Ferill 260. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 330  —  260. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    1. málsl. 28. gr. laganna orðast svo: Allar breytingar á samþykktum lífeyrissjóðs skal tilkynna fjármálaráðherra og öðlast þær ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest að þær fullnægi ákvæðum laga þessara og ákvæðum gildandi samþykkta fyrir lífeyrissjóðinn að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins.

2. gr.

    Við 29. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
    Stjórn lífeyrissjóðs er heimilt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins án þess að bera þær undir ársfund eins og mælt er fyrir um í 30. gr. og eftir atvikum í samþykktum einstakra lífeyrissjóða, ef þær leiða af ófrávíkjanlegum ákvæðum laga eða reglugerða.

3. gr.

    5. mgr. 31. gr. laganna orðast svo:
    Menntun, starfsreynsla og starfsferill framkvæmdastjóra lífeyrissjóða skal vera með þeim hætti að tryggt sé að hann geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt. Að öðru leyti fer um hæfi framkvæmdastjóra skv. 1. og 2. mgr.

4. gr.

    33. gr. laganna orðast svo:
    Lífeyrissjóður skal hafa í þjónustu sinni starfsmann sem hæfur er til að sinna eignastýringu verðbréfasafna sjóðsins á grundvelli menntunar sinnar og starfsreynslu.
    Lífeyrissjóður sem býður upp á tvo eða fleiri valmöguleika varðandi ávöxtun lífeyrisiðgjalda eða ávinnslu lífeyrisréttinda skal hafa í þjónustu sinni starfsfólk sem hæft er til að sinna ráðgjöf í þeim efnum. Gæta skal þess að ráðgjöf sé sett fram á hlutlægan og faglegan hátt og taki mið af hagsmunum hvers sjóðfélaga. Lífeyrissjóður skal enn fremur láta útbúa skriflegt kynningarefni þar sem gerð er grein fyrir kostum og göllum einstakra valkosta miðað við mismunandi forsendur. Í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi lífeyrissjóða skal þess gætt að fram komi réttar og nákvæmar upplýsingar um starfsemi og þjónustu lífeyrissjóðanna.


Prentað upp.


5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Fjármálaeftirlitsins“ í 5. tölul. 1. mgr. kemur: opinbers eftirlitsaðila.
     b.      9. tölul. 1. mgr. fellur brott og 10. tölul. verður 9. tölul.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                  Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er heimilt að fjárfesta fyrir allt að 10% af hreinni eign sjóðsins í verðbréfum sem falla undir 1., 2., 5., 6. og 8. tölul. 1. mgr. og ekki eru skráð á skipulegum markaði, enda séu verðbréfin gefin út af aðilum innan aðildaríkja OECD. Fjárfestingar í óskráðum hlutabréfum eru þó eingöngu heimilar ef engar hömlur eru á viðskiptum með hlutabréfin og ársreikningar hlutafélaganna öllum aðgengilegir.     
     d.      4. mgr. orðast svo:
                  Eign lífeyrissjóðs í einstökum tegundum verðbréfa skv. 2., 5., 6., og 8. tölul. 1. mgr. skal ekki vera meiri en 50% af hreinni eign sjóðsins.
     e.      Í stað orðanna „2.–9. tölul.“ í 5. mgr. kemur: 2.–8. tölul.
     f.      Í stað hlutfallstölunnar „40%“ í 6. mgr. kemur: 50%.
     g.      8. mgr. orðast svo:
                  Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er þeim lífeyrissjóðum sem keyptu óskráð bréf tengd húsnæðislánum Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna á árunum 1972 til 1994 heimilt að flokka þau sem skráð bréf skv. 1. tölul. 1. mgr.

6. gr.

