Ferill 109. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 440  —  109. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um reynslusveitarfélög, nr. 82/1994.

Frá félagsmálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elínu Blöndal og Hermann Sæmundsson frá félagsmálaráðuneyti og Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þá bárust umsagnir um málið frá Reykjavíkurborg, Fjarðabyggð, Akureyrarbæ, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjanesbæ og Samtökum sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra.
    Í frumvarpinu er lagt til að gildistími laga um reynslusveitarfélög verði framlengdur til 1. janúar 2002 þar sem hluti þeirra tilraunaverkefna sem standa yfir hófst seinna en ráð var fyrir gert og fyrirsjáanlegt er að ekki verði fengin af þeim nægileg reynsla áður en gildistíminn rennur út. Einnig verða væntanlega viðamikil verkefni framlengd ef vilji reynslusveitarfélags og ráðherra er fyrir hendi.
    Í frumvarpinu er lagt til að ákveðnar greinar um heimildir ráðherra til að víkja frá ákvæðum einstakra laga verði felldar brott. Í 5. gr. er lagt til að heimild umhverfisráðherra til að víkja frá ákvæðum byggingarlaga, nr. 54/1978, verði felld brott. Í greinargerð með frumvarpinu segir að gert sé ráð fyrir að umhverfisráðherra leggi samhliða frumvarpi þessu fram frumvarp til breytinga á skipulags- og byggingarlögum þar sem mælt verði fyrir um þær heimildir sem tilraunaverkefni reynslusveitarfélaga byggjast á. Nokkur bið varð á því að frumvarp þetta kæmi fram og hefur nefndin því beðið með afgreiðslu málsins. Þar sem umhverfisnefnd Alþingis hefur nú lagt fram frumvarp til laga um breytingar á skipulags- og byggingarlögum sem ætlað er að taka á þessu máli telur nefndin að málið sé leyst á viðunandi hátt.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Ólafur Örn Haraldsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. des. 1999.Arnbjörg Sveinsdóttir,


form., frsm.


Pétur H. Blöndal.


Valgerður Sverrisdóttir.Guðrún Ögmundsdóttir.


Drífa Hjartardóttir.


Kristján L. Möller.Steingrímur J. Sigfússon,


með fyrirvara.


Kristján Pálsson.