Ferill 346. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 807  —  346. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Jóhanns Ársælssonar um vegaframkvæmdir í Hvalfirði.

     1.      Hver var heildarkostnaður við vegaframkvæmdir norðan Hvalfjarðar í tengslum við gerð Hvalfjarðarganga?
    Heildarkostnaður við vegaframkvæmdir norðan Hvalfjarðar var 741 millj. kr. og skiptist þannig:

Endurgerð Innnesvegar
69 millj. kr.
Vegarkafli frá göngum um tollstöð ásamt hringtorgi
50 millj. kr.
Hringvegur og Akrafjallsvegur
622 millj. kr.
Samtals
741 millj. kr.

     2.      Hversu há voru þau tilboð sem samþykkt var að taka?
    Endurgerð Innnesvegar annars vegar og gerð Akrafjallsvegar og Hringvegar hins vegar var boðin út. Samið var við Háfell um endurgerð Innnesvegar, samningsupphæðin var 33,8 millj. kr. Um gerð Hringvegar og Akrafjallsvegar var samið við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða á Selfossi og var samningsupphæðin 325 millj. kr.
    Um gerð hringtorgs og vegar um tollstöð að gangamunna var samið við Fossvirki, sem var aðalverktaki við jarðgangagerðina. Samningsupphæð fyrir þetta verk var 29 millj. kr. sem byggðist á verði fyrir aðalverkið, þ.e. Hringveg og Akrafjallsveg.

     3.      Hve háar fjárhæðir voru greiddar í heild fyrir aukaverk?
    Heildargreiðsla fyrir aukaverk í umræddum framkvæmdum voru sem hér segir:

Innnesvegur
3 millj. kr.
Hringtorg og vegur um tollstöð
4 millj. kr.
Hringvegur og Akrafjallsvegur
34 millj. kr.
Samtals
41 millj. kr.

    Til að skýra myndina er rétt að gera nánari grein fyrir Hringvegi og Akrafjallsvegi en sú framkvæmd er langstærst. Kostnaður við aukaverk er þar 34 millj. kr. eins og áður sagði. Hér er um að ræða kostnað við framkvæmdir vegna samninga við landeigendur, gerð reiðvega og undirganga, malbikun Akranesvegar frá Akrafjallsvegi að hringtorgi við Akranes o.fl. Samningar við landeigendur lágu ekki fyrir þegar útboð fór fram og því var ekki unnt að reikna með þeim.
    Auk þessa voru gerðar nokkrar breytingar á verkinu á verktímanum. Hin veigamesta var að ákveðið var að slitlag vegarins yrði malbik í stað klæðingar og að axlir skyldu klæddar, en í útboði var reiknað með malaröxlum. Malbik í stað klæðingar jók kostnað, en auk þess færðist mikið af öðrum kostnaði (sjá síðar) til verktakans vegna þess að Vegagerðin átti að leggja til malarefni og asfalt í klæðingu, en malbikið allt, vinna og efni, var keypt af verktakanum samkvæmt tilboði. Enn má nefna að vegurinn liggur á löngum köflum um mýrlendi og reyndist sig meira en áætlað var og þurfti því meira magn fyllingarefna. Heildargreiðslur til verktaka vegna framangreindra þátta voru 54 millj. kr. Þá fékk hann greiddar verðbætur og flýtifé, samtals 14 millj. kr. Heildargreiðsla til verktakans var samkvæmt þessu 432 millj. kr.
    Annar kostnaður er vegna efnis sem verktaka er lagt til, svo sem efnis í ræsi og leiðara, malarefnis o.fl. Enn fremur verkkaup af öðrum aðilum, eins og fyrir vinnslu malarefnis, málun vegar, uppsetningu umferðarmerkja, stikun, vegvísun og þess háttar. Þá eru í þessum kostnaði greiðslur til landeigenda, flutningur á leiðslum (rafmagn, sími, vatn), rannsóknir og hönnun verksins og eftirlit og umsjón með því. Í heild var þessi kostnaður um 190 millj. kr.

     4.      Hvaða endurbætur eru fyrirhugaðar á áðurnefndum vegum?
    Ákveðið er að gera endurbætur á þrennum gatnamótum: gatnamótum Akrafjallsvegar og Akranesvegar við Akranes, gatnamótum Hringvegar og Akrafjallsvegar við Urriðaá og gatnamótum Hringvegar og Hvalfjarðarvegar. Byrjað er á gatnamótum við Urriðaá og Akranes.
    Einnig hefur verið óskað eftir lýsingu frá göngum að Akranesi og breytingum við hringtorg og gjaldskýli, en ekki hefur verið tekin afstaða til þeirra óska.

     5.      Hve mikið er áætlað að þessar endurbætur kosti?
    Áætlað er að kostnaður við endurbætur gatnamótanna sé um 5 millj. kr.