Ferill 358. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 612  —  358. mál.
Tillaga til þingsályktunarum að efla og samræma aðgerðir til að auka fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli.

Flm.: Helga A. Erlingsdóttir.    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til eftirfarandi aðgerða til að auka fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli:
     1.      Verja árlega næstu fimm árin 250 millj. kr. til eflingar atvinnulífs í dreifbýli í samstarfi við þá aðila sem sinna atvinnuþróunarstarfi á viðkomandi svæðum.
     2.      Beita sér fyrir samræmingu á starfi allra þeirra sem sinna atvinnuþróun og ráðgjöf og veita lán eða styrki í sama skyni. Einum aðila verði falin yfirumsjón og samræming starfs á þessu sviði.
     3.      Gefa út handbók eða leiðbeiningar þar sem saman eru dregnar allar upplýsingar um hvert sé hægt að sækja aðstoð og ráðgjöf í þessu sambandi, svo og hvaða fjármunir, lán og styrkir eru í boði. Skal slík handbók uppfærð árlega.
     4.      Gefa Alþingi skýrslu með reglubundnu millibili um árangurinn af þessu starfi.

Greinargerð.


    Í kjölfar stórfelldra búferlaflutninga af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið undanfarin missiri hafa þau sjónarmið að efla verði landsbyggðina mætt meiri skilningi hjá mörgum ráðamönnum en um langa hríð. Stjórnvöld hafi sýnt nokkra viðleitni í þá átt að færa verkefni frá höfuðborgarsvæðinu til þéttbýlisstaða á landsbyggðinni — en betur má ef duga skal.
    Nauðsynlegt er að huga að hinum dreifðu byggðum hvað varðar úrbætur í atvinnumálum og afkomu fólksins. Ársstörfum hefur fækkað gífurlega undanfarið í sjávarplássum og sveitum í kjölfar sölu og/eða flutnings aflaheimilda og samdráttar í hefðbundnum búskap. Ekki eru allir á einu máli um hvaða leiðir séu bestar til úrbóta, en ljóst er að ef ekki verður gripið í taumana nú þegar eigum við á hættu að byggðir í heilu landshlutunum leggist smám saman af næstu árin. Nokkra þætti er brýnt að lagfæra víða um land til þess að eðlileg uppbygging atvinnulífs geti átt sér stað. Eitt af því mikilvægasta er að tryggja rafmagn til ýmiss konar reksturs því að oft hefur skortur á þriggja fasa rafmagni tálmað uppbyggingu á iðnaði þar sem tækjakostur krefst þess. Þá er einnig mikilvægt að tryggja eðlileg samskipti um tölvunet um allt land þannig að allir geti nýtt sér möguleika sem felast í góðum tölvukosti og netbúnaði.
    Fyrir u.þ.b. átta til tíu árum var nokkuð hvatt til þess að efldur yrði svokallaður smáiðnaður og/eða handverk og það varð til þess að þessar greinar hófust til vegs og virðingar og urðu sýnilegri. Fólk eygði möguleika á að skapa sér auknar tekjur og um leið áframhaldandi búsetu á heimaslóðum.
    Opinberir aðilar lögðu sitt af mörkum með því að ráða starfsfólk til stuðnings og ráðgjafar. Til að mynda var ráðinn verkefnisstjóri tímabundið að smáverkefnasjóði landbúnaðarins og stofnaður sérstakur sjóður á vegum félagsmálaráðuneytisins sem í daglegu tali var kallaður „Jóhönnusjóður“. Í upphafi var sjóðurinn einkum ætlaður konum á landsbyggðinni til að bæta atvinnumöguleika þeirra en nú er hann opinn konum alls staðar á landinu. Þá sinntu einstaka atvinnuþróunarfélög þessum málum sérstaklega. Til dæmis fékk Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar fé úr Jóhönnusjóðnum og réð sérstakan starfsmann til að aðstoða fólk við að koma á fót smáiðnaði og efla handverk. Það gaf góða raun.
