Ferill 485. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 765  —  485. mál.
Frumvarp til lagaum brunavarnir.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)I. KAFLI
Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að vernda líf, heilsu fólks, umhverfi og eignir með því að tryggja fullnægjandi eldvarnaeftirlit og viðbúnað við eldsvoðum og mengunaróhöppum á landi.

2. gr.
Gildissvið.

    Lögin gilda um eldvarnir og slökkvistörf vegna eldsvoða og viðbúnað við mengunaróhöppum á landi. Lögin taka ekki til eldvarna í skipum, loftförum, almennum vinnuvélum, bifreiðum eða öðrum vélknúnum ökutækjum.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     Atvinnuhúsnæði: Húsnæði þar sem almenningur kemur saman, dvelur, sækir þjónustu og þar sem hvers konar atvinnustarfsemi fer fram.
     Bráð hætta: Þegar ætla má að fólk geti ekki forðað sér til öruggs staðar við eldsvoða eða mengunaróhapp.
     Brunahönnun: Sérstök hönnun sem tekur til brunavarna í mannvirkjum.
     Brunavarnir: Eldvarnir, starfsemi slökkviliðs og aðrar aðgerðir einstaklinga og fyrirtækja sem mælt er fyrir um í þessum lögum.
     Eldsvoði: Þegar eldur er laus og nauðsyn er sérstakra slökkviráðstafana.
     Eldvarnir: Allar fyrirbyggjandi aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir eldsvoða.
     Mannvirki: Hvers konar byggingar, ofan jarðar eða neðan.
     Mengunaróhapp: Þegar eiturefni eða önnur efni berast, eða kunna að berast, í umhverfið og tafarlaus upphreinsun eða önnur tafarlaus úrræði eru nauðsynleg vegna hættu á tjóni á heilsu fólks, umhverfi og eignum.
     Vara: Hvers kyns lausafjármunir, svo sem allar framleiðsluvörur og hráefni.

II. KAFLI
Stjórn og skipan brunamála.
4. gr.
Yfirstjórn brunamála.

    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Brunamálastofnun er ráðherra til aðstoðar um málefni er falla undir lög þessi.

5. gr.
Brunamálastofnun.

    Ríkið starfrækir Brunamálastofnun. Helstu verkefni stofnunarinnar eru að:
     a.      hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim,
     b.      hafa yfirumsjón með eldvarnaeftirliti og slökkvistarfi sveitarfélaga í þeim tilgangi að tryggja samræmt eftirlit og virkt slökkvistarf á landinu öllu,
     c.      sjá um kynningar- og fræðslustarf fyrir almenning og slökkvilið og þá sem vinna við brunahönnun mannvirkja,
     d.      vera byggingaryfirvöldum til ráðgjafar um eldvarnir mannvirkja og brunaöryggi vöru,
     e.      samþykkja þjónustu- og eftirlitsaðila brunavarna og brunavarnaáætlanir sveitarfélaga,
     f.      yfirfara brunahönnun nýbygginga, viðbóta og breytinga á mannvirkjum sem slökkviliðsstjóri eða byggingarfulltrúi vísar til stofnunarinnar,
     g.      fylgjast með og eftir atvikum stunda sjálfstæðar rannsóknir á sviði brunavarna og semja árlega skýrslu um orsakir og afleiðingar eldsvoða,
     h.      eiga samstarf við hliðstæðar stofnanir í nágrannalöndunum og fylgjast með framförum og nýjungum á sviði brunavarna,
     i.      gera tillögur til ráðuneytis um breytingar á reglum um brunamál eftir því sem tilefni gefst til.
    Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um verkefni og starfsemi Brunamálastofnunar.

6. gr.
Samræming brunavarna.

    Brunamálastofnun vinnur að samræmingu brunavarna í landinu og stuðlar að samvinnu þeirra sem starfa að brunavörnum. Stofnunin skal með sjálfstæðum athugunum og úttektum leiðbeina sveitarstjórnum um kröfur sem gerðar eru til eldvarnaeftirlits og slökkviliða. Við úttektir og athuganir skal Brunamálastofnun leita umsagnar slökkviliðsstjóra áður en niðurstaða stofnunarinnar er send viðkomandi sveitarfélagi.

7. gr.
Brunamálaráð.

    Ráðherra skipar brunamálaráð til fjögurra ára í senn að afloknum alþingiskosningum. Í brunamálaráði skulu sitja sjö fulltrúar og tilnefna Brunatæknifélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Samband íslenskra tryggingafélaga, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök atvinnulífs einn fulltrúa hvert í ráðið. Ráðherra skipar formann brunamálaráðs án tilnefningar. Varamenn eru skipaðir á sama hátt.
    Brunamálaráð er Brunamálastofnun til faglegrar ráðgjafar um þá þætti sem falla undir lögin. Ráðherra skal leita álits ráðsins um lagabreytingar og stefnumarkandi reglugerðir samkvæmt lögum þessum.
    Ráðherra setur ráðinu starfsreglur að fengnum tillögum þess.

8. gr.
Brunamálastjóri.

    Ráðherra skipar brunamálastjóra til fimm ára í senn. Brunamálastjóri skal hafa háskólamenntun og þekkingu á verksviði stofnunarinnar og reynslu af stjórnun. Brunamálastjóri fer með daglega stjórn og rekstur stofnunarinnar og ræður starfsfólk hennar. Hann ber ábyrgð gagnvart ráðherra.

9. gr.
Brunamálaskóli.

    Brunamálastofnun starfrækir Brunamálaskóla sem ætlaður er slökkviliðsmönnum, þ.m.t. slökkviliðsstjórum og eldvarnaeftirlitsmönnum. Skólinn skal vera sérstök deild innan stofnunarinnar og annast umsjón með menntun, fræðslu og þjálfun slökkviliðsmanna sem fram fer á vegum Brunamálastofnunar og hafa sérstakt viðfangsefni í fjárlögum. Við ráðningu skólastjóra Brunamálaskólans skal brunamálastjóri leita eftir tillögu skólaráðs.
    Ráðherra skipar þriggja manna skólaráð til fjögurra ára í senn, og jafnmarga menn til vara, sem er Brunamálastofnun til ráðgjafar um fagleg og rekstrarleg málefni skólans og ber ábyrgð gagnvart brunamálastjóra á framkvæmd og starfsemi Brunamálaskólans. Skólaráð skal í upphafi árs leggja fyrir brunamálastjóra til samþykktar starfsáætlun fyrir skólann. Samband íslenskra sveitarfélaga og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna tilnefna hvort sinn fulltrúa í skólaráð og skal ráðherra skipa formann.
    Ráðherra setur reglugerð um starfsemi Brunamálaskólans og hlutverk skólaráðs.

10. gr.
Ábyrgð sveitarstjórna.

    Sveitarstjórn hver í sínu umdæmi ber ábyrgð á starfsemi slökkviliðs og framkvæmd eldvarnaeftirlits. Sveitarfélag ber kostnað af þessari starfsemi.

III. KAFLI
Eftirlit og skyldur sveitarfélaga.
11. gr.
Starfsemi slökkviliðs.

    Sveitarfélagi er skylt að sjá um að starfsemi slökkviliðs fullnægi kröfum samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.
    Sveitarfélögum ber að sjá um að nægilegt vatn og vatnsþrýstingur sé fyrir hendi til slökkvistarfs og sérstakur slökkvibúnaður þar sem hans er krafist, t.d. úðakerfi í meiri háttar byggingum. Í sveitarfélagi þar sem vatnsöflun er erfið skal leita annarra lausna til að tryggja nauðsynlegar brunavarnir.
    Í reglugerð skal kveða á um lágmarkskröfur varðandi tækjakost, húsnæði og mannafla slökkviliða, svo og vatnsöflun til slökkvistarfa. Jafnframt skal í reglugerð kveða á um búnað og þjálfun slökkviliðsmanna vegna mengunaróhappa á landi að fengnum tillögum Brunamálastofnunar í samráði við Hollustuvernd ríkisins.

12. gr.
Eldvarnaeftirlit sveitarfélaga.

    Eldvarnaeftirlit sveitarfélaga er sú starfsemi slökkviliðs sem hefur eftirlit með því að framfylgt sé ákvæðum laga og reglna um brunavarnir. Hlutverk eldvarnaeftirlits sveitarfélaga er að:
     a.      hafa í samvinnu við byggingarfulltrúa eftirlit með því að nýbyggingar fullnægi kröfum samkvæmt lögum og reglugerðum um brunavarnir áður en notkun þeirra er heimiluð,
     b.      gera úttekt á mannvirkjum í notkun og gera kröfur um nauðsynlegar úrbætur á brunavörnum til að vernda líf, heilsu fólks, umhverfi og eignir,
     c.      leiðbeina fyrirtækjum, stofnunum og eftir atvikum almenningi um allt er varðar brunavarnir og eldsvoða vegna viðkomandi starfsemi,
     d.      hafa eftirlit með því að eigendur og forráðamenn atvinnuhúsnæðis sinni skyldum sínum um brunavarnir samkvæmt lögum og reglugerðum í samræmi við leiðbeiningar sem Brunamálastofnun gefur út,
     e.      halda skrá yfir öll mannvirki og aðra staði þar sem eldsvoði getur valdið sérstakri hættu á manntjóni eða umtalsverðu tjóni á umhverfi eða öðrum verðmætum.
    Heimilt er að fela skoðunarstofum eftirlit skv. 1. mgr., eftir því sem við á.

13. gr.
Brunavarnaáætlun.

    Á hverju starfssvæði slökkviliðs skal liggja fyrir brunavarnaáætlun sem hlotið hefur samþykki Brunamálastofnunar. Brunavarnaáætlun skal endurskoða eigi síðar en að fimm árum liðnum frá því að hún hlaut samþykki. Markmið brunavarnaáætlunar er að tryggja að slökkvilið sé þannig mannað, skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað að það ráði við þau verkefni sem því eru falin með lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
    Brunamálastofnun gefur út leiðbeiningar um efni og gerð brunavarnaáætlunar.

14. gr.
Samstarf sveitarfélaga.

    Sveitarfélög geta haft samvinnu sín á milli um brunavarnir.
    Tvö sveitarfélög eða fleiri geta samið um sameiginlegt slökkvilið. Sveitarfélagi er einnig heimilt að semja við annað sveitarfélag um að hafa með höndum verkefni og stjórn slökkviliðs að hluta. Um slíkt skal gera skriflegan samning sem skal tilkynna til Brunamálastofnunar.

IV. KAFLI
Slökkvilið og slökkvistarf.
15. gr.
Slökkviliðsstjóri.

    Sveitarstjórn ræður slökkviliðsstjóra og varaslökkviliðsstjóra. Slökkviliðsstjóri er yfirmaður slökkviliðs en í forföllum hans varaslökkviliðsstjóri.
    Slökkviliðsstjóri skal hafa hlotið löggildingu sem slökkviliðsmaður, sbr. 17. gr., og starfað að lágmarki í eitt ár í slökkviliði sem löggiltur slökkviliðsmaður. Fáist ekki slökkviliðsstjóri til starfa sem uppfyllir framangreind hæfisskilyrði er sveitarstjórn heimilt að höfðu samráði við Brunamálastofnun að ráða slökkviliðsstjóra tímabundið til starfa, þó ekki lengur en til tveggja ára í senn.
    Semji sveitarfélög um sameiginlegt slökkvilið, sbr. 14. gr., skulu viðkomandi sveitarfélög ráða slökkviliðsstjóra sem er yfirmaður slökkviliðs á svæðinu.

16. gr.
Skyldur slökkviliðsstjóra.

    Slökkviliðsstjóri hefur eftirlit með því í sínu umdæmi að farið sé eftir lögum þessum og reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim. Hann hefur umsjón með öllum tækjum slökkviliðs og eftirlit með virkni brunahana í umdæminu.
    Slökkviliðsstjóri stjórnar slökkvistarfi við eldsvoða og hefur stjórn á vettvangi við mengunaróhöpp á landi. Við þessi störf er löggæslulið og opinberir eftirlitsaðilar undir yfirstjórn slökkviliðsstjóra. Lögregla sér slökkviliði fyrir greiðum aðgangi að vettvangsstað, stöðvar umferð um nærliggjandi götur, girðir af svæði sem slökkvilið þarf til að gegna störfum sínum, verndar brunarústir sem rannsaka þarf eða bjarga verðmætum úr og varðveitir muni sem bjargað er frá bruna þar til þeir eru afhentir réttum aðila.
    Slökkviliðsstjóri skal tilkynna mengunaróhöpp til heilbrigðiseftirlits.
    Slökkviliðsstjóra ber að sjá um fræðslu og þjálfun í brunavörnum og að haldnar séu reglubundnar æfingar slökkviliðs.
    Slökkviliðsstjóri vinnur brunavarnaáætlun, sbr. 13. gr., á starfssvæði sínu og leggur hana fyrir sveitarstjórn.

