Ferill 522. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 823  —  522. mál.
Frumvarp til lagaum kosningar til Alþingis.

Flm.: Davíð Oddsson.I. KAFLI

Kosningarréttur og kjörgengi.

1. gr.

    Kosningarrétt við kosningar til Alþingis á hver íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og lögheimili á hér á landi.
    Íslenskur ríkisborgari, sem náð hefur 18 ára aldri og átt hefur lögheimili hér á landi, á og kosningarrétt:
     a.      í átta ár frá því að hann flutti lögheimili af landinu, talið frá 1. desember næstum fyrir kjördag,
     b.      eftir þann tíma sem greinir í a-lið enda hafi hann sótt um það samkvæmt nánari reglum í 2. gr.

2. gr.

    Umsókn um kosningarrétt skv. b-lið 2. mgr. 1. gr. skal send Hagstofu Íslands á þar til gerðu eyðublaði þar sem fram kemur nafn umsækjanda, kennitala hans, hvenær hann flutti af landi brott, síðasta lögheimili á landinu og heimilisfang erlendis. Umsókn skal jafnframt bera með sér yfirlýsingu umsækjanda um að hann sé enn íslenskur ríkisborgari. Hagstofan lætur eyðublöð þessi í té og skulu þau liggja þar frammi, í skrifstofum sendiráða og fastanefnda, í sendiræðisskrifstofum og í skrifstofum kjörræðismanna. Ekki skal taka til greina umsókn sem berst Hagstofunni meira en einu ári áður en réttur skv. a-lið 2. mgr. 1. gr. fellur niður. Ef umsókn er fullnægjandi tilkynnir Hagstofan umsækjanda það og hlutaðeigandi sveitarstjórn. Ákvörðun um að einhver skuli þannig tekinn á kjörskrá gildir í fjögur ár frá 1. desember næstum eftir að umsókn var lögð fram.
    Ákvæði þessi gilda á sama hátt um endurnýjun kosningarréttarins.

3. gr.

    Enginn getur neytt kosningarréttar nema nafn hans sé á kjörskrá þegar kosning fer fram.

4. gr.

    Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá sem kosningarrétt á skv. 1. gr. og hefur óflekkað mannorð. Hæstaréttardómarar og umboðsmaður Alþingis eru þó ekki kjörgengir.

5. gr.

    Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar.
    Dómur fyrir refsivert brot hefur ekki flekkun mannorðs í för með sér nema sakborningur hafi verið fullra 18 ára að aldri er hann framdi brotið og refsing sé fjögurra mánaða fangelsi óskilorðsbundið hið minnsta eða öryggisgæsla sé dæmd.

II. KAFLI

Kjördæmi.

6. gr.

    Kjósendur neyta kosningarréttar síns í kjördæmum eftir þeim reglum og með þeim skilyrðum er lög þessi setja. Landinu er skipt í kjördæmi sem hér segir:
    1. Norðvesturkjördæmi.
    Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög: Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarstrandarhreppur, Skilmannahreppur, Innri-Akraneshreppur, Leirár- og Melahreppur, Skorradalshreppur, Borgarfjarðarsveit, Hvítársíðuhreppur, Borgarbyggð, Kolbeinsstaðahreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Eyrarsveit, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær, Dalabyggð, Saurbæjarhreppur, Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Hólmavíkurhreppur, Kirkjubólshreppur, Broddaneshreppur, Bæjarhreppur, Húnaþing vestra, Áshreppur, Sveinsstaðahreppur, Torfalækjarhreppur, Blönduósbær, Svínavatnshreppur, Bólstaðarhlíðarhreppur, Engihlíðarhreppur, Vindhælishreppur, Höfðahreppur, Skagahreppur, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur.
    2. Norðausturkjördæmi.
    Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög: Siglufjarðarkaupstaður, Ólafsfjarðarkaupstaður, Grímseyjarhreppur, Dalvíkurbyggð, Hríseyjarhreppur, Arnarneshreppur, Skriðuhreppur, Öxnadalshreppur, Glæsibæjarhreppur, Akureyrarkaupstaður, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Hálshreppur, Ljósavatnshreppur, Bárðdælahreppur, Skútustaðahreppur, Reykdælahreppur, Aðaldælahreppur, Reykjahreppur, Húsavíkurkaupstaður, Tjörneshreppur, Kelduneshreppur, Öxarfjarðarhreppur, Raufarhafnarhreppur, Svalbarðshreppur, Þórshafnarhreppur, Skeggjastaðahreppur, Vopnafjarðarhreppur, Norður-Hérað, Fljótsdalshreppur, Fellahreppur, Austur-Hérað, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fjarðabyggð, Mjóafjarðarhreppur, Fáskrúðsfjarðarhreppur, Búðahreppur, Stöðvarhreppur, Breiðdalshreppur og Djúpavogshreppur.
    3. Suðurkjördæmi.
    Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög: Sveitarfélagið Hornafjörður, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Austur-Eyjafjallahreppur, Vestur-Eyjafjallahreppur, Austur-Landeyjahreppur, Vestur-Landeyjahreppur, Fljótshlíðarhreppur, Hvolhreppur, Rangárvallahreppur, Holta- og Landsveit, Ásahreppur, Djúpárhreppur, Vestmannaeyjabær, Gaulverjabæjarhreppur, Sveitarfélagið Árborg, Hraungerðishreppur, Villingaholtshreppur, Skeiðahreppur, Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Biskupstungnahreppur, Laugardalshreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Þingvallahreppur, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Grindavíkurkaupstaður, Sandgerðisbær, Gerðahreppur, Reykjanesbær og Vatnsleysustrandarhreppur.
    4. Suðvesturkjördæmi.
    Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög: Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Bessastaðahreppur, Kópavogsbær, Seltjarnarneskaupstaður, Mosfellsbær og Kjósarhreppur.
    5.–6. Reykjavíkurkjördæmi suður og norður.
    Reykjavík skal skipta frá vestri til austurs í tvö kjördæmi, suðurkjördæmi og norðurkjördæmi, eftir því sem fyrir er mælt í 7. gr.
    Verði heiti eða mörkum sveitarfélags breytt eða sameinist tvö eða fleiri þeirra skal litið svo á að sveitarfélagið, sem til verður í staðinn, heyri til þess kjördæmis sem það eldra eða þau eldri heyrðu til. Varði slík breyting mörk kjördæma skulu þau þó haldast óbreytt.

7. gr.

    Þegar boðað hefur verið til almennra alþingiskosninga skal landskjörstjórn ákveða mörk kjördæma í Reykjavík miðað við íbúaskrá þjóðskrár fimm vikum fyrir kjördag, sbr. 1. mgr. 23. gr. Skulu mörkin við það miðuð að kjósendur í hvoru kjördæmi um sig að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, séu nokkurn veginn jafnmargir. Gæta skal þess, eftir því sem kostur er, að hvort kjördæmi sé sem samfelldust heild.
    Landskjörstjórn auglýsir mörk kjördæmanna í Stjórnartíðindum jafnskjótt og þau liggja fyrir, og eigi síðar en fjórum vikum fyrir kjördag.

8. gr.

    Þingsæti eru 63 og skiptast þannig milli kjördæma:
Norðvesturkjördæmi
10 þingsæti

Norðausturkjördæmi
10 þingsæti

Suðurkjördæmi
10 þingsæti

Suðvesturkjördæmi
11 þingsæti

Reykjavíkurkjördæmi suður
11 þingsæti

Reykjavíkurkjördæmi norður
11 þingsæti

    Í Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi skulu vera níu kjördæmissæti og eitt jöfnunarsæti í hverju kjördæmi. Í Suðvesturkjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi norður og Reykjavíkurkjördæmi suður skulu vera níu kjördæmissæti og tvö jöfnunarsæti í hverju kjördæmi.
    Þrátt fyrir það sem segir í 1. og 2. mgr. getur landskjörstjórn breytt fjölda kjördæmissæta í hverju kjördæmi í samræmi við 9. gr.

9. gr.

    Eftir hverjar alþingiskosningar skal landskjörstjórn reikna út hvort kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum skv. 2. mgr. 8. gr., séu helmingi færri í einu kjördæmi en kjósendur að baki hverju þingsæti í einhverju öðru kjördæmi, miðað við kjörskrá í nýafstöðnum kosningum, sbr. 5. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar. Ef svo er skal landskjörstjórn breyta fjölda kjördæmissæta í kjördæmum þannig að dregið verði úr þessum mun. Sú breyting má þó aldrei verða meiri en þörf krefur hverju sinni til þess að fullnægja fyrirmælum þessa stjórnarskrárákvæðis.
    Landskjörstjórn auglýsir breytinguna í Stjórnartíðindum jafnskjótt og hún hefur verið gerð.
    Heimild landskjörstjórnar til að breyta þingmannatölu í kjördæmum samkvæmt þessari grein nær þó aðeins til þeirra kjördæmissæta sem eru umfram stjórnarskrárbundið lágmark, sbr. 3. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar.

