Ferill 258. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 326  —  258. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Fyrir útgáfu eftirfarandi leyfa og skírteina vegna veitingar atvinnuréttinda og tengdra réttinda skal greiða 5.000 kr.:
     1.      Leyfi til málflutnings fyrir Hæstarétti og héraðsdómi.
     2.      Leyfi til að stunda almennar lækningar og sérfræðilækningar, leyfi til að stunda almennar tannlækningar og sérfræðitannlækningar, leyfi til ljósmæðra, hjúkrunarfræðinga og sérfræðileyfi til hjúkrunarfræðinga, leyfi til lyfsala, lyfjafræðinga, sérfræðileyfi lyfjafræðinga og leyfi til aðstoðarlyfjafræðinga.
     3.      Leyfi til sjúkraþjálfara, félagsráðgjafa, iðjuþjálfa, þroskaþjálfa, meinatækna, röntgentækna, matvælafræðinga og sálfræðinga.
     4.      Leyfi til sjóntækjafræðinga.
     5.      Leyfi til sjúkraliða.
     6.      Leyfi til matartækna.
     7.      Leyfi til lyfjatækna.
     8.      Leyfi til fótaaðgerðafræðinga.
     9.      Leyfi til hnykkja.
     10.      Leyfi til sjúkraflutningamanna.
     11.      Leyfi til næringarfræðinga og næringarráðgjafa.
     12.      Leyfi til læknaritara.
     13.      Leyfi til sjúkranuddara.
     14.      Leyfi til talmeinafræðinga.
     15.      Leyfi til tannfræðinga.
     16.      Leyfi til matarfræðinga.
     17.      Leyfi til náttúrufræðinga í heilbrigðisþjónustu.
     18.      Leyfi til tanntækna.
     19.      Leyfi til grunnskólakennara og framhaldsskólakennara.
     20.      Leyfi til bókasafnsfræðinga.
     21.      Leyfi til verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta (húsameistara), byggingafræðinga, húsgagna- og innanhússhönnuða, iðnfræðinga, landslagshönnuða og skipulagsfræðinga.
     22.      Leyfi til viðskiptafræðinga og hagfræðinga.
     23.      Leyfi til fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala.
     24.      Leyfi til dómtúlka og/eða skjalaþýðenda.
     25.      Leyfi til leigubifreiðaaksturs.
     26.      Leyfi til gerðar eignaskiptayfirlýsinga.
     27.      Löggilding endurskoðenda.
     28.      Löggilding manna um ævitíð.
     29.      Meistarabréf.
     30.      Sveinsbréf.
     31.      Atvinnuskírteini skipstjórnarmanna A, B og C.
     32.      Vélstjórnarskírteini.
     33.      Flugnema- og svifflugmannsskírteini.
     34.      Einkaflugmannsskírteini.
     35.      Atvinnuflugmannsskírteini I., II. og III. fl.
     36.      Flugvéltækna-, flugvélstjóra- og flugumferðarstjóraskírteini.
     37.      Skírteini til kvikmyndasýninga:
                  a.      Staðbundin skírteini.
                  b.      Sveinsskírteini.
                  c.      Meistaraskírteini.
     38.      Naglabyssuskírteini.
     39.      Skírteini fyrir suðumenn.
    Fyrir endurnýjun framantalinna leyfa og skírteina skal greiða 1.000 kr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      3. og 4. tölul. orðast svo:
                  3.      Leyfisbréf fyrir viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 4. gr. laga nr. 113/1996, 100.000 kr.
                  4.      Leyfisbréf fyrir lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 3. gr. laga nr. 123/1993, 100.000 kr.
     b.      Á eftir 8. tölul. koma fimm nýir töluliðir, svohljóðandi:
               9.      Leyfisbréf fyrir verðbréfasjóði, sbr. 2. gr. laga nr. 10/1993, 50.000 kr.
               10.      Leyfisbréf fyrir kauphallir, sbr. 3. gr. laga nr. 34/1998, 100.000 kr.
               11.      Leyfisbréf fyrir skipulega tilboðsmarkaði, sbr. 3. gr. og IX. kafla laga nr. 34/1998, 100.000 kr.
               12.      Leyfisbréf fyrir verðbréfamiðstöðvar, sbr. 3. gr. laga nr. 131/1997, 100.000 kr.
               13.      Leyfisbréf fyrir skaðatryggingafélög og líftryggingafélög, sbr. 26. gr. laga nr. 60/ 1994, 100.000 kr.
     c.      11. og 14. tölul. falla brott.
     d.      Í stað orðanna „12. tölul.“ í 13. tölul., er verður 18. tölul., kemur: 17. tölul.
     e.      Í stað orðanna „15.–17. tölul.“ í 18. tölul., er verður 23. tölul., kemur: 20.–22. tölul.
     f.      Í stað orðanna „Iðju- og iðnaðarleyfi“ í 28. tölul., er verður 33. tölul., kemur: Iðnaðarleyfi.
     g.      Á eftir 28. tölul., er verður 33. tölul., koma þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
               34.      Leyfi til rannsókna og nýtingar jarðvarma á lághitasvæðum, grunnvatns og hveraörvera, sbr. 4., 6. og 34. gr. laga nr. 57/1998, 25.000 kr.
               35.      Leyfi til rannsókna og nýtingar jarðvarma á háhitasvæðum og jarðefna, sbr. 4. og 6. gr. laga nr. 57/1998, 100.000 kr.
               36.      Leyfi til leitar og hagnýtingar á efnum á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 73/1990, 100.000 kr.
     h.      36. tölul. fellur brott.
     i.      Við greinina bætast fimm nýir töluliðir, svohljóðandi:
               45.      Leyfi til reksturs miðlunar með leiguhúsnæði, sbr. 73. gr. laga nr. 36/1994, 5.000 kr.
               46.      Leyfi til að annast öryggisþjónustu í atvinnuskyni, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1997, 5.000 kr.
               47.      Skemmtanaleyfi vegna einstakra tilvika, 5.000 kr.
               48.      Leyfi til þess að efna til skyndihappdrættis, sbr. 1. gr. laga nr. 13/1973, 5.000 kr.
               49.      Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu, sbr. 10. gr. laga nr. 117/1994
                   a. til tveggja ára, 5.000 kr.
                   b. til fimm ára, 5.000 kr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      10. tölul. fellur brott.
     b.      Við greinina bætast sjö nýir töluliðir, svohljóðandi:
               10.      Skotvopnaleyfi, 3.000 kr.
               11.      Endurnýjun leyfis skv. 10. tölul., 3.000 kr.
               12.      Leyfi til reksturs skotvopnaleigu, 3.000 kr.
               13.      Leyfi til útflutnings skotvopna, skotfæra, sprengiefna eða skotelda, 3.000 kr.
               14.      Skotvopnaleyfi til félags, stofnunar eða einstaklings ef slíkur aðili þarf nauðsynlega á því að halda vegna starfsemi sinnar, 3.000 kr.
               15.      Leyfi til félags sem hefur iðkun skotfimi að markmiði, 3.000 kr.
               16.      Leyfi til innflutnings skotvopna og skotfæra til eigin nota, 3.000 kr.

