Ferill 120. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 133  —  120. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um viðræður við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka undir forustu formanns, sem utanríkisráðherra skipar án tilnefningar, til að ganga til viðræðna við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar. Stefnt skal að niðurstöðu áður en gildandi samkomulag við bandarísk stjórnvöld um umfang starfseminnar á Keflavíkurflugvelli rennur út. Nefndin skal að undangenginni athugun og könnunarviðræðum við bandarísk stjórnvöld skila áfangaskýrslu til Alþingis eigi síðar en í febrúarlok árið 2000 þannig að tími gefist til samninga um málið áður en uppsagnarákvæði núgildandi bókunar um umfang starfseminnar á Keflavíkurflugvelli verður virkt eða rennur út.

Greinargerð.


    Tillaga sama efnis var flutt á síðasta kjörtímabili en var felld í atkvæðagreiðslu að lokinni síðari umræðu með 47 atkvæðum gegn 7. Rétt þykir að nýkjörið þing fái einnig að fjalla um málið.
    Nýlegir atburðir og umræður um hvernig Keflavíkurstöðin kunni að hafa tengst kjarnorkuvígbúnaði og áætlunum Bandaríkjahers kalla enn fremur á að málin séu skoðuð. Rétt er að minna á að herstöðin er hluti af heildarvígbúnaðarkerfi Bandaríkjamanna og NATO. Kjarnorkuvopnastefna Bandaríkjamanna og NATO er óbreytt, þ.e. Bandaríkin einhliða og NATO áskilja sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði (First use policy). Það er einnig óbreytt að tilvist kjarnorkuvopna er hvorki játað né neitað, t.d. er ekki uppgefið hvort skip eða flugvélar sem tilheyra kjarnorkuheraflanum eru vopnuð þá og þá stundina. Svo hefur t.d. verið þegar NATO-herskip hafa heimsótt íslenskar hafnir. Engar upplýsingar eru gefnar og allt sem lýtur að þessum vígbúnaði er hulið leyndar- og blekkingahjúp eins og komið hefur á daginn. Loks má nefna þann dapurlega atburð að Bandaríkjaþing felldi staðfestingarfrumvarp samningsins um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn. Þessi mál eru því komin í brennidepil á ný.
    Herstöðin í Keflavík, eða á Miðnesheiði, er hluti af þeirri heild sem um ræðir hér að framan, hlekkur í þessari keðju, og umræðurnar þurfa að miðast við það. Óhjákvæmilegt er að öll samskipti íslenskra yfirvalda við bandarísk hermálayfirvöld og stjórnvöld komi til skoðunar, frá fyrri tímum og allt til dagsins í dag.
    Hér á eftir fer greinargerðin sem fylgdi tillögunni þegar hún var fyrst flutt:
    „Áhugi bandarískra stjórnvalda á því að draga úr umsvifum í rekstri herstöðvarinnar í Keflavík hefur komið fram með ýmsu móti á undanförnum árum. Talsverður samdráttur hefur orðið í starfsemi Bandaríkjamanna og NATO hér á landi og er ekki að undra í ljósi breyttra aðstæðna í okkar heimshluta. Eins og málið hefur þróast hafa íslensk yfirvöld utanríkismála frekar en bandarísk þrýst á um að hafa hér meiri viðbúnað en minni. Í viðræðum bandarískra og íslenskra stjórnvalda í aðdraganda að núgildandi og síðastgildandi samkomulagi eða bókun um umsvifin hér á landi var ljóst að Íslendingar fóru fram á áframhaldandi staðsetningu orrustuflugvéla hér, en björgunarsveitin o.fl. tengist veru þeirra. Nýlegar tillögur um að taka Ísland út úr herstjórnarskipulagi NATO eru til merkis um breyttar aðstæður. Staðreyndirnar tala sínu máli og er samdrátturinn orðinn umtalsverður eins og sjá má í fylgiskjali IV þar sem fram koma m.a. upplýsingar um fjölda hermanna og orrustuflugvéla á Keflavíkurflugvelli, svo og önnur umsvif á undanförnum árum. Þessari þróun eigum við Íslendingar að fagna og í stað þess að íslenskir ráðamenn knékrjúpi í Washington og biðji um áframhaldandi hersetu og vígbúnað eigum við að gera öðrum þjóðum ljósan þann vilja okkar að erlendri hersetu í landi okkar ljúki. Án slíkra aðgerða af okkar hálfu verður að draga í efa að bandarískur her og vígbúnaður hverfi héðan með öllu. Líklegast er að Bandaríkjamenn mundu vilja viðhalda hér allnokkrum vígbúnaði og aðstöðu til að tryggja stórveldishagsmuni sína og halda Íslandi á áhrifasvæði sínu.
