Ferill 76. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 296  —  76. mál.
Svariðnaðarráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möller um orkuverð til stóriðju, fiskvinnslufyrirtækja og garðyrkjubænda.

     1.      Hversu hátt er orkuverð til stóriðju, svo sem til álversins í Straumsvík, álversins á Grundartanga og járnblendiverksmiðjunnar, og hver eru heildarorkukaup framangreindra fyrirtækja á ári?
    Litið er á orkuverð milli Landsvirkjunar og stjóriðjufyrirtækja sem trúnaðarmál milli viðskiptaaðila enda mundi það veikja stöðu Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja í samningum um orkusölu til stóriðjufyrirtækja ef allir hefðu aðgang að slíkum upplýsingum. Í þeim tilvikum sem Alþingi hefur komið að samningum vegna stóriðjufyrirtækja á síðustu árum hefur Landsvirkjun kynnt iðnaðarnefnd Alþingis efnisatriði orkusamninga. Með vísan til þessa er ekki unnt að veita nákvæmt svar við spurningunni. Í ársskýrslu Landsvirkjunar fyrir árið 1998 kemur fram að rafmagnssala til stóriðju nam 3.470,8 gígavattstundum (GWh) sem skiptist þannig að um 3.011,7 GWh eða 86,8% var forgangsorka og 459,1 GWh eða 13,2% var ótryggð orka. Tekjur af orkusölunni námu 3.069,5 millj. kr. og meðalverð á árinu 1998 til allra stóriðjufyritækja nam því 0,884 kr. á kílóvattstund (kWh). Til samanburðar má nefna að meðalverð til stóriðjunnar á árinu 1997 var 1,009 kr./kWh. Rétt er að taka fram að þetta er orkuverð án virðisaukaskatts.
    Skýring á tiltölulega lágu orkuverði til stóriðjufyrirtækja á árinu 1998 er tvíþætt. Annars vegar var álverð lágt á árinu sem hafði áhrif til lækkunar á rafmagnsverði þar sem orkuverðið bæði til Íslenska álfélagsins hf. og Norðuráls hf. er tengt álverði. Á síðari hluta þessa árs hefur álverð hækkað. Hins vegar eru ákvæði í þeim samningum sem gerðir hafa verið á síðustu árum sem hafa það í för með sér að í upphafi samningstímans er rafmagnsverðið lægra en meðaltalsverð samningstímans og þegar fram líður hækkar því rafmagnsverðið og fer upp fyrir þetta meðalverð.

     2.      Hversu hátt er orkuverð til fiskvinnslufyrirtækja og hver eru heildarkaup þeirra á ári?
    Vegna spurninga í 2. og 3. lið skal tekið fram að alls selja 13 orkufyrirtæki raforku í smásölu hér á landi. Til að skapa grundvöll fyrir útreikninga á meðalorkuverði sendi Orkustofnun fyrirspurn til þeirra allra og bað um upplýsingar um raforkusölu. Veiturnar voru beðnar að fylla út eyðublað þar sem spurt var um orkumagn og sölutekjur fyrir alla notkunarflokka undir fiskvinnslu og garðyrkju, alls sex flokka. Allar veiturnar skiluðu inn umbeðnum gögnum. Úrvinnsla fór í meginatriðum þannig fram að meðalverð var reiknað sem hlutfallið á milli sölutekna og orkumagns. Þessi leið ætti að tryggja betur að niðurstaðan sé sem næst raunverulegu meðalverði en ef gjaldskrár veitnanna hefðu verið notaðar við útreikningana.
    Meðfylgjandi tafla og myndir sýna orkusölu og orkuverð til garðyrkju og fiskvinnslu, sundurliðað eftir sex landshlutum.
    Raforkunotkun fiskvinnslufyrirtækja er mjög breytileg. Þannig er t.d. notkun við frystingu ólík því sem er við söltun eða fiskbræðslu. Árleg orkukaup einstakra fiskvinnslufyrirtækja nema frá nokkrum hundruðum megavattstunda upp í nokkrar gígavattstundir. Álagið er breytilegt, bæði innan sólarhringsins og ársins, og þar með einnig nýtingartími aflsins sem fyrirtækin kaupa, en nýting þess hefur mikil áhrif á orkuverðið sem einstök fyrirtæki greiða. Allt leiðir þetta til þess að raforkuverðið í krónum á kílóvattstund til fiskvinnslufyrirtækja er afar mismunandi.
    Niðurstaða þessarar úttektar er að meðalverð á allri raforku til fiskvinnslu á landinu hafi verið um 3,89 kr./kWh (án virðisaukaskatts) á árinu 1998. Fyrir forgangsorku greiddu fyrirtækin að meðaltali 5,01 kr./kWh og fyrir ótryggða orku 0,88 kr./kWh.
    Heildarraforkukaup fiskvinnslufyrirtækja á landinu öllu námu um 274 GWh á árinu 1998. Þar af var hlutur ótryggðrar orku 27% eða 74 GWh. Um þriðjungur af heildarraforkusölu til fiskvinnslu fer fram á Austurlandi, í öðrum landshlutum er salan minni og minnst á Vesturlandi og Suðurlandi, um 7% af heildinni í hvorum landshluta. Tekjur veitnanna af þessari sölu námu alls um 1.064 millj. kr., þar af 6,5% eða 65 millj. kr. vegna sölu á ótryggðri orku. Stærsti hluti af sölu ótryggðrar orku var til fiskimjölsverksmiðja.

     3.      Hversu hátt er orkuverð til garðyrkjubænda og hver eru heildarorkukaup þeirra á ári?
    Niðurstaða framangreindrar úttektar Orkustofnunar er að meðalverð raforku til garðyrkjubænda sé 3,36 kr./kWh (án virðisaukaskatts).
    Heildarraforkukaup garðyrkjubænda á landinu öllu námu um 21 GWh á árinu 1998. Af því seldu Rafmagnsveitur ríkisins um 60%, að mestu leyti á Suðurlandi, og Veitustofnanir Hveragerðis tæp 33%. Þegar raforkuverð til garðyrkju í mismunandi landshlutum er skoðað er því mikilvægt að hafa í huga að tæplega 90% af sölunni fer fram á Suðurlandi. Tekjur veitnanna af raforkusölu til garðyrkju námu alls rúmum 70 millj. kr. á árinu 1998.


Raforkusala 1998 til garðyrkju og fiskvinnslu.
Magn Sölutekjur án VSK Reiknað meðalverð
Forgangsorka, kWh Ótryggð orka, kWh Forgangsorka, kr. Ótryggð orka, kr. Forgangsorka, kr./kWh Ótryggð orka, kr./kWh Samtals, kr./kWh
Garðyrkja alls
20.942.113 70.303.137 3,36 3,36
Fiskvinnsla alls
199.770.353 73.916.361 999.901.070 64.790.431 5,01 0,88 3,89
Fiskvinnsla, forgangsorka sundurliðuð eftir landshlutum:
Reykjavík og Reykjanes
35.948.962 172.380.630 4,80
Vesturland
19.474.317 100.138.945 5,14
Vestfirðir
32.422.800 150.209.551 4,63
Norðurland
40.850.932 201.841.900 4,94
Austurland
50.413.721 266.148.266 5,28
Suðurland
20.659.621 109.181.778 5,28

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.