4. gr.

    16. tölul. 13. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Orðin „ökuskírteini 65 ára og eldri“ í 16. tölul. falla brott.
     b.      Við greinina bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Fyrir ökuskírteini 65 ára og eldri, 1.000 kr.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í lögum um aukatekjur ríkissjóðs er kveðið á um ýmiss konar gjaldtöku sem rennur í ríkissjóð. Gjaldtakan fullnægir yfirleitt þeim kröfum sem gerðar eru til skattlagningarheimilda í stjórnarskrá, sbr. 15. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 97/1995.
    Í vissum tilvikum er þó þörf á að gera ákvæðin um skattskyldu skýrari, einkum er varðar safnliði laganna, þ.e. ákvæði er hafa að geyma gjaldtökuheimild fyrir útgáfu ýmissa leyfa. Þannig er til dæmis lagt til að ákvæði 36. tölul. 11. gr. verði fellt brott, en þess í stað verði talin upp í lögunum þau leyfi sem innheimt eru á grundvelli ákvæðisins. Í frumvarpinu er ekki að finna nýjar gjaldtökuheimildir, að undanskyldum nokkrum töluliðum 2. gr. frumvarps þessa, heldur er einungis verið að útfæra gjaldtökuheimildir þannig að þær standist kröfur sem ákvæði stjórnarskrárinnar gera til slíkra heimilda. Hvað hinar nýju gjaldtökuheimildir varðar er þar um að ræða gjöld fyrir ýmiss konar starfsleyfi, annars vegar á fjármagnsmarkaði og hins vegar leyfi til rannsókna, nýtingar, leitar og hagnýtingar á verðmætum sem finnast á lág- og háhitasvæðum og á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga. Að baki þessum nýju leyfum liggja fyrst og fremst samræmingarsjónarmið við önnur ákvæði laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Með lögum nr. 50/1994 var ákvæðinu breytt á þann veg að í stað þess að telja upp einstök leyfi þar sem gjaldtaka fyrir útgáfu þeirra var mismunandi há var tekið eitt og sama gjaldið fyrir útgáfu leyfa og skírteina. Við þá breytingu töldu frumvarpshöfundar ekki þörf á því að viðhalda upptalningu leyfa og var ákvæðinu þá breytt í núverandi mynd. Í ljósi breytinga sem gerðar voru með 15. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 97/1995, er lagt til að talin verði upp sérstaklega öll leyfi sem gjald er tekið fyrir á grundvelli 10. gr. Ákvæðið skýrir sig að mestu leyti sjálft en þó þykir rétt að gera grein fyrir nokkrum atriðum þess.
    Leyfi útgefin til fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala hafa verið gjaldfærð undir 11. tölul. 11. gr. laganna, en að mati dómsmálaráðuneytis er rétt að slíkt leyfi falli undir 10. gr. þar sem verið sé að veita atvinnuréttindi.
    Þá er lagt til að heimild ráðherra til þess að kveða á um gjaldtöku í reglugerð fyrir það að þreyta próf til þess að öðlast atvinnuréttindi eða tengd réttindi verði afnumin með vísan til framangreindra sjónarmiða. Heimild þessi hefur ekki verið nýtt, en heimildarákvæði er að finna í sérlögum um töku gjalds fyrir að þreyta einstök próf.