    Um áratugaskeið hefur afstaðan til veru bandaríska hersins í Keflavík verið deilumál hér á landi og lengst af hefur þjóðin skipst í tvær fylkingar, löngum svipaðar að stærð, í afstöðu sinni til þess hvort rétt sé, skylt eða nauðsynlegt að hafa hér erlendan her. Í þeim deilum var það a.m.k. í orði kveðnu yfirlýst afstaða helstu stjórnmálasamtaka að hér skyldi ekki vera erlendur her á friðartímum. Þeir friðartímar létu á sér standa og voru jafnvel styrjaldir í fjarlægum heimsálfum notaðar til að réttlæta veru hersins hér. Á kaldastríðstímanum var spenna milli risaveldanna tveggja að sjálfsögðu notuð, hér eins og annars staðar, til að réttlæta aukinn vígbúnað. Nú hafa hins vegar óumdeilanlega skapast þær aðstæður að vígbúnaðinum er ekki beint gegn neinum óvini en sú staða hefur tæpast verið fyrir hendi meðan erlendur her hefur verið í landinu.
    Sökum þessara breyttu aðstæðna og í ljósi þess að Bandaríkjamenn vilja draga úr umsvifum sínum hér hafa nú skapast kjöraðstæður, sem eru nánast sögulegar, til að sætta þjóðina í þessu deilumáli með því að herinn hverfi af landi brott. Hin langa herseta hefur hins vegar sett sín spor og þær tekjur, atvinna og umsvif sem leiddi af veru hersins voru lengi vel mjög þýðingarmikill og drjúgur hluti af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins hvort sem mönnum er ljúft eða leitt að viðurkenna það. Verulega hefur dregið úr efnahagslegu mikilvægi hersetunnar og hafa gjaldeyristekjur sem leitt hefur af henni minnkað að raungildi á undanförnum árum og hlutfallslega töluvert ef miðað er við auknar útflutningstekjur af annarri starfsemi.
    Núgildandi samkomulag milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda rennur út í apríl árið 2001 og er með uppsagnarákvæði þegar í apríl árið 2000. Það er því tímabært að hefja nú þegar viðræður við bandarísk stjórnvöld um með hvaða hætti erlendur her og eiginlegur vígbúnaður geti horfið úr landi. Enginn vafi er á að húsnæði og aðstaða við flugvöllinn gæti nýst til margvíslegrar atvinnustarfsemi og aukinna umsvifa sem kæmu í stað þess sem nú er. Atvinnuástand hefur batnað á Suðurnesjum og byrjaðar eru eða áætlaðar miklar framkvæmdir þannig að aðstæður eru að ýmsu leyti hagstæðar. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að gera áætlun um sérstakt átak til atvinnuuppbyggingar og þróunar fyrir svæðið samhliða því að unnið er að samkomulagi við Bandaríkjamenn um hvernig að þessum breytingum verði staðið. Með í þær viðræður þarf að sjálfsögðu að taka þátttöku Bandaríkjamanna í að bæta fyrir þá röskun sem hersetan hefur valdið í íslenskum þjóðarbúskap og ekki síður spjöll á íslenskri náttúru og kostnað við hreinsun mengaðra svæða.
    Í ljósi mikilvægis málsins og með hliðsjón af því hve gæfuríkt væri ef þjóðinni auðnaðist að sameinast á ný um áherslur í þessu viðkvæma máli, sem valdið hefur deilum um hálfrar aldar skeið, er lagt til að fulltrúar allra þingflokka eigi aðild að þeim viðræðum sem hefjast í framhaldi af samþykkt tillögunnar.
    Samhliða niðurstöðu í þessu máli og samkomulagi um brottför erlends hers úr landinu skapast gerbreyttar aðstæður til að móta sjálfstæða íslenska utanríkis- og friðarstefnu. Stefnu sem grundvallaðist á vopnleysi, friðlýsingu og sjálfstæðri óháðri stöðu landsins utan hernaðarbandalaga, sem aflað yrði alþjóðlegrar viðurkenningar.
    Fordæmið frá sjálfstjórnarsvæðinu Álandseyjum og sú samstaða sem þar ríkir um vopnleysi og friðarstefnu, ásamt með uppbyggingu friðarstofnunar Álandseyja er áhugavert í þessu sambandi.“


