Ferill 469. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 748  —  469. mál.
Frumvarp til lagaum hópuppsagnir.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.

    Lög þessi gilda um hópuppsagnir atvinnurekanda á starfsmönnum af ástæðum sem ekki tengjast hverjum einstökum þeirra þegar fjöldi starfsmanna, sem sagt er upp á 30 daga tímabili, er:
     a.      að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa fleiri en 20 og færri en 100 starfsmenn í vinnu,
     b.      að minnsta kosti 10% starfsmanna í fyrirtækjum sem venjulega hafa hið minnsta 100 starfsmenn en færri en 300 starfsmenn í vinnu,
     c.      að minnsta kosti 30 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 300 starfsmenn eða fleiri í vinnu.
    Við útreikning á fjölda þeirra sem sagt er upp skv. 1. mgr. skal litið á uppsögn ráðningarsamnings einstakra starfsmanna sem jafngilda hópuppsögnum að því tilskildu að um minnst fimm uppsagnir sé að ræða.

2. gr.

    Lög þessi gilda ekki um:
     a.      hópuppsagnir sem koma til framkvæmda samkvæmt ráðningarsamningum sem gerðir eru til ákveðins tíma eða vegna sérstakra verkefna nema slíkar uppsagnir eigi sér stað áður en þeir samningar renna út eða verkefni lýkur,
     b.      áhafnir skipa.

3. gr.

    Ákvæði 7. gr. og 1. mgr. 8. gr. gilda ekki þegar starfsemi fyrirtækis stöðvast vegna dómsúrskurðar. Þó skal atvinnurekandi senda svæðisvinnumiðlun tilkynningu skv. 7. gr. fari svæðisvinnumiðlun fram á það.

4. gr.

    Ákvæði laga þessara gilda án tillits til þess hvort ákvörðun um hópuppsagnir er tekin af atvinnurekanda sjálfum eða öðru fyrirtæki sem er í ráðandi aðstöðu gagnvart honum.
    Komi fram staðhæfing um brot á kröfum um upplýsingar, samráð og tilkynningar samkvæmt þessum lögum getur atvinnurekandi ekki borið því við að honum hafi ekki borist nauðsynlegar upplýsingar frá fyrirtækinu þar sem ákvörðun um hópuppsagnir var tekin.

II. KAFLI
Upplýsingar og samráð.
5. gr.

    Áformi atvinnurekandi hópuppsagnir skal hann svo fljótt sem auðið er hafa samráð við trúnaðarmann stéttarfélaga eða, ef ekki hefur verið kjörinn trúnaðarmaður, við annan fulltrúa starfsmanna, sem þeir hafa til þess valið, með það fyrir augum að ná samkomulagi.
    Í samráði felst skylda atvinnurekanda til að kynna og ræða við trúnaðarmann eða fulltrúa starfsmanna, sbr. 1. mgr., um áformin, rökstyðja þau og gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri, áður en endanleg ákvörðun er tekin af atvinnurekanda.
    Með samráðinu skal að minnsta kosti leita leiða til að forðast hópuppsagnir eða fækka starfsmönnum sem fyrir þeim verða og draga úr afleiðingunum með hjálp félagslegra aðgerða sem hafa það meðal annars að markmiði að auðvelda flutning í önnur störf eða endurhæfingu starfsmanna sem áformað er að segja upp.
    Ef sérstök nauðsyn krefur er trúnaðarmanni eða fulltrúa starfsmanna, sbr. 1. mgr., heimilt kveðja til sérfræðinga sér til aðstoðar meðan á samráði stendur. Kostnaður af störfum sérfræðinga er atvinnurekanda óviðkomandi.

6. gr.

    Atvinnurekandi skal vegna samráðs aðila skv. 5. gr. láta trúnaðarmanni eða fulltrúa starfsmanna, sbr. 1. mgr. 5. gr., í té allar upplýsingar sem máli skipta um fyrirhugaðar uppsagnir og að minnsta kosti tilgreina skriflega:
     a.      ástæður fyrirhugaðra uppsagna,
     b.      fjölda starfsmanna sem til stendur að segja upp og hvaða störfum þeir gegna,
     c.      hve margir eru að jafnaði í vinnu og hvers konar störfum þeir gegna,
     d.      á hvaða tímabili fyrirhugaðar uppsagnir eiga að koma til framkvæmda,
     e.      viðmiðanir sem til stendur að nota við val á starfsmönnum sem segja á upp,
     f.      upplýsingar um sérstakar greiðslur til starfsmanna vegna uppsagna aðrar en þær sem kveðið er á um í lögum eða kjarasamningum og hvernig þessar greiðslur eru reiknaðar.
    Atvinnurekandi skal senda svæðisvinnumiðlun afrit af þeim skriflegu upplýsingum sem um getur í a–e-lið 1. mgr.