    37. gr. laganna orðast svo:
    Fjárfestingarstefna lífeyrissjóðs skal byggð á tegundaflokkun innlána og verðbréfa, sbr. 1.–9. tölul. 1. mgr. 36. gr. Hver tegund innlána og verðbréfa skal jafnframt sundurliðuð eftir því sem við á með tilliti til gjaldmiðlaáhættu og stærðar einstakra innlánsaðila eða verðbréfaútgefenda. Lífeyrissjóðir skulu senda upplýsingar um fjárfestingarstefnu sína til Fjármálaeftirlitsins fyrir komandi ár eigi síðar en 1. desember ár hvert.
    Fjármálaráðherra skal í reglugerð setja reglur um form og efni fjárfestingarstefnunnar þar sem m.a. skal mælt fyrir um sundurliðun eftir tímabilum, flokkum verðbréfa og innlána, skýrsluskil o.fl.

7. gr.

    Við 38. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er verða 1. og 2. mgr. og orðast svo:
    Lífeyrissjóður má ekki fjárfesta í fasteignum eða lausafé nema að því marki sem nauðsynlegt er vegna starfsemi sjóðsins.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er lífeyrissjóði heimilt án takmarkana að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Eignirnar skulu seldar eigi síðar en innan 18 mánaða frá yfirtöku eignanna. Heimilt er þó að draga sölu lengur sé það augljóslega í þágu hagsmuna sjóðsins. Slíkan drátt á sölu eigna skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu sem getur þá krafist sölu þeirra innan viðeigandi frests.

8. gr.

    Við 40. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Með ársreikningum lífeyrissjóða skal fylgja fjárfestingarstefna lífeyrissjóðs fyrir komandi ár. Jafnframt skal fylgja úttekt á ávöxtun eignasafna síðastliðins árs. Fjármálaráðherra skal setja nánari reglur um form og efni þessara skýrslna í reglugerð.

9. gr.

    Við 1. mgr. 54. gr. laganna bætist nýr málsliður er verður 2. málsl. og orðast svo: Lífeyrissjóðum sem kjósa að starfa áfram á óbreyttum réttindagrundvelli er þó heimilt að breyta viðmiðum sínum vegna töku lífeyris á grundvelli eftirmannsreglu, sbr. reglugerðir sjóðanna, þannig að lífeyrir breytist í samræmi við meðalbreytingar dagvinnulauna hjá opinberum starfsmönnum samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands.

10. gr.

