Ferill 117. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 377  —  117. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1999.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Í ræðu formanns nefndarinnar við 2. umræðu um frumvarpið kom fram að fjallað hefði verið um nokkur mál í nefndinni sem frestað var til 3. umræðu að taka ákvörðum um. Umfjöllun um þau mál er nú lokið í nefndinni.
    Tekjur hækka frá frumvarpinu um 13,1 milljarð kr. Tekjuskattur einstaklinga hækkar um 1,4 milljarða kr., tekjuskattur lögaðila um 1,2 milljarða kr. og virðisaukaskattur um 1,6 milljarða kr. Söluhagnaður hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins nemur 2,8 milljörðum kr. og áætlaður söluhagnaður hlutabréfa í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands nemur 4,5 milljörðum kr., eða samtals um 7,3 milljörðum kr.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstökum þingskjölum. Þær varða 1. gr. frumvarpsins, sbr. sundurliðun 1 og 2, 5. gr. fjárlaga fyrir árið 1999, um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir, og 7. gr. fjárlaga fyrir árið 1999, þ.e. heimildagrein. Breytingar við sundurliðun 2 nema alls 2.600 m.kr. Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem fjallað verður nánar um þær í framsögu.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins

201     Alþingi. Gerð er tillaga um 6 m.kr. hækkun á viðfangsefninu 1.01 Alþingiskostnaður. Aðallega er um að ræða akstur, flugferðir og símakostnað þingmanna.

01 Forsætisráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Á viðfangsefni 1.15 Útboðs- og einkavæðingarverkefni er lögð til 64 m.kr. fjárveiting til að standa undir kostnaði við sölu á 15% hlut ríkissjóðs í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands nú í desember. Lög um söluna voru nýlega samþykkt og er um að ræða sölulaun og sölukostnað.
             Þá er gerð tillaga um 1 m.kr. hækkun á greiðsluframlagi til 01-190 1.42 Grænlandssjóðs en fjárveiting er óbreytt. Hér er um að ræða lagfæringu á skekkju í breytingu á framsetningu á vaxtatekjum liðarins sem gerð var við 2. umræðu um frumvarpið.

02 Menntamálaráðuneyti

872     Lánasjóður íslenskra námsmanna. Lagt er til að framlag til sjóðsins lækki um 30 m.kr. og nemi 1.780 m.kr. Útlán á árinu munu nema 2.970 m.kr. í stað 3.140 m.kr. samkvæmt áætlun fjárlaga þrátt fyrir sérstaka 5% hækkun grunnframfærslu í mars sl. í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar. Frávikið er 170 m.kr. eða 5,4% og skýrist annars vegar af fækkun lánþega um 4,3% milli ára í stað 1% fjölgunar eins og gert var ráð fyrir og hins vegar af atvinnuþátttöku og tekjum lánþega umfram forsendur áætlunar. Hækkun tekna greiðenda námslána gerir áætlað 100 m.kr. framlag í afskriftasjóð útlána óþarft og eykur afborganir þeirra um 200 m.kr. vegna tekjutengingar. Fyrirhugað er að nýta rúma greiðslustöðu til að greiða upp 295 m.kr. af óhagstæðu láni fyrir árslok.
919     Söfn, ýmis framlög. Á nýju viðfangsefni, 6.23 Gestastofa í Skaftafelli, er gerð tillaga um 15 m.kr. framlag vegna skipulagsbreytinga á húsnæði Náttúruverndarráðs í tengslum við uppsetningu gestastofu.