III. KAFLI
Tilkynning til svæðisvinnumiðlunar.
7. gr.

    Atvinnurekandi skal, að höfðu samráði skv. 5. og 6. gr., senda svæðisvinnumiðlun í því umdæmi þar sem viðkomandi starfsmenn vinna skriflega tilkynningu um fyrirhugaðar uppsagnir. Í tilkynningunni skulu koma fram allar upplýsingar sem máli skipta um fyrirhugaðar hópuppsagnir og um samráð skv. 5. og 6. gr., einkum ástæður uppsagnanna, hve mörgum starfsmönnum stendur til að segja upp, hve margir starfsmenn eru að jafnaði í vinnu og á hvaða tímabili uppsagnirnar eiga að taka gildi.
    Atvinnurekandi skal koma afriti af tilkynningu skv. 1. mgr. til fulltrúa starfsmanna.
    Trúnaðarmaður eða fulltrúi starfsmanna, sbr. 1. mgr. 5. gr., getur komið á framfæri öllum athugasemdum starfsmanna við svæðisvinnumiðlun.

8. gr.

    Uppsagnir samkvæmt lögum þessum taka fyrst gildi 30 dögum eftir að tilkynning um uppsagnir skv. 7. gr. berst svæðisvinnumiðlun.
    Svæðisvinnumiðlun skal nota frestinn skv. 1. mgr. til að leita lausnar á þeim vanda sem fyrirhugaðar uppsagnir munu valda.

IV. KAFLI
Önnur ákvæði.
9. gr.

    Uppsagnarfrestur starfsmanna samkvæmt lögum, kjarasamningum eða ráðningarsamningum breytist ekki þrátt fyrir ákvæði laga þessara, sbr. þó ákvæði 1. mgr. 8. gr. að því er snertir þá starfsmenn sem eiga styttri uppsagnarfrest en 30 daga.

10. gr.

    Trúnaðarmaður eða fulltrúi starfsmanna, sbr. 1. mgr. 5. gr., sérfræðingar skv. 4. mgr. 5. gr. og atvinnurekandi eða fulltrúar hans skulu gæta trúnaðar varðandi upplýsingar sem gefnar eru samkvæmt ákvæðum þessara laga.

11. gr.

    Atvinnurekandi sem af ásettu ráði eða gáleysi brýtur gegn lögum þessum er skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum.

12. gr.

    Brot gegn 5.–7. gr. laga þessara geta varðað sektum sem renna í ríkissjóð.

13. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd laga þessara.

V. KAFLI
Gildistaka.
14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Falla þá jafnframt úr gildi lög nr. 95/1992, um hópuppsagnir, ásamt síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.


    Lög nr. 95/1992, um hópuppagnir, tóku gildi hér á landi í kjölfar fullgildingar Íslands á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Lögin eru byggð á tilskipun ráðsins nr. 75/129/ EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um hópuppsagnir. Lögum nr. 95/1992 var breytt með lögum nr. 135/1994 vegna tilskipunar ráðsins nr. 92/56/EBE um breytingu á tilskipun 75/129/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um hópuppsagnir.
    Tilskipun ráðsins nr. 98/59/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um hópuppsagnir var tekin upp í viðauka XVIII við EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þann 30. apríl 1999. Með henni var efni eldri tilskipananna, sem að framan greinir, steypt saman auk þess sem nokkru efni var bætt við.
    Frumvarp þetta er lagt fram með hliðsjón af nauðsynlegum lagabreytingum vegna tilskipunar 98/59/EB. Auk þess eru lagðar til nokkar breytingar á gildandi lögum sem einkum miða að því að gera lögin skýrari og að stuðla að bættri framkvæmd þeirra.

