Ferill 85. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 137  —  85. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um gjaldtöku og þóknanir hjá Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.


    Ráðuneytið leitaði til Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. og er svarið við fyrirspurninni byggt á upplýsingum frá þeim. Einnig var leitað til ríkisendurskoðanda til að staðfesta upplýsingarnar, en hann er endurskoðandi bankanna og hafði auk þess með höndum yfirumsjón með lokauppgjöri ríkisviðskiptabankanna. Það er álit ríkisendurskoðanda að fyrrgreindar upplýsingar séu áreiðanlegar og í samræmi við spurningarnar sem fyrir bankana voru lagðar.
    Það skal sérstaklega tekið fram að Landsbanki Íslands hf. og Búnaðarbanki Íslands hf. eru sjálfstæð fyrirtæki í eigu ríkisins og þúsunda einkaaðila sem starfa á samkeppnisgrundvelli og lúta almennum reglum markaðarins, t.d. varðandi þagnarskyldu. Ekki er því unnt að veita upplýsingar sem eru til þess fallnar að rýra samkeppnisstöðu þeirra á fjármálamarkaði eða ganga gegn þagnarskylduákvæði 43. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði.
    Bankarnir tóku til starfa sem hlutafélög 1. janúar 1998. Samkvæmt upplýsingum frá bönkunum verða einum hluthafa ekki gefnar upplýsingar um rekstur þeirra, enda slík upplýsingagjöf háð sérstökum reglum og ströngum skilyrðum Verðbréfaþings Íslands, meðal annars um jafnrétti hluthafa. Svör við umbeðnum upplýsingum ná því aðeins til ársloka 1997.
    Þá ber einnig að athuga að fyrirspurnin lýtur að viðamiklum upplýsingum. Leitast er við að svara henni eins vel og mögulegt er miðað við þau tímamörk sem sett eru á skriflegar fyrirspurnir í 49. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.

     1.      Hverjar voru heildartekjur aðrar en vaxtatekjur af gjaldtöku og þóknunum útlána hvors banka um sig árlega síðustu þrjú ár annars vegar og skipt eftir einstaklingum og lögaðilum hins vegar?
     A. Landsbanki Íslands.
    Samkvæmt upplýsingum frá bankanum voru heildartekjur, aðrar en vaxtatekjur, af gjaldtöku og þóknunum 464 millj. kr. fyrir árið 1996 en 424 millj. kr. fyrir árið 1997. Tíma- og fjárhæðatengdar þóknanir eru ígildi vaxta og taldar með vaxtatekjum, sbr. ársreikning bankans. Sundurliðun eftir lögaðilum og einstaklingum hefur ekki verið gerð opinberlega og ekki mögulegt að veita þessar upplýsingar þar sem þær liggja ekki fyrir.

     B. Búnaðarbanki Íslands.
    Samkvæmt upplýsingum frá bankanum hafa tíma- og fjárhæðatengdar þóknanir verið taldar ígildi vaxta frá árinu 1995 og taldar með vaxtatekjum í ársreikningum bankans í samræmi við reglur um framsetningu ársreikninga viðskiptabanka og sparisjóða. Heildartekjur, aðrar en vaxtatekjur, af gjaldtöku og þóknunum útlána hjá bankanum voru 370 millj. kr. árið 1996 en 371 millj. kr. árið 1997. Er þá allur kostnaður sem fellur á lán, þar með talið vegna vanskila, talinn með fyrir utan beinan kostnað við lögfræðiinnheimtu og dráttarvexti. Upplýsingar um sundurliðun eftir lögaðilum og einstaklingum eru ekki aðgengilegar í bókhaldi bankans.

     2.      Hver var heildarinnheimtukostnaður annars vegar og dráttarvextir hins vegar af vanskilum á útlánum árlega sl. þrjú ár og hve hátt hlutfall eru hvers kyns þóknanir og dráttarvextir af heildarvanskilum hvert ár um sig? Sundurliðun óskast einnig eftir einstaklingum og lögaðilum.
    A. Landsbanki Íslands.
    Samkvæmt upplýsingum frá bankanum var heildarinnheimtukostnaður og dráttarvextir af vanskilum á útlánum eftirfarandi árin 1996 og 1997 í millj. kr.:
1996 1997
Heildarinnheimtukostnaður
20 27
Dráttarvextir
857 659

    Upplýsingar um hver skipting var á milli lögaðila og einstaklinga á þessu tímabili liggja ekki fyrir.

     B. Búnaðarbanki Íslands.
    Samkvæmt upplýsingum frá bankanum var heildarinnheimtukostnaður og dráttarvextir af vanskilum á útlánum eftirfarandi árin 1996 og 1997 í millj. kr.:
1996 1997
Heildarinnheimtukostnaður lögfræðideildar BÍ
16 13
Dráttarvextir
334 335

    Upplýsingar um hver skipting var á milli lögaðila og einstaklinga á þessu tímabili eru ekki aðgengilegar í bókhaldi bankans. Heildarvanskil bankans voru að meðaltali 2,7 milljarðar á árinu 1996 en um 2,8 milljarðar 1997. Hlutfall dráttarvaxta af vanskilum var því um 12% bæði árin.

     3.      Hversu hátt hlutfall innheimtukrafna er innheimt hjá sjálfstæðum lögfræðistofum?
    A. Landsbanki Íslands.
    Í lok árs 1997 voru 35,8% innheimtukrafna, miðað við heildarfjárhæð þeirra, í innheimtu hjá sjálfstæðum lögfræðistofum. Ef miðað er við málafjölda er hlutfallið 31,44%.

     B. Búnaðarbanki Íslands.
    Á árinu 1997 voru um 27% innheimtukrafna, miðað við málafjölda, send sjálfstæðum lögfræðistofum.

     4.      Hvaða reglur gilda um vaxtakjör útlána til einstaklinga, annars vegar hjá Landsbanka Íslands og hins vegar Búnaðarbanka Íslands, og er um að ræða mismunandi vaxtakjör, óháð lánstíma, gagnvart einstaklingum? Ef slík mismunun er fyrir hendi, hver er hún og er þar tekið mið af efnahagslegri stöðu eða öðrum ástæðum og þá hverjum?
     A. Landsbanki Íslands.
    Samkvæmt upplýsingum frá bankanum er almenna reglan við ákvörðun vaxtakjara útlána til einstaklinga sú að vextir ráðast af mati á þeirri áhættu sem talin er felast í lánveitingunni. Slíkt mat byggist á reynslu bankans af viðskiptum við einstaklinginn og mati á þeim tryggingum sem boðnar eru til að tryggja skilvísa endurgreiðslu láns. Því betra sem þetta mat reynist því minni líkur eru á útlánatöpum og því hægt að bjóða hagstæðari vaxtakjör.

     B. Búnaðarbanki Íslands.
    Samkvæmt upplýsingum frá bankanum er almenna reglan við ákvörðun vaxtakjara útlána til einstaklinga sú að vextir ráðast af mati á þeirri áhættu sem talin er felast í lánveitingunni. Slíkt mat byggist á reynslu bankans af viðskiptum við einstaklinginn og mati á þeim tryggingum sem boðnar eru til að tryggja skilvísa endurgreiðslu láns. Því betra sem mat þetta reynist því minni líkur eru á útlánatöpum og því hægt að bjóða hagstæðari kjör en ella.