III. KAFLI

Kjördeildir.

10. gr.

    Hverju kjördæmi skal skipt í kjördeildir og er hvert sveitarfélag ein kjördeild nema sveitarstjórn hafi ákveðið að skipta því í fleiri kjördeildir.
    Kjördeildir skal að jafnaði kenna við kjörstað eða tölusetja til aðgreiningar.

IV. KAFLI

Kjörstjórnir.

11. gr.

    Kjörstjórnir við alþingiskosningar skulu vera þrenns konar:
     a.      Landskjörstjórn.
     b.      Yfirkjörstjórnir.
     c.      Undirkjörstjórnir og aðrar kjörstjórnir sveitarfélaga, sbr. 2. mgr. 15. gr.

12. gr.

    Alþingi kýs eftir hverjar almennar alþingiskosningar fimm manna landskjörstjórn og jafnmarga til vara. Landskjörstjórn velur sér sjálf oddvita og skiptir að öðru leyti með sér verkum.

13. gr.

    Í hverju kjördæmi er yfirkjörstjórn. Skal hún skipuð fimm mönnum og jafnmörgum til vara og eru þeir kosnir af Alþingi á sama hátt og landskjörstjórn. Kýs hún sér sjálf oddvita.
    Yfirkjörstjórn skal með nægum fyrirvara á undan kosningum auglýsa aðsetur sitt þar sem hún veitir viðtöku framboðslistum og þar sem hún dvelst meðan kosning fer fram, og skal aðsetur hennar liggja eins vel við samgöngum og kostur er.

14. gr.

    Nú forfallast landskjörstjórnar- eða yfirkjörstjórnarmaður og varamaður er ekki tiltækur, og skipar ráðherra menn í þeirra stað eftir tillögu þeirra samtaka sem kusu þá á Alþingi.

15. gr.

    Í hverri kjördeild skal vera undirkjörstjórn, skipuð þremur mönnum, sem sveitarstjórn kýs og jafnmarga til vara.
    Í sveitarfélagi þar sem kjördeildir eru fleiri en ein getur sveitarstjórn kosið sérstaka þriggja manna kjörstjórn til að hafa umsjón með starfi undirkjörstjórna. Þar sem kjördeildir eru fleiri en ein á sama kjörstað skal sveitarstjórn kjósa þriggja manna kjörstjórn, hverfis- eða yfirkjörstjórn, til að hafa með höndum stjórn undirkjörstjórna á kjörstaðnum. Ef slíkir kjörstaðir eru fleiri en einn skal sveitarstjórn á sama hátt kjósa sérstaka yfirkjörstjórn sveitarfélagsins. Með samþykki yfirkjörstjórna Reykjavíkurkjördæma getur borgarstjórn ákveðið að þær kjörstjórnir fari með verkefni yfirkjörstjórnar í hvoru kjördæmi í Reykjavíkurborg. Kjörstjórnir þessar skulu jafnan vera reiðubúnar til að koma fyrirvaralaust á fundi á kjördegi til ákvarðana og úrskurða í sambandi við kosninguna ef með þarf.
    Kjörstjórnir skulu kosnar á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar til fjögurra ára í senn. Þar sem kosnar eru kjörstjórnir skv. 2. mgr. er sveitarstjórn heimilt að fresta kosningu undir- og hverfiskjörstjórna þannig að þær verði kosnar til eins árs fyrir hverjar almennar alþingiskosningar. Sveitarstjórn er einnig heimilt að fresta kosningu eins eða fleiri varamanna. Kjörstjórnir kjósa sér oddvita og skipta að öðru leyti með sér verkum.

16. gr.

    Sá sem sæti á í kjörstjórn skal víkja sæti ef hann er í kjöri til Alþingis.
    Einnig skal kjörstjórnarmaður víkja sæti ef til úrskurðar er mál er varðar maka hans eða þann sem er skyldur honum eða mægður í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti við ættleiðingu.

17. gr.

    Varamenn taka sæti í kjörstjórn í forföllum aðalmanna eftir venjulegum reglum þegar hlutfallskosningar eru viðhafðar, en annars eftir þeirri röð sem þeir eru kosnir eða skipaðir. Ef kjörstjórn verður ekki á þennan hátt fullskipuð kveður hún sjálf til þann eða þá sem þarf til þess að talan sé fyllt.

18. gr.

    Það er borgaraleg skylda að taka sæti í kjörstjórn.
    Dómsmálaráðherra ákveður þóknun fyrir störf í landskjörstjórn og yfirkjörstjórn en sveitarstjórn ákveður þóknun fyrir störf í undirkjörstjórn og kjörstjórn skv. 2. mgr. 15. gr.

19. gr.

    Allar kjörstjórnir skulu halda gerðabækur og bóka gerðir sínar. Í sveitarfélagi þar sem kosin er yfirkjörstjórn, sbr. 15. gr., er heimilt að ákveða að undirkjörstjórnir noti sérstök eyðublöð í stað gerðabókar.
    Landskjörstjórn bókar ákvarðanir sínar um mörk kjördæma skv. 7. gr., um breytingu á þingmannatölu kjördæma skv. 9. gr., um stjórnmálasamtök og framboð, um viðtöku kjörgagna, um atkvæðasamtölur stjórnmálasamtaka, um úthlutun þingsæta o.s.frv. Yfirkjörstjórnir bóka um viðtöku framboða, afgreiðslu þeirra til landskjörstjórnar og viðtöku á ný, útsendingu og viðtöku kjörseðla og bréfa, hvers konar úrskurði, talningu atkvæða, úrslit kosninga og annað þess háttar. Undirkjörstjórnir bóka um allt sem fyrir er mælt í lögum þessum og máli skiptir um kosningaathöfnina.
    Dómsmálaráðuneytið lætur í té og löggildir gerðabækur landskjörstjórnar og yfirkjörstjórna. Yfirkjörstjórnir láta í té og löggilda gerðabækur undirkjörstjórna.
    Dómsmálaráðuneytið lætur kjörstjórnum í té embættisinnsigli.

V. KAFLI

Kjördagur.

20. gr.

    Almennar reglulegar alþingiskosningar skulu fara fram eigi síðar en við lok kjörtímabils. Upphaf og lok kjörtímabils miðast við sama vikudag í mánuði, talið frá mánaðamótum, þó að einstöku kosningar hafi ekki farið fram á þeim degi.
    Dómsmálaráðuneytið skal auglýsa hvenær almennar reglulegar alþingiskosningar skulu fara fram.
    Kjörtímabilið er fjögur ár.

21. gr.

    Nú er Alþingi rofið og ákveður forseti Íslands þá kjördag.

VI. KAFLI

Kjörskrár.

22. gr.

    Þegar boðað hefur verið til almennra alþingiskosninga skulu sveitarstjórnir gera kjörskrár á grundvelli kjörskrárstofna sem Hagstofa Íslands (þjóðskrá) lætur þeim í té.

23. gr.

    Á kjörskrá skal taka:
     a.      Þá sem uppfylla skilyrði 1. mgr. 1. gr. og skráðir voru með lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár fimm vikum fyrir kjördag.
     b.      Þá sem uppfylla skilyrði 2. mgr. 1. gr., sbr. 2. gr., og síðast áttu skráð lögheimili hér á landi í sveitarfélaginu.
    Þeim sem taka ber á kjörskrá í Reykjavík skv. b-lið 1. mgr. skal skipt á milli suður- og norðurkjördæmis í samræmi við 7. gr. Í suðurkjördæmi komi þeir sem fæddir eru fyrri hluta hvers mánaðar en í norðurkjördæmi þeir sem fæddir eru síðari hluta hvers mánaðar. Landskjörstjórn ákveður hvar mörkin skuli vera í mánuði, sbr. 1. mgr. 7. gr. Sama regla skal gilda um þá sem skv. a-lið 1. mgr. eru skráðir óstaðsettir í hús í Reykjavík.

24. gr.

    Kjörskrá skal rita á eyðublöð er Hagstofa Íslands (þjóðskrá) lætur í té og skal farið nákvæmlega eftir þeim leiðbeiningum sem hún lætur skrá á þau.
    Þegar kjörskrá hefur verið samin skal hún undirrituð af oddvita sveitarstjórnar eða framkvæmdastjóra hennar.

25. gr.

    Dómsmálaráðuneytið skal eigi síðar en tólf dögum fyrir kjördag birta í Ríkisútvarpi (hljóðvarpi og sjónvarpi) og dagblöðum auglýsingu um framlagningu kjörskráa. Í auglýsingunni skal tekið fram að þeir sem vilja koma að athugasemdum við kjörskrá skuli senda þær hlutaðeigandi sveitarstjórn.

26. gr.