07 Félagsmálaráðuneyti

801     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Lögbundið framlag ríkissjóðs í sjóðinn tekur mið af innheimtum skatttekjum ríkisins innan ársins og útsvarsstofni næstliðins árs. Í ljósi endurskoðunar á skatttekjum ríkissjóðs á árinu er farið fram á að framlagið verði hækkað um 50 m.kr.
             Einnig er lagt til að veitt verði 700 m.kr. sérstakt framlag í sjóðinn. Er framlagið byggt á sameiginlegu mati ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að grípa þurfi til sérstakra tímabundinna ráðstafana sem felast annars vegar í því að greitt verði sérstakt 350 m.kr. framlag til sveitarfélaga þar sem íbúum hefur fækkað árin 1997–99 og hins vegar að þjónustuframlög hækki um 350 m.kr. Er framlögunum ætlað að koma til móts við vanda sveitarfélaga sem hafa ekki haft möguleika á að draga úr rekstri og þjónustu til samræmis við fækkun íbúa og samdrátt í skatttekjum. Félagsmálaráðherra mun setja nánari reglur um úthlutun fjárins í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

208     Slysatryggingar. Gerð er tillaga um 135 m.kr. fjárveitingu á nýju viðfangsefni undir þessum lið, 1.16 Kaup og aflahlutur sjómanna. Þessar greiðslur til sjómanna eru fjármagnaðar með slysatryggingagjaldi á laun þeirra en það færist jafnframt sem ríkistekjur og verður afkoma ríkissjóðs því óbreytt eftir sem áður. Við breytingar á framsetningu slysatrygginga sem gerðar voru í fjárlögum ársins 1998 vegna gildistöku nýrra laga um fjárreiður ríkisins láðist að gera ráð fyrir þessum greiðslum.
379     Sjúkrahús, óskipt. Farið er fram á 1.650 m.kr. heimild vegna skuldbindingar í samningi milli ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar, dags. 17. desember 1998, um að ríkissjóður taki yfir rekstur og eignir Sjúkrahúss Reykjavíkur. Samið var um að ríkissjóður greiddi fyrir þær eignir sem Reykjavíkurborg hefur lagt sjúkrahúsinu til umfram lögboðinn 15% hlut sveitarfélaga í byggingu sjúkrahúsa. Í samræmi við niðustöðu mats skv. 6. gr. samningsins skal ríkissjóður greiða um 1.650 m.kr. fyrir eignir umfram 15% í Sjúkahúsi Reykjavíkur í Fossvogi, Grensásdeild og vistheimilinu Arnarholti og fyrir yfirtöku fasteignanna nr. 15 við Kleifarveg og nr. 37 við Skólavörðustíg í Reykjavík. Í samræmi við ákvæði fjárreiðulaga er nú sótt um að skuldbindingin komi fram í fjárlögum fyrir árið 1999 án greiðsluheimildar. Skal gera makaskipti á eignum við Reykjavíkurborg á móti útgjaldaheimildinni þegar endanleg niðurstaða liggur fyrir.