Fylgiskjal I.


Varnarsamningur milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna


á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins.


    Þar sem Íslendingar geta ekki sjálfir varið land sitt, en reynslan hefur sýnt, að varnarleysi lands stofnar öryggi þess sjálfs og friðsamra nágranna þess í voða, og þar sem tvísýnt er um alþjóðamál, hefur Norður-Atlantshafsbandalagið farið þess á leit við Ísland og Bandaríkin, að þau geri ráðstafanir til, að látin verði í té aðstaða á Íslandi til varnar landinu og þar með einnig til varnar svæði því, sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til, með sameiginlega viðleitni aðila Norður-Atlantshafssamningsins til að varðveita frið og öryggi á því svæði fyrir augum. Samningur sá, sem hér fer á eftir, hefur verið gerður samkvæmt þessum tilmælum.

1. gr.

    Bandaríkin munu fyrir hönd Norður-Atlantshafsbandalagsins og samkvæmt skuldbindingum þeim, sem þau hafa tekist á hendur með Norður-Atlantshafssamningnum, gera ráðstafanir til varnar Íslandi með þeim skilyrðum, sem greinir í samningi þessum. Í þessu skyni og með varnir á svæði því, sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til, fyrir augum, lætur Ísland í té þá aðstöðu í landinu, sem báðir aðilar eru ásáttir um, að sé nauðsynleg.

2. gr.

    Ísland mun afla heimildar á landsvæðum og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að í té verði látin aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum, og ber Bandaríkjunum eigi skylda til að greiða Íslandi, íslenskum þegnum eða öðrum mönnum gjald fyrir það.

3. gr.

    Það skal vera háð samþykki Íslands, hverrar þjóðar menn eru í varnarliðinu, svo og með hverjum hætti það tekur við og hagnýtir þá aðstöðu á Íslandi, sem veitt er með samningi þessum.

4. gr.

    Það skal háð samþykki íslensku ríkisstjórnarinnar, hversu margir menn hafa setu á Íslandi samkvæmt samningi þessum.

5. gr.

    Bandaríkin skulu framkvæma skyldur sínar samkvæmt samningi þessum þannig, að stuðlað sé svo sem frekast má verða að öryggi íslensku þjóðarinnar, og skal ávallt haft í huga, hve fámennir Íslendingar eru, svo og það, að þeir hafa ekki öldum saman vanist vopnaburði. Ekkert ákvæði þessa samnings skal skýrt þannig, að það raski úrslitayfirráðum Íslands yfir íslenskum málefnum.

6. gr.

    Samningur sá, er gerður var hinn 7. október 1946 milli Íslands og Bandaríkjanna um bráðabirgðaafnot af Keflavíkurflugvelli, fellur úr gildi við gildistöku samnings þessa, og mun Ísland þá taka í sínar hendur stjórn og ábyrgð á almennri flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli. Ísland og Bandaríkin munu koma sér saman um viðeigandi ráðstafanir varðandi skipulag á rekstri flugvallarins til þess að samræma starfsemi þar því, að hann er jafnframt notaður í þágu varnar Íslands.

7. gr.