    Kjörskrá skal leggja fram almenningi til sýnis á skrifstofu sveitarstjórnar eða öðrum hentugum stað eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag.
    Sveitarstjórn skal auglýsa hvar kjörskrá liggur frammi á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar.
    Eftir að kjörskrá hefur verið lögð fram skal hún liggja frammi á almennum skrifstofutíma til kjördags. Staðfest eftirrit af kjörskrá má hafa til að leggja fram.

27. gr.

    Sveitarstjórn skal þegar taka til meðferðar athugasemdir er henni berast við kjörskrá og gera viðeigandi leiðréttingar á henni ef við á. Slíka leiðréttingu má gera fram á kjördag.
    Komi fram athugasemd um að nafn skuli tekið af kjörskrá skal það þegar tilkynnt hlutaðeigandi. Komi fram athugasemd um að taka skuli á kjörskrá einhvern sem ætla má að sé á kjörskrá í öðru sveitarfélagi skal það þegar tilkynnt hlutaðeigandi sveitarstjórn. Skal þeim veittur frestur, eftir því sem tími og atvik leyfa, til að koma að athugasemdum. Ef ágreiningur er um mál skal úrskurður ritaður með fáum orðum í gerðabók sveitarstjórnar.
    Óheimilt er að breyta kjörskrá vegna nýs lögheimilis nema flutningur hafi átt sér stað í síðasta lagi fimm vikum fyrir kjördag og tilkynning um nýtt lögheimili hafi borist Hagstofu Íslands (þjóðskrá) til skráningar fyrir sama tíma eða ef umsókn þess sem fellur undir b-lið 2. mgr. 1. gr. um að vera tekinn á kjörskrá hefur ekki borist Hagstofunni fyrir 1. desember næstan fyrir kjördag.
    Sveitarstjórn skal enn fremur fram á kjördag leiðrétta kjörskrá ef henni berst vitneskja um andlát eða um að einhver hafi öðlast, eftir atvikum misst, íslenskt ríkisfang.

28. gr.

    Sveitarstjórn skal þegar tilkynna hlutaðeigandi um leiðréttingar á kjörskrá skv. 27. gr., svo og sveitarstjórn er mál getur varðað.
    Sveitarstjórn skal jafnframt tilkynna hlutaðeigandi kjörstjórn um leiðréttingar á kjörskrá, svo og oddvita yfirkjörstjórnar.

29. gr.

    Nú hefur kjörskrá ekki verið samin eða lögð fram í tæka tíð eða um það hefur ekki verið fylgt ákvæðum laga þessara, og skal þá sýslumaður, jafnskjótt sem hann fær vitneskju um það, gera nauðsynlegar ráðstafanir til að kjörskrá verði tafarlaust samin og leiðrétt það sem skort hefur á að færi lögum samkvæmt.

VII. KAFLI

Framboð.

30. gr.

    Þegar alþingiskosningar eiga að fara fram skulu öll framboð tilkynnt skriflega yfirkjörstjórn þeirri sem í hlut á eigi síðar en kl. 12 á hádegi 15 dögum fyrir kjördag.
    Gæta skal þess um öll framboð að tilgreina skýrlega nafn frambjóðanda, kennitölu hans, stöðu eða starfsheiti og heimili til þess að enginn vafi geti leikið á því hverjir eru í kjöri.

31. gr.

    Á framboðslista skulu vera nöfn tvöfalt fleiri frambjóðenda en nemur þingsætum í kjördæminu, hvorki fleiri né færri.

32. gr.

    Hverjum framboðslista skal fylgja skrifleg yfirlýsing allra þeirra sem á listanum eru um að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann. Framboðslista skal og fylgja skrifleg yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi kjördæmi. Tilgreina skal nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili. Fjöldi meðmælenda skal vera margfeldi af þingsætatölu kjördæmisins og talnanna 30 að lágmarki og 40 að hámarki.
    Með stjórnmálasamtökum er í lögum þessum átt við samtök sem bjóða eða boðið hafa fram við alþingiskosningar. Hverjum framboðslista skal fylgja skrifleg yfirlýsing meðmælenda hans um það fyrir hvaða stjórnmálasamtök listinn er boðinn fram. Allir listar, sem bornir eru fram fyrir sömu stjórnmálasamtök, eiga saman þegar jöfnunarsætum er úthlutað skv. 108. og 109. gr. Ef fyrrgreinda yfirlýsingu vantar telst listi vera sérstakt framboð.
    Ef sá sem ákveður framboðslista eða staðfestir hann endanlega samkvæmt reglum stjórnmálasamtaka ber fram mótmæli gegn því að listi sé í framboði fyrir þau samtök skal úrskurða að slíkur framboðslisti teljist ekki vera í framboði fyrir þau.

33. gr.

    Við sömu alþingiskosningar má enginn bjóða sig fram á fleiri framboðslistum en einum.
    Sami kjósandi má ekki mæla með fleiri en einum lista við sömu alþingiskosningar.

34. gr.

    Nú berst yfirkjörstjórn listi með fleiri nöfnum en tilskilið er og skal þá nema burt af listanum öftustu nöfnin sem eru fram yfir tilskilda tölu.
    Nú berst yfirkjörstjórn listi er nafn manns stendur á án þess að skriflegt leyfi hans fylgi, eða maður hefur skriflega leyft nafn sitt á fleiri listum en einum, og skal þá yfirkjörstjórn nema það nafn burt af listanum eða listunum.
    Nú berast yfirkjörstjórn meðmælendalistar þar sem sami kjósandi mælir með fleiri en einu framboði, og verður kjósandinn þá ekki talinn meðmælandi neins þeirra.

35. gr.

    Frambjóðandi getur afturkallað samþykki sitt til framboðs fram til þess að frestur til að skila framboðum rennur út.
    Kjósandi, sem mælt hefur með framboðslista, getur ekki afturkallað stuðningsyfirlýsingu sína eftir að framboð hefur verið afhent yfirkjörstjórn.

36. gr.

    Ekki er nauðsynlegt að kjörgengi frambjóðenda sé sannað fyrir yfirkjörstjórn eða landskjörstjórn, en Alþingi úrskurðar um kjörgengi þeirra sem kosnir eru jafnframt því sem það úrskurðar um hvort nýkosnir þingmenn séu að öðru leyti löglega framboðnir og kosnir.

37. gr.

    Nú deyr frambjóðandi áður en kosning fer fram en eftir að framboðsfrestur er liðinn eða á næstu þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur er liðinn, og má þá innan viku, ef fullur helmingur meðmælenda listans krefst þess, setja annan mann í stað hins látna á listann, enda sé fullnægt öðrum almennum skilyrðum um framboðið.

VIII. KAFLI

Listabókstafir stjórnmálasamtaka.

38. gr.

    Dómsmálaráðuneytið skal halda skrá um listabókstafi stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu almennar alþingiskosningar. Skal skráin birt með auglýsingu eigi síðar en átta vikum fyrir hverjar almennar alþingiskosningar. Nú eru fyrirskipaðar kosningar með svo stuttum fyrirvara að þetta verður ekki gert, og skal þá birta auglýsingu þessa innan þriggja sólarhringa eftir að kosningar eru fyrirskipaðar.
    Hyggist stjórnmálasamtök sem hafa ekki skráðan listabókstaf bjóða fram lista við alþingiskosningar skal það tilkynnt dómsmálaráðuneytinu eigi síðar en þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út. Tilkynningin skal undirrituð af a.m.k. 300 kjósendum. Hún skal dagsett og skal greina nafn kjósanda, kennitölu hans og heimili. Heiti nýrra stjórnmálasamtaka má ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem eru á skrá skv. 1. mgr. Dómsmálaráðuneytið skal þegar tilkynna stjórnmálasamtökum, sem eru á skrá, um ný stjórnmálasamtök sem tilkynnt eru og um ósk þeirra um listabókstaf. Ákveður ráðuneytið bókstaf nýrra samtaka að fengnum óskum þeirra og með hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka í undangengnum kosningum. Nú óska samtök, sem skráð eru, að breyta heiti sínu og skulu þau þá tilkynna það dómsmálaráðuneytinu innan sama frests.
    Breytingar á auglýsingu ráðuneytisins og viðauka við hana skal þegar birta með auglýsingu og tilkynna landskjörstjórn og yfirkjörstjórnum.

IX. KAFLI

Umboðsmenn.

39. gr.

    Hverjum framboðslista skal fylgja til yfirkjörstjórnar skrifleg tilkynning frá frambjóðendum listans um það hverjir tveir menn séu umboðsmenn listans. Ef umboðsmenn listans eru ekki tilgreindir eða nauðsynjar hamla umboðsmanni eru frambjóðendur í aðalsætum hver um sig réttir umboðsmenn hans. Þessir umboðsmenn gæta réttar lista þeirra sem þeir eru fyrir við skoðun og úrskurð listanna. Þeir gefa þær upplýsingar um listana er yfirkjörstjórn óskar. Þeim er heimilt að vera viðstaddir eða gefa öðrum umboð til að vera viðstaddir kosningar á einstökum kjörstöðum og við talningu atkvæða. Skylt er umboðsmönnum að hlíta þeim fundarreglum sem kjörstjórn setur.

