Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 20:03:59 (3740)

1999-12-21 20:03:59# 125. lþ. 51.31 fundur 228. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (gjald fyrir veiðikort) frv. 131/1999, ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[20:03]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil endurtaka, vegna orða hv. þm. Kristjáns Pálssonar, að ég álít að rjúpnarannsóknirnar séu nú þegar kostaðar af veiðikortasjóði í svo miklum mæli að ekki er á bætandi. Ríkisvaldinu er skylt að sjá til þess að stundaðar séu náttúrufarsrannsóknir á borð við rjúpnarannsóknirnar. Þær á að gera af ríkinu en ekki ganga stöðugt á veiðikortasjóðinn.

Veiðikortagjaldið hér er svipað því sem gerist í nágrannalöndunum en þar er mun meiri þjónusta við veiðimenn en er hér á landi.

Varðandi afgreiðslu málsins, fyrst hv. þm. Kristján Pálsson gefur mér tækifæri til að bregðast við því í andsvari, vil ég upplýsa að ég gerði ekki ráð fyrir að afgreiða málið úr nefndinni. Það gerði varaformaður nefndarinnar, hv. þm. Kristján Pálsson, að eigin frumkvæði. Þar hafði formaður Skotvíss verið boðaður en ég, ef ég hefði stýrt þeim fundi, hefði að sjálfsögðu gert ráð fyrir öðrum fundi þar sem við boðuðum veiðistjóra en við hann var hvorki talað í umhvn. né við undirbúning málsins. Fleiri aðila hefði mátt kalla til vegna þessa.

Ég harma að svona tókst til og get því ekki tekið þátt í þessari afgreiðslu auk þeirra ástæðna sem ég hef áður til talið.