    Hvor ríkisstjórnin getur, hvenær sem er, að undanfarinni tilkynningu til hinnar ríkisstjórnarinnar, farið þess á leit við ráð Norður-Atlantshafsbandalagsins, að það endurskoði, hvort lengur þurfi á að halda framangreindri aðstöðu, og geri tillögur til beggja ríkisstjórnanna um það, hvort samningur þessi skuli gilda áfram. Ef slík málaleitan um endurskoðun leiðir ekki til þess, að ríkisstjórnirnar verði ásáttar innan sex mánaða, frá því að málaleitunin var borin fram, getur hvor ríkisstjórnin, hvenær sem er eftir það, sagt samningnum upp, og skal hann þá falla úr gildi tólf mánuðum síðar. Hvenær sem atburðir þeir verða, sem 5. og 6. gr. Norður-Atlantshafssamningsins tekur til, skal aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum, látin í té á sama hátt. Meðan aðstaðan er eigi notuð til hernaðarþarfa, mun Ísland annaðhvort sjálft sjá um nauðsynlegt viðhald á mannvirkjum og útbúnaði eða heimila Bandaríkjunum að annast það.

8. gr.

    Samningur þessi er gerður á íslensku, og á ensku, og eru báðir textar jafngildir. Hann gengur í gildi, er hann hefur verið undirritaður af réttum yfirvöldum Íslands og Bandaríkjanna og ríkisstjórn Íslands hefur afhent ríkisstjórn Bandaríkja Ameríku tilkynningu um, að samningurinn hafi verið fullgiltur af Íslands hálfu.


Gert í Reykjavík hinn 5. maí 1951.

Fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands:
Bjarni Benediktsson,
utanríkisráðherra Íslands.

Fyrir hönd ríkisstjórnar Bandaríkja Ameríku:
Edward B. Lawson,
sérlegur sendiherra og ráðherra með umboði fyrir
Bandaríki Ameríku á Íslandi.



Fylgiskjal II.


Bókun 1994.


(Þýdd að beiðni flutningsmanna.)



    Með hliðsjón af grundvallarbreytingum sem orðið hafa á öryggisumhverfinu í Evrópu og á Norður-Atlantshafinu í kjölfar endaloka kalda stríðsins, og í samræmi við tvíhliða varnarsamninginn frá 1951, hafa ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Íslands átt viðræður um viðeigandi viðbúnað í Keflavík til varnar Íslandi. Eftirfarandi samkomulag hefur náðst:
     1.      Bandaríkin staðfesta skuldbindingar sínar samkvæmt tvíhliða varnarsamningnum frá 1951.
     2.      Íslendingar staðfesta að Bandaríkin og herir bandalagsríkjanna skuli áfram vera í Keflavíkurstöðinni á Íslandi.
     3.      Fyrir hönd Atlantshafsbandalagsins og í samræmi við skyldur sínar samkvæmt Norður- Atlantshafssamningnum staðfesta Bandaríkin þá skuldbindingu sína að gera ráðstafanir varðandi varnir Íslands með fyrirvara um þau skilyrði sem sett eru fram í Norður-Atlantshafssamningnum og í tvíhliða varnarsamningnum frá 1951.
     4.      Til varnar Íslandi og því svæði sem heyrir undir Norður-Atlantshafssamninginn munu Íslendingar láta í té þá aðstöðu á Íslandi sem gagnkvæmt samkomulag er um að nauðsynleg sé samkvæmt tvíhliða varnarsamningnum frá 1951.
     5.      Báðar þjóðir staðfesta þá skuldbindingu sína að hafa með sér náið samráð varðandi öryggismál, bæði á tvíhliða grundvelli og innan NATO, meðan Bandaríkin og bandalagið laga sig að nýjum varnarþörfum í kjölfar endaloka kalda stríðsins.
     6.      Ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna telja að nýleg þróun heimsmála geri mögulegt að gera breytingar á herafla til þess að uppfylla sameiginlegar skuldbindingar sínar varðandi öryggi og varnir. Þess vegna hafa Ísland og Bandaríkin, samkvæmt varnarskuldbindingum sínum, sbr. 3. mgr., komist að samkomulagi um eftirfarandi:
            –      að fækka orrustuflugvélum en halda a.m.k. fjórum til þess að viðhalda virkri loftvarnagetu með bækistöð á Íslandi,
            –      að viðhalda í Keflavík viðbúnaði og stoðveitum sem nauðsynlegar eru til þess að halda úti orrustuflugvélum,
            –      að viðhalda björgunarsveitinni,
            –      að viðhalda flugstöð flotans,
            –      að viðhalda loftvarnakerfi Íslands,
            –      að halda áfram heræfingunum Norðurvíkingur (Northern Viking) á tveggja ára fresti,
            –      að leggja niður tvær litlar flotaeiningar á þeim tíma sem báðar ríkisstjórnir koma sér saman um.
     7.      Báðir aðilar samþykkja að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að minnka kostnað við rekstur Keflavíkurstöðvarinnar.
     8.      Ríkisstjórnirnar munu taka aftur upp samráðsfundi með það fyrir augum að endurskoða og komast að sameiginlegum niðurstöðum um skilmála þessa samkomulags í lok tveggja ára tímabils er hefst 1. janúar 1994. Áður en sá tími er liðinn skulu ríkisstjórnirnar skuldbinda sig til þess að kanna leiðir til þess að Ísland taki á sig aukna ábyrgð á sviði björgunarmála.