    51. gr. laganna orðast svo:
    Lífeyrissjóðir sem njóta bakábyrgðar ríkis, sveitarfélaga og banka eru undanþegnir ákvæðum 21., 23. og 39. gr.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 36. gr. er lífeyrissjóðum sem starfandi voru við gildistöku laga nr. 129/1997 ekki skylt að selja eignir í því skyni að fullnægja þeim takmörkunum sem kveðið er á um í greininni.
    Lífeyrissjóðum sem keypt hafa óskráð bréf á grundvelli 9. tölul. 1. mgr. og 3. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997 er ekki skylt að selja óskráð bréf sem keypt voru fyrir gildistöku þessara laga.
    Skuldabréf skv. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1997 sem Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur tekið við, svo og skuldabréf sem Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar hefur tekið við, vegna uppgreiðslu skuldbindinga fyrir gildistöku laga nr. 129/1997 eru undanþegin takmörkunum 2. mgr. 36. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, var starfsgrundvöllur lífeyrissjóðakerfisins treystur með því að heildarlög voru sett um starfsemi lífeyrissjóða. Markmiðið með setningu laganna er að gera launþegum og sjálfstætt starfandi atvinnurekendum að tryggja sér tiltekin lágmarkslífeyrisréttindi, að auka valfrelsi í lífeyrissparnaði, að auka samkeppni á milli lífeyrissjóða og að auka áhrif sjóðfélaga á stefnumörkun og stjórn sjóðanna. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 129/1997 kemur fram að allt fram á þennan áratug hafi framtíð lífeyrissjóðakerfisins verið háð mikilli óvissu. Fjárhagsstaða flestra sjóða hefur hins vegar gjörbreyst á undanförnum árum vegna góðrar ávöxtunar, sameiningar sjóða og breytinga á réttindaákvæðum. Frumvarpi þessu er ekki ætlað að raska á nokkurn hátt þeirri miklu kerfisbreytingu sem fólst í lögum nr. 129/1997 heldur að treysta þann grundvöll sem lífeyriskerfið byggist á, jafnframt því að auka vitund einstaklinga um lífeyrissparnað sinn og aukið valfrelsi í lífeyrismálum. Samhliða traustri starfsemi lífeyrissjóða verður almenningur meðvitaðri um þá hagsmuni sem felast í góðri og tryggri ávöxtun lífeyrisréttinda.
    Að undanförnu hafa forsvarsmenn fjölmargra lífeyrissjóða og samtaka þeirra bent á að nauðsynlegt væri að taka reglur um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða til endurskoðunar með það að markmiði að rýmka heimildir þeirra til fjárfestinga. Í því sambandi hefur verið bent á að vegna örrar þróunar á innlendum fjármagnsmarkaði og aukinna möguleika á fjárfestingu erlendis hefti núverandi fjárfestingarreglur lífeyrissjóði í að ávaxta fjármuni sjóðanna.
    Í 36. gr. laga nr. 129/1997 afmarkaði löggjafinn með skýrum hætti fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Í greininni eru tæmandi taldar þær heimildir sem lífeyrissjóðir hafa til fjárfestinga. Markmið þessara reglna er að stuðla að því að fé lífeyrissjóða sé ávaxtað með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru í boði á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Meginrökin fyrir því að kveða á um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða í lögum í stað þess að fela forsvarsmönnum lífeyrissjóða sjálfdæmi um fjárfestingar sjóðanna eru þau að um skyldubundinn lífeyrissparnað er að ræða sem ætlað er að tryggja mikilsverð réttindi einstaklinga. Sjóðfélögum er jafnframt að meginreglu til óheimilt að flytja áunnin réttindi sín í aðra lífeyrissjóði. Nauðsynlegt verður því að telja að fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða séu settar nokkrar skorður í lögum til að stuðla að því að eðlilegrar varkárni sé gætt í fjárfestingum.
    Í frumvarpinu eru lagðar til þrjár efnisbreytingar á reglum um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða.
     a.      Í fyrsta lagi er lagt til að heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í skráðum skuldabréfum bæjar- og sveitarfélaga, skuldabréfum og víxlum banka, sparisjóða og annarra lánastofnana sem lúta eftirliti opinbers eftirlitsaðila, hlutabréfum fyrirtækja og öðrum verðbréfum verði hækkuð úr 35% í 50%.
     b.      Í öðru lagi að heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í erlendum gjaldmiðlum verði aukin úr 40% af hreinni eign sjóðanna í 50%.
     c.      Loks er lagt til að heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í óskráðum verðbréfum nái jafnt til verðbréfa sem gefin eru út af innlendum og erlendum aðilum en ekki einungis innlendum eins og nú er.