17. gr.
Hæfi og löggilding slökkviliðsmanna.

    Slökkviliðsmenn sem sækja um löggildingu til að starfa sem slökkviliðsmenn skulu hafa lokið námi fyrir slökkviliðsmenn við Brunamálaskólann eða hlotið sambærilega menntun og jafnframt gegnt slökkvistarfi eða starfað við brunavarnir að aðalstarfi að lágmarki í eitt ár samfellt. Ráðherra veitir slíka löggildingu.
    Ráðherra skal að fenginni tillögu Brunamálastofnunar setja reglugerð um menntun og önnur skilyrði til að öðlast löggildingu, svo og um réttindi og skyldur slökkviliðsstjóra og slökkviliðsmanna.

18. gr.
Slysatrygging slökkviliðsmanna

    Slökkviliðsmenn og aðrir sem vinna að brunavörnum eftir kvaðningu slökkviliðsstjóra eða lögreglustjóra skulu tryggðir við æfingar og önnur störf í þágu brunavarna eða vegna mengunaróhappa á landi í samræmi við áhættu starfsins. Lágmarkstrygging þeirra skal vera í samræmi við skilmála um slysatryggingar starfsmanna sveitarfélaga samkvæmt kjarasamningum. Þeir sem verða fyrir tjóni við störf samkvæmt lögum þessum eiga rétt á að fá tjónið bætt úr sveitarsjóði, enda verði tjónið ekki bætt af vátryggingafélagi. Náist ekki samkomulag um bætur skal tjónið metið af dómkvöddum mönnum.

19. gr.
Þjónustuskylda í slökkviliði.

    Allir verkfærir menn 18–60 ára að aldri sem hafa búsetu í sveitarfélagi eru skyldir til þjónustu í slökkviliði. Þeim er skylt að koma til æfinga í störfum slökkviliðs allt að 20 klukkustundir á ári og auk þess skulu þeir koma hvenær sem eldsvoða ber að höndum samkvæmt nánari reglum um útköll.
    Sveitarstjórn skipar menn í slökkvilið, sbr. 1. mgr., að fengnum tillögum slökkviliðsstjóra. Um þóknun fyrir störf í slökkviliði fer eftir ákvörðun sveitarstjórnar að höfðu samráði við samtök slökkviliðsmanna.
    Í sveitarfélögum þar sem slökkvilið er skipað fastráðnum starfsmönnum má takmarka skyldur skv. 1. og 2. mgr. eða fella þær niður.

20. gr.
Sérstök heimild slökkviliðs.

    Slökkviliðsstjóra og eftirlitsmönnum hans skal heimill aðgangur að atvinnuhúsnæði og öðrum vinnustöðum þar sem eftirlits er þörf samkvæmt lögum þessum.
    Heimilt er slökkviliði, lögreglu eða þeim sem þessir aðilar kveðja til að fjarlæga hvern þann sem truflar slökkvistarf eða gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja starf slökkviliðs.
    Slökkviliði er heimilt að veita aðstoð við slökkvistarf eða viðbrögð við mengunaróhappi utan eigin umdæmis. Slökkviliðsstjóri ákveður hverju sinni hvernig aðstoð er veitt án þess að brunavörnum í umdæmi slökkviliðs sé stofnað í hættu að hans mati. Það sveitarfélag sem aðstoðar nýtur greiðir kostnað við hana. Verði ágreiningur um kostnað skal hann ákveðinn af dómkvöddum matsmönnum.

V. KAFLI
Almennar skyldur.
21. gr.
Skylda til að koma í veg fyrir eða takmarka tjón
af völdum eldsvoða og mengunaróhappa.

    Sé eldur laus eða hafi mengunaróhapp orðið á landi eða bráð hætta er á að slíkt atvik verði skal sá er þess verður vís leitast við að bjarga fólki frá bráðri lífshættu og vara þá við sem nærstaddir eru. Geti hann það ekki skal hann tafarlaust kveðja til slökkvilið eða aðra tiltæka hjálp.
    Þegar eldsvoða ber að höndum er hverjum manni skylt að leyfa aðgang að húsi sínu og lóð og una því að brotið verði niður og rutt burt því sem til fyrirstöðu er við slökkvistarf. Heimilt er að rífa niður byggingar ef slökkviliðsstjóri álítur það nauðsynlegt til að stöðva útbreiðslu elds. Slökkvilið hefur rétt til að nota öll tæki og áhöld sem til næst og að gagni mega koma við slökkvistarf þegar eldsvoða ber að höndum.
    Fjártjón sem hlýst af ráðstöfunum skv. 2. mgr. telst brunatjón og skal bætt af viðkomandi vátryggingafélagi sé eign brunatryggð. Sveitarstjórn greiðir kostnað sem kann að koma til vegna nauðsynlegra aðgerða við framkvæmd slökkvistarfs og ekki er greiddur af vátryggingafélagi.

22. gr.
Meðferð elds og eldfimra efna.

    Fara skal þannig með eld, eldfim efni og önnur hættuleg efni að sem allra minnst hætta sé á því að eldsvoði eða tjón af völdum mengunar geti af því hlotist.

VI. KAFLI
Skyldur eigenda og forráðamanna mannvirkja.
23. gr.
Brunavarnir mannvirkja.

    Eigandi mannvirkis ber ábyrgð á að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum og taki mið af þeirri starfsemi sem í mannvirkinu fer fram á hverjum tíma.
    Eigandi og eftir atvikum forráðamaður mannvirkis ber ábyrgð á eigin brunavörnum, að þær séu virkar og að haft sé reglubundið eftirlit með þeim. Jafnframt er þeim skylt að hlíta fyrirmælum eftirlitsmanna sveitarfélaga og opinberra stofnana um úrbætur sem eiga sér stoð í lögum og reglugerðum um brunavarnir, byggingarmál, öryggismál, hollustuhætti og mengunarvarnir og eiturefni og hættuleg efni.
    Séu breytingar gerðar á mannvirki, eða starfsemi þess breytt þannig að gerðar eru nýjar eða auknar kröfur um brunavarnir í því, er eiganda eða forráðamanni skylt að fá til þess samþykki byggingarnefndar og jafnframt að gera viðeigandi ráðstafanir til að kröfum um brunavarnir sé fullnægt fyrir hið breytta mannvirki eða hina breyttu starfsemi. Áður en byggingarnefnd veitir samþykki sitt skal hún leita álits slökkviliðsstjóra.

24. gr.
Sérstök eldhætta í mannvirki.

    Skylt er að láta fara fram sérstaka brunahönnun á mannvirki þegar um er að ræða nýbyggingu þar sem af fyrirhugaðri starfsemi stafar sérstök eldhætta eða þar sem margir starfa, koma saman, fara um eða dveljast eða þar sem hætta er á stórfelldu eignatjóni í eldsvoða. Brunahönnun skal lögð fyrir byggingarnefnd til samþykktar. Byggingarnefnd skal leita álits slökkviliðsstjóra um brunahönnun áður en hún er samþykkt af nefndinni.
    Sé um að ræða mannvirki sem þegar er byggt og er í rekstri og þar sem af fyrirhugaðri starfsemi stafar sérstök eldhætta eða þar sem margir starfa, koma saman, fara um eða dveljast eða þar sem hætta er á stórfelldu eignatjóni í eldsvoða skal slökkviliðsstjóri gera úttekt á brunavörnum þess, gera kröfu um úrbætur ef ástæða er til og leggja hana fyrir eiganda eða forráðamann. Sé brunavörnum slíks mannvirkis í veigamiklum atriðum ábótavant getur slökkviliðsstjóri eða byggingarfulltrúi gert kröfu um að gerð sé brunahönnun á mannvirkinu.
    Slökkviliðsstjóri getur að höfðu samráði við sveitarstjórn lagt svo fyrir að í mannvirkjum, sbr. 2. mgr., séu gerðar sérstakar ráðstafanir til brunavarna, t.d. með uppsetningu á sérhæfðum búnaði til viðvörunar- og slökkvistarfs og þjálfun tiltekinna starfsmanna í brunavörnum og slökkvistarfi. Slíkar ráðstafanir skulu koma fram í brunavarnaáætlun. Eigandi mannvirkis greiðir kostnað af slíkum ráðstöfunum.
    Ráðherra skal að fengnum tillögum Brunamálastofnunar setja reglugerð um brunahönnun mannvirkja.

25. gr.
Kröfur til brunaöryggis vöru.

    Hver sá sem framleiðir, flytur inn eða selur vöru sem haft getur áhrif á öryggi mannvirkja og fólks gagnvart eldi skal ábyrgjast að varan fullnægi öryggiskröfum á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við fyrirsjáanlega og eðlilega notkun vörunnar.
    Hafi slík vara ekki fullgilda viðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 1. mgr., skal sá sem framleiðir, flytur inn eða selur vöruna leita viðurkenningar hjá Brunamálastofnun áður en varan er sett á markað hér á landi. Kostnaður vegna beiðni um viðurkenningu skal borinn af þeim sem óskar viðurkenningar.
    Brunamálastofnun sker úr um ágreining vegna notkunarsviðs vöru.
    Telji Brunamálastofnun að vara fullnægi ekki kröfum skv. 1. mgr. er stofnuninni heimilt að banna sölu hennar. Um málsmeðferð Brunamálastofnunar og réttarfarsúrræði vegna sölubanns fer eftir ákvæðum IV. og V. kafla laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eftir því sem við á.

VII. KAFLI
Tilkynningar um eldsvoða og rannsóknir.
26. gr.
Tilkynningarskylda.

    Þeim sem verður fyrir brunatjóni er skylt að tilkynna það til hlutaðeigandi lögreglustjóra svo fljótt sem unnt er.

27. gr.
Lögreglurannsókn.

    Lögregla rannsakar eldsvoða þegar eftir brunatjón samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála og kveður til sérfróða menn eftir því sem hún telur þörf á. Hún tilkynnir Brunamálastofnun og Löggildingarstofu um eldsvoðann og rannsókn sína.
    Að lokinni rannsókn sendir lögreglan afrit af rannsóknargögnum til Brunamálastofnunar, hlutaðeigandi slökkviliðsstjóra og vátryggingafélags nema öðruvísi sé mælt fyrir í lögum.

28. gr.
Rannsókn Brunamálastofnunar.

    Verði manntjón eða mikið eignatjón í eldsvoða skal Brunamálastofnun, óháð lögreglurannsókn, rannsaka eldsvoðann, kröfur eldvarnaeftirlits og hvernig að slökkvistarfi hafi verið staðið.
    Vátryggingafélög skulu senda Brunamálastofnun upplýsingar ár hvert um bætt tjón af völdum bruna og mengunaróhappa á landi.

VIII. KAFLI
Þvingunarúrræði og viðurlög.
29. gr.
Aðgerðir til að knýja fram úrbætur.

    Ef ákvæði laga þessara eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim eru brotin skal slökkviliðsstjóri þegar í stað gera ráðstafanir til að úr verði bætt. Byggingarfulltrúi aðstoðar slökkviliðsstjóra til að knýja eiganda og eftir atvikum forráðamann mannvirkis til úrbóta, sbr. 23.–24. gr., á grundvelli byggingarreglugerðar.
    Slökkviliðsstjóri getur beitt eftirfarandi aðgerðum til að knýja fram úrbætur vegna mannvirkis í notkun:
     1.      veitt skriflega áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta,
     2.      fyrirskipað öryggisvakt á kostnað eiganda eða forráðamanns og veitt skriflega áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta,
     3.      bannað notkun mannvirkis að hluta eða að öllu leyti þar til úr hefur verið bætt og krafist lokunar.
    Að fengnu samþykki sveitarstjórnar getur slökkviliðsstjóri ákveðið að framkvæmdar verði nauðsynlegar úrbætur á kostnað eiganda eða forráðamanns mannvirkis. Kostnað má innheimta með fjárnámi.

30. gr.
Öryggisvakt.

    Ef unnt er að tryggja lágmarksöryggi fólks með aðgerðum til bráðabirgða skal slökkviliðsstjóri fyrirskipa að staðin verði öryggisvakt, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 29. gr. á kostnað eiganda eða forráðamanns meðan unnið er að úrbótum. Notkun mannvirkis er heimil meðan unnið er að úrbótum.

