Ferill 440. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 710  —  440. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rannsóknir á þorskeldi.

Flm.: Karl V. Matthíasson, Kristján L. Möller, Gísli S. Einarsson,


Svanfríður Jónasdóttir, Össur Skarphéðinsson.



    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að hlutast til um að skipulegar rannsóknir á þorskeldi frá klaki til slátrunar verði hafnar, svo og að fjarðar- og kvíaeldi á þorski verði eflt og stutt, með það að markmiði að Íslendingar geti framleitt eldisþorsk til útflutnings innan fárra ára.

Greinargerð.


    Fiskeldi er ört vaxandi grein matvælaframleiðslu í heiminum. Íslendingum er nauðsynlegt að taka þátt í þeirri þróun með því að afla sér þekkingar og færni í eldi tegunda sem hér lifa. Aðstæður frá náttúrunnar hendi eru að mörgu leyti góðar hér á landi en þekkingu okkar er ábótavant. Margt bendir til þess að þorskurinn hafist við á ákveðnum stöðum en hegðun hans er enn lítt þekkt og þyrfti að rannsaka hana frekar.
    Benda má á athyglisverðar niðurstöður um líffræði og atferli þorsksins úr rannsóknum sem gerðar hafa verið á Stöðvarfirði. Þær voru unnar þannig að gefið var fóður á vissum stöðum á ákveðum tíma og sótti þorskurinn í þá gjöf.
    Þá má nefna tilraunir með kvíaeldi sem Magnús Guðmundsson í Tálknafirði stendur fyrir. Þær byggjast á því að smáþorskur er veiddur og settur í kvíar og alinn þar. Fóðrið sem þar er gefið er m.a. beituafskurður og annar fiskafskurður sem fellur til í fiskvinnslu. Fyrstu niðurstöður lofa góðu en ríkið þyrfti að koma að málinu með fjárstyrk og aðstoð við þróun aðferða í þorskeldi.
    Þess skal einnig getið að í Bretlandi hafa tilraunir með þorskeldi gengið vel. Þær hafa staðið yfir í þrjú ár og er gert ráð fyrir að um 50 tonn af eldisþorski fari á markað á næsta ári. Norðmenn hafa líka lagt töluvert í rannsóknir á þorskeldi og hafa nú þegar selt til Bretlands 30 tonn af eldisþorski sem klakið var út árið 1995. Gert er ráð fyrir að klak síðar á þessu ári gefi af sér um 400 tonn. Loks má nefna að á Nýfundnalandi var í fyrra slátrað 110 tonnum af eldisþorski og 30 tonnum árið áður. Bragð- og gæðapróf sem hafa verið gerð hjá fiskréttafyrirtækinu Yongs og Marks & Spencer á eldisþorski hafa sýnt fram á gæði vörunnar.
    Ljóst má vera að Íslendingar verði að taka til hendinni og rannsaka og undirbúa þorskeldi með útflutning í huga svo að unnt verði að bæta samkeppnisstöðu okkar á fiskmörkuðum. Verði sami vöxtur í þorskeldi í þessum löndum eins og hefur verið í laxeldi undanfarin ár má leiða að því líkur að samkeppnisstaða Íslendinga á fiskmörkuðum geti orðið mjög erfið og jafnvel háskaleg ef ekki verður brugðist skjótt við.