Ferill 378. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 635  —  378. mál.
Tillaga til þingsályktunarum endurskoðun mælistuðla í fiskveiðum og vinnslu sjávarafla.

Flm.: Jóhann Ársælsson, Svanfríður Jónasdóttir,


Sighvatur Björgvinsson, Lúðvík Bergvinsson.


    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að láta Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins endurskoða mælistuðla sem nú eru notaðir við mat á þyngd sjávarafla og ígildi fiska af einni tegund í annarri í fiskveiðum íslenskra skipa og slægingu og vinnslu sjávarafla.

Greinargerð.


    Mælistuðlar sem notaðir hafa verið við mat á þyngd sjávarafla og þorskígildisstuðlar sem notaðir eru við mat á gildi þorsks og annarra tegunda vegna meðferðar kvóta hafa oft verið gagnrýndir harkalega á opinberum vettvangi. Þessar viðmiðanir eru afar mikilvægar fyrir útgerðarmenn og fiskverkendur og mælistuðlarnir geta skipt sköpum hvað varðar samkeppni milli fiskvinnslu í landi og fiskvinnslu í fullvinnsluskipum. Þeir ráða miklu um það hvort afla er landað slægðum eða óslægðum og skipta miklu þegar útgerðaraðilar og fiskverkendur taka ákvarðanir um í hvaða vinnslu eða sölumeðferð fiskurinn fer hverju sinni. Þeir ákvarða gildi aflaheimilda sem útgerðir skiptast á.
    Það gefur auga leið að þegar reglur af þessu tagi eru settar er mjög mikilvægt að besta fáanleg þekking á áhrifum mismunandi meðferðar aflans sé til staðar. Slík þekking er ótvírætt til staðar hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Þess vegna er hér lagt til að stofnuninni verði falið þetta mikilvæga verkefni.
    Komi í ljós að núgildandi reglur hafi mismunað aðilum í útgerð og fiskvinnslu skapast þannig tækifæri til að leiðrétta mismunun. Verði það hins vegar niðurstaðan að núgildandi stuðlar séu réttir ætti endurskoðunin að draga verulega úr tortryggni gagnvart gildandi reglum.