Ferill 360. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 614  —  360. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 83/1984, um erfðafjárskatt, með síðari breytingu .

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)1. gr.

    Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 53/1997, kemur: ráðherra.

2. gr.

    Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: Ráðherra.

3. gr.

    Í stað orðsins „félagsmálaráðuneytið“ í 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: stjórnarráðið.

4. gr.

    Í stað orðsins „Félagsmálaráðuneytið“ í 2. mgr. 22. gr. laganna kemur: Stjórnarráðið.

5. gr.

    Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 23. gr. laganna kemur: Ráðherra.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að flytja mál er varða álagningu og innheimtu erfðafjárskatts frá félagsmálaráðuneyti til fjármálaráðuneytis. Núverandi yfirstjórn þessa málaflokks á sér þá sögulegu skýringu að tekjum af þessum skatti hefur löngum verið varið til uppbyggingar á sviði félagslegrar þjónustu, sbr. lög nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila, með síðari breytingum, en tekjur erfðafjársjóðs skulu nú renna til Framkvæmdasjóðs fatlaðra samkvæmt lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra. Enda þótt ráðstöfun þessa tekjustofns sé þannig bundin stofnunum, er heyra undir félagsmálaráðuneytið, er álagning skattsins og innheimta í eðli sínu ekki frábrugðin almennri tekjuöflun ríkissjóðs. Með auknum kröfum til nákvæmari skattlagningarheimilda og öryggis við beitingu þeirra þykir þeim þáttum málsins því betur fyrir komið undir yfirstjórn fjármálaráðuneytis. Í samræmi við framangreinda ákvörðun er leitað eftir viðeigandi breytingum á lögum nr. 83/1984, en 4. tölul. 5. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu um staðfestingu hennar nr. 96/1969, og 8. gr. samnefndra laga nr. 73/1969, færa valdheimildir félagsmálaráðherra til fjármálaráðherra, verði frumvarpið að lögum. Að þessu athuguðu þarfnast einstakar greinar frumvarpsins ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um erfðafjárskatt,
nr. 83/1984, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að ákörðun erfðafjárskatts færist frá félagsmálaráðherra til fjármálaráðherra enda er álagning og innheimta skattsins ekki frábrugðin almennri tekjuöflun ríkissjóðs. Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.