II.      Breytingar frá gildandi lögum.


    Helstu breytingar sem lagðar eru til frá gildandi lögum um hópuppsagnir með frumvarpi þessu eru eftirfarandi:
    1. Lagt er til að lögunum verði skipt upp í fimm kafla, en gildandi lög eru ekki kaflaskipt. Með því að skipa saman ákvæðum sem samstöðu eiga undir sérstök kaflaheiti er stefnt að betri skilningi á réttindum og skyldum sem gilda eiga í samskiptum atvinnurekanda og fulltrúa starfsmanna annars vegar og á milli atvinnurekanda og svæðisvinnumiðlana hins vegar að því er snertir framkvæmd laganna.
    2. Í gildandi lögum er kveðið á um að atvinnurekandi skuli tilkynna stjórn vinnumiðlunar um áformaðar hópuppsagnir. Vegna ákvæða laga nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir, er nauðsynlegt að leggja til breytingar á ákvæðum laga um hópuppsagnir. Samkvæmt lögum um vinnumarkaðsaðgerðir hafa svokölluð svæðisráð tekið við hlutverki stjórnar vinnumiðlunar. Í frumvarpi þessu er lagt til að atvinnurekandi skuli beina tilkynningu um hópuppsagnir til svæðisvinnumiðlunar í því umdæmi þar sem atvinnustarfsemi hans fer fram.
    3. Gildandi lög taka ekki til starfsmanna sem missa vinnu sína þegar starfsemi fyrirtækis stöðvast vegna dómsúrskurðar. Til samræmis við ákvæði tilskipunar 92/56/EBE er lagt til að til að lögin nái að meginefni til einnig til þessara tilvika. Undanþágur frá því eru byggðar á heimildarákvæðum tilskipunar 98/59/EB.
    4. Lagt er til að kveðið verði á um að fulltrúa starfsmanna verði heimilt að kveðja til sérfræðinga sér til aðstoðar á meðan á samráði samkvæmt lögunum stendur.
    5. Lagt er til að 6. gr. gildandi laga verði felld brott, en þar segir orðrétt: „Leiði ráðgerður samdráttur eða aðrar ráðgerðar breytingar í fyrirtæki til uppsagnar fjögurra eða fleiri starfsmanna er atvinnurekanda skylt að tilkynna uppsagnir til vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins og viðkomandi verkalýðsfélags með tveggja mánaða fyrirvara.“ Ákvæði þetta á rætur að rekja til 55. gr. laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. (Ólafslaga). Þar sem tilkynningar samkvæmt þessu ákvæði hafa ekki sérstaka þýðingu varðandi framkvæmd laganna eða efnislega samstöðu með öðrum ákvæðum þeirra þykir rétt að leggja til að ákvæðið verði fellt brott.
    6. Þá er lagt til að ákvæði laga um hópuppsagnir verði bundin viðurlögum. Á íslenskum stjórnvöldum hvílir sú skylda að tryggja að tilskipunum Evrópusambandsins, sem teknar eru upp í íslenskan rétt á grundvelli EES-samningsins, sé fylgt eftir í framkvæmd. Í því markmiði er lagt til að brot atvinnurekanda á skyldum sínum hvað varðar samráð og upplýsingagjöf vegna áformaðra hópuppsagna geti leitt til skaðabótaskyldu hans gagnvart starfsmönnum auk þess sem mælt er fyrir um að brot gegn lögunum geti varðað sektum sem renni í ríkissjóð.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvæðið er sama efnis og 1. gr. gildandi laga. Orðið „fastráðnum“ í 1. mgr. 1. gr. gildandi laga er þó fellt brott þar sem sú takmörkun að miða fjölda þeirra sem sagt er upp við fastráðna starfsmenn samræmist ekki tilskipun 98/59/EB. Tekið skal fram að í fyrstu málsgrein er 30 daga tímabilið miðað við ákvörðun atvinnurekanda um uppsögn án tillits til þess hvenær uppsagnir einstakra starfsmanna taka gildi, þ.e. án tillits til lengdar uppsagnarfrests þeirra.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um undanþágur frá gildissviði frumvarpsins og eru ákvæði a- og b-liðar samhljóða a- og b-lið 5. gr. gildandi laga, sbr. einnig a- og c-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 98/59/EB. Þá er lagt til að undanþága c-liðar 5. gr. gildandi laga, varðandi starfsmenn sem missa vinnu þegar starfsemi fyrirtæki stöðvast vegna dómsúrskurðar, verði felld brott þar sem þessi undanþáguheimild er ekki í tilskipuninni.

