Ferill 149. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 170  —  149. mál.
Tillaga til þingsályktunarum endurskoðun reglna um sölu áfengis.

Flm.: Lúðvík Bergvinsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir,


Svanfríður Jónasdóttir, Björgvin G. Sigurðsson.


    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að skipa nefnd er vinni að endurskoðun reglna um sölu áfengis svo að heimila megi sölu á léttum vínum og bjór í matvöruverslunum. Þá athugi nefndin hvort unnt sé og æskilegt að hafa áhrif á neysluvenjur Íslendinga með breyttri verðlagningu á áfengi og aðgengi að léttum vínum og bjór.
    Nefndin verði meðal annars skipuð fulltrúum allra þingflokka sem setu eiga á Alþingi og skili tillögum fyrir 1. júlí 2000 .
    

Greinargerð.


    Lagt er til að skipuð verði nefnd sem vinni að endurskoðun á lögum um sölu, gjöld og tolla á áfengi, en með lögum nr. 94/1995 var afnuminn einkaréttur ÁTVR á innflutningi áfengis til landsins. Lagt er til að endurskoðun sem tillögugreinin gerir ráð fyrir taki sérstaklega mið af því að fólk alls staðar á landinu hafi sömu möguleika á að nálgast áfengi. Þá geri nefndin tillögur um hvernig því verði best fyrir komið að létt vín og bjór verði fáanleg, hvort heldur er í sérverslunum með áfengi eða í matvöruverslunum. Einnig verði sérstaklega skoðað hvort æskilegt sé og unnt að hafa áhrif á neysluvenjur Íslendinga með því að lækka verð hlutfallslega á léttum vínum og bjór á kostnað verðs á sterkum drykkjum.
    Nefndin verði meðal annars skipuð fulltrúum allra þingflokka sem setu eiga á Alþingi og skili tillögum til fjármálaráðherra eigi síðar en 1. júlí 2000.