Ferill 160. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 480   —  160. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, o.fl.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.    Alþingi getur með almennum lögum ákveðið hvar ríkisstofnun skal hafa aðsetur sé ekki á annan veg mælt í stjórnarskrá. Ákvæði stjórnarskrár setja þessum valdheimildum Alþingis einvörðungu skorður um aðsetur forseta Íslands, ráðuneyta og Alþingis, sbr. 12., 13. og 37. gr. stjórnarskrárinnar. Þannig skal forsetinn hafa aðsetur í Reykjavík eða nágrenni. Ráðuneyti skulu á hinn á bóginn hafa aðsetur í Reykjavík og þar skal samkomustaður Alþingis jafnaðarlega einnig vera. Þegar þessum takmörkunum sleppir getur Alþingi ákveðið hvar ríkisstofnanir skulu hafa aðsetur með almennum lögum. Ákveði Alþingi á hinn bóginn að taka ekki afstöðu til staðsetningar stofnunar í lögum var talið að það félli í hlut þess ráðherra sem stofnunin heyrði undir, allt þar til Hæstiréttur kvað upp þann dóm 18. desember 1998 að ákvörðun umhverfisráðherra um að flytja starfsemi Landmælinga Íslands til Akraness væri ólögmæt.
    Í dómi Hæstaréttar segir að ef ekki eru bein fyrirmæli í lögum um hvar ríkisstofnanir skuli hafa aðsetur þá skuli þær staðsettar í Reykjavík. Hæstiréttur hafnaði með öðrum orðum þeirri reglu sem menn álitu að gilti að ráðherra hefði frjálst val um hvar stofnanir væru staðsettar.
    Efnisleg niðurstaða dómsins var því sú að ráðherra hefði ekki vald yfir því hvar stofnanir skyldu vera. Það vald væri hjá Alþingi. Það kom því ekki á óvart að ráðherrar brygðust hart við og legðu í skyndi fram frumvarp til laga sem tryggði að þeir hefðu þetta vald ef Alþingi tæki ekki ákvörðun um staðsetningu stofnunar. Í þessu frumvarpi um breytingu á lögum, nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, er gengið jafnvel enn lengra, en samkvæmt því er ráðherra fengið vald til að flytja stofnanir sem þegar hafa verið settar á fót.
    Það er vissulega umhugsunarefni að þegar Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að valdið til að ákveða staðsetningu stofnunar og flutning hennar sé hjá Alþingi skuli meiri hluti Alþingis samþykkja athugasemdalaust beiðni framkvæmdarvaldsins um að fá þetta vald til sín. Það er alrangt að niðurstaða Hæstaréttar hafi haft í för með sér réttaróvissu. Þess í stað greiddi Hæstiréttur úr óvissu. Hann kvað skýrt á um að reglan væri sú að valdið til að ákveða hvar setja skyldi niður ríkisstofnanir væri hjá Alþingi. Ef Alþingi ákvæði að nýta sér ekki þetta vald skyldi stofnunin staðsett í Reykjavík. Ráðherrar hefðu ekki vald til að ákveða einhliða staðsetningu nýrra ríkisstofnana eða flutning þeirra sem fyrir eru. Þetta getur ekki verið skýrara. Það er því útúrsnúningur meiri hlutans að halda því fram að með þessu frumvarpi sé verið að eyða réttaróvissu því að hún var ekki til staðar.
    Það er mat minni hlutans að vald til þess að ákveða staðsetningu og flutning ríkisstofnunar eigi að vera hjá Alþingi og skuli sú ákvörðun tekin af Alþingi hverju sinni. Með því móti verði komist hjá því að ráðherrar taki geðþóttaákvarðanir um flutning ríkisstofnana. Slíkar ákvarðanir geta komið mjög hart niður á starfsmönnum og fjölskyldum þeirra. Það er því ekki í samræmi við lýðræðisleg vinnubrögð að fela ráðherrum einræðisvald til að ákveða hvar slíkar stofnanir skuli vera eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Því leggst minni hlutinn gegn samþykkt þess í heild sinni en mun sitja hjá við atkvæðagreiðslu um 2. gr. þar sem sú grein hefur m.a. að geyma nauðsynlega löggjöf vegna fyrri ákvarðana um staðsetningu stofnana utan Reykjavíkur.
    Ögmundur Jónasson sem sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 14. des. 1999.Lúðvík Bergvinsson,


frsm.


Guðrún Ögmundsdóttir.