Um 3. gr.


    Ákvæðið er nýmæli sem tengist breytingu á gildissviði laganna, sbr. 2. gr., þar sem lagt er til að þau nái til þess er starfsmenn missa vinnu sína þegar starfsemi fyrirtækis stöðvast vegna dómsúrskurðar. Með hliðsjón af 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 98/59/EB er hér lagt til að atvinnurekenda verði ekki skylt að tilkynna hópuppsagnir til svæðisvinnumiðlunar þegar starfsemi stöðvast af þessum sökum. Þó verði atvinnurekanda skylt að senda svæðisvinnumiðlun slíka tilkynningu fari hún fram á það. Í 4. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar er enn fremur gert ráð fyrir heimild aðildarríkja til að kveða á um að sú regla að uppsagnir taki ekki gildi fyrr en 30 dögum eftir að tilkynning um hópuppsagnir berst svæðisvinnumiðlun, sbr. 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins, skuli ekki gilda við þessar aðstæður. Lagt er til að þessi undanþáguheimild verði nýtt, einkum á þeim grundvelli að önnur sjónarmið eiga við varðandi uppsagnarfrest starfsmanna þegar rekstur stöðvast vegna dómsúrskurðar en þegar um er að ræða samdrátt í rekstri.

Um 4. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er nýmæli sem byggist á 4. mgr. 2. gr. tilskipunar 98/59/EB. Í ákvæði þessu er kveðið á um að skuldbindingar sem hvíla á atvinnurekanda samkvæmt 1., 2. og 3. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar gildi óháð því hvort ákvörðun um hópuppsagnir er tekin af atvinnurekanda eða af fyrirtæki sem er í ráðandi aðstöðu gagnvart honum.
    Ákvæði 2. mgr. er samhljóða 4. mgr. 4. gr. gildandi laga eins og henni var breytt með lögum nr. 135/1994, um breytingu á lögum nr. 95/1992, um hópuppsagnir.

Um 5. gr.


    Ákvæði 1. og 3. mgr. eru í samræmi við 1. og 2. mgr. 2. gr. gildandi laga og þarfnast ekki frekari skýringa.
    Hugtakið samráð er ekki skilgreint í gildandi lögum. Í dómi Félagsdóms frá 3. febrúar 1992, í máli nr. 7/1991, segir að samráð feli í sér þá skyldu að ræða og kynna mótaðila áformin, rökstyðja þau og gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, áður en endanleg ákvörðun er tekin. Ákvæði 2. mgr. sem er nýmæli byggir á þessari skilgreiningu. Í þessu sambandi skal bent á að skylda atvinnurekanda til samráðs við trúnaðarmann verður virk þegar hann hefur uppi áform um hópuppsagnir. Er þá gert ráð fyrir að hann hefji samráðið tímanlega og áður en hann hefur tekið ákvörðun um uppsagnirnar. Atvinnurekandinn skal þá upplýsa trúnaðarmann eða fulltrúa starfsmanna um áform sín og veita honum svo fljótt sem auðið er þær upplýsingar sem kveðið er á um í 6. gr. til að gera honum kleift að koma með raunhæfar tillögur. Í samráðinu felst þannig að trúnaðarmaðurinn á rétt á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin af atvinnurekanda. Skal þá að minnsta kosti fjalla um þau atriði sem kveðið er á um í 3. mgr. 5. gr. með það fyrir augum að ná samkomulagi. Það á annars vegar við um möguleika á að komast hjá hópuppsögnum eða fækka þeim sem fyrir þeim verða og hins vegar að draga úr afleiðingum þeirra. Jafnframt er ljóst að í samráði felst ekki áskilnaður um samþykki trúnaðarmanns eða fulltrúa starfsmanna fyrir þeim ákvörðunum sem atvinnurekandi tekur að höfðu samráði.
    Í 4. mgr. er lagt til það nýmæli að trúnaðarmanni verði heimilt að leita aðstoðar sérfræðings eða sérfræðinga meðan á samráði aðila stendur. Ákvæðið er byggt á 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 98/59/EB. Ákvæðinu er ætlað að stuða að jafnræði aðilanna en jafnframt er gert ráð fyrir að því verði aðeins beitt í undantekningartilvikum. Fer þá eftir aðstæðum hverju sinni um hvers konar sérfræðing getur verið um að ræða.