40. gr.

    Sérhver stjórnmálasamtök, sem boðið hafa fram, eiga rétt á að hafa tvo umboðsmenn viðstadda er landskjörstjórn úrskurðar skv. 44. gr. hverjum samtökum skuli telja þá framboðslista sem fram hafa komið, svo og við öll störf landskjörstjórnar að úthlutun þingsæta.
    Nú rís ágreiningur um hvort framboðslisti telst til þeirra stjórnmálasamtaka sem meðmælendur hans óska og skal þá landskjörstjórn gefa meðmælendum kost á að tilnefna sérstaka umboðsmenn til að gæta hagsmuna sinna þegar úr þeim ágreiningi er skorið.

X. KAFLI

Úrskurður um framboð og auglýsing.

41. gr.

    Þegar frestur sá er liðinn sem ákveðinn er um framboð heldur yfirkjörstjórn fund næsta dag og skal umboðsmönnum framboðslista veittur kostur á að vera viðstaddir. Finnist þá gallar á framboðslista skal hlutaðeigandi umboðsmönnum gefinn kostur á að leiðrétta þá og má veita frest í því skyni eftir því sem tími og atvik leyfa. Ef gallar sem yfirkjörstjórn hefur bent á eru ekki leiðréttir innan tilsetts frests kveður hún upp úrskurð um hvort listi skuli fyrir það teljast ógildur. Verði ágreiningur innan yfirkjörstjórnar um úrskurð ræður afl atkvæða úrslitum.

42. gr.

    Nú er framboðslisti úrskurðaður ógildur og skal eftirrit af úrskurði þá þegar afhent hlutaðeigandi umboðsmanni eða umboðsmönnum ásamt eftirriti af lista þeim sem rækur er ger.
    Úrskurði yfirkjörstjórnar má umboðsmaður skjóta til landskjörstjórnar innan sólarhrings frá því að hann var kveðinn upp.

43. gr.

    Er yfirkjörstjórn hefur lagt úrskurð á framboðslista merkir hún lista stjórnmálasamtaka með hliðsjón af auglýsingu dómsmálaráðuneytisins um listabókstafi þeirra, sbr. 38. gr.
    Nú hafa stjórnmálasamtök fleiri lista en einn í sama kjördæmi og skal þá merkja þá A, AA …, B, BB … o.s.frv. eftir því sem við á.

44. gr.

    Jafnskjótt og yfirkjörstjórn hefur lokið merkingu framboðslista skal hún senda þá til landskjörstjórnar ásamt öllum gögnum sem þeim fylgdu, sbr. 32. gr. Landskjörstjórn tekur þá þegar til meðferðar og úrskurðar, ef þörf krefur, hverjum stjórnmálasamtökum skuli telja þá framboðslista sem í kjöri verða við kosningarnar. Þá skal landskjörstjórn og gæta þess að listar sem saman eiga, sbr. 32. gr., séu merktir sama bókstaf í öllum kjördæmum. Umboðsmönnum stjórnmálasamtaka skal gefinn kostur á að vera viðstaddir þegar landskjörstjórn kemur saman í þessu skyni, sbr. 40. gr.
    Þegar landskjörstjórn hafa borist gögn frá öllum yfirkjörstjórnum og hún hefur afgreitt listana á þennan hátt skal hún þegar í stað gera almenningi kunna listana með auglýsingu í Lögbirtingablaði og blöðum. Í auglýsingu skal tilgreina bókstaf hvers lista, fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er borinn fram og nöfn frambjóðenda á hverjum lista í réttri röð, stöðu þeirra eða starfsheiti og heimili. Jafnframt skal landskjörstjórn birta í Ríkisútvarpinu (hljóðvarpi og sjónvarpi) auglýsingu og skal þar tilgreina bókstaf hvers lista og fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er borinn fram. Auglýsingar þessar skal birta eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag.
    Landskjörstjórn endursendir síðan yfirkjörstjórnum listana ásamt greinargerð um afgreiðslu sína. Jafnframt sendir landskjörstjórn dómsmálaráðuneytinu listana eins og þeir eru birtir.

45. gr.

    Ef frambjóðandi hefur dáið og annar boðið sig fram í hans stað samkvæmt heimild og að fullnægðum skilyrðum 37. gr. skal hlutaðeigandi yfirkjörstjórn tafarlaust tilkynna það landskjörstjórn og dómsmálaráðuneytinu. Landskjörstjórn skal birta listann þannig breyttan í Lögbirtingablaði og blöðum, sbr. 2. mgr. 44. gr. Jafnframt skal landskjörstjórn birta í Ríkisútvarpinu (hljóðvarpi) auglýsingu um breytinguna.

XI. KAFLI

Kjörgögn.

46. gr.

    Dómsmálaráðuneytið lætur í té kjörgögn við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Það lætur einnig í té leiðbeiningar um tilhögun atkvæðagreiðslunnar. Kjörgögn þessi skulu jafnan vera fyrir hendi hjá þeim er annast atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Sýslumenn annast afgreiðslu kjörgagna til hreppstjóra og til skipstjóra á skipum í siglingum erlendis eða á fjarlægum miðum, sbr. 60. gr., og utanríkisráðuneytið annast afgreiðslu kjörgagna til kjörstjóra erlendis.
    Kjörstjórar skulu varðveita kjörgögnin á öruggum stað.

47. gr.

    Kjörgögn til atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eru: kjörseðill, kjörseðilsumslag, fylgibréf og sendiumslag, svo og stimplar með listabókstöfum.
    Á kjörseðli og kjörseðilsumslagi skal prentað að um sé að ræða kjörseðil og kjörseðilsumslag. Fylgibréf og sendiumslag skulu þannig gerð að á þau megi auðveldlega rita þær upplýsingar sem mælt er fyrir um í lögunum.
    Dómsmálaráðuneytið kveður nánar á um gerð kjörgagna þessara.

48. gr.

    Skipstjórar, sem eru kjörstjórar við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, skulu gæta þess að til séu í skipinu fyrir hverjar alþingiskosningar nægar birgðir kjörgagna til utankjörfundaratkvæðagreiðslu.
    Enn fremur er skylda skipstjóra á íslenskum skipum, þá er fyrirskipaðar eru almennar alþingiskosningar eða uppkosningar, að láta skipshöfnina vita um kjördaginn jafnskjótt og þeir vita um kosninguna.

49. gr.

    Skipstjóri, sem veitir viðtöku utankjörfundarkjörgögnum, skal undirrita og afhenda hlutaðeigandi sýslumanni drengskaparyfirlýsingu um að kosning í skipi hans muni fara fram samkvæmt fyrirmælum laga þessara.
    Sérstakur kjörstjóri skv. 2. mgr. 59. gr., sem veitir viðtöku utankjörfundarkjörgögnum, skal og undirrita og afhenda utanríkisráðuneytinu eða hlutaðeigandi sendierindreka sams konar yfirlýsingu.

50. gr.

    Dómsmálaráðuneytið lætur gera kjörseðla sem notaðir verða við atkvæðagreiðslu á kjörfundi þegar tilkynning hefur borist frá landskjörstjórn skv. 3. mgr. 44. gr.
    Kjörseðlar skulu vera úr haldgóðum pappír sem prent eða skrift sést ekki í gegnum, a.m.k. 125 g/m² að þyngd. Skipta skal um lit kjörseðla við hverjar alþingiskosningar.

51. gr.

    Við almennar kosningar, svo og uppkosningar í sambandi við þær, fellur kosning ekki niður þó að einungis einn listi sé í kjöri.

52. gr.

    Kjörseðla, sem notaðir verða á kjörfundi, skal fullgera þannig: Prenta skal framboðslistana hvern við annars hlið, í röð eftir bókstöfum þeirra, og skal ætla hverjum lista um 6 sm breidd en lengd skal miðuð við fulla löglega tölu frambjóðenda. Niður undan bókstaf hvers lista, sem skal vera stór og greinilegur og standa yfir miðjum listanum, skulu vera nöfn frambjóðenda listans í réttri röð ásamt stöðu eða starfsheiti og heimili ef nauðsyn þykir til auðkenningar. Listarnir skulu aðgreindir með feitum langstrikum og skal að minnsta kosti 1/ 2sm breitt bil vera fyrir framan nöfnin á hverjum lista.
    Þess skal getið um hvern lista fyrir hvaða stjórnmálasamtök hann er í kjöri á þann hátt að prenta með skýru letri neðan við listabókstafinn en ofan við nöfnin á listanum: Listi … (nafn stjórnmálasamtakanna).