                    William J. Perry      Jón Baldvin Hannibalsson
                   aðstoðarvarnarmálaráðherra.    utanríkisráðherra.

Reykjavík, 4. janúar 1994.




Fylgiskjal III.


Bókun 1996.

(Þýdd að beiðni flutningsmanna.)



    Með hliðsjón af þeirri þróun sem hefur orðið í öryggismálum í Evrópu og á Norður-Atlantshafi síðan ritað var undir bókun um tvíhliða varnarsamskipti 4. janúar 1994, og í samræmi við tvíhliða varnarsamninginn frá 1951, hafa ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Íslands átt viðræður um viðeigandi viðbúnað í Keflavík til varnar Íslandi og komist að eftirfarandi niðurstöðu:
     1.      Bandaríkin og Ísland staðfesta skuldbindingar sínar samkvæmt tvíhliða varnarsamningnum frá 1951.
     2.      Báðar þjóðir staðfesta þá skuldbindingu sína að hafa með sér náið samráð um öryggismál, bæði á tvíhliða grundvelli og innan NATO.
     3.      Báðar þjóðir eru sammála um að bókunin frá 1994 hafi verið framkvæmd að fullu og með góðum árangri.
     4.      Ísland staðfestir að herafli Bandaríkjanna og bandalagsríkja skuli áfram hafa bækistöð í Keflavík.
     5.      Fyrir hönd Norður-Atlantshafsbandalagsins og í samræmi við skyldur sínar samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum staðfesta Bandaríkin þá skuldbindingu sína að gera ráðstafanir varðandi varnir Íslands samkvæmt þeim skilyrðum sem sett eru fram í Norður- Atlantshafssamningnum og tvíhliða varnarsamningnum frá 1951.
     6.      Til varnar Íslandi og í varnarskyni fyrir það svæði sem heyrir undir Norður-Atlantshafssamninginn munu Íslendingar láta í té þá aðstöðu á Íslandi sem gagnkvæmt samkomulag er um að nauðsynleg sé samkvæmt tvíhliða varnarsamningnum frá 1951.
     7.      Með hliðsjón af bókuninni frá 1994 og til þess að staðfesta þá skuldbindingu sína að rækja sameiginlegar skyldur sínar varðandi öryggi og varnir hafa ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna komist að samkomulagi um eftirfarandi:
                  a.      að tryggja virka loftvarnagetu með því að hafa a.m.k. fjórar orrustuflugvélar á Íslandi,
                  b.      að halda áfram að reyna eftir megni að bæta aðstöðu til æfinga yfir landi og með lágflugi innan lofthelginnar,
                  c.      að viðhalda í Keflavík viðbúnaði og stoðveitum sem nauðsynlegar eru til þess að halda úti orrustuflugvélum,
                  d.      að viðhalda þyrlubjörgunarsveitinni,
                  e.      að halda áfram að kanna leiðir til þess að Ísland taki á sig aukna ábyrgð á sviði björgunarmála,
                  f.      að viðhalda flugstöð flotans,
                  g.      að viðhalda loftvarnakerfi Íslands,
                  h.      að halda áfram heræfingunum Norðurvíkingur (Northern Viking).
     8.      Báðir aðilar munu halda áfram að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að minnka kostnað á samþykktum sviðum. Í þessu skyni mun nefnd háttsettra embættismanna um lækkun kostnaðar starfa áfram á vegum aðila.
     9.      Það er ætlun ríkisstjórnanna að þetta samkomulag gildi í fimm ár frá undirritunardegi þess. Að loknum fjórum árum er hvorri ríkisstjórn um sig heimilt að fara fram á endurskoðun þess. Hafi önnur hvor ríkisstjórnin farið fram á slíka endurskoðun munu Bandaríkin og Ísland leitast við að hefja samráð um endurskoðun skilmála þessa samkomulags innan fjögurra mánaða frá dagsetningu beiðninnar um endurskoðun.

