Ferill 123. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 154  —  123. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 80 16. október 1987, með síðari breytingum.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Einar Oddur Kristjánsson,


Hjálmar Jónsson,     Drífa Hjartardóttir.1. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 63. gr. laganna orðast svo: Slík ósk skal vera skrifleg og studd læknisvottorði og skal hafa borist hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en kl. 12 á hádegi á kjördag.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 123. löggjafarþingi en varð eigi útrætt. Er það því flutt að nýju.
    Í 3. mgr. 63. gr. laga um kosningar til Alþingis er fjallað um heimild kjörstjóra til þess að heimila kjósanda sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar að greiða atkvæði í heimahúsi. Skv. 2. málsl. málsgreinarinnar ber kjósanda að bera fram slíka ósk við kjörstjóra skriflega og studda læknisvottorði eigi síðar en þegar ein vika er til kjördags.
    Í þessu sambandi er á það að líta að kosningarrétturinn er grundvallarréttur sem allir íslenskir ríkisborgarar 18 ára og eldri eiga skv. 33. gr. stjórnarskrárinnar. Er þar enginn greinarmunur gerður á því hvort kjósendur ganga heilir til skógar eða ekki, enda bryti slíkt í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 97/1995.
    Allar breytingar, sem gerðar hafa verið á kosningalöggjöfinni á þessari öld, hafa lotið að því að rýmka kosningarrétt borgaranna og gera þeim auðveldara að neyta hans. Í athugasemdum með 4. tölul. 22. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 10/1991, um breytingar á 3. mgr. 63. gr. laga um kosningar til Alþingis, segir: „Telja verður að hér sé um sanngirnismál að ræða í ljósi þess að einstaklingar sem svipað er ástatt um og dveljast t.d. á sjúkrahúsum njóta þegar þessara réttinda.“
    Þegar athugað er nánar hvernig tímamörkum við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar er háttað skv. XI. kafla laganna kemur í ljós að þeim hópi kjósenda sem heimilað er að kjósa utan kjörfundar á grundvelli 3. mgr. 63. gr. er langþrengstur stakkur skorinn. Engir aðrir þurfa að sæta því að láta kjörstjóra vita með viku fyrirvara að þeir hyggist neyta kosningarréttarins á þann hátt. Þessir kjósendur eiga þó oft og tíðum minnsta möguleika á að skipuleggja tíma sinn með viku fyrirvara, sjúkdómar gera ekki boð á undan sér með viku fyrirvara og börn sem fæðast fyrir tímann gera mæðrum sínum sjaldnast viðvart viku fyrir fram.
    Algengt hefur verið um allt land um langan aldur að kjósendur, sem skömmu fyrir kjördag verður ljóst að þeir verða að heiman á kjördag, t.d. skipshafnir, mæli sér mót við kjörstjóra, t.d. sýslumann eða hreppstjóra, til að kjósa utan kjörfundar á einhverjum umsömdum tíma sem ekki er fyrir fram auglýstur tími fyrir slíka atkvæðagreiðslu, enda í valdi kjörstjóra að ákveða hvenær slík kosning fari fram.
    Sá fyrirvari sem nú er krafist skv. 3. mgr. 63. gr. er að því er virðist eingöngu settur kjörstjóra til hagræðis, til þess að auðvelda honum að skipuleggja slíka utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Sú var enda niðurstaða sérstakrar kjörnefndar skv. 93. gr. laga nr. 5/1998 sem skipuð var af settum sýslumanni á Patreksfirði vegna kosningakæru um gildi sveitarstjórnarkosninganna í Vesturbyggð 23. maí 1998, en þar var m.a. kærð sú ákvörðun kjörstjóra að heimila kosningu í heimahúsi skv. 3. mgr. 63. gr. þegar innan við ein vika var til kjördags.
    Í niðurstöðu nefndarinnar um kosningu í heimahúsi segir : „Samkvæmt þeim gögnum sem sýslumaður hefur lagt fyrir nefndina er ljóst að ekki var farið að ákvæðum 3. mgr. 63. laga um alþingiskosningar (lög um kosningar til Alþingis), en ákvæði laga þeirra eiga við um utankjörfundaratkvæðagreiðslu í sveitastjórnarkosningum, sbr. 4. mgr. 43. gr. laga nr. 5/1998, varðandi tímamörk þau sem þar eru greind.
    Við túlkun þessa ákvæðis verður þó að hafa í huga að tilgangur þess hefur vart verið sá að takmarka kosningarrétt einstakra manna, heldur fremur þeir hagsmunir kjörstjóra að vita með nokkrum fyrirvara um fjölda þeirra sem hugsanlega þyrftu að notfæra sér þessa þjónustu til að neyta kosningarréttar síns.
     Með skírskotun til þeirra grundvallarréttinda sem kosningarréttur er verður því að telja að sá háttur sem hafður var á við atkvæðagreiðslu þessa hafi eins og á stóð verið réttlætanlegur.
    Úrskurður nefndarinnar var kærður til félagsmálaráðuneytisins sem með vísan til röksemda hins kærða úrskurðar staðfesti niðurstöðu hans um að niðurstaða kosninganna skyldi standa óbreytt. Í niðurstöðu ráðuneytisins kemur þó fram að ráðuneytið telji það ámælisvert að kjörstjóri skuli ekki hafa fylgt formreglum kosningalaga að þessu leyti.
         Með þessari athugasemd ráðuneytisins hefur skapast nokkur réttaróvissa sem nauðsynlegt er að eyða. Óviðunandi er að kjörstjóri eigi það yfir höfði sér að fá snuprur frá ráðuneytinu um ámælisverð vinnubrögð í hvert sinn sem hann heimilar kjósanda að greiða atkvæði í heimahúsi skv. 3. mgr. 63. gr. kosningalaga þegar innan við vika er til kjördags, en samt verði sú kosning talin gild vegna þess að þau grundvallarréttindi sem felast í kosningarréttinum eru mikilvægari en hagræði kjörstjóra af því að geta skipulagt slíka kosningu með viku fyrirvara. Með frumvarpi þessu er ætlunin að eyða þessari óvissu.
    Kosningarrétturinn er grundvallarréttur sem er varinn í stjórnarskrá. Þó svo að nauðsyn kjörstjóra til að skipuleggja atkvæðagreiðslu í heimahúsi sé augljós verður kosningarréttur kjósanda að teljast ríkari hagsmunir. Kjörstjórar geta eftir sem áður hvatt kjósendur til að hafa góðan fyrirvara á óskum um atkvæðagreiðslu í heimahúsi skv. 3. mgr. 63. gr. laga um kosningar til Alþingis, ekki ósvipað því þegar kjósendur eru hvattir til að kjósa snemma á kjördag og taka tillit til veðurútlits, færðar á vegum o.s.frv. Kjörstjórar gætu þurft að tilnefna fleiri utankjörfundarkjörstjóra sér til aðstoðar en gert hefur verið til að sinna þessum verkum, en ekki er ástæða til að ætla að veruleg vandkvæði verði á því.