig.

Skjalið sem ég las hér upp var samið í byrjun desember og var sent til umhvn. þar sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir situr þannig að ég vænti þess að hv. þm. og aðrir þingmenn í umhvn. hafi getað skoðað það. Það er búið að liggja í möppum þeirra síðan í byrjun desember. Ég veit að það er mjög erfitt að skilja þetta svona spontant hér í salnum. Það er ekki hægt að ætlast til þess.

Það má vel vera að það sé rétt hjá hv. þm. að greiða þurfi úr þessum skipulagsmálum fyrir dómstólum ef einhver telur að það sé leiðin. Það er opið fyrir hvern sem er að fara með það fyrir dómstóla.

Varðandi meginspurningu hv. þm. sem mér heyrðist vera um það hvers vegna ekki þurfti byggingarleyfi fyrir stöðvarhúsið, þá kom ég einmitt inn á það áðan í máli mínu að það er vegna þess að stöðvarhúsið er hluti af virkjun. (Gripið fram í.) Það er rétt. Skipulagsstjóri telur að svo sé ekki. En það telja (Gripið fram í: Með hvaða rökum?) lögfræðingar umhvrn. með þeim rökum að þetta var kannað sérstaklega, framkvæmdin hvað þennan þátt snerti, og niðurstaðan var sú að engin byggingarleyfi höfðu verið gefin út fyrir stöðvarhúsum vatnsaflsvirkjana sem byggðar voru á gildistíma laganna. Ekki var séð að ný skipulags- og byggingarlög hefðu breytt þessari framkvæmd og var vísað til þess að ekki hafði verið gefið út byggingarleyfi fyrir vatnsaflsvirkjunum þannig að það er niðurstaða umhvrn. að stöðvarhúsið sé ekki byggingarleyfisskylt.