Ferill 56. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 56  —  56. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun á greiðslum hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Lúðvík Bergvinsson,


Sigríður Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að láta fara fram heildarendurskoðun á greiðslum hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu með það að markmiði að jafnræðis sé gætt í slíkum greiðslum milli kynja og að virt séu ákvæði jafnréttislaga í því efni.
    Heildarendurskoðun skal liggja fyrir á haustmánuðum 2000 og skal ráðherra gefa Alþingi skýrslu um niðurstöðu hennar.

Greinargerð.


    Í svari viðskiptaráðherra við fyrirspurn í febrúar 1998 um bifreiðastyrki og stöður í bankakerfinu kom fram að mjög hallaði á konur í yfirmannastöðum innan bankakerfisins. Af svarinu mátti líka draga þá ályktun að kerfi fastra bifreiðastyrkja væri notað til að hygla körlum á kostnað kvenna í sambærilegum stöðum, sérstaklega innan Landsbankans og Búnaðarbankans. Bæði þingflokkur jafnaðarmanna og Samband íslenskra bankamanna fóru þess á leit við jafnréttisráð í kjölfar þessarar niðurstöðu að kannað yrði hvort um væri að ræða brot á jafnréttislögum.
    Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála var að afgerandi munur væri á bifreiðastyrkjum til kynjanna innan Landsbankans og Búnaðarbankans sem bryti í bága við jafnréttislög. Ætla má að þessi úrskurður geti haft fordæmisgildi fyrir aðrar ríkisstofnanir. Full ástæða er til þess að í kjölfar hans fari á vegum fjármálaráðuneytis fram gagnger endurskoðun innan alls ríkiskerfisins á bifreiðastyrkjum og nefndarþóknunum hjá B-hluta ríkisstofnunum.
    Fram kemur að greiðslur á bifreiðastyrkjum innan B-hluta ríkisstofnana, sem eru 20–30, runnu til 829 starfsmanna, en um var að ræða greiðslu vegna aksturs (bifreiðastyrki og lokaða aksturssamninga). Þar af fengu 555 karlar greiðslur og 274 konur. Samtals námu þessar greiðslur tæpum 80 millj. kr. Karlar fengu tæpa 71 millj. kr. en konur rúmar 9 millj. kr.
    Þegar litið er til bifreiðastyrkja, en lokaðir aksturssamningar undanskildir, vekur sérstaka athygli að af um 74 millj. kr. greiðslum fengu 487 karlar tæplega 66 millj. kr. en 265 konur rúmar 8 millj. kr. Meðalbifreiðastyrkur til karla var því rúmlega 135 þús. kr. á árinu 1996 en meðalstyrkur til kvenna rúmlega 30 þús. kr. Einnig kom fram mikill og afgerandi munur á greiðslum til kynjanna vegna fastra nefndarlauna og þóknana en 83% þessara greiðslna runnu til karla, 17% til kvenna. Þessar tölur kalla á skýringar. Margt bendir til að hér sé einnig um brot á jafnréttislögum að ræða.
    Úrskurður kærunefndar jafnréttismála gefur tilefni til að ítarleg endurskoðun fari fram á hlunnindagreiðslum og bifreiðastyrkjum hjá hinu opinbera til að koma í veg fyrir að slíkar greiðslur viðhaldi launamisrétti kynjanna.
    Líta verður svo á að um tímamótaúrskurð kærunefndar jafnréttismála sé að ræða sem styðji það sem lengi hefur verið haldið fram að hið opinbera noti duldar greiðslur og fríðindi til að viðhalda launamisrétti kynjanna. Við slíku verður að sporna því að ríkisvaldið hefur fyrst og fremst þær skyldur í jafnréttismálum að stuðla að því að jafnréttislög séu ekki brotin og sýna þar með gott fordæmi fyrir almenna vinnumarkaðinn.
    Jafnréttisráð telur brýnt að endurskoða greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu, eins og þessi þingsályktunartillaga kveður á um, og að skýrar reglur verði settar um þessar greiðslur.