Ferill 351. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 673  —  351. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um útgáfu diplómatískra vegabréfa.

     1.      Hvaða reglur gilda um útgáfu svonefndra diplómatískra vegabréfa? Fram komi m.a. hvaða störfum/embættum fylgi slík vegabréf, hver séu skilyrðin fyrir því að starfi/embætti geti fylgt slíkt vegabréf og til hve langs tíma þau séu gefin út.
    Um útgáfu diplómatískra vegabréfa gilda reglur nr. 299/1999, um diplómatísk vegabréf og þjónustuvegabréf, útgefnar í utanríkisráðuneytinu 29. apríl 1999.
    Í 2. gr. reglnanna er skrá yfir þá sem geta fengið diplómatísk vegabréf, en þeir eru:
     1.      Forseti Íslands.
     2.      Fyrrverandi forsetar Íslands.
     3.      Forsetar Alþingis.
     4.      Hæstaréttardómarar.
     5.      Ráðherrar.
     6.      Biskupinn yfir Íslandi.
     7.      Starfsmenn utanríkisþjónustunnar skv. 1.–5. flokki 8. gr. laga nr. 39/1971 og aðrir starfsmenn hennar og venslamenn sem reglur ráðuneytisins kveða á um.
     8.      Ráðuneytisstjórar.
     9.      Umboðsmaður Alþingis.
     10.      Ríkisendurskoðandi.
     11.      Ríkissaksóknari.
     12.      Ríkissáttasemjari.
     13.      Ríkislögreglustjóri.
     14.      Ríkislögmaður.
     15.      Aðalbankastjórar Seðlabankans.
     16.      Nánustu fylgdarmenn forseta Íslands þegar þeir eru í fylgd með forseta.
     17.      Þeir sem gegna meiri háttar trúnaðarstörfum fyrir Ísland í fjölþjóðlegum ríkjasamtökum.
     18.      Fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherrar.
     19.      Fyrrverandi starfsmenn utanríkisþjónustunnar úr 1. og 2. flokki, sbr. 8. gr. laga nr. 39/1971, sem látið hafa af störfum fyrir aldurs sakir.
     20.      Makar og börn þeirra sem taldir eru í 1.–19. tölul., börnin þó að því tilskildu að þau hafi ekki náð 16 ára aldri.
    Í 3. gr. reglnanna er skrá yfir þá sem geta fengið þjónustuvegabréf, en þeir eru:
     1.      Alþingismenn.
     2.      Skrifstofustjóri Alþingis.
     3.      Hæstaréttarritari.
     4.      Skrifstofustjórar í Stjórnarráði Íslands.
     5.      Aðstoðarmenn ráðherra.
     6.      Starfsmenn utanríkisþjónustunnar sem ekki eru taldir upp í 7. tölul. 2. gr.
     7.      Kjörræðismenn Íslands erlendis.
     8.      Forstjórar helstu ríkisstofnana.
     9.      Forseti borgarstjórnar Reykjavíkur.
     10.      Borgarstjórinn í Reykjavík.
     11.      Þeir sem ferðast í opinberum erindum ríkisstjórnarinnar þegar sérstaklega stendur á og að því tilskildu að hlutaðeigandi ráðuneyti óski þess skriflega að vegabréf sé gefið út.
     12.      Fulltrúar Íslands í stjórn, á þingum eða í starfsliði fjölþjóðlegra ríkjasamtaka.
     13.      Þeir sem ferðast í erindum meiri háttar viðskiptasamtaka þegar sérstaklega stendur á.
     14.      Fyrrverandi hæstaréttardómarar.
     15.      Fyrrverandi ráðherrar.
     16.      Fyrrverandi ráðuneytisstjórar.
     17.      Fyrrverandi aðalbankastjórar Seðlabanka Íslands.
     18.      Þeir sem gegnt hafa meiri háttar trúnaðarstörfum í fjölþjóðlegum ríkjasamtökum.
     19.      Makar og börn þeirra sem taldir eru upp í 1.–18. tölul., börnin þó að því tilskildu að þau hafi ekki náð 16 ára aldri. Enn fremur er heimilt að gefa út þjónustuvegabréf til handa fyrrverandi starfsmönnum utanríkisþjónustunnar sem ekki falla undir 19. tölul. 2. gr., svo og þeim sem greinir í 2.–5. tölul., sbr. 19. tölul. þessarar greinar, þegar þessir starfsmenn hafa látið af starfi fyrir aldurs sakir.
    Samkvæmt 5. gr. reglnanna skulu diplómatísk vegabréf eða þjónustuvegabréf látin gilda fyrir þann tíma er ætla má að ferð viðkomandi muni standa. Ella má láta vegabréfin gilda allt að fimm ár.

     2.      Hver er munurinn á diplómatískum vegabréfum og öðrum vegabréfum sem gefin eru út hér á landi?
    Ríki gefa yfirleitt út tvenns konar vegabréf fyrir ríkisborgara sína, annars vegar almenn vegabréf og hins vegar „opinber vegabréf“. Hin síðarnefndu skipast í tvo flokka, diplómatísk vegabréf og þjónustuvegabréf, og er útgefandi þeirra yfirleitt utanríkisráðuneyti sendiríkisins.
    Diplómatísk vegabréf fá diplómatískir fulltrúar utanríkisþjónustunnar (meðal þeirra eru yfirleitt sendiræðismenn) og aðrir sem sendiríkið óskar að njóti diplómatískra réttinda erlendis, m.a. þjóðhöfðingjar, ráðherrar, hæstaréttardómarar, þingforsetar og fulltrúar í mikilvægum sendinefndum. Sams konar vegabréf fá yfirleitt makar þessara aðila og börn innan ákveðins aldurs.
    Þjónustuvegabréf eru gefin út til handa sendiráðsmönnum utanríkisþjónustunnar sem eru ekki diplómatískir fulltrúar, en einnig fá þau oft ýmsir hátt settir opinberir starfsmenn og þeir sem látið hafa af störfum sem réttur til diplómatísks vegabréfs fylgdi. Vegabréf þessi fá einnig makar þessara aðila og börn innan ákveðins aldurs.
    Megintilgangur hinna „opinberu vegabréfa“ er að auðvelda fulltrúum Íslands erlendis að vinna störf sín í þágu landsins. Útgáfa þeirra er alþjóðleg venja sem á sér langa hefð. Útlitsmunur er á almennum vegabréfum og „opinberum vegabréfum“. Vegabréfin hafa aðallega þýðingu við komu og brottför til og frá erlendum ríkjum. Reynslan sýnir þó að ekki er óalgengt að „opinber vegabréf“ tefji fyrir frekar en auðveldi landgöngu.
    Það er undir sérhverju ríki komið hvort handhafar slíkra vegabréfa njóti einhverrar sérstakrar þjónustu á landamærum þegar ferðast er í opinberum erindagjörðum.
    Á Íslandi njóta íslenskir handhafar slíkra vegabréfa engra sérréttinda.

     3.      Hversu mörg diplómatísk vegabréf hafa verið gefin út árlega síðustu fimm ár og hve mörg eru nú í gildi?
Ár Diplómatísk vegabréf gefin út Í gildi Ógild (útrunnin)
1999 118 110 8
1998 122 116 6
1997 97 79 18
1996 63 29 34
1995 107 58 49