Ferill 21. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 579  —  21. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um breytingu á starfsheiti landslagshönnuða.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Guðmund Gunnarsson, fyrrverandi formann Arkitektafélags Íslands, Guðbjörgu Magnúsdóttur og Hall Kristvinsson frá Félagi húsgagna- og innanhússarkitekta, Gísla Gíslason frá Félagi íslenskra landslagsarkitekta, Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur og Valdísi Bjarnadóttur frá Arkitektafélagi Íslands, Hellen M. Gunnarsdóttur frá menntamálaráðuneyti, Þórð Kristinsson, framkvæmdastjóra kennslusviðs Háskóla Íslands, og Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Arkitektafélagi Íslands, Félagi íslenskra landslagsarkitekta, Félagi húsgagna- og innanhússarkitekta, Samtökum atvinnulífsins og Íslenskri málstöð.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingu á starfsheiti landslagshönnuða þannig að þeir hljóti löggildingu undir starfsheitinu landslagsarkitektar. Nefndin leggur jafnframt til frekari breytingar þess efnis að starfsheiti húsgagna- og innanhússhönnuða verði breytt þannig að þeir hljóti löggildingu undir starfsheitinu húsgagna- og innanhússarkitektar. Nefndin leggur hins vegar áherslu á að allir þessir aðilar hafi lokið námi á háskólastigi í viðkomandi grein til þess að þeir geti hlotið löggildingu undir starfsheitinu landslags-, húsgagna- og innanhússarkitektar, þ.e. að þeir hafi prófgráðu á háskólastigi í viðkomandi fagi. Nefndin bendir jafnframt á að heiti starfsgreinanna landslagsarkitekt, húsgagnaarkitekt og innanhússarkitekt séu í raun samsett úr tveimur orðum þar sem fyrri hluti hvers heitis gefur til kynna takmarkað sérsvið viðkomandi arkitekts. Ekki sýnist hætta á að misskilið verði við hverja af þessum stéttum er átt hverju sinni.
    Við athugun á ákvæðum, stjórnvaldsfyrirmælum og viðmiðunum um löggildingu starfsstétta almennt kemur í ljós að tilviljun virðist oft ráða hvaða skilyrðum starfsstétt þarf að fullnægja til þess að hljóta löggildingu. Almennt virðist t.d. ekki gerð krafa um endurmenntun. Nefndin leggur áherslu á að almenna stefnumótun skorti í þessum málum og beinir því til ríkisstjórnar að móta slíka stefnu, bæði hvað varðar forsendur löggildingar og kröfur um endurmenntun.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Árni R. Árnason og Ásta R. Jóhannesdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. febr. 2000.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Pétur H. Blöndal.




Rannveig Guðmundsdóttir.



Drífa Hjartardóttir.


Kolbrún Halldórsdóttir.


Ísólfur Gylfi Pálmason.