09 Fjármálaráðuneyti

381     Lífeyrisskuldbindingar, eftirlaun. Breytingar verða á framlagi til tveggja lífeyrissjóða. Í byrjun ársins 1998 var lífeyrisiðgjald sem ríkisstofnanir greiða vegna starfsmanna sinna til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga hækkað úr 6% í 11,5%. Í samræmi við ákvæði í 34. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og 20. gr. laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga hefur í fjárlögum verið gert ráð fyrir að þessi viðbótarlífeyrisiðgjöld dragist frá greiðslum ríkissjóðs til B-deildar lífeyrissjóðanna vegna uppbóta á lífeyri í kjölfar launahækkana. Nú er fyrirhugað að þessum lagaákvæðum verði breytt á þann veg að B-deildir lífeyrissjóðanna fái uppbæturnar greiddar að fullu á árinu 1999 þannig að þeir verði betur í stakk búnir til þess að mæta skuldbindingum sínum í framtíðinni.
             Þessi ráðstöfun veldur því að greiðslur ríkissjóðs til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins verða 1.255 m.kr. hærri en áformað var í fjárlögum. Þá hefur áætlun um lífeyrisuppbæturnar verið endurskoðuð og er nú gert ráð fyrir að þær greiðslur verði 437 m.kr. hærri en miðað var við í fjárlögum. Samtals hækka því greiðslur til B-deildar lífeyrissjóðsins um 1.692 m.kr. Í fjárlögum var gert ráð fyrir að gjaldfærðar lífeyrisskuldbindingar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins mundu hækka um 7,2 milljarða kr. á árinu 1999. Sú áætlun hefur einnig verið endurmetin og er nú talið að lífeyrisskuldbindingarnar verði 1.446 m.kr. lægri en samkvæmt fjárlögum. Skýrist það einkum af því að aðlögunarsamningum var að mestu lokið árið 1998 og komu þeir fyrr til framkvæmda en miðað var við í fyrri áætlun.
             Greiðslur ríkissjóðs til Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga verða 35 m.kr. hærri en áformað var í fjárlögum. Þá hefur áætlun um lífeyrisuppbæturnar verið endurskoðuð og er nú gert ráð fyrir að þær greiðslur verði 83 m.kr. hærri en miðað var við í fjárlögum. Samtals hækka því greiðslur til B-deildar lífeyrissjóðsins um 118 m.kr. Í fjárlögum var gert ráð fyrir að gjaldfærðar lífeyrisskuldbindingar Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga mundu hækka um 380 m.kr. á árinu 1999. Sú áætlun hefur einnig verið endurmetin og eru nú talið að lífeyrisskuldbindingarnar verði 236 m.kr. hærri en samkvæmt fjárlögum.
402     Fasteignamat ríkisins. Gerð er tillaga um að 100 m.kr. sem færðar eru sem sértekjur í fjárlögum vegna afnotagjalda fyrir fasteignamatsskrá verði felldar niður og færðar í þess stað sem rekstrartekjur stofnunarinnar á tekjuhlið ríkissjóðs. Þessa breyttu framsetningu leiðir af breyttum skilgreiningum á tekjunum samkvæmt nýlegum lögum um fjárreiður ríkisins. Tillagan snýr einungis að fjármögnun á rekstri stofnunarinnar en útgjöld hennar verða óbreytt eftir sem áður.
481     Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum. Lagt er til að fjárheimild þessa fjárlagaliðar verði hækkuð um 90 m.kr. vegna ýmissa heimildarákvæða sem nú stefnir í að verði umfram það sem áætlað var við 1. umræðu um frumvarpið.
721     Fjármagnstekjuskattur. Gerð er tillaga um 1.090 m.kr. hækkun á fjárheimild þessa liðar þar sem færa þarf til gjalda 10% fjármagnstekjuskatt af söluhagnaði eigna, en skatturinn færist samhliða sem ríkistekjur og hefur því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs. Þessi tilhögun skýrist af því að samkvæmt lögum um skatt á fjármagnstekjur er ríkissjóður ekki undanþeginn skattgreiðslum af fjármagnstekjum sínum.
821     Vaxtabætur. Lagt er til að vaxtabætur lækki um 70 m.kr. þar sem fyrirframgreiðslur vaxtabóta á kaupári íbúðar hafa ekki orðið eins miklar og áætlað var við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1999. Í fjárlögum er áætlað að vaxtabætur hækki um 170 m.kr. vegna greiðslna á kaupári eignar. Í ljósi greiðslna það sem af er árinu er lagt til að sú áætlun verði lækkuð um 70 m.kr.

10 Samgönguráðuneyti

335     Siglingastofnun Íslands. Lögð er til 10 m.kr. hækkun fjárveitinga til viðfangsefnisins 6.76 Ferjubryggjur til að standa undir kostnaði við viðgerðir á ferjubryggjunum í Flatey á Breiðafirði og Mjóafirði í Suður-Múlasýslu.

Alþingi, 13. des. 1999.



Jón Kristjánsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Árni Johnsen.



Ísólfur Gylfi Pálmason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Hjálmar Jónsson.



Kristján Pálsson.