53. gr.

    Kjörseðlana skal brjóta saman þannig að óprentaða hliðin snúi út.
    Ekki skal fullgera fleiri seðla en þá sem sendir verða undirkjörstjórnum og skal yfirkjörstjórn varast að láta óviðkomandi sjá seðlana áður en hún sendir þá frá sér.

54. gr.

    Kjörseðlar skulu að jafnaði fullgerðir eigi síðar en sjö dögum fyrir kjördag og skal dómsmálaráðuneytið þegar senda þá yfirkjörstjórn.
    Yfirkjörstjórn skal síðan senda á öruggan hátt undirkjörstjórn hverri jafnmarga seðla og kjósendur eru á kjörskrá í hennar kjördeild og minnst 10% fram yfir. Þar sem kosnar eru sérstakar kjörstjórnir skv. 2. mgr. 15. gr. er heimilt að afhenda þeim kjörseðla óflokkaða fyrir kjördeildir og annast þær þá afhendingu kjörseðlanna til undirkjörstjórna.
    Seðlarnir skulu sendir í vönduðum umbúðum er yfirkjörstjórn innsiglar með embættisinnsigli sínu svo vandlega að eigi sé auðið að opna umbúðirnar og ná út seðlum án þess að brjóta innsiglið.
    Seðlum, sem eigi eru afgreiddir til undirkjörstjórna, gerir yfirkjörstjórn grein fyrir þegar atkvæði eru talin.

55. gr.

    Jafnframt og yfirkjörstjórn sendir undirkjörstjórnum kjörseðla skal hún láta hverri sendingu fylgja blindraspjöld, sbr. 2. mgr. 81. gr., svo og tilkynningu um framboðslista, kosningaleiðbeiningar og sérprentun laga þessara, sbr. 77. gr.
    Sendingu þessari skulu og fylgja sterk umslög með áprentaðri utanáskrift til yfirkjörstjórnarinnar. Hverri undirkjörstjórn skulu fengin sex umslög og skal á neðra framhorn vera prentað á tvö þeirra Ónýtir seðlar, á tvö Ágreiningsseðlar og á tvö Afgangsseðlar.
    Umslög þessi skulu vera svo stór að allir seðlar af hverri þessari tegund komist í eitt umslag, en hin umslögin séu til vara. Auk þess skal yfirkjörstjórnin láta fylgja stórt og sterkt umslag með áprentaðri utanáskrift sinni og á efra framhorni nafn kjördeildarinnar og skal í það umslag leggja hin umslögin. Yfirkjörstjórn skal jafnframt senda hverri undirkjörstjórn löggilta kjörbók til afnota við kosninguna, ef hún hefur hana ekki fyrir, eða viðeigandi eyðublöð, sbr. 1. mgr. 19. gr.

XII. KAFLI

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar.

56. gr.

    Kjósandi, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi, hefur heimild til að greiða atkvæði utan kjörfundar eftir þeim reglum sem settar eru í lögum þessum.

57. gr.

    Kosningu utan kjörfundar skal hefja svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur, þó eigi fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Eftir þann tíma og til kjördags á kjósandi rétt á að greiða atkvæði utan kjörfundar. Atkvæðið telst greitt þann dag sem fylgibréfið er dagsett.

58. gr.

    Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar skal fara fram hjá:
     a.      sýslumönnum, í aðalskrifstofu sýslumanns eða útibúi; sýslumaður getur ákveðið að atkvæðagreiðsla á aðsetri embættis fari fram á sérstökum kjörstað utan aðalskrifstofu, svo og að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum í umdæmi hans; sýslumaður ákveður hverjir starfsmenn hans skulu vera kjörstjórar og ræður aðra trúnaðarmenn til þeirra starfa,
     b.      hreppstjórum, í skrifstofu eða á heimili hreppstjóra.
    Kjósanda, sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða vistmaður þar, á dvalarheimili aldraðra og stofnun fyrir fatlaða, er heimilt að greiða atkvæði á stofnuninni. Með sama hætti fer um fangelsi og vistmenn þar.
    Kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun skv. 2. mgr. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans og hafa borist hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en kl. 16 fjórum dögum fyrir kjördag. Kjörstjóri getur í sinn stað tilnefnt tvo trúnaðarmenn til að sjá um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar hjá kjósanda.
    Kjörstjóri auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram og á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar. Skal haga framkvæmd og afgreiðslutíma þannig að kosning geti gengið sem greiðast fyrir sig. Atkvæðagreiðsla skv. 2. mgr. skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, á sjúkrahúsi sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar.
    Dómsmálaráðuneytið setur nánari reglur um framkvæmd atkvæðagreiðslu skv. 2. og 3. mgr. Slík atkvæðagreiðsla má þó ekki fara fram fyrr en þremur vikum fyrir kjördag. Tilkynna skal umboðsmönnum lista, sbr. 39. gr., um hvenær atkvæðagreiðsla skv. 2. mgr. fer fram.

59. gr.

    Erlendis skal atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fara fram í skrifstofu sendiráðs eða fastanefndar hjá alþjóðastofnun, í sendiræðisskrifstofu eða í skrifstofu kjörræðismanns samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið getur og ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum erlendis.
    Kjörstjórar við atkvæðagreiðslu erlendis eru forstöðumenn sendiráða og fastanefnda, sendiræðismenn, aðrir sendierindrekar eftir ákvörðun viðkomandi forstöðumanns, svo og aðrir starfsmenn sendiráða, fastanefnda og sendiræðisskrifstofa eftir ákvörðun utanríkisráðuneytisins, kjörræðismenn samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins, svo og sérstakir kjörstjórar tilnefndir af utanríkisráðuneytinu.
    Utanríkisráðuneytið auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram erlendis.

60. gr.

    Kjósandi, sem er í áhöfn eða farþegi um borð í íslensku skipi í siglingum erlendis eða á fjarlægum miðum, má kjósa um borð í skipinu.
    Skipstjóri eða sá sem hann tilnefnir skal vera kjörstjóri.

61. gr.

    Ef kjörstjóri er í framboði skal hann víkja sæti og annar þar til bær gegna störfum hans.
    Ekki má atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fara fram á heimili frambjóðanda.

62. gr.

    Kosning utan kjörfundar er því aðeins gild að notuð séu hin fyrirskipuðu kjörgögn.
    Kosningin fer svo fram að kjósandi stimplar eða ritar á kjörseðilinn bókstaf þess lista sem hann vill kjósa og má hann geta þess hvernig hann vill hafa röðina á listanum.

63. gr.

    Kjósandi, sem greiða vill atkvæði utan kjörfundar, skal gera kjörstjóra grein fyrir sér, svo sem með því að framvísa kennivottorði eða nafnskírteini, eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjóra. Kjörstjóri skal halda sérstaka skrá yfir þá sem greiða atkvæði hjá honum, sbr. 1. mgr. 66. gr.
    Að þessu loknu fær kjósandi afhent kjörgögn. Skal hann síðan aðstoðarlaust og án þess að nokkur annar sjái rita atkvæði sitt á kjörseðilinn á þann hátt er segir í 2. mgr. 62. gr. og setja atkvæðið í kjörseðilsumslagið. Því næst áritar og undirritar kjósandi fylgibréfið í viðurvist kjörstjóra sem vottar atkvæðagreiðsluna.
    Ef kjósandi skýrir kjörstjóra svo frá að hann sé eigi fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt eða árita og undirrita fylgibréfið sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf skal kjörstjóri veita honum aðstoð til þess í einrúmi, enda er hann bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Um aðstoðina skal geta á skrá skv. 1. mgr. og á fylgibréfinu, að tilgreindum ástæðum. Aðstoð við að árita kjörseðil skal því aðeins veitt að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Óheimilt er að bjóða þeim aðstoð er þannig þarfnast hjálpar.
    Að lokum skal kjörseðilsumslagið ásamt fylgibréfinu lagt í sendiumslagið og því lokað vandlega. Umslagið skal síðan áritað til hreppstjórans, sýslumannsins eða kjörstjórnarinnar í því umdæmi þar sem kjósandinn telur sig standa á kjörskrá. Á sendiumslagið skal og rita nafn kjósanda, kennitölu og lögheimili.

64. gr.

    Nú ónýtist kjörseðill hjá kjósanda og má hann fá annan kjörseðil í stað hins.

65. gr.

    Kjósandi, sem greiðir atkvæði hjá kjörstjóra í umdæmi þar sem hann er á kjörskrá og skilur þar eftir bréf með atkvæði sínu, skal sjálfur láta bréfið í venjulegan atkvæðakassa. Atkvæðakassinn skal innsiglaður af kjörstjóra ásamt hlutaðeigandi kjörstjórn og er umboðsmönnum lista heimilt að setja á hann innsigli sín.
    Aðrir kjósendur skulu sjálfir annast og kosta sendingu atkvæðisbréfs síns. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst.
    Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess kjördæmis þar sem kjósandinn er á kjörskrá.