    Með breytingunum er komið til móts við þau sjónarmið sem komið hafa fram um að skynsamlegt sé að rýmka heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga þar sem núverandi reglur séu til þess fallnar að draga úr möguleikum lífeyrissjóða á að nýta sér þá fjárfestingarkosti sem þeir telja vænlegasta. Rýmkun á heimild til að fjárfesta í erlendum gjaldmiðlum mun hins vegar hafa það í för með sér að gengisáhætta lífeyrissjóða getur orðið meiri en nú er. Á móti vegur að lífeyrissjóðum gefst nú kostur á að dreifa áhættu af fjárfestingum í verðbréfum í meiri mæli á mismunandi markaði og draga þannig úr áhrifum staðbundinna sveiflna á hag sjóðanna. Jafnframt er bent á að rýmkun á heimildum lífeyrissjóða til fjárfestinga í hlutabréfum og verðbréfum í erlendum gjaldmiðlum er í samræmi við það álit sem fram kemur í ársskýrslu OECD fyrir árið 1999, að rétt sé að auka heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í hlutabréfum og verðbréfum í erlendum gjaldmiðlum þar sem það gefi þeim færi á að dreifa eignum sínum betur og möguleika á aukinni arðsemi fjárfestinga. Loks má nefna að það nýmæli að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum, útgefnum af erlendum aðilum, veitir sjóðunum rýmri möguleika á að nýta sér arðvænlega fjárfestingarkosti erlendis. Um leið hvílir aukin ábyrgð á stjórnendum sjóðanna að afla sér nauðsynlegra gagna til að þeir geti metið þá áhættu sem í fjárfestingunni felst, því að eftir sem áður ber stjórn lífeyrissjóðs að ávaxta fé sjóðsins með það að markmiði að ná góðri en jafnframt öruggri ávöxtun, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997.
    Það aukna svigrúm sem felst í framangreindum breytingum gefur lífeyrissjóðum aukið frelsi til að móta mismunandi fjárfestingarstefnu með hliðsjón af ólíkum hagsmunum einstakra hópa sjóðfélaga. Þannig gefast þeim nú frekari möguleikar á að bjóða mismunandi fjárfestingarstefnu með tilliti til aldurs og tekna sjóðfélaga. Með því opnast rýmri möguleikar fyrir lífeyrissjóði til að gefa yngri sjóðfélögum og þeim sem þegar hafa tryggt sér öruggan lífeyri kost á því að ávaxta stærri hluta lífeyrissparnaðar í hlutabréfum og/eða erlendum gjaldmiðlum þar sem hagsmunir þeirra eru ekki eins háðir tímabundnum sveiflum á fjármagnsmörkuðum og annarra hópa sjóðfélaga.
    Samhliða auknu frelsi í fjárfestingum lífeyrissjóða eru gerðar auknar kröfur til hæfni stjórnenda lífeyrissjóða. Þannig er lagt til að gerðar verði almennar hæfiskröfur til framkvæmdastjóra lífeyrissjóða, með sama hætti og nú er gert til framkvæmdastjóra viðskiptabanka, sparisjóða og annarra fjármálastofnana, og mælt fyrir um að lífeyrissjóðir hafi í þjónustu sinni aðila sem hæfur er til að stýra eignasafni sjóðanna. Með hliðsjón af því að hlutverk lífeyrissjóða varðandi fjármálaráðgjöf til sjóðfélaga hefur aukist og mun aukast enn samhliða fleiri valmöguleikum á þessu sviði eru gerðar kröfur um að lífeyrissjóðir tryggi sjóðfélögum sínum ráðgjöf varðandi þá valkosti sem í boði eru svo að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um þá kosti sem þeim standa til boða.
    Með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan er haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð var með lögfestingu laga nr. 129/1997 og lögð er áhersla á í ákvæði til bráðabirgða II með lögunum. Það er að tryggja lífeyrissjóðum svigrúm til að bjóða upp á örugga valkosti í lífeyrismálum sem fela í sér grunnþætti samtryggingar en gefa um leið möguleika á því að sinna þörfum mismunandi hópa. Þær reglur sem lúta að ávinnslu lífeyrisréttinda og fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða eru í eðli sínu þannig að þær þurfa að taka mið af þróun þess umhverfis sem þeim er ætlað að þjóna á hverjum tíma. Því er fyrirséð að í framtíðinni verði skoðaðir frekari möguleikar á því að heimila lífeyrissjóðum að móta starfsemi sína á þann veg að þeir geti boðið upp á leiðir sem fela í sér meiri sveigjanleika með tilliti til fjárhagslegrar og félagslegrar stöðu einstakra sjóðfélaga.
    Um nánari skýringar á framangreindum breytingum og öðrum breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu vísast til athugasemda við einstakar greinar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lagt er til að lögfest verði að fjármálaráðherra sé ekki heimilt að staðfesta breytingar á samþykktum einstakra lífeyrissjóða fyrr en að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins um breytingarnar. Það er í samræmi við þær reglur sem gilda um útgáfu starfsleyfa fyrir lífeyrissjóði. Með þessu er stuðlað að vandaðri málsmeðferð þar sem tryggt er að Fjármálaeftirlitið geti gert efnislegar athugasemdir við breytingar á samþykktum lífeyrissjóða áður en þær öðlast gildi.