31. gr.
Lokun mannvirkis.

    Slökkviliðsstjóri skal krefjast lokunar mannvirkis, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 29. gr., ef um alvarleg tilvik eða ítrekað brot er að ræða, enda verði öryggisvakt ekki viðkomið. Ef aðili sinnir ekki úrbótum innan tilskilins frest, sbr. 1. og 2. tölul. 2. mgr. 29. gr., getur slökkviliðsstjóri jafnframt krafist lokunar mannvirkis.
    Slökkviliðsstjóri skal tafarlaust tilkynna hlutaðeigandi sveitarstjórn, eiganda og/eða forráðamanni mannvirkis fyrirhugaða lokun. Að því loknu skal lögreglustjóri loka mannvirki þar til gerðar hafa verið viðeigandi úrbætur að mati slökkviliðsstjóra og lögreglustjóra.

32. gr.
Dagsektir.

    Í áminningu skv. 1. og 2. tölul. 29. gr. skal koma fram að sinni aðili ekki úrbótum innan tilskilins frests sé heimilt að krefjast dagsekta eftir að frestur er liðinn þar til úr hefur verið bætt, að fengnu samþykki sveitarstjórnar. Dagsektir renna til viðkomandi sveitarsjóðs og skal hámark þeirra vera 500.000 kr. á dag. Dagsektir má innheimta með fjárnámi.

33. gr.
Íhlutun ráðherra.

    Telji Brunamálastofnun að sveitarstjórn sinni ekki skyldu sinni samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim ber stofnuninni að undangenginni viðvörun til sveitarstjórnar að tilkynna það umhverfisráðuneytinu. Telji ráðherra að sveitarstjórn sinni ekki skyldu sinni getur ráðuneytið gripið til nauðsynlegra aðgerða á kostnað viðkomandi sveitarfélags.

34. gr.
Refsingar.

    Brot gegn lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum hvort sem þau eru framin af stórfelldu gáleysi eða ásetningi. Séu sakir miklar skulu brot varða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sektir renna í ríkissjóð.
    Sektir samkvæmt lögum þessum má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verði sönnuð á starfsmann lögaðilans. Hafi starfsmaður lögaðilans framið brot á lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim má einnig gera lögaðila þessum sekt og sviptingu starfsréttinda. Lögaðili ber ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum, enda séu brot hans tengd starfi hans hjá lögaðilanum.

35. gr.
Málsmeðferð.

    Við meðferð mála samkvæmt þessum kafla skal fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga eftir því sem við á.

IX. KAFLI
Málsmeðferð og ýmis ákvæði.
36. gr.
Ágreiningur um framkvæmd laganna.

    Rísi ágreiningur um ákvörðun annars aðila en umhverfisráðherra um framkvæmd laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim er heimilt að kæra umrædda ákvörðun til ráðherra sem kveður upp endanlegan úrskurð á stjórnsýslustigi. Þetta gildir þó ekki um lögreglurannsókn skv. 27. gr. Um kærurétt og málsmeðferð fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga.
    Ef upp kemur ágreiningur á milli slökkviliðsstjóra annars vegar og eiganda eða forráðamanns hins vegar um úrræði þau sem mælt er fyrir um í 29.–32. gr. er heimilt að vísa þeim ágreiningi til Brunamálastofnunar.

37. gr.
Brunavarnagjald.

    Vátryggingafélög og aðrir sem annast vátryggingar skulu árlega innheimta með iðgjöldum sínum sérstakt brunavarnagjald. Brunavarnagjaldið skal nema 0,045 prómillum af vátryggingarfjárhæð brunatrygginga fasteigna og lausafjár, svo og samsettra vátrygginga sem fela í sér brunatryggingu. Viðlagatrygging telst þó ekki gjaldskyld trygging í þessu efni né heldur brunatryggingar skipa og flugvéla. Brunavarnagjaldið skal notað til að fjármagna starfsemi Brunamálastofnunar.
    Þeir sem innheimta brunavarnagjaldið skulu hafa staðið ríkissjóði skil á gjaldinu innan þriggja mánaða frá innheimtu þess. Endanlegt uppgjör gjaldsins fyrir hvert ár fer fram þegar ársreikningar þeirra sem annast innheimtu þess liggja fyrir.
    Ráðherra setur nánari reglur um innheimtu brunavarnagjalds í reglugerð.

38. gr.
Námsstyrkir.

    Heimilt er Brunamálastofnun að veita þeim sem starfa að brunamálum styrki til náms á sviði brunamála í samræmi við fjárlög hverju sinni.
    Brunamálastofnun annast úthlutun styrkja að fenginni umsögn brunamálaráðs. Ráðherra setur ákvæði um styrki og úthlutun þeirra í reglugerð.

39. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara að fenginni tillögu Brunamálastofnunar.
    Reglugerð um brunavarnir í samgöngumannvirkjum setur ráðherra að fengnum tillögum Brunamálastofnunar og að fenginni umsögn samgönguráðherra.

40. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001 og falla þá jafnframt úr gildi lög nr. 41/1992, um brunavarnir og brunamál, með síðari breytingum.
    Reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli sem sett eru samkvæmt eldri lögum skulu halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau fara ekki í bága við lög þessi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Á árunum 2001 til og með 2005 er Brunamálastofnun heimilt að veita þeim sveitarfélögum fjárstuðning sem sameinast um rekstur eldvarnaeftirlits og/eða slökkviliðs, sbr. 14. gr., eftir reglum sem ráðherra setur að fenginni umsögn brunamálaráðs. Heildarfjárstuðningur skal ákveðinn í fjárlögum hvers árs og skal hann ekki vera lægri ár hvert en sem nemur mismun á innheimtu brunavarnagjaldi annars vegar og kostnaði við rekstur Brunamálastofnunar hins vegar.

II.

    Í sveitarfélögum skal liggja fyrir brunavarnaáætlun, sbr. 13. gr., innan tveggja ára frá gildistöku laga þessara. Brunamálastofnun gefur út leiðbeiningar um efni og gerð slíkra áætlana innan sex mánaða frá gildistöku laga þessara.

III.

    Ákvæði 15. gr. um hæfisskilyrði slökkviliðsstjóra gilda ekki um þá slökkviliðsstjóra sem ráðnir hafa verið til starfa fyrir gildistöku laga þessara.

IV.


    Endurskoða skal ákvæði laga þessara og annara laga sem fjalla um byggingarefni og öryggi bygginga, sem og ákvæði reglugerða á þeim byggðum með það fyrir augum að sameina réttarheimildir um byggingar og önnur mannvirki og einfalda framkvæmd þeirra, þar með að heimila notkun skoðunarstofa í eftirliti með gerð og viðhaldi bygginga og annara mannvirkja.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Skipun og störf stjórnskipaðrar nefndar.
    
Með bréfi dagsettu 30. desember 1998 skipaði umhverfisráðherra nefnd til að endurskoða lög um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992, í ljósi reynslu liðinna ára. Í nefndina voru skipuð: Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu, formaður, Drífa Sigfúsdóttir, stjórnarmaður í Brunamálastofnun ríkisins, tilnefnd af stjórn Brunamálastofnunar ríkisins, og Ólafur Kristjánsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Starfsmenn nefndarinnar voru þau Hrafn Hallgrímsson og Sigríður Auður Arnardóttir, deildarstjórar í umhverfisráðuneytinu. Auk þess vann Guðmundur Gunnarsson, verkfræðingur hjá Brunamálastofnun ríkisins, samantekt um brunatjón hér á landi fyrir nefndina.
    Í skipunarbréfi nefndarinnar kemur fram að hlutverk hennar sé að fjalla um skipulag brunavarna og brunamála í héraði, ábyrgð sveitarfélaga innan málaflokksins, um starfsemi Brunamálastofnunar ríkisins og hlutverk hennar innan stjórnkerfisins, svo sem um tengsl við Skipulagsstofnun. Jafnframt var nefndinni falið að fjalla um málefni Brunamálaskóla og gera tillögu um hvort og þá hvernig starfsemi hans skuli tengjast málaflokknum og starfsemi Brunamálastofnunar ríkisins. Nefndinni var falið að hafa samráð við Landssamband slökkviliðsmanna og Félag slökkviliðsstjóra um verkefnið. Með bréfi dagsettu 6. maí 1999 var nefndinni falið, auk þeirra verkefna sem að framan greinir, að gera tillögu um viðbrögð við mengunar- og eiturefnaslysum á landi og hlutverk slökkviliða í því sambandi. Skyldi nefndin hafa hliðsjón af tillögum nefndar umhverfisráðuneytisins um varnir og viðbrögð við mengunaróhöppum á landi frá því í ágúst 1997.
    Nefndin kannaði sérstaklega hvort rétt væri að auka enn frekar samvinnu Brunamálastofnunar ríkisins og Skipulagsstofnunar og hvort til greina kæmi að sameina starfsemi þessara tveggja stofnana. Eftir ítarlega skoðun og viðtöl nefndarmanna við þá fjölmörgu aðila sem vinna að brunavörnum var niðurstaða nefndarinnar að leggja ekki til sameiningu þessara stofnana. Þrátt fyrir að mikilvægur hluti af forvörnum tengist framkvæmd skipulags- og byggingarlaga er önnur starfsemi Brunamálastofnunar sem snýr að slökkvistörfum, fræðslu og þjálfun slökkviliðsmanna, viðurkenningu búnaðar og eftirliti með framkvæmd brunavarna svo sérstæð að hvorki hagkvæmisskilyrði né fagleg skilyrði mæla með því að sú leið verði farin. Hins vegar er í þessu frumvarpi leitast við að styrkja samvinnu byggingareftirlits og slökkviliðs í héraði vegna forvarna í byggingum. Það er í samræmi við byggingarreglugerð, nr. 441/1998, en með henni var reglugerð um brunavarnir og brunamál, nr. 269/1978, felld inn í byggingarreglugerð.
    Við samningu frumvarps þessa var farið yfir löggjöf á Norðurlöndum er fjallar um brunamál og brunavarnir. Nefndin skoðaði sérstaklega frumvarp til nýrra laga um brunamál í Noregi, sbr. Norges offentlige utredningar, 1999:4, og hafði það til hliðsjónar við samningu frumvarpsins.
    Nefndin fékk á fund sinn fjölmarga aðila sem tengjast á einn eða annan hátt framkvæmd brunamála. Við samningu frumvarpsins var m.a. byggt á athugasemdum þessara aðila. Eftirtaldir aðilar eða fulltrúar þeirra komu á fund nefndarinnar: brunamálastjóri, Brunatæknifélag Íslands, Félag byggingarfulltrúa, Félag slökkviliðsstjóra, flugmálastjóri, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Löggildingarstofan, ríkislögreglustjóri, Samband íslenskra tryggingafélaga, samgönguráðuneytið, Samtök iðnaðarins, Siglingastofnun, skólastjóri Brunamálaskólans, stjórn Brunamálastofnunar ríkisins og Vinnueftirlit ríkisins.
    Í júlí 1999 sendi nefndin drög að frumvarpi til laga um brunavarnir og brunamál til 22 aðila en þeir voru eftirfarandi: Brunatæknifélag Íslands, brunamálastjóri, dómsmálaráðuneytið, Félag slökkviliðsstjóra, Félag byggingarfulltrúa, félagsmálaráðuneytið, flugmálastjóri, Hollustuvernd ríkisins, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Löggildingarstofa, ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur, ríkislögreglustjóri, samgönguráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samband íslenskra tryggingafélaga, Samtök iðnaðarins, siglingamálastjóri, Skipulagsstofnun, skólastjóri Brunamálaskólans, stjórn Brunamálastofnunar ríkisins, viðskiptaráðuneytið og Vinnueftirlit ríkisins. Af þeim 22 sem fengu frumvarpið til umsagnar bárust umsagnir frá 18 aðilum. Nefndin vann úr þessum umsögnum og reyndi að samræma þau sjónarmið sem þar komu fram og hafði nefndin hliðsjón af þessum athugasemdum við endanlegan frágang að frumvarpi til laga um brunavarnir sem nefndin skilaði til umhverfisráðherra.

