Ferill 86. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 184  —  86. mál.



Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um barnabætur.

     1.      Hver var heildarkostnaður ríkissjóðs að raungildi vegna barnabóta og barnabótaauka árlega síðustu tíu ár og hve margir fengu barnabætur á hverju ári?

Barnabætur 1999 1998 1997 1996 1995 1994 1993 1992 1991 1990
Barnabætur 3.779 4.078 2.693 2.684 2.635 2.584 2.522 2.505 3.623 3.277
Barnabótaauki - - 1.878 2.102 1.959 1.884 1.817 1.786 1.197 1.105
Alls 3.779 4.078 4.571 4.786 4.594 4.468 4.339 4.291 4.819 4.381
Fjöldi bótaþega1)
Barnabætur 41.391 45.709 70.105 70.578 71.342 71.549 71.116 69.806 -2) -
Barnabótaauki - - 33.790 37.906 37.637 37.002 35.781 35.503 29.375 -
Á verðlagi ársins 19993)
Barnabætur 3.779 4.176 2.804 2.845 2.857 2.849 2.822 2.918 4.376 4.228
Barnabótaauki - - 1.956 2.229 2.124 2.078 2.033 2.081 1.445 1.425
Alls 3.779 4.176 4.760 5.074 4.981 4.926 4.855 4.999 5.822 5.653
Neysluverðsvísitala 129,02 126,00 123,89 121,70 119,01 117,02 115,29 110,75 106,80 100,00

    1) Fjöldi einstaklinga sem eiga rétt á bótum vegna barna innan 16 ára. Hjón talin sem tveir einstaklingar.
    2) Upplýsingar ekki fyrirliggjandi
    3) Miðað við neyðsluverðsvísitölu.

    Árið 1991 var ákveðið að auka vægi tekjutengingar í barnabótakerfinu og 1997 var skrefið stigið til fulls með því að tekjutengja allar barnabætur. Jafnframt var þá ákveðið að allar bætur og afsláttarliðir í tekjuskattskerfinu skyldu hækka um 2,5% í ársbyrjun 1998, 1999 og 2000, í samræmi við áætlanir um verðlagsþróun. Með þessu var í reynd horfið til þess sem gilti þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp árið 1988, þ.e. að þessir liðir skyldu fylgja verðlagi.
    Þetta atriði endurspeglast í heildargreiðslum barnabóta á árunum 1992–96 sem þróast nokkurn veginn í takt við verðlag. Frá árinu 1997 hefur heildargreiðsla barnabóta hins vegar lækkað, þótt allar fjárhæðir í barnabótakerfinu hafi hækkað um rúmlega 5%. Þessi þróun endurspeglar mikla kaupmáttaraukningu í þjóðfélaginu á þessum tíma og áhrif tekjutengingarinnar við þær aðstæður.

     2.      Hvert er fyrirkomulag og skilyrði til barnabóta annars staðar á Norðurlöndum og hve háar eru slíkar greiðslur á ári með hverju barni samanborið við greiðslur hér á landi?
    Við samanburð af þessu tagi þarf að hafa í huga samspil bótagreiðslna og skattkerfis í löndunum. Þannig er almenn skattbyrði í Danmörku, Noregi og Svíþjóð umtalsvert þyngri en bæði í Finnlandi og sérstaklega á Íslandi, sem sker sig úr að þessu leyti með mjög há skattleysismörk.

a. Ísland.
    Barnabætur hér á landi greiðast vegna hvers barns innan 16 ára aldurs. Barnabætur árið 1999 eru eftirfarandi:

Óskertar barnabætur hjóna kr.
Með fyrsta barni
104.997
Með hverju barni umfram eitt
124.980
Viðbót vegna barna yngri en 7 ára
30.930
Óskertar barnabætur einstæðra foreldra kr.
Með fyrsta barni
174.879
Með hverju barni umfram eitt
179.389
Viðbót vegna barna yngri en 7 ára
30.930

    Hjá hjónum og sambúðarfólki reiknast skerðing vegna tekna af samanlögðum tekjustofni umfram 1.169.568 kr. og hjá einstæðu foreldri af tekjustofni umfram 584.784 kr. Sé um að ræða eitt barn skerðast barnabætur um 5% af tekjum umfram þessi mörk, ef börnin eru tvö um 9% og ef börnin eru þrjú eða fleiri um 11%.
    Barnabætur eru greiddar með tveimur jöfnum greiðslum á ári og eru þær skattfrjálsar. Fyrri greiðslan fer fram eigi síðar en 1. ágúst og síðari greiðslan eigi síðar en 1. nóvember.

b. Danmörk.
    Barnabætur greiðast vegna barna sem eru yngri en 18 ára. Þær eru háðar aldri barnsins og eru árið 1999 fyrir hvert barn sem hér segir:

Börn DKK ÍSK
1–2 ára
11.300 110.062
3–6 ára
10.200 99.348
7–18 ára
8.100 78.894

    Barnabæturnar greiðast út ársfjórðungslega í jöfnum greiðslum og eru til ráðstöfunar 20. janúar, 20. apríl, 20. júlí og 20. október. Þær eru hvorki tekjutengdar né skattskyldar. Þess má geta að í gegnum danska almannatryggingakerfið eru greiddir sérstakir styrkir eftir umsókn til tiltekinna hópa, svo sem einstæðra foreldra.

c. Noregur.
    Barnabætur greiðast vegna barna sem eru 16 ára og yngri. Fjárhæð barnabóta á árinu 1999 er eftirfarandi:

NOK ÍSK
Með fyrsta barni
11.112 97.674
Með öðru barni
11.112 97.674
Með þriðja barni o.fl.
13.092 115.079
Aukabarnabætur vegna barna á aldrinum 1–3 ára
7.884 69.300
Aukabarnabætur fyrir þá sem búa í Finnmörku
og Norður-Troms
3.792 33.332

    Einstæðir foreldrar eiga rétt á viðbótarbarnabótum sem jafngilda greiðslu barnabóta með einu barni umfram það sem viðkomandi á. Barnabætur eru greiddar út fyrsta hvers mánaðar með jöfnum greiðslum. Þær eru skattfrjálsar og án tekjutengingar.

d. Svíþjóð.
    Barnabætur í Svíþjóð greiðast vegna allra barna 16 ára og yngri. Barnabætur til barnmargra fjölskyldna eru hærri þegar börnin eru orðin þrjú eða fleiri. Hækka bæturnar um 2.400 sænskar kr. (19.992 íslenskar kr.) á ári fyrir þriðja barn, 7.200 sænskar kr. (59.976 íslenskar kr.) á ári fyrir fjórða barn og 9.000 sænskar kr. (74.970 íslenskar kr.) á ári fyrir fimmta barn og fleiri. Fjárhæð barnabóta árið 1999 er eftirfarandi:

SEK ÍSK
Með fyrsta barni
9.000 74.970
Með öðru barni
9.000 74.970
Með þriðja barni.
11.400 94.962
Með fjórða barni
16.200 134.946
Með fimmta barni o.fl.
18.000 149.940

    Barnabæturnar greiðast út tuttugasta hvers mánaðar. Þær eru skattfrjálsar og án tekjutengingar. Þess skal getið að greiddar eru svokallaðar viðbótarbætur eða framlengdar barnabætur vegna barna á aldrinum 16–19 ára þegar þau eru í tilteknum skólum.

e. Finnland.
    Barnabætur í Finnlandi greiðast með börnum til 17 ára aldurs. Fjárhæð bótanna fer eftir fjölda barna í hverri fjölskyldu og einstæðir foreldrar fá hærri barnabætur. Fjárhæð barnabóta árið 1999 er eftirfarandi:

FIM ÍSK
Með fyrsta barni
6.420 78.324
Með öðru barni
7.884 96.185
Með þriðja barni.
9.348 114.046
Með fjórða og hverju barni til viðbótar
10.812 131.906
Viðbótarbarnabætur til einstæðra foreldra
er 200 FIM á mánuði.
12.276 149.767

    Barnabæturnar eru greiddar út mánaðarlega og eru þær skattfrjálsar og án tekjutengingar.

     3.      Hve mörg lönd innan OECD tekjutengja barnabætur og að hvaða aldursmörkum barna eru greiddar barnabætur?
    Í aðildarríkjum OECD þekkist tekjutenging barnabóta í Ástralíu, Grikklandi, Ítalíu, Kanada, Portúgal og á Spáni auk Íslands. Aldursmörkin eru 16 eða 18 ár og er skiptingin nokkuð jöfn. Í einu tilviki eru aldursmörkin 17 ár.

     4.      Hvaða áform eru uppi um að draga úr tekjutengingu barnabóta og hvenær má ætla að þau komist til framkvæmda?
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkana er fjallað um tekjutengingu barnabóta og þar segir: „Að styrkja fjölskylduna sem hornstein þjóðfélagsins og treysta samheldni hennar og velferð. Meðal annars verði dregið úr tekjutengingu í barnabótakerfinu, t.d. með útgáfu sérstakra barnakorta eða öðrum sambærilegum aðgerðum.“ Gert er ráð fyrir að unnið verði að þessu markmiði á kjörtímabilinu.

     5.      Telur ráðherra eðlilegt að greiða barnabætur til 18 ára aldurs barns við hækkun á sjálfræðisaldrinum og eru uppi áform um það?
    Engin bein tengsl eru milli breytinga á sjálfræðisaldri og barnabóta. Ekki eru uppi áform um að greiða barnabætur til 18 ára aldurs.