Um 6. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um upplýsingagjöf atvinnurekanda vegna samráðs hans við starfsmenn eða fulltrúa þeirra.
    Ákvæði 1. mgr., sem á sér hliðstæðu í 3. mgr. 2. gr. tilskipunar 98/59/EB, er í meginatriðum samræmi við 3. og 4. mgr. 2. gr. gildandi laga. Í gildandi lögum segir í 4. mgr. 2. gr. að atvinnurekandi skuli gefa skriflegar upplýsingar um aðferðir við útreikninga á greiðslum vegna uppsagnar. Þess í stað er hér lagt til að í f-lið verði mælt fyrir um upplýsingaskyldu atvinnurekanda vegna sérstakra greiðslna umfram það sem leiðir af lögum og kjarasamningum, þ.e. umfram hefðbundnar greiðslur í uppsagnarfresti. Sú breyting helgast af ákvæði vi-liðar 3. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar sem gerir ráð fyrir að um geti verið að ræða sérstakar greiðslur við starfslok starfsmanna.
    Ákvæði 2. mgr. er samhljóða 5. mgr. 2. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að í stað stjórnar vinnumiðlunar í viðkomandi umdæmi er gert ráð fyrir að atvinnurekandi sendi svæðisvinnumiðlun afrit af upplýsingum skv. a–e-lið 1. mgr. Helgast sú breyting af ákvæðum laga nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir, svo sem nánar er gerð grein fyrir í almennum athugasemdum.
    

Um 7. gr.

    Greinin er sama efnis og 3. gr. gildandi laga. Í 1. mgr. er þó skýrar en í gildandi lögum greint á milli upplýsingaskyldu atvinnurekanda gagnvart svæðisvinnumiðlun skv. 2. mgr. 6. gr. og þeirrar tilkynningarskyldu sem hvílir á honum samkvæmt þessari grein. Þannig er gert ráð fyrir að tilkynning skv. 1. mgr. eigi sér fyrst stað eftir að samráð skv. 5. og 6. gr. hefur átt sér stað. Í þessu sambandi skal bent á að regla 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins þess efnis að uppsagnir taki ekki gildi fyrr en 30 dögum eftir að tilkynning atvinnurekanda er send svæðisvinnumiðlun á við um tilkynningu skv. 1. mgr.

Um 8. gr.

    Greinin er í samræmi við 1. og 2. mgr. 4. gr. gildandi laga.
    Til nánari skýringar skal tekið fram að þegar stafsmaður hefur skemmri uppsagnarfrest en 30 daga leiðir af 1. mgr. að uppsagnarfresturinn lengist og verður 30 dagar. Í þeim tilvikum þar sem starfsmaður á lengri uppsagnarfrest samkvæmt lögum, kjarasamningum eða ráðningarsamningum gildir sá ráðningarfrestur, sbr. ákvæði 9. gr. Skv. 1. mgr. byrjar 30 daga fresturinn að líða á þeim degi þegar tilkynning atvinnurekanda berst svæðisvinnumiðlun.
    

Um 9. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 2. mgr. 5. gr. gildandi laga.

Um 10. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 3. mgr. 4. gr. gildandi laga.

Um 11. gr.

    Ákvæðið er nýmæli. Er í því lagt til að brot atvinnurekenda gegn lögunum geti varðað skaðabótum samkvæmt almennum reglum.

Um 12. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að brot atvinnurekanda gegn 5–7. gr., sem varða skyldur atvinnurekenda til upplýsinga og samráðs við starfsmenn og tilkynningaskyldu gagnvart svæðisvinnumiðlunum, geti varðað sektum sem renna í ríkissjóð. Ákvæðinu er, til viðbótar 11. gr., ætlað að stuðla að réttri framkvæmd laganna.

Um 13. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um hópuppsagnir.

    Frumvarp þetta er lagt fram með hliðsjón af nauðsynlegum lagabreytingum vegna tilskipunar 98/59/EB. Auk þess eru lagðar til nokkrar breytingar á gildandi lögum sem einkum miða að því að gera lögin skýrari og stuðla að bættri framkvæmd þeirra.
    Verði frumvarpið að lögum er ekki talið að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.