II. Brunatjón á Íslandi og samanburður við önnur lönd.
    Brunatjón á Íslandi síðustu tvo áratugi eru með því minnsta sem þekkist samanborið við nágrannalönd hvort sem þau eru mæld í mannslífum eða eignatjóni. Skýringar á því eru vafalaust margar en benda má á að hér á landi er hlutfall gamalla húsa lágt og steinsteypa algengasta byggingarefnið auk þess sem tiltölulega lítið er um stórar byggingar. Hvað varðar manntjón má ætla að hátt hlutfall sérbýlishúsa hafi mikið að segja auk þess sem ekki hafa orðið mannskæðir brunar, t.d. á hótelum og samkomustöðum, á umræddu tímabili. Þá má einnig benda á að hér á landi er haldið uppi virku opinberu eftirliti með brunavörnum.

Eignatjón.
    Þegar fjallað er um eignatjón í eldi er átt við tjón á fasteignum, lausafé og rekstri sem tryggingafélögin bæta ár hvert. Við þetta má bæta tjónum sem verða í ótryggðum húsum einkaaðila og í opinberum byggingum og tjónum vegna stöðvunar atvinnurekstrar. Við athugun á tryggingum vegna bruna á einkaheimilum hefur komið í ljós að yfir þriðjungur heimila hefur engar eða mjög lágar tryggingar á lausafé.
    Á árunum 1981–1999 námu bætur tryggingafélaga vegna brunatjóna á Íslandi samtals um 13.100 millj. kr. eða um 690 millj. kr. á ári að jafnaði.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 1. Bætt brunatjón tryggingafélaganna árin 1981–1999 á verðlagi 1. júlí 1999. Árið 1999 er áætlað út frá bráðabirgðatölum tryggingafélaganna.


    Á þessu tímabili urðu tjónabætur vegna bruna á föstu verðlagi hæstar árið 1989 þegar þær námu alls 1.640 millj. kr. en það stafaði af tveimur stórbrunum það ár, í Krossanesverksmiðjunni á Akureyri og að Réttarhálsi 2 í Reykjavík. Hvort tjónið um sig samsvarar öllum brunatjónum á landinu í meðalári á þessu tímabili. Þessir tveir brunar hafa valdið hvað mestu eignatjóni á öldinni ásamt brunanum í Sambandsverksmiðjunum á Akureyri sem varð 1969 (eignatjón 800–900 millj. kr.) og brunanum í Borgarskála Eimskips 1967 (eignatjón 700–800 millj. kr.). Eignatjón í tveimur síðasttöldu brununum er byggt á áætluðum tölum sem eru framreiknaðar samkvæmt byggingarvísitölu og ber því að taka þær með nokkurri varúð.
    Athugun á eignatjónum hvers árs sýnir að flest árin valda 5–10 brunar helmingi tjónanna en árið 1989 valda aðeins tveir brunar 75% tjónanna. Þessar tölur sýna að árangursríkasta aðferðin til að draga úr brunatjónum er að koma í veg fyrir bruna í stórum og meðalstórum byggingum þar sem ætla má að brunatjón verði yfir 50 millj. kr. en sú upphæð hefur verið notuð til viðmiðunar um hvað telst stórtjón. Það verður best gert með auknum forvörnum.

Samanburður við önnur lönd.
    Við samanburð á bættum tjónum vegna bruna milli landa er almennt stuðst við tjón sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Í töflu 1 eru bætt brunatjón í helstu nágrannalöndum okkar borin saman og þá kemur í ljós að bætt brunatjón hér á landi eru með því minnsta sem gerist. Líta verður á þennan samanburð með þeim fyrirvara að mismunur getur verið á ákvörðun tjónabóta í einstökum löndum.


Land
Brunatjón sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu (GDP) 1994–1996
Ísland 0,13
Bandaríkin 0,13
Bretland 0,14
Finnland 0,15
Þýskaland 0,17
Kanada 0,2
Danmörk 0,23
Sviss 0,23
Svíþjóð 0,23
Noregur 0,24
Belgía 0,40 (tölur frá 1988–1989)

Tafla 1. Brunatjón sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu (GDP) 1994–1996. 1

    Eins og sést er meðaltal Norðurlandanna (að Íslandi undanskildu) í þessum samanburði 0,21% sem jafngilti því að bætt brunatjón hér á landi væru um 1.120 millj. kr. á ári og eða næstum hálfum milljarði króna meiri en verið hefur að meðaltali sl. 20 ár.

Manntjón.
    Við athugun á manntjóni í brunum er stuðst við upplýsingar frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Þar kemur í ljós að tveir farast í brunum hér á landi að meðaltali á ári eins og mynd 2 sýnir. Á þessu tímabili hafa orðið fjórir brunar þar sem tveir hafa farist en annars er um eitt banaslys að ræða í hverjum einstökum bruna.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2. Manntjón í brunum 1979–1999.

    Þegar dreifing banaslysa yfir árið á þessu tímabili er skoðuð sést að flest slysin verða í skammdeginu en þau eru færri að sumarlagi.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 3. Dreifing banaslysa eftir mánuðum.


    Þegar skoðað er í hvers konar húsakynnum banaslysin hafa orðið á þessu tímabili kemur í ljós að langflest eða 86% þeirra verða í heimahúsum.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 4. Banaslys í brunum eftir gerð húsnæðis.


Samanburður við önnur lönd.
    Þegar manntjón er borið saman milli landa er almennt miðað við slys á 100 þúsund íbúa. Þá kemur í ljós að manntjón hér á landi er með því minnsta sem gerist eins og sést í töflu 2.

Land Manntjón á 100 þúsund íbúa 1994–1996
Sviss 0,55
Ísland 0,75
Þýskaland 0,98 (tölur frá 1992–1993)
Svíþjóð 1,32
Belgía 1,32
Bretland 1,32
Kanada 1,42
Noregur 1,45
Danmörk 1,82
Bandaríkin 1,9
Finnland 2,12

Tafla 2. Manntjón á 100 þúsund íbúa 1994–1996. 2

III. Helstu breytingar og nýmæli.
    
Í frumvarpi þessu er að finna allmörg nýmæli og nýjar áherslur. Helstu nýmæli eru að lögð er áhersla á að skýra ábyrgðarsvið ríkisins, þ.e. Brunamálastofnunar, annars vegar og sveitarfélaga hins vegar. Þannig fari Brunamálastofnun með yfirumsjón, vinni leiðbeiningar og tryggi eftir megni samræmt og faglegt eftirlit og virkt slökkvistarf á landinu öllu en sveitarfélögin annist framkvæmdina. Þá er lögð áhersla á að sveitarfélög auki samvinnu bæði á sviði eldvarnaeftirlits (forvarna) og starfsemi slökkviliða. Með því verði auðveldara að byggja upp faglega þekkingu á sviði brunavarna sem er nauðsynleg til að ná fram markmiðum frumvarpsins. Sterk rök hafa komið fram fyrir því að forsenda fyrir bættum brunavörnum, einkum í dreifbýli, sé stækkun umdæma eldvarnaeftirlits og slökkviliða. Með því verði einnig auðveldara að byggja upp faglega þekkingu á sviði brunavarna. Til að treysta og samræma starf slökkviliða og auka öryggi vegna eldsvoða ber sveitarfélögum að leggja fram áætlun um skipulag slökkvistarfa til samþykktar Brunamálastofnunar. Auk þess eru ákvæði til að framfylgja lögunum gerð mun skýrari en í gildandi lögum og einnig er gert ráð fyrir víðtækari þvingunarúrræðum en tiltæk eru samkvæmt gildandi lögum.
    Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir helstu nýmælum og breytingum samkvæmt frumvarpinu:
     1.      Lagt er til að í 1. gr. sé kveðið á um markmið nýrra laga og hvaða hagsmuni þeim er ætlað að vernda.
     2.      Lagt er til í 2. gr. að kveðið sé á um gildissvið laganna þannig að ljóst sé til hvaða þátta ný lög taki en nýmæli er að þau gildi um viðbrögð við mengunaróhöppum á landi.
     3.      Í 3. gr. er að finna skilgreiningar en slíkar skilgreiningar eru ekki í gildandi lögum.
     4.      Lagt er til að ábyrgð og hlutverk Brunamálastofnunar annars vegar og eldvarnaeftirlits slökkviliða komi skýrt fram, sbr. 5. og 12. gr. Þannig er gert ráð fyrir að Brunamálastofnun hafi yfirumsjónar- og samræmingarhlutverk gagnvart slökkviliðum en eiginlegt eldvarnaeftirlit sé falið staðbundnum eftirlitsaðilum, þ.e. slökkviliðum. Brunamálastofnun ber því ekki að koma beint að eftirlitinu sjálfu heldur er hlutverk hennar að fylgjast með því að eldvarnaeftirlit sinni skyldum sínum samkvæmt lögum og reglum og að liðsinna slökkviliðsstjórum eftir því sem þeir óska eftir. Rétt þykir að skilgreina sérstaklega verkefni eldvarnaeftirlits sveitarfélaga, sbr. 12. gr., til að kveða skýrt á um hlutverk þess.
     5.      Í 6. gr. er því lýst hvernig Brunamálastofnun skuli vinna að samræmingu brunavarna sem er eitt af meginhlutverkum hennar.
     6.      Lagt er til í 7. gr. að sérstakt brunamálaráð verði Brunamálastofnun og ráðherra til faglegrar ráðgjafar.
     7.      Lagt er til í 9. gr. að kveðið sé á um starfsemi Brunamálaskóla í lögum en ekki einungis í reglugerð eins og nú er, sbr. reglugerð nr. 195/1994, um menntun, réttindi og skyldur slökkviliðsmanna, en gert er ráð fyrir að skólinn sé deild innan Brunamálastofnunar. Einnig er lagt til að ráðherra skipi skólaráð sem skal vera Brunamálastofnun til ráðgjafar um fagleg málefni skólans.
     8.      Lagt er til í 13. gr. að á hverju starfssvæði slökkviliðs liggi fyrir brunavarnaáætlun um skipulag slökkvistarfs sem Brunamálastofnun samþykkir.
     9.      Í 14. gr. er mælt fyrir um samvinnu sveitarstjórna um brunavarnir. Til að hvetja sveitarstjórnir til slíkrar samvinnu er lagt til í ákvæði I til bráðabirgða að Brunamálastofnun fái heimild til að veita í fimm ár frá gildistöku laganna tímabundinn fjárstuðning til þeirra sveitarfélaga sem sameinast um starfsemi eldvarnaeftirlits og slökkviliðs. Gert er ráð fyrir að árlegur fjárstuðningur verði að lágmarki mismunur á álögðu brunavarnagjaldi ársins og árlegum kostnaði við rekstur Brunamálastofnunar. Árið 1999 nam þess mismunur u.þ.b. 14 millj. kr.
     10.      Í 15. gr. eru settar fram kröfur um hæfisskilyrði slökkviliðsstjóra en í gildandi lögum eru engar slíkar hæfiskröfur.
     11.      Lagt er til í 21. gr. að þeim sem verður þess vís að eldur sé laus eða að mengunaróhapp hafi orðið eða hætta sé á slíkum atburðum beri að afstýra hættu ef honum er það kleift en ella aðvara þá sem kunna að vera í hættu.
     12.      Í 24. gr. er lagt til að byggingarnefnd skuli ávallt leita álits slökkviliðsstjóra áður en brunahönnun mannvirkja er afgreidd frá byggingarnefnd.
     13.      Lagt er til í 28. gr. að sú skylda sé lögð á vátryggingafélög að senda Brunamálastofnun ár hvert skýrslu um tjón af völdum bruna eða mengunaróhappa á landi. Þetta auðveldar Brunamálastofnun að hafa yfirsýn yfir tjón af völdum bruna eða mengunaróhappa.
     14.      Í IX. kafla frumvarpsins eru gerðar ítarlegar tillögur um þvingunarúrræði og viðurlög sem ætlað er að styrkja framkvæmd nýrra laga.
     15.      Í 34. gr. er lagt til að rýmka skilyrði refsingar þannig að heimilt sé að ákvarða refsingu vegna stórfellds gáleysis. Jafnframt er kveðið á um refsiábyrgð lögaðila. Rétt þykir að kveða á um refsiábyrgð lögaðila til samræmis við breytingu sem gerð var á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, sbr. lög nr. 140/1998.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni kemur fram markmið laganna og verndarandlag sem er líf, heilsa fólks, umhverfið og eignir. Þessu markmiði skal náð með því að tryggja fullnægjandi eldvarnaeftirlit og viðbúnað við eldsvoðum og mengunaróhöppum á landi. Grein þessi er nýmæli þar sem í gildandi lögum er ekki að finna sérstakt markmiðsákvæði.

Um 2. gr.