                    Halldór Ásgrímsson,    Walter B. Slocombe,
                   utanríkisráðherra Íslands.    aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

Reykjavík, 9. apríl 1996.





Fylgiskjal IV.


Upplýsingaskrifstofa
Varnarliðsins:


Mannafli og verktaka á vegum Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.


(Október 1997.)



(Tölvutækur texti er ekki til.)


Fylgiskjal V.


Varnarliðsviðskipti í millj. kr. Nettótekjur af varnarliðinu.
Verk-
takar
Olíu-
félög
Skipa-
félög
Aðrar
tekjur
Tekjur
samtals

Útgjöld
Nettó-
tekjur
Gengi
USD
Í millj.
USD
% af
útflutn.
% af
VLF
1970 6 0 1 5 12 1 11 0,88 12,9 5,4 2,6
1971 5 1 1 7 14 1 13 0,88 14,8 5,8 2,3
1972 6 1 1 8 16 2 14 0,87 16,5 5,5 2,1
1973 9 1 2 8 20 2 18 0,90 20,5 4,9 1,9
1974 7 3 2 12 24 2 22 1,00 22,1 4,6 1,6
1975 19 4 5 20 48 6 42 1,54 27,3 5,8 2,1
1976 29 5 9 27 70 8 62 1,82 34,0 5,9 2,2
1977 38 8 10 40 96 7 89 1,99 44,8 6,1 2,2
1978 62 10 15 67 155 8 146 2,71 53,9 5,9 2,3
1979 59 15 16 96 187 20 167 3,52 47,4 4,3 1,8
1980 103 20 26 206 355 23 332 4,79 69,3 5,7 2,1
1981 187 35 19 302 543 46 497 7,24 68,6 5,6 2,0
1982 559 57 97 456 1.169 80 1.089 12,52 87,0 8,3 2,8
1983 1.303 95 176 869 2.443 287 2.156 25,00 86,2 7,9 3,3
1984 1.600 113 139 1.137 2.989 223 2.766 31,66 87,4 8,0 3,1
1985 1.307 185 66 1.831 3.389 267 3.122 41,47 75,3 6,2 2,6
1986 2.356 234 60 2.193 4.843 415 4.428 41,04 107,9 7,0 2,8
1987 2.291 260 82 2.664 5.297 507 4.790 38,60 124,1 6,5 2,3
1988 3.029 323 132 2.289 5.773 663 5.110 43,09 118,6 6,0 2,0
1989 4.060 352 252 3.529 8.193 885 7.308 57,14 127,9 6,6 2,4
1990 4.875 315 268 4.577 10.035 801 9.234 58,23 158,6 7,2 2,6
1991 4.416 294 397 5.401 10.508 1.069 9.439 59,04 159,9 7,3 2,5
1992 4.190 245 252 5.541 10.228 471 9.757 57,52 169,6 7,7 2,5
1993 3.171 224 482 5.526 9.403 342 9.061 67,74 133,8 6,4 2,3
1994 138,8 5,9 2,2
1995 137,3 5,4 1,9