Um 2. gr.

    Lagt er til að 36. tölul. 11. gr. laganna falli brott, sbr. það er fram kemur í almennum athugasemdum, en hann hefur að geyma heimild til töku gjalds fyrir leyfi sem valdsmenn eða Stjórnarráð gefa út og ekki er sérstaklega getið um í einstökum töluliðum greinarinnar, nema gjald sé ákveðið í sérstökum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Þess í stað er gert ráð fyrir að talin verði upp með tæmandi hætti í lögunum þau gjöld sem innheimt eru. Auk þess er lagt til að innheimt verði gjald fyrir útgáfu nokkurra leyfa sem fram til þessa hafa verið gefin út án þess að krafist hafi verið gjalds fyrir. Skal nú nánar vikið að einstökum breytingum ákvæðisins.
    Gjöld skv. a- og b-lið eru lögð til að tilhlutan iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis þar sem þörf er á samræmingu gjaldtöku fyrir útgáfu starfsleyfa á fjármagnsmarkaði. Til þess að betra samræmi náist er lagt til að gjald verði innheimt fyrir útgáfu starfsleyfa fyrir viðskiptabanka og sparisjóði, og útgáfu leyfisbréfa fyrir lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, verðbréfasjóði, kauphallir, skipulega tilboðsmarkaði, verðbréfamiðstöðvar og skaðatryggingafélög og líftryggingafélög.
    Samkvæmt c-lið er lagt til að tilstuðlan dómsmálaráðuneytis að 11. tölul. greinarinnar, um gjaldtöku fyrir útgáfu leyfis til fasteignasölu, verði felldur brott. Þess í stað verði tekin upp heimild til töku gjalds í 10. gr. laganna fyrir útgáfu leyfis til fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala. Þá er að tilstuðlan sjávarútvegsráðuneytis lagt til að fellt verði brott ákvæði 14. tölul. 11. gr. er varðar gjaldtöku fyrir útgáfu leyfis til starfrækslu rækju- og hörpudiskvinnslu, en þau eru einu fiskvinnslufyrirtækin sem þurfa að sækja um rekstrarleyfi til sjávarútvegsráðuneytis. Orkar það tvímælis út frá jafnræðissjónarmiðum að innheimta einungis leyfisgjald af einni tegund fiskvinnslufyrirtækja. Því er þessi breyting lögð til. Krafan um að sjávarútvegsráðuneytið gefi út rekstrarleyfi til starfrækslu rækju- og hörpudiskvinnslu er frá þeim tíma þegar nauðsynlegt þótti að fylgjast með hvar vinnslur væru staðsettar vegna tengsla vinnslunnar við úthlutun á veiðiheimildum og síðar eftir því sem kvótakerfið þróaðist til þeirrar kröfu sem hvílir á einhverjum skipum sem fá veiðiheimildum úthlutað að þau landi afla sínum til ákveðinnar vinnslu.
    D- og e-liður þarfnast ekki skýringar.
    Samkvæmt f-lið er lagt til að í stað orðanna „Iðju- og iðnaðarleyfi“ komi iðnaðarleyfi þar sem í iðnaðarlögum, nr. 42/1978, með síðari breytingum, er nú stuðst við iðnað sem samheiti iðju og iðnaðar.
    Samkvæmt g-lið er að tilstuðlan iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis lagt til að gjald verði innheimt fyrir þrjú ný leyfi. Eitt er leyfi til rannsókna og nýtingar jarðvarma á lághitasvæðum, grunnvatns og hveraörverum. Annað er leyfi til rannsókna og nýtingar jarðvarma á háhitasvæðum og jarðefnum. Þessi leyfi eru bæði gefin út á grundvelli laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Það þriðja er leyfi til leitar og hagnýtingar á efnum á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga sem er gefið út á grundvelli laga nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, með síðari breytingum. Fjárhæð gjaldtökunnar tekur meðal annars mið af umfangi þeirrar umsýslu sem leyfisveitingarnar kalla á. Þykir eðlilegt að gjald sé tekið fyrir útgáfu framangreindra leyfa til samræmis við önnur ákvæði laga um aukatekjur ríkissjóðs.
    Ákvæði h-liðar þarfnast ekki skýringar.
    Í i-lið er lagt til að gjald verði innheimt fyrir útgáfu fimm mismunandi leyfa. Allt eru þetta leyfi sem gjald hefur verið tekið fyrir á grundvelli 36. tölul. 11. gr. laganna og þarfnast því ekki frekari skýringa.