Um 2. gr.

    Lagt er til að stjórnum lífeyrissjóða verði heimilt að breyta samþykktum þeirra án þess að boða til ársfundar eða aukaársfundar til að kynna breytingartillögurnar þar í þeim tilvikum sem breytingarnar leiðir af ófrávíkjanlegum ákvæðum laga eða reglugerða. Í þessu er fólgið mikið hagræði þar sem tímafrekt er og oft kostnaðarsamt að boða til ársfundar eða aukaársfundar. Með þessu er þó ekki dregið úr möguleikum sjóðfélaga á að hafa áhrif á málefni sinna sjóða þar sem heimildin er bundin við það að um sé að ræða breytingar sem leiðir af ófrávíkjanlegum ákvæðum laga eða reglugerða.

Um 3. gr.

    Lagt er til að í lögum verði gerð krafa um að menntun framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs sé með þeim hætti að hann geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt. Ákvæðið er efnislega samhljóða því sem gildir um bankastjóra og sparisjóðsstjóra samkvæmt lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Um er að ræða svokallaðan „fit and proper-mælikvarða“ sem beitt er á öllum sviðum fjármagnsmarkaðar. Eðlilegt þykir að sömu kröfur séu gerðar í þessum efnum til framkvæmdastjóra lífeyrissjóða og almennt gilda um framkvæmdastjóra annarra fjármálastofnana.

Um 4. gr.

    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að lífeyrissjóður hafi í þjónustu sinni sérfræðing sem sé fær um að stýra fjárfestingum lífeyrissjóðs á grundvelli menntunar sinnar og starfsreynslu. Með greindum kröfum er t.d. átt við aðila sem hefur lögfræði-, viðskiptafræði-, hagfræði- eða verkfræðimenntun auk reynslu af stýringu eignasafna eða sambærilegum störfum. Rétt þykir að gera ríkar kröfur í þessum efnum þar sem ör þróun á fjármálamarkaði hefur það í för með sér að starfsemi á þeim vettvangi krefst aukinnar sérhæfingar. Umræddur sérfræðingur getur verið hvort heldur sem er starfsmaður sjóðsins eða verktaki.
    Í ljósi þess að lífeyrissjóðir gegna sífellt stærra hlutverki í fjármálaráðgjöf við einstaklinga þykir rétt að tryggja að þeir hafi tilteknar lágmarksupplýsingar fyrir sjóðfélaga sína til þess að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um þá valkosti sem þeim standa til boða. Auk þess eru settar almennar vísireglur um það hvernig lífeyrissjóðum ber að haga ráðgjöf sinni.
    Í greininni felst jafnframt að núgildandi grein fellur brott en samkvæmt henni getur sjóðfélagi borið úrskurð sjóðstjórnar undir gerðardóm ef hann vill ekki una honum.

Um 5. gr.