66. gr.

    Kjörstjóri skal færa á sérstaka skrá nöfn þeirra kjósenda sem greiða atkvæði hjá honum, sbr. 63. gr., lögheimili kjósanda og kennitölu og hvern dag kosningarathöfnin fór fram.
    Atkvæðisbréf, sem kjósandi skilur eftir hjá kjörstjóra, sbr. 1. mgr. 65. gr., skal kjörstjóri tölusetja og skrá í áframhaldandi töluröð. Atkvæðisbréf, sem kjörstjóri veitir móttöku, skal hann skrá og tölusetja með sama hætti og skal þess getið frá hvaða kjósanda það sé og hvenær og af hverjum það hafi verið afhent. Skulu bréf þessi varðveitt í atkvæðakassanum.
    Atkvæðakassa ásamt skrám sendir kjörstjóri síðan hlutaðeigandi kjörstjórn svo tímanlega að kassinn sé kominn henni í hendur áður en kjörfundur er settur.
    Umboðsmenn lista skulu hafa aðgang að skrám þeim sem getur í 1. og 2. mgr.

67. gr.

    Kjósandi getur jafnan krafist þess af hverjum þeim er varðveitir bréf með atkvæði hans, sé það ekki varðveitt í innsigluðum atkvæðakassa, að hann afhendi sér það, allt þar til atkvæðið hefur verið tekið gilt af undirkjörstjórn.

XIII. KAFLI

Kjörstaðir.

68. gr.

    Kjörstað fyrir hverja kjördeild ákveður sveitarstjórn. Á sama kjörstað mega vera fleiri en ein kjördeild.
    Kjörstað skal auglýsa almenningi á undan kjörfundi með nægum fyrirvara.

69. gr.

    Í hverri kjördeild skal vera hæfilegur fjöldi kjörklefa. Kjörklefi skal þannig búinn að þar megi greiða atkvæði án þess að aðrir geti séð hvernig kjósandi kýs. Í hverjum kjörklefa skal vera lítið borð sem skrifa má við.
    Í kjörfundarstofu skal enn fremur vera hæfilega stór atkvæðakassi sem sveitarstjórn leggur til. Atkvæðakassinn skal þannig búinn að ekki sé unnt að ná kjörseðli úr honum án þess að opna hann og þannig að unnt sé að læsa honum. Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um stærð og gerð atkvæðakassa.
    Yfirkjörstjórn skal gæta þess að jafnan séu til nægir atkvæðakassar til afnota í kjördæminu.

XIV. KAFLI

Atkvæðagreiðsla á kjörfundi.

70. gr.

    Kjörfund skal setja á kjörstað kl. 9 árdegis, en kjörstjórn getur þó ákveðið að kjörfundur skuli hefjast síðar, þó eigi síðar en kl. 12 á hádegi. Fullskipuð kjörstjórn skal viðstödd er kjörfundur er settur. Sé hún ekki öll viðstödd taka varamenn sæti, en séu þeir eigi heldur viðstaddir kveður sá eða þeir sem við eru úr kjörstjórninni valinkunnan mann eða menn af kjósendum til að taka sæti í kjörstjórninni og halda þeir sæti sínu uns hinir koma.
    Upphaf kjörfundar skal auglýsa með hæfilegum fyrirvara og á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar.

71. gr.

    Meðan á kosningarathöfninni stendur skal kjörstjórnin sitja við borð í kjörfundarstofunni. Aldrei má nema einn úr kjörstjórn ganga út í senn og felur hann öðrum úr kjörstjórninni verk sitt á meðan nema varamaður sé tiltækur.

72. gr.

    Kosningarathöfnin byrjar með því að oddviti kjörstjórnar leggur fram seðlaböggul þann sem hann hefur fengið frá yfirkjörstjórn og skal þess gætt hvort innsiglin eru heil eða böggullinn ber þess merki að hann hafi verið opnaður. Skal þess getið í kjörbókinni og riti kjörstjórn og umboðsmenn undir. Því næst opnar oddviti böggulinn og skal þess gætt hvort tala seðlanna kemur heim við tölu þá sem tilgreind er í bréfi yfirkjörstjórnar. Þess skal getið í kjörbókinni og riti kjörstjórn og umboðsmenn þar undir.

73. gr.

    Nú hefur kjörstjórn borist atkvæðakassi með atkvæðum greiddum utan kjörfundar og skal þá athuga hvort innsigli kassans séu heil og ósködduð. Oddviti opnar síðan kassann og telur kjörstjórnin bréfin og ber þau saman við skrár þær sem fylgja, sbr. 66. gr. Skal kjörstjórnin síðan opna sendiumslagið og kanna hvort taka skuli utankjörfundaratkvæðið til greina, sbr. 91. gr. Ef taka skal atkvæðið til greina skal setja sérstakt merki til bráðabirgða við nafn kjósandans í kjörskránni, en kjörseðilsumslagið óopnað ásamt fylgibréfinu skal lagt á ný í sendiumslagið og það lagt til hliðar og varðveitt meðan atkvæðagreiðslan fer fram. Ef ekki skal taka utankjörfundaratkvæðið til greina skal ganga frá kjörseðilsumslaginu og fylgibréfinu og varðveita á sama hátt, en rita skal ástæðu þess að atkvæðið verður ekki tekið til greina á sendiumslagið.
    Atkvæðisbréf, sem kjörstjórn kunna að hafa borist eða berast meðan á atkvæðagreiðslu stendur, skal tölusetja í áframhaldandi röð og skal tölu þeirra getið í kjörbókinni. Skal fara með þau atkvæði svo sem greinir í 1. mgr.
    Ef kjósandi er ekki á kjörskrá í kjördeildinni (sveitarfélaginu) skal kjörstjórnin kanna hvar kjósandi er á kjörskrá og ef unnt er koma atkvæðisbréfinu í rétta kjördeild en ella skal bréfið varðveitt þar til atkvæðagreiðslu lýkur.
    Í sveitarfélagi, þar sem kosin er sérstök yfirkjörstjórn, er kjörstjórninni heimilt að hefja flokkun atkvæða skv. 1. mgr. daginn fyrir kjördag þannig að atkvæðisbréf verði afhent í rétta kjördeild á kjördag.

74. gr.

    Kjörstjórn athugar hverjir kjósendur, sem standa á kjörskrá, hafa afsalað sér rétti til að greiða atkvæði í kjördeildinni í því skyni að greiða atkvæði í annarri kjördeild, sbr. 80. gr., og gerir athugasemd um það við nöfn hlutaðeigandi á kjörskránni.

75. gr.

    Oddviti kjörstjórnar og annar meðkjörstjóranna skulu hafa fyrir sér hvor sitt eintak kjörskrárinnar. Skulu þeir gera merki við nafn hvers kjósanda um leið og hann hefur neytt kosningarréttar síns.

76. gr.

    Áður en atkvæðagreiðsla hefst skal kjörstjórnin og umboðsmenn gæta þess að atkvæðakassinn sé tómur og síðan læsa honum.

77. gr.

    Í kjörfundarstofu, svo og annars staðar á kjörstað, skal á áberandi stað festa upp tilkynningu um framboðslista í kjördæminu þar sem fram koma heiti stjórnmálasamtaka, listabókstafir og nöfn frambjóðenda í sömu röð og á kjörseðli. Á sama hátt skal festa þar upp kosningaleiðbeiningar er dómsmálaráðuneytið lætur í té.
    Í hverri kjördeild skal vera eintak af lögum þessum, sem dómsmálaráðuneytið lætur gefa út, ásamt stjórnarskránni í handhægri útgáfu með skýringum og leiðbeiningum ef þurfa þykir.

78. gr.

    Kjósendur skulu greiða atkvæði í þeirri röð sem þeir gefa sig fram.
    Kjörstjórn getur ákveðið að í kjörfundarstofu séu ekki, auk þeirra sem starfa við framkvæmd kosninganna, aðrir en kjósendur sem ætla að greiða atkvæði. Kjörstjórnin getur auk þess takmarkað fjölda kjósenda í kjörfundarstofu ef þörf þykir til að halda uppi reglu.
    Kjörstjórn skal að öðru leyti sjá til þess að á kjörstað og í næsta nágrenni hans fari hvorki fram óleyfilegur kosningaáróður eða kosningaspjöll né önnur starfsemi sem truflar eða hindrar framkvæmd kosninga.

79. gr.

    Kjósandi skal gera kjörstjórn grein fyrir sér, svo sem með því að segja til sín og framvísa kennivottorði eða nafnskírteini, eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjórnar. Ef hann þannig á rétt á að greiða atkvæði samkvæmt kjörskránni afhendir kjörstjórn honum einn kjörseðil.

80. gr.