    Hér er kveðið á um gildissvið laganna en það nær yfir eldvarnir og slökkvistörf vegna eldsvoða og viðbúnað við mengunaróhöppum á landi. Grein þessi er nýmæli en nauðsynlegt þykir að gildissvið nýrra laga komi skýrt fram. Starfsemi slökkviliða lítur annars vegar að eldvörnum og hins vegar að slökkvistörfum og viðbúnaði við mengunaróhöppum sem verða á landi. Það er nýmæli að slökkviliðum sé falið það hlutverk að hafa með höndum viðbúnað við mengunaróhöppum á landi. Rétt þykir að sú starfsemi sé hluti af starfsemi slökkviliða og hefur framkvæmdin víða verið sú að slökkviliðin sinni slíkum störfum. Nú ber enginn ábyrgð samkvæmt lögum á viðbúnaði við mengunaróhöppum og þykir því nauðsynlegt að kveða á um þetta hlutverk í nýjum lögum. Varnir vegna mengunaróhappa á landi eru eftir sem áður hjá Hollustuvernd ríkisins og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og Vinnueftirliti ríkisins innan vinnustaða og vinnusvæða sem og vegna flutnings hættulegra efna á landi, sbr. lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Eðli málsins samkvæmt kallar þetta nýja hlutverk brunamálayfirvalda á samvinnu við Hollustuvernd ríkisins, heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og Vinnueftirlit ríkisins, einkum hvað varðar þjálfun og fræðslu starfsmanna.
    Frumvarpið tekur til starfsemi allra slökkviliða í landinu, þ.m.t. starfsemi slökkviliða flugvalla. Frumvarpið tekur hins vegar ekki til eldvarna í skipum, loftförum, almennum vinnuvélum, bifreiðum og öðrum vélknúnum ökutækjum enda heyrir eftirlit með þeim ekki undir eldvarnaeftirlit sveitarfélaga. Þannig annast faggiltar skoðunarstofur skoðun ökutækja, Siglingastofnun Íslands hefur eftirlit með skipum, Flugmálastjórn hefur eftirlit með loftförum og Vinnueftirlit ríkisins með vinnuvélum.
    Frumvarpið tekur til starfsemi slökkviliða á landi. Slökkvistörf og viðbúnaður við mengunaróhöppum á sjó og í lofti falla því ekki undir lögin. Í lögum um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986, er að finna ákvæði um ábyrgð opinberra aðila vegna viðbúnaðar við mengunaróhöppum á sjó eða á ströndum. Frumvarpið nær til starfsemi slökkviliða á landi, þ.m.t. slökkvistörf í jarðgöngum, í skipum sem liggja í höfn og loftförum sem eru á jörðu niðri.

Um 3. gr.

    Í greininni er að finna grundvallarhugtök sem frumvarpið byggist á. Rétt þykir að skilgreina nokkur hugtök sem fram koma í frumvarpinu til að tryggja m.a. samræmda hugtakanotkun í málaflokknum um brunamál.
    Hugtakið brunavarnir er skilgreint, sbr. heiti frumvarpsins, en það tekur til allrar þeirrar starfsemi sem fellur undir frumvarpið, sem er eldvarnir, starfsemi slökkviliða og aðgerðir einstaklinga og fyrirtækja sem mælt er fyrir um í frumvarpinu. Notkun hugtakanna brunavarnir og eldvarnir eru í almennu talmáli ekki nægjanlega skýr og þykir því rétt að skilgreina þessi hugtök þannig að hugtakanotkun sé samræmd.
    Hugtakið mannvirki er skilgreint til samræmis við ákvæði 1. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Í byggingarreglugerð er mannvirki skilgreint í mgr. 4.26 sem jarðföst framkvæmd, t.d. virkjun, hús, brú, línumastur eða skiltastandur. Þessi skilgreining byggingarreglugerðar fellur undir þá skilgreiningu sem sett er fram í frumvarpinu. Samkvæmt skilgreiningunni eru jarðgöng mannvirki og falla þau því undir gildissvið laganna.
    Skilgreining hugtaksins vöru er efnislega samhljóða þeirri skilgreiningu sem fram kemur í 3. gr. laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.

Um 4. gr.

    Hér er fjallað um yfirstjórn málaflokksins brunavarnir en hann er í höndum umhverfisráðherra eins og verið hefur frá 1. janúar 1998 þegar málaflokkurinn var fluttur frá félagsmálaráðuneyti til umhverfisráðuneytis.
    Gert er ráð fyrir að Brunamálastofnun verði ráðherra til aðstoðar um þau málefni sem falla undir lögin.

Um 5. gr.

    Hér er fjallað um hlutverk Brunamálastofnunar. Lagt er til að heiti stofnunarinnar verði Brunamálastofnun en ekki Brunamálastofnun ríkisins eins og í gildandi lögum. Í greininni er talið upp í tíu stafliðum hlutverk Brunamálastofnunar. Greinin er að hluta til eins og 2. gr. gildandi laga en hér er skýrt kveðið á um að Brunamálastofnun hafi það hlutverk að vera samræmingaraðili og eftirlitsaðili með starfsemi slökkviliða til að tryggja samræmda framkvæmd brunamála á landinu öllu, sbr. a- og b-lið.
    Lagt er til að Brunamálastofnun hafi faglega yfirumsjón með framangreindri starfsemi sveitarfélaga en að stofnunin komi sjálf ekki beint að eldvarnaeftirliti eða starfsemi að öðru leyti. Byggingaryfirvöld og slökkviliðsstjórar geta ávallt leitað eftir ráðgjöf stofnunarinnar að eigin frumkvæði, sbr. d- og f-lið.
    Í c-lið er lagt til að Brunamálastofnun sjái um kynningar- og fræðslustarf og er þetta ákvæði samhljóma f-lið 2. gr. laganna.
    Það nýmæli er í e-lið að lagt er til að Brunamálastofnun beri að samþykkja þjónustu- og eftirlitsaðila brunavarna en einkaaðilar hafa í auknu mæli tekið að sér þjónustu- og eftirlitshlutverk með ýmsum búnaði til brunavarna, svo sem úðakerfum, handslökkvitækjum o.fl. Einnig ber Brunamálastofnun að samþykkja brunavarnaáætlun.
    Greinin þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.

Um 6. gr.

    Greinin er nýmæli en hér er lýst því meginhlutverki Brunamálastofnunar að vinna að samræmingu brunavarna í landinu öllu og stuðla að samvinnu þeirra sem starfa að brunavörnum. Skv. 5. gr. frumvarpsins er Brunamálastofnun falin yfirumsjón með öllu eldvarnaeftirliti og slökkvistarfi í landinu. Þannig öðlast stofnunin yfirsýn yfir starfsemi slökkviliða og ber henni eftir fremsta megni að reyna að tryggja að eftirlit og slökkvistarf sé faglegt og virkt og með svipuðum hætti á landinu öllu. Til að svo geti orðið ber stofnuninni að vinna leiðbeiningar og gera úttektir og athuganir á starfsemi slökkviliða. Hér er markmiðið að búa öllum landsmönnum hliðstætt öryggi með tilliti til hættu af völdum eldsvoða.

Um 7. gr.

    Samkvæmt 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að ekki verði sett stjórn yfir Brunamálastofnun og þykir því rétt að starfandi verði sérstakt brunamálaráð sem sé Brunamálastofnun til faglegrar ráðgjafar.
    Í greininni er lagt til að umhverfisráðherra skipi brunamálaráð til fjögurra ára í senn sem hafi það hlutverk að vera Brunamálastofnun til faglegrar ráðgjafar um þá þætti sem falla undir lögin. Ráðherra skal leita álits ráðsins um lagabreytingar og stefnumarkandi reglugerðir er falla undir starfssvið Brunamálastofnunar. Lagt er til að í ráðinu eigi sæti fulltrúar frá Brunatæknifélagi Íslands, Félagi slökkviliðsstjóra, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Samtökum atvinnulífsins. Hér er um að ræða sömu fulltrúa og nú eiga sæti í stjórn Brunamálastofnunar ríkisins, sbr. 1. mgr. 3. gr. gildandi laga, fyrir utan að lagt er til að Samtök atvinnulífsins og Félag slökkviliðsstjóra eigi einnig fulltrúa í brunamálaráði. Rétt þykir að Félag slökkviliðsstjóra og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna eigi einn fulltrúa hvort í brunamálaráði enda eru þessi félög fagfélög slökkviliðsmanna og slökkviliðsstjóra í landinu.
    Gert er ráð fyrir að brunamálaráð muni styrkja starfsemi Brunamálastofnunar enda eiga sæti í því helstu aðilar sem koma að framkvæmd brunamála. Með því að fela brunamálaráði að fjalla um stefnumótandi reglugerðir er m.a. leitast við að ná fram markmiðum reglugerða á sem hagkvæmastan hátt.

Um 8. gr.

    Þar sem ekki er gert ráð fyrir að starfandi verði sérstök stjórn yfir Brunamálastofnun er lagt til að forstjóri stofnunarinnar fari með stjórn hennar og beri þær skyldur sem stjórn stofnunarinnar hefur haft samkvæmt gildandi lögum. Forstjóri mun eftir sem áður bera ábyrgð gagnvart ráðherra. Þær breytingar sem lagðar eru til á yfirstjórn stofnunarinnar eru í samræmi við breytta stefnu í rekstrarmálum ríkisstofnana og mótaða stefnu í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Af hálfu umhverfisráðuneytisins hefur verið unnið markvisst eftir þessari stefnu þannig að forstjórum þeirra stofnana sem heyra undir ráðuneytið sé falin sú ábyrgð sem stjórnir viðkomandi stofnana höfðu áður. Sem dæmi má nefna að með lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, var stjórn Hollustuverndar ríkisins lögð niður en hún hafði æðsta vald í málefnum stofnunarinnar og var forstjóra falið það vald sem stjórnin hafði áður. Með lögum nr. 169/1998, um breytingu á lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, var stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands lögð niður og forstjóra fengin þau verkefni sem henni höfðu verið falin og með lögum nr. 44/1999, um náttúruvernd, var stjórn Náttúruverndar ríkisins lögð niður.
    Með hliðsjón af framangreindri breytingu á stjórn stofnunarinnar er í ákvæðinu lagðar til breyttar hæfiskröfur sem gerðar eru til brunamálastjóra en hann skal m.a. hafa reynslu af stjórnun. Ekki er lengur gerð krafa um tæknimenntun eins og er í gildandi lögum heldur skal brunamálastjóri hafa háskólamenntun og þekkingu á verksviði stofnunarinnar.

Um 9. gr.

    Greinin er nýmæli þar sem ekki er að finna ákvæði í gildandi lögum um Brunamálaskóla. Í reglugerð nr. 195/1994, um menntun, réttindi og skyldur slökkviliðsmanna, er fjallað um Brunamálaskólann, starfsemi hans og hlutverk. Rétt þykir að kveðið sé á um skólann í lögum en lagt er til að Brunamálskólinn sé sérstök deild innan Brunamálastofnunar. Skólinn skal annast umsjón með menntun og fræðslu slökkviliðsmanna og þ.m.t. starfsemi farskólans sem Brunamálastofnun ríkisins hefur rekið undanfarið til að þjálfa starfsmenn slökkviliða í landinu.
    Jafnframt er lagt til að skipað verði skólaráð sem skal vera faglegur ráðgjafi Brunamálastofnunar um starfsemi og rekstur skólans. Nú starfar sérstök skólanefnd við Brunamálaskólann og ber hún ábyrgð á skólastarfi og stýrir því, sbr. reglugerð nr. 195/1994.
    Gert er ráð fyrir að skólaráð skipuleggi starf Brunamálaskólans með tilliti til þeirra fjárveitinga sem honum eru ákveðnar í fjárlögum. Ráðið leggi starfsáætlun fyrir Brunamálastjóra í upphafi árs til samþykktar og beri ábyrgð á framkvæmd starfseminnar og að rekstur skólans sé innan samþykktra fjárheimilda. Varðandi kennslu og verklega þjálfun er gert ráð fyrir að nýta bæði þekkingu og aðstöðu sem stærri slökkviliðin í landinu hafa yfir að ráða á grundvelli samkomulags Brunamálastofnunar við viðkomandi slökkvilið. Þannig verður leitast við að nýta bestu þekkingu sem völ er á fyrir skólann og tækjabúnað og aðstöðu og reka skólann á sem hagkvæmastan hátt.

Um 10. gr.