Um 3. gr.

    Í a-lið er lagt til að 10. tölul. 12. gr. laganna falli brott, eins og áður hefur komið fram, en hann hefur að geyma heimild til töku gjalds fyrir önnur sambærileg leyfi nema gjald sé ákveðið í sérstökum lögum eða reglugerð.
    Samkvæmt b-lið er að tilstuðlan dómsmálaráðuneytis lagt til að heimiluð verði gjaldtaka fyrir útgáfu nokkurra leyfa er varða sölu, kaup og meðferð hættulegra efna og tækja. Gjald fyrir útgáfu þessara leyfa hefur hingað til verið innheimt á grundvelli 10. tölul. greinarinnar og er því ekki um nýja gjaldtöku að ræða.

Um 4. gr.

    Um skýringar á greininni vísast til almennra athugasemda.

Um 5. gr.

    Að tilhlutan dómsmálaráðuneytis er hér lagt til að gjald fyrir ökuskírteini 65 ára og eldri verði lækkað úr 2.000 kr. í 1.000 kr. Rökin eru þau að þeir sem eru 65 ára og eldri þurfa að endurnýja ökuskírteini sín mun oftar en aðrir. Þannig þarf umsækjandi ökuskírteinis sem náð hefur 65 ára aldri en er ekki fullra 70 ára að endurnýja ökuskírteini að liðnum fimm árum, sbr. 6. mgr. 48. gr. reglugerðar nr. 501/1997, um ökuskírteini. Hafi umsækjandi náð 70 ára aldri þegar ökuskírteini er gefið út skal gildistími ökuskírteinis vera þessi, sbr. 7. mgr. fyrrnefndrar reglugerðar:
     c.      hafi umsækjandi náð 70 ára aldri en er ekki orðin 71 árs: Fjögur ár.
     d.      hafi umsækjandi náð 71 árs aldri en er ekki orðin 72 ára: Þrjú ár.
     e.      hafi umsækjandi náð 72 ára aldri en er ekki orðin 80 ára: Tvö ár.
     f.      hafi umsækjandi náð 80 ára aldri: Eitt ár.
    Með vísan til þess að þeir sem eru 65 ára og eldri þurfa að endurnýja ökuskírteini mun oftar en aðrir telur dómsmálaráðuneytið að eðlilegt sé að komið verði til móts við þá með því að gjaldtaka ökuskírteina verði 1.000 kr. í stað núverandi gjalds að fjárhæð 2.000 kr.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 88/1991,
um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta snýr einkum að tekjuhlið ríkissjóðs en með því er lagt til að ákvæði laga um aukatekjur ríkissjóðs verði gerð skýrari um skattskyldu en nú er með því að útfæra gjaldtökuheimildir þannig að þær standist betur kröfur sem ákvæði stjórnarskrárinnar gera til slíkra heimilda. Felst breytingin aðallega í því að afnumdir yrðu safnliðir fjögurra ákvæða gildandi laga en í stað þess er gert ráð fyrir að talin verði upp með tæmandi hætti í lögunum þau gjöld sem innheimt eru. Lagt er til að innheimt verði gjöld fyrir útgáfu tíu leyfa sem fram til þessa hafa verið gefin út án gjalds. Þar er annars vegar um að ræða starfsleyfi á fjármagnsmarkaði og hins vegar leyfi til rannsókna, nýtingar, leitar og hagnýtingar á verðmætum er finnast á lág- og háhitasvæðum og á, í eða undir hafsbotni utan netlaga. Þar sem útgefin leyfi af þeim toga eru ekki mörg á ári hverju eru þær tekjur taldar verða óverulegar. Verði frumvarpið að lögum er ekki talið að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs svo nokkru nemi.