    Upp úr þessu urðu til nokkur smáfyrirtæki og vinnuhópar sem skapa tekjur og styðja þannig búsetu á landsbyggðinni. En uppbygging smáiðnaðar í dreifbýli er ekki hröð og hætta er á stöðnun ef hvatning er ekki fyrir hendi. Nú vinna mun færri að þessum verkefnum sérstaklega og um leið virðist grundvöllurinn fyrir frekari þróun og uppbyggingu veikjast. Atvinnuþróunarfélögin eru góðra gjalda verð en horfa frekar til stærri og sýnilegri verkefna. Þrátt fyrir að hið opinbera hafi lagt fram fé í formi styrkja og lána til þess að koma slíkum verkefnum af stað var um að ræða lágar fjárhæðir og í sumum tilfellum svo lágar að verkefnið náði ekki nægilega góðri fótfestu til að skipa sér varanlegan sess.
    Stuðningur opinberra aðila varð þó til þess að sanna að margir möguleikar eru í smáiðnaði, möguleikar sem geta geta orðið til að treysta búsetu vítt um landið, auka fjölbreytni í atvinnulífi og bæta afkomu.
    Það er því verðugt verkefni fyrir stjórnvöld að grípa til aðgerða sem hvetja til frekari dáða. Ef varið yrði umtalsverðu fé til eflingar atvinnulífs í dreifbýli í samstarfi við aðila sem sinna atvinnuþróunarstarfi mundi það styrkja atvinnulífið, bæta lífsafkomuna og efla byggðina. Þarna er vaxarbroddur sem getur skilað miklu ef vilji er fyrir hendi.
    Samræma verður störf þeirra sem annast atvinnuþróun og ráðgjöf. Smáiðnaði þarf að sinna sérstaklega. Í því skyni er m.a. mikilvægt að safna öllum upplýsingum á einn stað í formi handbókar eða upplýsingabanka. Afar nauðsynlegt er að fólk eigi greiðan aðgang að upplýsingum sem snerta þessa atvinnugrein. Þær eru víða til en eru óaðgengilegar og ekki til að auðvelda áhugasömum einstaklingum frumkvæði eða efla áræði. Fólk þarf m.a. að eiga kost á fræðslu við hæfi til þess að geta staðið sem best að uppbyggingu og þróun smáfyrirtækja, svo sem fræðslu um gerð markaðs- og viðskiptaáætlana. Eyðublöð verða að vera til sem henta einstaklingum í atvinnurekstri og eru ekki eingöngu sniðin að stórfyrirtækjum.
    Nauðsynlegt er að gera úttekt á því hversu mörg störf eru við einhvers konar smáiðnað og handverk. Víða er fólk að feta sig áfram en vantar herslumuninn til að verkefnið geti orðið að veruleika og skapað þeim sem að því vinna viðunandi lífsviðurværi.
    Brýnt er að fela einum aðila yfirumsjón með verkefninu. Þekking og upplýsingar sem til eru þurfa að eiga sér samnefnara. Þá gefst einnig kostur á sameiginlegu átaki í markaðs- og sölumálum allra þeirra sem stunda smáiðnað eða handverk. Það sparar auk þess fjármagn en eykur möguleika á samvinnu og samstöðu.
    Mikilvægt er að umræddur aðili hafi aðsetur úti á landi, það skapar meiri „nálægð“ við þá sem þjónustuna þurfa að sækja.
    Smáiðnaður eða handverk af ýmsum toga á vel við í dreifbýli og á smærri stöðum. Þessi iðnaður er umhverfisvænn, mjög oft er hráefni til framleiðslunnar heimafengið, hráefni sem annars fer í súginn, er urðað eða brennt. Um er að ræða umhverfisvæna framleiðslu og endurvinnslu.
    Mikilvægt er að stjórnvöld sinni þessum málum nú og ef þau sýna vilja sinn í verki mun það skapa ný sóknarfæri og auka bjartsýni og þrótt dreifbýlisbúa.