    Engum, sem á kjörskrá stendur, má kjörstjórn meina að greiða atkvæði nema hann hafi afsalað sér atkvæðisrétti í þeirri kjördeild og greitt atkvæði annars staðar.
    Engum, sem ekki stendur á kjörskrá, má kjörstjórn leyfa að greiða atkvæði nema hann sanni með vottorði að nafn hans standi á kjörskrá í annarri kjördeild innan sama kjördæmis og hann hafi afsalað sér þar atkvæðisrétti og sé vottorðið gefið af undirkjörstjórn þeirrar kjördeildar eða, ef við á, kjörstjórn skv. 2. mgr. 15. gr. Afsalið skal færa til bókar í kjörbók undirkjörstjórnar og vottorðið skal fylgja í frumriti til yfirkjörstjórnar kjörbók þeirrar kjördeildar þar sem það er lagt fram og notað, enda sé einnig getið um það í kjörbókinni og nafn og heimili kjósanda tilgreint. Vottorð er einnig gilt ef það er undirritað af oddvita eða framkvæmdastjóra sveitarstjórnar þar sem kjósandi er á kjörskrá. Tilkynna ber undirkjörstjórn kjördeildar fyrir kjördag hvaða kjósendum í kjördeildinni sveitarstjórn hefur gefið vottorð.

81. gr.

    Þá er kjósandi hefur tekið við kjörseðlinum fer kjósandi með hann inn í kjörklefann, þar sem kjósandinn má einn vera, og að borði því er þar stendur. Á borðinu skulu vera ekki færri en tvö venjuleg dökk ritblý er kjörstjórn lætur í té og sér um að jafnan séu nægilega vel ydd.
    Þar skal einnig vera spjald jafnstórt kjörseðli með upphleyptum listabókstöfum og blindraletri, með glugga framan við hvern staf og vasa á bakhlið þannig að blindir geti gegnum gluggann sett kross framan við þann lista er þeir gefa atkvæði sitt og á þann hátt kosið í einrúmi og án aðstoðar.

82. gr.

    Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt að hann markar með ritblýi kross á kjörseðilinn fyrir framan bókstaf þess lista sem hann vill kjósa.
    Vilji kjósandi breyta nafnaröð á lista þeim er hann kýs setur hann tölustafinn 1 fyrir framan það nafn er hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni, töluna 3 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa það þriðja o.s.frv., að svo miklu leyti sem hann vill breyta til.
    Ef kjósandi vill hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs strikar hann yfir nafn hans.

83. gr.

    Kjósandi má ekki hagga neitt við listum sem hann kýs ekki, hvorki strika yfir nöfn á þeim né breyta á þeim nafnaröð.

84. gr.

    Kjósandi gætir þess, hvernig sem hann kýs, að gera engin merki á kjörseðilinn fram yfir það sem segir í lögum þessum.

85. gr.

    Þegar kjósandi hefur gengið frá kjörseðlinum samkvæmt framansögðu brýtur hann seðilinn í sama brot og hann var í þegar hann tók við honum, gengur út úr klefanum og að atkvæðakassanum og leggur seðilinn í kassann í viðurvist fulltrúa kjörstjórnar. Kjósandi skal gæta þess að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði.

86. gr.

    Ef kjósandi skýrir kjörstjórn svo frá að hann sé eigi fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf skal sá úr kjörstjórninni er kjósandi nefnir til veita honum aðstoð til þess í kjörklefanum, enda er sá sem aðstoðina veitir bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Um aðstoðina skal bóka í kjörbókina, að tilgreindum ástæðum. Aðstoð skal því aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Óheimilt er að bjóða þeim aðstoð er þannig þarfnast hjálpar.

87. gr.

    Láti kjósandi sjá hvað á seðli hans er er seðillinn ónýtur og má ekki leggja hann í atkvæðakassann. Ef kjósanda verður þetta á eða ef hann setur skakkt kjörmerki á seðil eða seðill krotast hjá honum af vangá á hann rétt á að fá nýjan kjörseðil. Skal hann þá afhenda kjörstjórninni hinn fyrri seðil.
    Þá er kjósandi hefur látið seðilinn í atkvæðakassann víkur hann út úr kjörfundarstofunni.

88. gr.

    Kjósandi, sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar, getur greitt atkvæði á kjörfundi og kemur utankjörfundarseðill hans þá ekki til greina við kosninguna.

89. gr.

    Atkvæðagreiðslu má ekki slíta fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að kjörfundur hófst og ekki fyrr en hálf klukkustund er liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Atkvæðagreiðslu má þó slíta er allir sem á kjörskrá standa hafa greitt atkvæði og eftir fimm klukkustundir ef öll kjörstjórnin og umboðsmenn eru sammála um það, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram.
    Kjörfundi skal þó slíta eigi síðar en kl. 22 á kjördag. Þeir kjósendur, sem hafa gefið sig fram fyrir þann tíma, eiga þó rétt á að greiða atkvæði.

90. gr.

    Að atkvæðagreiðslu lokinni kannar kjörstjórnin á ný, í viðurvist umboðsmanna lista, þau utankjörfundaratkvæði sem kjörstjórninni hafa borist og ekki hafa verið aftur heimt.
    Ef sá sem atkvæðið er frá stendur á kjörskrá og á rétt á að greiða atkvæði og hefur ekki greitt atkvæði á kjörfundi skal kjörstjórnin setja merki við nafn kjósandans á kjörskránni.
    Ef atkvæðisbréf verður ekki tekið til greina, sbr. 91. gr., skal það áritað eins og segir í 1. mgr. 73. gr.
    Ef kjósandi, sem sent hefur frá sér utankjörfundaratkvæði, er ekki á kjörskrá í kjördeildinni skal kjörstjórnin geta þess sérstaklega í kjörbókinni og senda slík atkvæðisbréf aðskilin til yfirkjörstjórnar.

91. gr.

    Ekki skal taka til greina utankjörfundaratkvæði:
     a.      ef sendandinn er ekki á kjörskrá,
     b.      ef sendandinn er búinn að greiða atkvæði,
     c.      ef sendandinn hefur afsalað sér atkvæðisrétti í þeirri kjördeild, sbr. 80. gr.,
     d.      ef sendandinn hefur látist fyrir kjördag,
     e.      ef í sendiumslaginu er meira en eitt fylgibréf og eitt kjörseðilsumslag,
     f.      ef sjáanlegt er að ekki hafi verið notuð hin fyrirskipuðu kjörgögn er dómsmálaráðuneytið hefur látið gera,
     g.      ef ekki hefur verið farið eftir þeim reglum sem settar hafa verið um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eða
     h.      ef atkvæðið hefur ekki verið greitt á þeim tíma sem greinir í 57. gr. og 5. mgr. 58. gr.
    Nú berast fleiri en eitt atkvæði greidd utan kjörfundar frá sama kjósanda sem geta komið til greina og skal þá aðeins hið síðastgreidda atkvæði koma til greina.

92. gr.

    Nú verður ágreiningur innan kjörstjórnar eða milli kjörstjórnar og umboðsmanns lista um hvort utankjörfundaratkvæði sé gilt eða ógilt og skal þá bóka nákvæmlega í kjörbókina í hverju ágreiningurinn er fólginn og leggja kjörseðilsumslagið óopnað ásamt fylgibréfi aftur í sendiumslagið og senda það til úrskurðar yfirkjörstjórnar.

93. gr.

    Þau kjörseðilsumslög, sem enginn ágreiningur er um að gild séu, lætur kjörstjórn óopnuð í atkvæðakassann.

94. gr.

    Umboðsmenn lista eiga rétt á að gæta þess að kjörstjórn og kjósendur hegði sér lögum samkvæmt við kosningarathöfnina og má hver þeirra átelja við kjörstjórnina það er honum þykir áfátt.
    Nú þykir umboðsmanni eitthvað ólöglegt við kosningarathöfnina og fær það ekki leiðrétt og á hann þá rétt á að fá ágreiningsálitið bókað þegar í stað í kjörbókina og sker Alþingi úr því síðar hver áhrif það skuli hafa á kosninguna.
    Neiti kjörstjórn að bóka eitthvað fyrir umboðsmann áhrærandi kosningargerðina á hann rétt á að bóka það sjálfur og riti hann nafn sitt undir.

95. gr.