    Um a-lið: Hér er einungis um formbreytingu að ræða.
     Um b- og c-lið: Samkvæmt gildandi reglum nær heimild til fjárfestinga í óskráðum verðbréfum, þar með talið hlutabréfum, einungis til innlendra verðbréfa. Lagt er til að heimild til fjárfestinga í óskráðum verðbréfum nái jafnt til innlendra og erlendra verðbréfa en megi þó ekki nema meira en 10% af hreinni eign lífeyrissjóðs.
     Um d-lið: Lagt er til að heimild lífeyrissjóða til fjárfestinga í skráðum skuldabréfum bæjar- og sveitarfélaga, skuldabréfum og víxlum banka, sparisjóða og annarra lánastofnana sem lúta eftirliti opinbers eftirlitsaðila hlutabréfum fyrirtækja og öðrum verðbréfum verði hækkuð úr 35% í 50%. Með því er komið til móts við óskir forsvarsmanna fjölmargra lífeyrissjóða um rýmkun í þessum efnum. Markmiðið með rýmkuninni er að gera lífeyrissjóðum betur kleift að fjárfesta í þeim verðbréfum sem þeir telja að gefi sem hæsta ávöxtun. Rýmkunin gerir jafnframt auknar kröfur til stjórna og framkvæmdastjóra lífeyrissjóða um að þeir gæti þess að fjárfestingarstefna sjóðanna sé mótuð með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu.
    Um e-lið: Hér er um formbreytingu að ræða sem leiðir af þeim breytingum sem gert er grein fyrir í umfjöllun um b- og c-lið.
     Um f-lið: Lagt er til að heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í erlendum gjaldmiðlum verði aukin úr 40% af hreinni eign sjóðanna í 50%. Breytingin gefur lífeyrissjóðum möguleika á því að fjárfesta fyrir stærri hluta af eignum sjóðanna á erlendum verðbréfamörkuðum og nýta þannig betur þá ávöxtunarmöguleika sem þar bjóðast. Breytingin hefur það í för með sér að gengisáhætta sjóðanna getur verið heldur meiri en samkvæmt gildandi lögum en á móti kemur að lífeyrissjóðum gefst kostur á að dreifa áhættu af fjárfestingum í verðbréfum í meira mæli á mismunandi markaði og draga þannig úr áhrifum staðbundinna verðsveiflna á hag sjóðanna.
     Um g-lið: Á árunum 1972 til 1994 keyptu ýmsir lífeyrissjóðir óskráð, ríkistryggð bréf tengd húsnæðislánum Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, síðar Húsnæðisstofnunar ríkisins, ýmist til að uppfylla skyldu samkvæmt lögum eða samningum við ríkið. Vegna framangreinds er eign margra þessara lífeyrissjóða í óskráðum verðbréfum umfram þau mörk sem kveðið er á um í 3. mgr. laga nr. 129/1997 og svigrúm þeirra til frekari fjárfestinga í óskráðum verðbréfum því ekkert. Því er lagt til í g-lið að þeim lífeyrissjóðum sem þetta á við um sé heimilt að flokka umrædd bréf með skráðum bréfum skv. 1. tölul. 1. mgr. 36. gr. laganna.

Um 6. gr.

    Til að stuðla að ábyrgri fjármálastjórn er lagt til að gerðar verði ríkari kröfur til stjórnar lífeyrissjóðs um mótun fjárfestingarstefnu. Með þessu móti er stjórnum lífeyrissjóða tryggt meira aðhald en er samkvæmt gildandi reglum. Markmiðið er að framsetning fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða verði þannig að unnt sé að meta betur en nú er raunverulegan árangur af fjárfestingarstefnu sjóðanna frá einum tíma til annars. Breytingin hefur hins vegar ekki áhrif á þær kröfur sem nú eru gerðar til tryggingafræðilegrar úttektar á stöðu lífeyrissjóða. Í greininni er lagt til að fjármálaráðherra setji nánari reglur í þessum efnum.
    

Um 7. gr.

    Með greininni er verið að sameina efni núgildandi 37. og 38. gr. Ekki er um neina efnisbreytingu að ræða.

Um 8. gr.

