Ferill 392. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 650  —  392. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rannsókn á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu .

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Sigríður Jóhannesdóttir.



    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta fara fram rannsókn á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu og hernaðarumsvifa á Íslandi og hættum sem eru núverandi hernaðarumsvifum samfara. Einnig verði gerð úttekt á lagalegum álitaefnum þessu tengdum.
    Rannsókn beinist sérstaklega að eftirfarandi þáttum:
     1.      grunnvatnsmengun,
     2.      jarðvegsmengun,
     3.      frágangi spilliefna og sorphauga,
     4.      umhverfishættu sem stafar af núverandi hernaðarumsvifum,
     5.      réttarfarslegum hliðum málsins varðandi skaðabótaskyldu erlendra og/eða íslenskra stjórnvalda gagnvart landeigendum í þeim tilfellum sem mengun hefur orðið og skyldu þeirra til að hreinsa menguð svæði.
    Jafnframt verði reynt að áætla kostnað við hreinsun þeirra svæða sem hafa orðið fyrir mengun.

Greinargerð.


    Brýnt er að fram fari almenn úttekt á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu á Íslandi. Allt frá árinu 1985 hefur það legið fyrir með óyggjandi hætti að mikil grunnvatnsmengun hefur orðið á Miðnesheiði og náð til bæði Keflavíkur og Njarðvíkur. Á þessum slóðum er berggrunnurinn úr grágrýti sem gleypir auðveldlega í sig vatn og aðra vökva. Mengunin stafar aðallega af þrenns konar efnum: klórkolvetnissamböndum, olíum og nítrötum. Rannsóknir leiddu á sínum tíma í ljós víðtæka mengun á þessu svæði, m.a. í vatni af völdum TCE (tríklóretýlen) og PCE (tetraklóretýlen). Vitneskja um þessa mengun varð til þess að ráðist var í gerð nýs vatnsbóls fyrir Keflavík, Njarðvík og flugvallarsvæðið svo fljótt sem auðið varð. Þá hafa af og til orðið olíuslys á Nickel-svæðinu svokallaða og hreinsunaraðgerðir ekki borið tilætlaðan árangur. Þessu til viðbótar má nefna að um ríflega 20 ára skeið var efnasambandið urea notað til afísingar á Keflavíkurflugvelli. Alls munu um 10–15 þúsund tonn af því hafa sigið niður í grunnvatnið og valdið þar nítratmengun, m.a. í tveimur vatnsbólum á vallarsvæðinu.
    Árið 1991 var staðfest mikil mengun frá ratsjárstöðinni á Heiðarfjalli í landi Eiðis. Kröfum landeigenda á hendur bandaríska hernum var vísað frá af sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi á grundvelli samnings frá 30. júní 1970, sem gerður var af ríkisstjórn Íslands og Bandaríkjahers, svokallaðs Memorandum of understanding. Sama gerði þáverandi flotaforingi á Keflavíkurflugvelli, Thomas F. Hall.
    Á Straumnesfjalli standa mikil mannvirki auð og hafa verið í niðurníðslu frá því að þar var starfrækt ratsjárstöð. Við ratsjárstöðina á Bolafjalli sem tók við hlutverki stöðvarinnar á Straumnesfjalli hafa orðið mengunarslys, sbr. alvarlegan olíuleka sem varð haustið 1989. Þá er ljóst að frágangur sorphauga á svæði ratstjárstöðvarinnar á Stokksnesi er algjörlega ófullnægjandi og ekki liggur fyrir hverjum ber að fjarlægja þau mannvirki sem þar hafa verið yfirgefin. Loks má nefna að ratsjárstöðin á Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi stendur upp af vatnsbóli Þórshafnar og kom til deilna milli heilbrigðisyfirvalda og forsvarsmanna stöðvarinnar um það mál á sínum tíma.
    Víða erlendis hefur Bandaríkjaher ráðist í umfangsmiklar aðgerðir til að hreinsa athafnasvæði sín með ærnum tilkostnaði. Svo dæmi sé tekið var u.þ.b. 90 milljörðum íslenskra króna varið til slíkra verkefna árið 1992 á verðlagi þess árs. Mengun af því tagi sem orðið hefur hér á landi hefur einnig verið staðfest í Þýskalandi, Suður-Kóreu, á Filippseyjum og eyjunni Guam.
    Fyrir liggur að hreinsunaraðgerðir á þeim svæðum sem vitað er að hafa orðið fyrir mengun hér á landi yrðu gríðarlega kostnaðarsamar. Af þeim sökum er brýnt að fá úr því skorið hvaða aðili beri ábyrgð á slíku hreinsunarstarfi og kostnaðinum við það. Sama máli gegnir um ábyrgð og skaðabótaskyldu vegna hugsanlegra mengunarslysa í tengslum við hernaðarumsvif í framtíðinni.
    Þessum málum var fyrst hreyft af Sigríði Jóhannesdóttur alþingismanni með þingsályktunartillögu um „rannsókn á jarðvegi og grunnvatni við „varnarsvæðin“ á Suðurnesjum“ sem flutt var á 115. löggjafarþingi (þskj. 738) og endurflutt á 121. löggjafarþingi (þskj. 909). Hún er nú endurflutt samhliða þessari tillögu og er fyrsti flutningsmaður hennar meðflutningsmaður þessarar tillögu. Hér er lagt til að gerð verði heildarúttekt á þessum málaflokki á öllum þeim svæðum sem hafa verið og eru athafnasvæði erlendra herja á Íslandi.