    Efnislega er greinin að hluta til eins og 1. mgr. 4. gr. gildandi laga. Í greininni kemur fram að ábyrgð á starfsemi slökkviliða og framkvæmd eldvarnaeftirlits er hjá hlutaðeigandi sveitarfélagi og ber sveitarfélag því kostnað sem hlýst af framangreindri starfsemi. Samkvæmt upplýsingum frá Brunamálastofnun eru starfandi um 60 slökkvilið á landinu öllu en sveitarfélögin eru 124 talsins og hafa því allmörg sveitarfélög sameinast um rekstur slökkviliða. Eins og kom fram í almennum athugasemdum er lagt til í þessu frumvarpi að Brunamálastofnun hafi yfirumsjónar- og samræmingarhlutverk gagnvart starfsemi slökkviliða. Brunamálastofnun kemur því ekki beint að starfsemi slökkviliða heldur er það hennar hlutverk að fylgjast með því að þessu starfi sé sinnt samkvæmt lögum og reglum og sömuleiðis að veita slökkviliðum liðsinni óski þau eftir því.

Um 11. gr.

    Ákvæði þetta er efnislega að mestu óbreytt frá 5. gr. gildandi laga. Skyldur sveitarfélaga gagnvart eldvarnaeftirliti og slökkviliðum eru betur skilgreindar en gert er samkvæmt gildandi lögum. Þá er gerð tillaga um að felld sé brott 4. mgr. 5. gr. gildandi laga, enda er ákvæðið óþarft og er sjálfgefið að við gerð skipulagsáætlana beri sveitarfélögum að taka tillit til gildandi lagaákvæða um brunamál og annara viðeigandi lagaákvæða.

Um 12. gr.

    Í greininni eru tilgreind helstu verkefni eldvarnaeftirlits sveitarfélaga. Greinin er nýmæli þar sem í gildandi lögum er ekki gerð sérstök grein fyrir hlutverki eldvarnaeftirlits sveitarfélaga innan slökkviliða. Starfsemi slökkviliða tekur til tveggja meginþátta, þ.e. eldvarnaeftirlits og slökkvistarfa og þykir því rétt að í frumvarpinu sé gerð sérstök grein fyrir hlutverki eldvarnaeftirlits sveitarfélaga. Í 3. gr. reglugerðar nr. 198/1994, um eldvarnaeftirlit sveitarfélaga með atvinnuhúsnæði sem tekið hefur verið í notkun, er fjallað um markmið eldvarnaeftirlits sveitarfélaga og er grein þessi að hluta til byggð á þeirri grein.
    Í a-lið kemur fram að hlutverk eldvarnaeftirlits sé að hafa í samvinnu við byggingarfulltrúa eftirlit með því að nýbyggingar fullnægi kröfum samkvæmt lögum og reglugerðum um brunavarnir áður en notkun þeirra er heimiluð. Því er mikilvægt að við lokaúttekt bygginga sé slökkviliðsstjóri eða fulltrúi hans ávallt viðstaddur. Benda má á að í byggingarreglugerð, nr. 441/1998, er fjallað um hlutverk slökkviliðsstjóra varðandi brunavarnir bygginga. Þar segir í mgr. 8.8 að slökkviliðsstjóri skuli gæta þess að ákvæðum laga og reglugerða um brunavarnir sé framfylgt. Í mgr. 53.1 sömu reglugerðar kemur fram að slökkviliðsstjóri skuli vera viðstaddur lokaúttekt bygginga ásamt byggingarfulltrúa.
    Í c-lið er kveðið á um forvarnahlutverk eldvarnaeftirlits sveitarfélaga sem felst í því að leiðbeina fyrirtækjum og stofnunum í viðkomandi sveitarfélagi um brunavarnir og eldsvoða til að fyrirbyggja að tjón verði af völdum eldsvoða eða mengunaróhappa. Þetta fræðsluhlutverk eldvarnaeftirlits er annað og í nánari tengslum við íbúa sveitarfélagsins en það sem lagt er til að Brunamálastofnun sinni, sbr. c-lið 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Það starf er hluti af leiðbeiningar- og útgáfustarfsemi Brunamálastofnunar sem hefur m.a. að markmiði að samræma starfsemi slökkviliða í landinu.
    Í e-lið er kveðið á um að eldvarnaeftirlit skuli halda skrá yfir mannvirki og staði þar sem hætta er á manntjóni eða öðru umtalsverðu tjóni af völdum eldsvoða. Hér er lagt til nýtt hlutverk eldvarnaeftirlits og er það mikilvægur liður í því að eldvarnaeftirlit geri sér sem besta grein fyrir því hvaða starfsemi eða svæði séu hættulegust með tillit til eldsvoða innan síns umdæmis. Slík skráning er mikilvæg viðmiðun þegar samin er brunavarnaáætlun fyrir viðkomandi sveitarfélag.

Um 13. gr.

    Hér er mælt fyrir um brunavarnaáætlun sem skal liggja fyrir á hverju starfssvæði slökkviliðs og skal endurskoða eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Grein þessi er nýmæli en mikilvægt þykir að sveitarfélög fari yfir starfsemi slökkviliðs þannig að tryggt sé að slökkvilið ráði við þau verkefni sem þeim er falin samkvæmt lögunum. Hér ber sveitarfélagi að horfa til mannafla slökkviliðs, menntunar og þjálfunar þess og skipulagningar, sem og þess tækjabúnaðar sem slökkvilið hefur yfir að ráða miðað við aðstæður í viðkomandi sveitarfélagi. Áður en brunavarnaáætlun öðlast gildi þarf hún að hljóta samþykki Brunamálastofnunar. Brunamálastofnun ber að fara yfir allar áætlanir og meta hvort öryggisþáttum laganna sé fullnægt. Brunamálastofnun öðlast þannig yfirsýn og þekkingu á starfsemi einstakra slökkviliða og getur þannig gegnt samræmingarhlutverki sínu betur.
    Í 2. mgr. er lagt til að Brunamálastofnun gefi út leiðbeiningar um efni og gerð brunavarnaáætlana. Í brunavarnaáætlun skal taka tillit til hlutverks slökkviliða hvað varðar viðbrögð við mengunaróhöppum.

Um 14. gr.

    Í greininni er að finna nýmæli um samvinnu sveitarfélaga um brunavarnir. Á síðustu árum hafa sveitarfélögin aukið samstarf sín á milli varðandi brunavarnir. Sveitarfélögum er í 1. mgr. veitt heimild til að hafa samvinnu sín á milli. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu er lögð áhersla á að sveitarfélög auki samvinnu sín á milli bæði hvað varðar eldvarnaeftirlit og starfsemi slökkviliða. Með stækkun umdæma og slökkviliða er lögð áhersla á aukna samræmingu í starfsemi slökkviliða, meiri fagþekkingu og hagræðingu sem meðal annars felst í betri búnaði slökkviliða og þannig meira öryggi gagnvart eldsvoðum. Til samanburðar má geta þess að á síðustu árum hefur heilbrigðisnefndum sveitarfélaga og heilbrigðiseftirlitssvæðum verið fækkað með sameiningu svæða og nefnda og hefur sú samræming heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga gefist vel.
    Í 2. mgr. er sveitarfélögum, tveimur eða fleiri, veitt heimild til að semja sín á milli um sameiginlegt eldvarnaeftirlit og slökkvilið. Sveitarstjórn getur samið við annað sveitarfélag um að það taki yfir starfsemi slökkviliðs þess umdæmis að öllu leyti þannig að starfsemi slökkviliðsins færist til annars sveitarfélags sem sinnti þá báðum sveitarfélögunum. Eins geta sveitarfélög samið um það að einungis afmarkaður þáttur í starfsemi slökkviliðs flytjist undir stjórn annars sveitarfélags, svo sem starfsemi eldvarnaeftirlits. Ef t.d. einungis er samið um slökkvistarf þarf að tryggja að eldvarnaeftirlit sé viðunandi í sveitarfélaginu. Með slíkum samningum þarf ætíð að tryggja að hvert sveitarfélag hafi aðgang að slökkviliði sem þjóni íbúum sveitarfélagsins. Því er lögð sú skylda á sveitarfélög sem gera með sér slíkan samning að þau tilkynni það til Brunamálastofnunar.

Um 15. gr.

    Í greininni er fjallað um ráðningu slökkviliðsstjóra og hæfisskilyrði til að geta gegnt starfi sem slökkviliðsstjóri. Slökkviliðsstjóri skal hafa öðlast löggildingu sem slökkviliðsmaður, sbr. 1. mgr. 17. gr. frumvarpsins, en þar eru skilyrði fyrir löggildingu rakin. Auk þess að vera löggiltur slökkviliðsmaður skal slökkviliðsstjóri hafa starfað að lágmarki í eitt ár í slökkviliði sem löggiltur slökkviliðsmaður. Rétt þykir að gera meiri kröfur til slökkviliðsstjóra en slökkviliðsmanna þar sem slökkviliðsstjórar gegna mikilvægu hlutverki við framkvæmd brunavarna og því er þýðingarmikið að þeir hafi yfir tiltekinni þekkingu og þjálfun að ráða.
    Greinin er nýmæli þar sem í gildandi lögum er ekki að finna ákvæði um þau skilyrði sem slökkviliðsstjórar þurfi að uppfylla til að geta starfað sem slökkviliðsstjórar heldur koma þar eingöngu fram kröfur sem gerðar eru til slökkviliðsmanna, sbr. 8. gr. gildandi laga.
    Í ljósi þess að það kunni að vera erfiðleikum háð að fullnægja þessum skilyrðum er lögð til sú undantekning að reynist ekki unnt að fá til starfa slökkviliðsstjóra sem uppfyllir hæfisskilyrði laganna sé heimilt að ráða slökkviliðsstjóra tímabundið til starfa þó að hann uppfylli ekki tilgreind hæfisskilyrði. Þetta er þó ekki heimilt lengur en til tveggja ára. Í slíkum tilvikum yrði hins vegar að auglýsa starfið að nýju þegar tímabundnum samningi er lokið til að freista þess að fá til starfa slökkviliðsstjóra sem uppfyllir hæfisskilyrði laganna.
    Í 3. mgr. er lagt til að skylt sé að ráða slökkviliðsstjóra sem hafi umsjón með starfi slökkviliðs á svæðinu í þeim tilvikum þegar sveitarfélög sameinast um slökkvilið, sbr. 14. gr. frumvarpsins. Þegar svo háttar til að sveitarfélög sameinast um rekstur slökkviliðs ber sveitarfélögum að koma sér saman um einn slökkviliðsstjóra sem hefur yfirumsjón með viðkomandi slökkviliði.

Um 16. gr.

    Hér er kveðið á um þau verkefni sem slökkviliðsstjóra ber að hafa með höndum. Í núgildandi lögum er ákvæði um verkefni slökkviliðsstjóra að finna í 6., 14. og 15. gr. og er ákvæði þetta að hluta til byggt á þeim greinum. Í samræmi við gildissvið nýrra laga um að þau taki til mengunaróhappa á landi er lagt til að slökkviliðsstjóri stjórni aðgerðum á vettvangi við mengunaróhöpp á landi. Eins ber slökkviliðsstjóra að vinna brunavarnaáætlun á starfssvæði slökkviliðs, sbr. 13. gr. frumvarpsins, og skal hann leggja hana fyrir viðkomandi sveitarstjórn. Sveitarstjórn ber síðan að leggja brunavarnaáætlun fyrir Brunamálastofnun til samþykkis.

Um 17. gr.

    Greinin er að mestu samhljóða 8. gr. gildandi laga.
    Í greininni er kveðið á um hæfisskilyrði slökkviliðsmanna til að hljóta löggildingu. Í ákvæðinu er sett fram skilyrði um menntun og starfsreynslu til að öðlast löggildingu. Annars vegar er um að ræða að viðkomandi hafi lokið námi fyrir slökkviliðsmenn sem Brunamálaskólinn stendur fyrir eða hlotið sambærilega menntun á þessu sviði og Brunamálaskólinn metur jafngilda. Hitt skilyrðið er að viðkomandi hafi gegnt slökkvistarfi eða starfað við brunavarnir að aðalstarfi í a.m.k. eitt ár. Ráðherra skal veita löggildingu. Í reglugerð skal ráðherra kveða nánar á um menntun og önnur skilyrði til að öðlast löggildingu.

Um 18. gr.

    Ákvæðið er nánast óbreytt frá 10. gr. gildandi laga. Þær breytingar sem gerðar hafa verið felast í því að lagt er til að slökkviliðsmenn séu tryggðir við störf sín og æfingar vegna mengunaróhappa á landi og er það í samræmi við gildissvið laganna. Jafnframt er mælt fyrir um í ákvæðinu að lágmarkstrygging slökkviliðsmanna skuli vera í samræmi við slysatryggingar starfsmanna sveitarfélaga samkvæmt kjarasamningum. Þar sem slökkviliðsmenn eru starfsmenn sveitarfélaga þykir rétt að slysatryggingar þeirra miðist við slysatryggingar starfsmanna sveitarfélaga en ekki starfsmanna ríkisins eins og er í gildandi lögum.