    Með greininni eru gerðar ríkari kröfur en samkvæmt gildandi grein í tengslum við mótun fjárfestingarstefnu fyrir lífeyrissjóði og úttekt á árangri hennar. Þessar auknu kröfur eru gerðar í ljósi þess að lífeyrissjóðir gegna nú auknu hlutverki á fjármagnsmarkaði og er ætlað að veita réttindi sem eru ein af meginstoðum velferðarkerfisins.

Um 9. gr.

    Í gildandi reglugerðum flestra lífeyrissjóða sveitarfélaga er mælt fyrir um að lífeyrir sé ákvarðaður á grundvelli svokallaðrar eftirmannsreglu. Það þýðir að lífeyrir ellilífeyrisþega tekur mið af launum þess sem gegnir sambærilegu starfi og ellilífeyrisþegi gegndi áður en hann hóf töku ellilífeyris. Forsvarsmenn ýmissa lífeyrissjóða sem þetta á við um hafa bent á að þessi leið sé iðulega illfær sökum þess að í mörgum tilvikum hefur orðið grundvallarbreyting á launakerfi sveitarfélaga og oft er búið að leggja af þau störf sem miða skal við sökum breytinga á starfsemi sveitarfélaga og atvinnuháttum almennt.
    Því er lagt til að lífeyrissjóðum sem kjósa að starfa áfram á óbreyttum réttindagrundvelli samkvæmt sérreglu 1. mgr. 54. gr. laga nr. 129/1997 verði heimilað að breyta viðmiðum vegna töku lífeyris á grundvelli eftirmannsreglu reglugerða sjóðanna þannig að lífeyrir verði til samræmis við meðalbreytingar sem verða á launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu útgefnum af Hagstofu Íslands. Með þessari breytingu er lífeyrissjóðum sveitarfélaga heimilt að taka upp sömu reglur um þessi atriði og gilda hjá B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins enda eru réttindareglur lífeyrissjóða sveitarfélaga byggðar á sömu réttarreglum.


Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 11. gr.

    Í grein þessari er lagt til að lífeyrissjóðir sem njóta bakábyrgðar ríkis, sveitarfélaga og banka verði undanþegnir 21. gr. laganna. Í tilvitnaðri grein er mælt fyrir um að a.m.k. 800 sjóðfélagar skuli að jafnaði greiða iðgjald til lífeyrissjóðs. Að öðrum kosti beri sjóðnum að grípa til tiltekinna tryggingaráðstafana.
    Bent hefur verið á af forsvarsmönnum þessara sjóða að eðli málsins samkvæmt muni sjóðfélögum þessara sjóða fækka vegna áskilnaðar 54. gr. laganna um að heimildin taki einungis til sjóðfélaga sem áttu aðild að sjóðunum við gildistöku laga nr. 129/1997 og að bakábyrgðinni sé ætlað að tryggja sjóðfélaga með fullnægjandi hætti.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ekki þykir ástæða til að gera kröfu til þess að lífeyrissjóðir selji verðbréf sem þeir hafa keypt samkvæmt heimildum í gildandi reglum um fjárfestingu lífeyrissjóða þrátt fyrir að þeim verði það óheimilt að breyttum lögum.
    Efni 1. mgr. er nú í 8. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997 en efni 2. mgr. er nýmæli sem byggist á sömu sjónarmiðum og efni 1. mgr.
    Í 3. mgr. er lagt til að brugðist verði við vanda Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna uppgjörs á skuldbindingum samkvæmt heimild í 3. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1997 fyrir gildistöku laga þessara. Jafnframt er lagt til að heimildin taki til Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar. Gert er ráð fyrir að í framtíðinni verði þau skuldabréf sem sjóðirnir taka við vegna uppgjörs skuldbindinga annaðhvort skráð á skipulegum markaði eða að þau falli undir 2. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997,
um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

    Tilgangur frumvarpsins er að rýmka þær reglur sem lúta að fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða og auka kröfur til stjórnenda lífeyrissjóða og tryggja sjóðfélögum fjármálaráðgjöf. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.