Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 16:00:30 (3658)

1999-12-21 16:00:30# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[16:00]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef reynt að gera þessum málum greinargóð skil í umræðunum en ég viðurkenni að þau eru ansi flókin og hægt að gleyma sér í þeim útskýringum.

Ég er spurð að því af hverju bréfum hafi ekki verið svarað. Ég skal ekkert segja um það af hverju bréfum var ekki svarað. Aðrir verða að svara því sem áttu að svara bréfum sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon dró hér inn. Ég er spurð að því hvort hægt sé að fara út í þessar framkvæmdir án deiliskipulags. Ég var að reyna að draga það fram að samkvæmt lögum er það hægt.

Ég sagði í fyrra andsvari við hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að gagnvart virkjuninni eða stíflusvæðinu þyrfti ekki deiliskipulag. Gagnvart stöðvarhúsinu, sem er hluti af virkjuninni, þarf heldur ekki deiliskipulag. Gagnvart öðrum húsum, sem tengjast virkjunni, þ.e. mötuneyti, verkstæði og öðrum slíkum húsum þarf ekki samkvæmt lögum deiliskipulag. Fyrir byggingar, sem eru byggingarleyfisskyldar, getur sveitarstjórn eftir meðmæli frá Skipulagsstofnun sótt um undanþágu frá skipulagi, leyfi til einstakra framkvæmda byggða á 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum þar sem ekki er fyrir hendi deiliskipulag. Það hefur hins vegar komið fram að Skipulagsstofnun sem á að gefa umsögn um slíka beiðni mun vilja fá deiliskipulag af svæðinu þar sem þessi önnur hús eiga að rísa.

Reyndar er hægt gagnvart þeirri umsögn Skipulagsstofnunar að kæra hana til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. (Forseti hringir.) Þetta eru, virðulegi forseti, afar flókin mál en ég hef reynt að gera grein fyrir þeim í þessum ræðum.