Um 19. gr.

    Ákvæði greinarinnar er nánast óbreytt frá 7. gr. gildandi laga nema hvað hér hefur verið felld brott 4. mgr. þeirrar greinar sem fjallar um skyldu slökkviliðsstjóra til að halda slökkviliðsæfingar eins oft og áskilið er í reglugerð. Ekki er talin þörf á þessu ákvæði auk þess sem benda má á að í brunavarnaáætlun ber að fjalla um æfingar slökkviliðs.

Um 20. gr.

    Í greininni er kveðið á um þær heimildir sem slökkvilið hefur til að geta sinnt skyldum sínum. Greinin er að hluta til byggð á 15., 16. og 25. gr. gildandi laga en rétt þótti að færa öll þau ákvæði sem fjalla um heimildir slökkviliðs í eina grein. Skv. 1. mgr. er slökkviliðsstjóra og starfsmönnum hans heimilaður aðgangur að atvinnuhúsnæði og öðrum vinnustöðum þar sem eftirlits er þörf.
    Í 3. mgr. er slökkviliði heimilt að veita aðstoð vegna mengunaróhappa á landi utan eigin umdæmis til samræmis við gildissvið laganna.

Um 21. gr.

    Hér er kveðið á um almennar skyldur einstaklinga til að koma í veg fyrir tjón af völdum eldsvoða og mengunaróhappa eða takmarka þau með einhverjum hætti. Í 1. mgr. er að finna ákvæði sem var áður 12. gr. laga nr. 74/1982, um brunavarnir og brunamál, en gildandi lög um brunavarnir og brunamál tóku við af þeim lögum. Ákvæðið var að finna í frumvarpi til gildandi laga um brunavarnir og brunamál en var fellt út í meðferð Alþingis. Rétt þykir að í frumvarpi þessu sé kveðið á um þá almennu skyldu borgaranna að gera það sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir tjón af völdum eldsvoða eða að draga úr því eins og kostur er og er því lagt til að ákvæðið komi inn í frumvarpið. Jafnframt er lagt til að sama skylda hvíli á borgurunum við mengunaróhöpp á landi, í samræmi við markmið frumvarpsins.
    Ákvæði 2. mgr. er efnislega óbreytt frá 12. gr. gildandi laga.
    Ákvæði 3. mgr. er að hluta til eins og 13. gr. gildandi laga. Sú breyting er gerð á ákvæðinu að sveitarstjórn er gert skylt að greiða kostnað sem kann að falla til vegna aðgerða við framkvæmd slökkvistarfs sem ekki er greiddur af vátryggingafélagi. Sá sem verður fyrir fjárhagstjóni vegna aðgerða slökkviliðs getur orðið fyrir því að fá ekki tjón sitt bætt að fullu í þeim tilvikum þegar brunatrygging er ekki fyrir hendi eða þegar tryggingin bætir ekki tjónið að fullu. Ekki þykir rétt í slíkum tilvikum að sá sem verður fyrir tjóni vegna aðgerða slökkviliðs þurfi að bera tjón sitt sjálfur reynist það ekki bætt af vátryggingafélagi. Sú skylda er því lögð á viðkomandi sveitarstjórn að bæta honum tjónið.

Um 22. gr.

    Greinin er nánast óbreytt frá 20. gr. gildandi laga. Í greininni er auk þess fjallað um meðferð annarra hættulegra efna en eldfimra, til samræmis við breytt gildissvið að því er varðar mengunaróhöpp á landi.

Um 23. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um þær skyldur sem lagðar eru á eigendur og forráðamenn mannvirkis hvað varðar brunavarnir þess. Þannig bera þessir aðilar ábyrgð á því að fullnægt sé kröfum um brunavarnir sem koma fram í lögum og reglugerðum um brunamál og brunavarnir, að þær séu virkar og haft sé eftirlit með þeim. Greinin er efnislega samhljóða 1., 2., 3. og 6. mgr. 18. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er eiganda og forráðamanni mannvirkis m.a. gert skylt að hlíta fyrirmælum sem fram koma í lögum um eiturefni og hættuleg efni. Hér er um að ræða breytingu frá gildandi lögum og sett fram til samræmis við breytt gildissvið af því er varðar mengunaróhöpp á landi.
    Í 3. mgr. er sú skylda lögð á byggingarnefnd að leita álits slökkviliðsstjóra áður hún veitir samþykki fyrir breytingu á mannvirki eða starfsemi. Í gildandi lögum er eiganda og forráðmanni gert skylt að fá samþykki byggingarnefndar og slökkviliðsstjóra. Rétt þykir að byggingarnefnd leiti álits slökkviliðsstjóra áður en erindi um breytingu á mannvirki eða starfsemi er afgreitt. Ákvæðið er til samræmis við 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, þar sem segir að óheimilt sé að breyta húsi eða notkun þess nema að fegnu leyfi sveitarstjórnar.
    Fellt hefur verið brott ákvæði 8. mgr. 18. gr. gildandi laga um að eiganda eða forráðamanni mannvirkis og tryggingafélagi beri að gera viðeigandi ráðstafanir til björgunar verðmæta eftir bruna þar sem ekki þykir þörf á að kveða á um slíka skyldu manna í lögum.

Um 24. gr.

    Hér er fjallað um þau mannvirki þar sem er sérstök eldhætta, hætta á manntjóni eða hætta á stórfelldu eignatjóni í eldsvoða. Greinin tekur bæði til nýbyggðra mannvirkja og mannvirkja sem tekin hafa verið í notkun. Greinin er nær samhljóða 4., 5. og 7. mgr. 18. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. kemur fram að brunahönnun skuli samþykkt í byggingarnefnd. Einnig er lögð sú skylda á byggingarnefnd að hún leiti álits slökkviliðsstjóra um brunahönnun áður en hún er samþykkt af byggingarnefnd.
    Í 3. mgr. er slökkviliðsstjóra veitt heimild að höfðu samráði við sveitarstjórn til að gera kröfur um sérstakar ráðstafanir til brunavarna í mannvirkjum þar sem er sérstök eldhætta. Í gildandi lögum er Brunamálastofnun veitt þessi heimild en eðlilegt þykir að slík heimild sé í höndum slökkviliðsstjóra, enda er honum falið hið eiginlega eftirlitsvald á staðnum samkvæmt frumvarpi þessu.

Um 25. gr.

    Í greininni er fjallað um þær kröfur sem gerðar eru til brunaöryggis vöru og er hér kveðið skýrt á um ábyrgð framleiðanda, innflytjanda og seljanda á því að varan uppfylli öryggiskröfur á Evrópska efnahagssvæðinu. Þær kröfur sem hér eru gerðar um öryggi vöru eru að hluta til þær sömu og koma fram í 1. mgr. 17. gr. gildandi laga. Í gildandi lögum eru hins vegar eingöngu gerðar kröfur til seljenda en hér er lagt til að innflytjendur og framleiðendur beri jafnríka ábyrgð og seljendur vöru en hugtakið vara er skilgreint í 3. gr. frumvarpsins.
    Ef vara hefur ekki viðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu skal leita viðurkenningar Brunamálastofnunar á brunaöryggi vörunnar áður en hún er sett á markað. Kostnaður við slíka viðurkenningu skal greiddur af þeim sem sækir um viðurkenningu. Ávallt er skylt að hlíta leiðbeiningum framleiðanda um notkun vörunnar. Verði ágreiningur um notkunarsvið vöru skal leita úrskurðar Brunamálastofnunar, en slíkum úrskurðum stofnunarinnar er unnt að skjóta til ráðherra eins og öðrum ákvörðunum sem stofnunin tekur í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Sú skylda hvílir á framleiðanda, seljanda og innflytjanda að vara uppfylli kröfur um öryggi vöru. Rétt þykir að Brunamálastofnun hafi heimild til að banna sölu vöru sem ekki fullnægir þeim kröfum sem gerðar eru til vörunnar. Við meðferð slíkra mála ber Brunamálastofnun að fara eftir ákvæðum IV. og V. kafla laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eftir því sem við á.

Um 26. gr.

    Ákvæðið er að mestu óbreytt frá 21. gr. gildandi laga. Ekki er þó lengur skylt að tilkynna bruna til vátryggingafélaga. Ekki þykir rétt að leggja slíka almenna skyldu á þá sem verða fyrir brunatjóni í lögum, enda er gert ráð fyrir því að tjónþoli tilkynni tjón sitt til viðkomandi tryggingafélags.

Um 27. gr.

    Ákvæðið er efnislega óbreytt frá 22. gr. gildandi laga. Þar sem Löggildingarstofa hefur tekið við hlutverki Rafmagnseftirlits ríkisins er lögreglu gert skylt að tilkynna um eldsvoða og rannsókn sína til Löggildingarstofu.

Um 28. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er efnislega óbreytt frá 22. gr. a gildandi laga. Hér er kveðið á um skyldu Brunamálastofnunar til að rannsaka eldsvoða í því skyni að kanna orsakir hans. Þessi skylda er lögð á Brunamálastofnun í þeim tilvikum þegar tjón er verulegt og þegar manntjón verður. Slíkar rannsóknir ber Brunamálastofnun að gera í því skyni að auka þekkingu á orsökum og afleiðingum eldsvoða og ætti það að gera stofnuninni betur kleift að sinna fræðslu- og ráðgefandi hlutverki sínu.
    Í 2. mgr. er að finna nýmæli, sett fram í því skyni að auka yfirsýn Brunamálastofnunar yfir brunatjón og tjón af völdum mengunaróhappa sem bætt eru af vátryggingafélögum. Með þessu ákvæði er ekki gerð sú krafa að gefnar séu upplýsingar um bætur fyrir hvert einstakt tjón heldur ber vátryggingafélögum ár hvert að upplýsa hver sé heildartjónakostnaður þeirra.

Um 29. gr.

    Í greininni er kveðið á um þau þvingunarúrræði sem slökkviliðsstjóri beitir til að knýja fram úrbætur vegna mannvirkis sem tekið hefur verið í notkun.
    Greinin er nýmæli og kveður hún á um úrræði sem slökkviliðsstjóri getur gripið til telji hann að brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Í gildandi lögum eru þvingunarúrræði ekki nægjanleg til að slökkvilið geti sinnt sem best skyldum sínum þannig að öryggi fólks og eigna sé tryggt. Þar sem hér er um að ræða úrræði sem leggja skyldur á þann aðila sem þau beinast gegn þykir rétt að gera skýra grein fyrir þeim úrræðum sem slökkviliðsstjóri getur gripið til.
    Slökkviliðsstjóri getur veitt áminningu og veitt aðila tilhlýðilegan frest til að gera úrbætur. Þetta er fyrsta stig aðgerða og beitt í þeim tilvikum þegar ekki er um að ræða eins alvarleg tilvik og mælt er fyrir um í 2. og 3. tölul. 2. mgr., sbr. skýringar við 30. og 31. gr. frumvarpsins
    Greinin þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.

Um 30. gr.

    Í greininni, sem er nýmæli, er kveðið á um öryggisvakt sem slökkviliðsstjóri getur fyrirskipað á kostnað eiganda og jafnframt skal hann veita skriflega áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta. Þessu úrræði er beitt ef unnt er að tryggja lágmarksöryggi fólks með aðgerðum til bráðabirgða á meðan unnið er að úrbótum. Í slíkum tilvikum er notkun mannvirkis heimil á meðan á úrbótum stendur en það skilyrði sett að staðin sé öryggisvakt þar til viðeigandi úrbótum er lokið að mati slökkviliðsstjóra. Slökkviliðsstjóri skal ákveða fyrirkomulag og umfang öryggisvaktar hverju sinni og ákveða hver skuli sinna henni í samráði við eiganda eða forráðamann. Ekki er gerð krafa um að starfsmenn slökkviliðs sinni almennt öryggisvakt heldur er hægt að fela slíkt verkefni til þess hæfum aðila. Beita skal þessu úrræði ef unnt er í stað þess að banna notkun mannvirkis að hluta eða öllu leyti, enda er það úrræði mjög íþyngjandi.

Um 31. gr.

    Hér er kveðið á um heimildir slökkviliðsstjóra til að banna notkun mannvirkis að hluta til eða að öllu leyti. Skv. 4. mgr. 26. gr. gildandi laga er skylt að loka mannvirki ef almannahætta stafar af því að settum reglum um brunavarnir er ekki fylgt. Hér eru skilyrði slökkviliðsstjóra til að krefjast lokunar mannvirkis rýmkuð þannig að ef um alvarleg tilvik eða ítrekað brot er að ræða er heimilt að loka mannvirki. Slökkviliðsstjóri gæti t.d. krafist lokunar ef af mannvirki stafar bráð hætta. Jafnframt getur slökkviliðsstjóri krafist lokunar ef aðili sinnir ekki úrbótum innan þeirra tímamarka sem sett hafa verið um að gera viðeigandi úrbætur, sbr. 1. og 2. tölul. 2. mgr. 29. gr.
    Telji slökkviliðsstjóri nauðsynlegt að loka mannvirki til þess að bann komist til framkvæmda skal hann krefjast lokunar af lögreglustjóra. Slökkviliðsstjóri getur jafnframt bannað notkun mannvirkis að hluta en heimilað notkun þess að öðru leyti.
    Þegar slökkviliðsstjóri krefst lokunar mannvirkis skal hann tilkynna hlutaðeigandi sveitarstjórn, eiganda og/eða forráðamanni um fyrirhugaða lokun. Mikilvægt er að framangreindir aðilar fái vitneskju um að lokun eigi að fara fram. Notkun mannvirkis er ekki heimil að nýju fyrr en framkvæmdar hafa verið viðeigandi úrbætur að mati slökkviliðsstjóra og lögreglustjóra.

Um 32. gr.

    Í greininni er kveðið á um heimild til að beita dagsektum. Slík heimild er fyrir hendi skv. 3. mgr. 26. gr. gildandi laga. Í greininni er ekki veitt heimild til að krefjast dagsekta nema slökkviliðsstjóri hafi áður krafist úrbóta og ekki hafi verið gerðar viðeigandi ráðstafanir innan þess frests sem slökkviliðsstjóri hefur sett, sbr. 1. og 2. tölul. 2. mgr. 29. gr. frumvarpsins. Áður en dagsektum er beitt skal slökkviliðsstjóri hafa veitt aðila áminningu um að heimilt sé að krefjast dagsekta verði ekki orðið við kröfu slökkviliðsstjóra um úrbætur innan tilskilins frests. Slökkviliðsstjóri veitir slíka áminningu með því bréfi sem hann sendir á grundvelli 1. og 2. tölul. 29. gr. Lagt er til að hámark dagsekta sé 500.000 kr. á dag. Í gildandi lögum er ekki kveðið á um hvert sé hámark dagsekta. Þar sem dagsektir eru þvingunarúrræði og leggja kvaðir á aðila verður að kveða skýrt á um það í lögum hver sé hámarksupphæð dagsekta. Dagsektum verður ekki beitt nema með samþykki hlutaðeigandi sveitarstjórnar.

Um 33. gr.

    Í greininni er fjallað um heimild ráðherra til að grípa til nauðsynlegra aðgerða á kostnað sveitarfélags telji hann að sveitarstjórn sinni ekki skyldum sínum eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um. Greinin er að hluta til eins og 2. mgr. 27. gr. gildandi laga. Lögð er til sú breyting frá gildandi lögum að það sé í höndum ráðherra að meta hvort grípa þurfi til aðgerða gagnvart sveitarstjórn. Í gildandi lögum er ráðuneytinu gert skylt að veita sveitarstjórn áminningu og skora á hana að bæta úr vanrækslu ef Brunamálastofnun hefur tilkynnt ráðuneytinu að sveitarstjórn sinni ekki skyldu sinni samkvæmt lögunum. Samkvæmt gildandi lögum er það því Brunamálastofnun ríkisins sem tekur ákvörðun um það hvort veita eigi sveitarstjórn áminningu en nú er lögð til sú breyting að ráðherra ákveði hverju sinni hvort grípa þurfi til nauðsynlegra aðgerða gagnvart sveitarstjórn.

Um 34. gr.

    Hér er kveðið á um refsingu fyrir brot gegn ákvæðum laganna og reglugerðum með stoð í þeim. Varðar brot sektum eða fangelsi allt að tveimur árum séu sakir miklar. Ákvæðið er að hluta til eins og 31. gr. gildandi laga. Þó er lögð til sú breyting frá gildandi lögum að heimilt er að beita refsingu ef brot er framið af stórfelldu gáleysi. Í gildandi lögum er ásetningur skilyrði refsingar. Markmið frumvarps þessa er að vernda líf, heilsu fólks, umhverfi og eignir, sbr. 1. gr. Brot gegn ákvæðum laganna og þeim reglugerðum sem eiga sér stoð í þeim geta því varðað mikilvæga hagsmuni eins og líf og heilsu manna. Með hliðsjón af því hversu brot geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér þykir rétt að rýmka refsiskilyrðin frá gildandi lögum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um refsiábyrgð lögaðila og er ákvæðið nýmæli. Rétt þykir að kveða á um refsiábyrgð lögaðila til samræmis við breytingu sem gerð var á almennum hegningarlögum, sbr. lög nr. 140/1998. Hér er ekki gert að skilyrði að sök sé sönnuð á starfsmann lögaðila til að heimilt sé ákvarða lögaðila sekt.

Um 35. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 36. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er nýmæli en þar er kveðið á um rétt aðila til að kæra ákvörðun til ráðherra. Hér er um að ræða að ákvarðanir lægra setts stjórnvalds séu kæranlegar til ráðherra. Aðili getur t.d. kært ákvörðun Brunamálastofnunar eða slökkviliðsstjóra til ráðherra ef þær varða framkvæmd laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Aðili á slíkan kærurétt samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, en rétt þykir að hafa ákvæði um kæruheimild aðila í frumvarpinu til upplýsingar fyrir þá sem kunna að lenda í ágreiningi vegna framkvæmdar laganna.
    Ákvæði 2. mgr. er eins að efni og 5. mgr. 26. gr. gildandi laga. Rétt þykir að Brunamálastofnun geti kveðið upp úr um ágreining sem kann að koma upp vegna framkvæmda þeirra þvingunarúrræða sem heimiluð eru í lögunum, sbr. 29.–32. gr. Ef aðili sættir sig ekki við ákvörðun Brunamálastofnunar er ætíð heimilt að kæra slíka ákvörðun til ráðherra, sbr. ákvæði 1. mgr. þessarar greinar.

Um 37. gr.

    Ákvæði greinarinnar eru efnislega óbreytt frá 23. gr. gildandi laga. Sú breyting er þó lögð til í 1. mgr. að fjárhæð brunavarnagjalds sé fastákveðin upphæð en ekki sé veitt það svigrúm sem er í gildandi lögum til að ákveða hversu hátt gjaldið skuli vera af vátryggingarfjárhæð brunatryggðra fasteigna og lausafjár. Þessi breyting er gerð með hliðsjón af því að brunavarnagjald er skattur og ber því að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til skattlagningarheimilda.
    Brunavarnagjald hefur staðið undir rekstri Brunamálastofnunar og er ekki gerð tillaga um breytingu þar á. Undanfarin ár hefur innheimt brunavarnagjald verið nokkuð hærra en rekstrarkostnaður Brunamálastofnunar. Líklegt er að verði frumvarpið að lögum leiði það til einhverrar aukningar á rekstrarkostnaði stofnunarinnar. Hins vegar er lagt til að sá mismunur sem er á innheimtu brunavarnagjaldi og rekstrarkostnaði Brunamálastofnunar verði nýttur næstu fimm ár til að styðja þau sveitarfélög sem sameinast um rekstur slökkviliða og þurfa að leggja í tímabundinn kostnað vegna þess, sbr. ákvæði I til bráðabirgða. Þegar þeim stuðningi lýkur árið 2005 verði endurskoðað hvort rétt sé að lækka hlutfallstölu brunavarnagjaldsins.

Um 38. gr.

    Ákvæði greinarinnar er að hluta til eins og 24. gr. gildandi laga. Hér er þó gerð sú breyting frá gildandi lögum að fjárhæð styrkveitinga er ekki lengur bundin við ákveðið hlutfall brunavarnagjaldsins ár hvert heldur skal upphæð styrkveitinga vera ákveðin í fjárlögum á hverju ári. Eðlilegra er að fjárhæð styrkja miðist við þörf hverju sinni.
    Samkvæmt reglugerð um Fræðslusjóð brunamála, nr. 138/1993, hefur stjórn Brunamálastofnunar farið með úthlutun námsstyrkja. Lagt er til að Brunamálastofnun annist úthlutun námsstyrkja að fenginni umsögn brunamálaráðs.

Um 39. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 40. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2001 þar sem rétt þykir að þeir aðilar sem vinna eiga eftir nýjum lögum hafi nokkurn tíma til að laga sig að þeim breytingum sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Frá sama tíma munu gildandi lög um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992, falla úr gildi.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Með frumvarpinu er leitast við að tryggja samræmt eftirlit og virkt slökkvistarf á öllu landinu. Fram hefur komið í viðræðum við þá aðila sem þekkja vel til framkvæmdar brunavarna um allt land að aukin samvinna, einkum hinna smærri sveitarfélaga, muni geta leitt til úrbóta í samræmi við markmið frumvarpsins. Til að koma slíkri samvinnu á hjá sveitarfélögum er talið óhjákvæmilegt að styrkja núverandi starfsemi þeirra tímabundið, a.m.k. á meðan verið er að koma samstarfinu á og þróa það. Því er lagt til að á fjárlögum næstu fimm ára, 2001–2005, verði þeim hluta brunavarnagjalds sem ekki rennur til reksturs Brunamálastofnunar varið til að styrkja sveitarfélög sem sameinast um rekstur eldvarnaeftirlits og/eða slökkviliðs. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglur um úthlutun þessa þar sem tekið verði tillit til þarfa viðkomandi sveitarfélags vegna sameiningar um rekstur.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Brunamálastofnun ber að gefa út leiðbeiningar um gerð og efni brunavarnaáætlana innan sex mánaða frá gildistöku nýrra laga.
    Í ákvæðinu eru sett tímamörk um það hvenær brunavarnaáætlanir, sbr. 13. gr., þurfi að liggja fyrir, en það er skal vera eigi síðar en að tveimur árum liðnum frá gildisstöku nýrra laga.

Um ákvæði til bráðabirgða III.

    Ákvæði frumvarpsins um hæfisskilyrði slökkviliðsstjóra gilda ekki um þá slökkviliðsstjóra sem ráðnir hafa verið til starfa áður en ný lög taka gildi.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.

    Rétt þykir að sameina ákvæði sem heyra undir umhverfisráðuneytið og fjalla um öryggi bygginga og byggingarefni, en þau er nú að finna í skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, og í frumvarpi þessu verði það að lögum. Samhliða endurskoðun laganna kemur til álita að færa stjórnsýslu byggingarmála á eina hendi og einfalda þannig og samhæfa framkvæmd þessa málaflokks.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um brunavarnir.

    Tilgangur frumvarpsins er að skilgreina tilgang og ábyrgðarsvið Brunamálastofnunar og annarra sem fara með bruna- og mengunarvarnir á landi.
    Brunavarnagjald er 0,045 prómill af vátryggingarfjárhæð brunatrygginga fasteigna og lausafjár, svo og samsettra vátrygginga sem fela í sér brunatryggingu. Gjaldið hefur undanfarin ár gefið meiri tekjur en sem nemur rekstri Brunamálastofnunar. Áætlaður afgangur fyrir árið 2000 er 13 m.kr. Ef frumvarpið verður óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að mismunur á álögðu brunavarnagjaldi og kostnaði við rekstur Brunamálastofnunar fyrir árin 2001–2005 verði veittur í styrktarframlög til smærri sveitarfélaga til að auðvelda þeim að sameinast um rekstur eldvarnaeftirlits og/eða slökkviliðs. Gert er ráð fyrir að sú upphæð nemi 13 m.kr. á ári eða alls 65 m.kr. allt tímabilið. Vakin er athygli á því að í fjárlögum fyrir árið 2000 eru ákvæði um að tekjur af brunamálagjaldi umfram 87 m.kr. renni í ríkissjóð.
Neðanmálsgrein: 1
1      World Fire Statistics Centre, 15. september 1999. Íslenskar tölur eru fengnar frá Brunamálastofnun og verg þjóðarframleiðsla (GDP) frá Hagstofunni.
Neðanmálsgrein: 2
2      World Fire Statistics Centre, 15. september 1999. Íslenskar tölur eru fengnar frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.