    Þá er atkvæðagreiðslu er slitið og kjörseðilsumslög þau er gild hafa verið tekin hafa verið látin í atkvæðakassann skal oddviti jafnskjótt ganga frá í sérstöku umslagi öllum þeim seðlum sem ónýst hafa, sbr. 87. gr., í öðru umslagi öllum þeim utankjörfundaratkvæðum, sem ágreiningur er um, sbr. 92. gr., og í hinu þriðja öllum þeim seðlum sem afgangs eru ónotaðir. Þegar umslögunum hefur verið lokað skal ganga frá þeim öllum þremur ásamt lyklinum að atkvæðakassanum í aðalumslaginu og loka því. Til þess skal nota umslög þau sem yfirkjörstjórn hefur sent í þessu skyni.
    Því næst skal oddviti, er bókun er lokið og kjörbókin hefur verið undirrituð af kjörstjórninni og umboðsmönnum lista, ef viðstaddir eru, ganga frá öllu saman, atkvæðakassa, aðalumslagi og kjörbók eða afriti úr kjörbók sem undirritað er af kjörstjórninni og umboðsmönnum lista, ef þeir hafa verið viðstaddir, svo og utankjörfundaratkvæðum sem fara eiga í aðra kjördeild, sbr. 4. mgr. 90. gr., í umbúðum innsigluðum af kjörstjórn og er umboðsmönnum heimilt að setja innsigli sín á umbúðirnar. Gögnin skal merkja til yfirkjörstjórnar og senda henni þegar í stað á öruggan hátt. Skal yfirkjörstjórn gefa viðurkenningu fyrir móttöku.
    Eftir að kjörstjórn hefur þannig gengið frá kjörgögnum mega hin innsigluðu kjörgögn og innsigli kjörstjórnar eigi vera í vörslu sama manns.

96. gr.

    Ef yfirkjörstjórn er viðstödd á kjörstað og talning atkvæða fer fram samstundis má kjörstjórn afhenda yfirkjörstjórn atkvæðakassann óinnsiglaðan að viðstöddum umboðsmönnum lista.
    Um leið og kosningu er lokið og kjörstjórn hefur unnið nauðsynlegar skýrslur úr kjörskránni sendir hún kjörskráreintök þau sem notuð voru við kosninguna í innsigluðum umbúðum til yfirkjörstjórnar.

XV. KAFLI

Kosningaúrslit í kjördæmum.

97. gr.

    Yfirkjörstjórn skal með nægum fyrirvara á undan kosningum auglýsa stund og stað þá er hún komi saman til að opna atkvæðakassana og telja atkvæðin. Undirkjörstjórnum er skylt að sjá um að þá séu atkvæðakassarnir og þau kjörgögn, sem þeim eiga að fylgja, komin í hendur yfirkjörstjórnar nema gild forföll banni. Ætíð skal talning fara fram svo fljótt sem verða má að dómi yfirkjörstjórnar.
    Sé kosningu frestað skv. 114. gr. má talning atkvæða aldrei fara fram fyrr en kosningu er hvarvetna lokið.

98. gr.

    Talning atkvæða skal fara fram fyrir opnum dyrum svo að kjósendum gefist kostur á að vera við eftir því sem húsrúm leyfir.
    Nú eru umboðsmenn lista eigi viðstaddir talningu og skal yfirkjörstjórn þá kveðja valinkunna menn úr sömu stjórnmálasamtökum, ef unnt er, til að gæta réttar af hendi listans.

99. gr.

    Í viðurvist þessara manna opnar svo yfirkjörstjórn atkvæðasendingarnar úr hverri kjördeild eftir að þeim hefur verið gefinn kostur á að sannfærast um að öll innsigli séu ósködduð. Yfirkjörstjórn skal kanna hvort tala kjósenda, sem greitt hafa atkvæði samkvæmt kjörbókum undirkjörstjórna, sé í samræmi við afhenta atkvæðaseðla og skráðar athugasemdir undirkjörstjórna. Hafi yfirkjörstjórn borist bréf með utankjörfundaratkvæði skv. 4. mgr. 90. gr. skal fara með það eins og segir í 2. mgr. sömu greinar. Jafnótt og hver atkvæðakassi er opnaður skal seðlum þeim sem í honum eru óskoðuðum hellt í hæfilegt tómt ílát, en gæta skal þess að seðlar úr einstökum kjördeildum blandist vel saman.
    Kjörseðlar skulu síðan teknir úr ílátinu, að viðstöddum umboðsmönnum lista, flokkaðir eftir listabókstöfum sem við er merkt á hverjum seðli og taldir undir stjórn yfirkjörstjórnar.
    Heimilt er að hefja flokkun atkvæða og undirbúa talningu þeirra fyrir luktum dyrum áður en kjörfundi lýkur.

100. gr.

    Atkvæði skal meta ógilt:
     a.      ef kjörseðill er auður,
     b.      ef ekki verður séð við hvern lista er merkt eða ef ekki verður séð með vissu hvort það sem stendur á utankjörfundarseðli getur átt við nokkurn af listum sem í kjöri eru,
     c.      ef merkt er við fleiri listabókstafi en einn eða tölumerkt nöfn á fleiri listum en einum eða skrifaðir fleiri en einn listabókstafur á utankjörfundarseðil,
     d.      ef áletrun er á kjörseðli fram yfir það sem fyrir er mælt eða annarleg merki sem ætla má að sett séu af ásettu ráði til að gera seðilinn auðkennilegan,
     e.      ef í umslagi með utankjörfundarseðli er annað eða meira en einn kjörseðill,
     f.      ef kjörseðill er annar en kjörstjórn eða kjörstjóri hefur löglega afhent.

101. gr.

    Atkvæði skal ekki meta ógilt, þó að gallað sé, ef greinilegt er hvernig það á að falla nema augljóslega komi í bága við framangreind ákvæði. Þannig skal taka gilt atkvæði þó að ekki sé merkt framan við listabókstafinn en t.d. aftan við hann, þó að kross sé ólögulegur, þó að orðið listi fylgi listabókstaf að óþörfu á utankjörfundarseðli, þó að heiti stjórnmálasamtaka standi í stað listabókstafs o.s.frv.
    Lista í kjördæmi telst atkvæði þó að láðst hafi að merkja við listabókstaf ef nafn eða nöfn á honum eru tölusett eða krossað við nafn, enda séu ekki aðrir gallar á.

102. gr.

    Utankjörfundaratkvæði, greitt lista fyrir breytingu á honum skv. 37. gr., skal teljast greitt listanum þannig breyttum.

103. gr.

    Nú kemur yfirkjörstjórn og umboðsmönnum lista saman um að einhver kjörseðill sé ógildur og skal hann þá ógildan telja. Verði ágreiningur meðal kjörstjórnar um gildi kjörseðils skal afl atkvæða ráða úrslitum. Úrskurða skal ágreiningsseðla jafnóðum og þeir koma fyrir. Bóka skal í gerðabók hve margir kjörseðlar eru ógildir og ástæður þess.
    Nú verður ágreiningur milli kjörstjórnar og einhvers umboðsmanns um það hvort kjörseðill sé gildur eða ógildur og skal þá leggja þá seðla í tvö sérstök umslög, í annað þá seðla sem kjörstjórn hefur úrskurðað gilda og í hitt þá seðla sem hún hefur úrskurðað ógilda.
    Þegar atkvæði hafa verið talin saman undir nákvæmu eftirliti umboðsmanna færir yfirkjörstjórn niðurstöðu kosninganna í gerðabókina og kunngerir hana þeim sem viðstaddir eru. Skal þess gætt að samtölu atkvæða beri saman við tölu þeirra sem atkvæði hafa greitt samtals í kjördæminu samkvæmt skýrslum undirkjörstjórna og að allt komi heim við samtölu afgangsseðla.

104. gr.

    Að talningu lokinni skal loka umslögum með ágreiningsseðlum með innsigli yfirkjörstjórnar og eiga umboðsmenn lista rétt á að setja einnig fyrir þau innsigli sín. Yfirkjörstjórn sendir dómsmálaráðuneytinu eftirrit af gerðabók sinni viðvíkjandi kosningunni ásamt ágreiningsseðlunum sem dómsmálaráðuneytið leggur fyrir Alþingi í þingbyrjun með sömu ummerkjum sem það tók við þeim.
    Þá skal yfirkjörstjórn setja alla notaða kjörseðla undir innsigli og skal gildum og ógildum kjörseðlum haldið sér. Kjörseðlana skal geyma þar til Alþingi hefur úrskurðað um gildi kosninganna, sbr. 120. gr., enda sé þeirra eigi þörf vegna kæru sem beint hefur verið til lögreglustjóra. Að því búnu skal eyða kjörseðlunum og skrá yfirlýsingu um það í gerðabók yfirkjörstjórnar.
    Yfirkjörstjórn skal búa um allar kjörskrár í innsigluðum umbúðum og senda dómsmálaráðuneytinu sem geymir þær í eitt ár, en að því búnu skal eyða þeim.

105. gr.

    Í kjördæmi skal telja öll atkvæði sem hver framboðslisti hefur hlotið og er þá fundin atkvæðatala hvers lista. Enn fremur skal yfirkjörstjórn reikna hverjum frambjóðanda atkvæðatölu í samræmi við 110. gr.
    Yfirkjörstjórn skal tafarlaust senda landskjörstjórn skýrslu um atkvæðatölur. Skal þar tilgreina tölu kjósenda á kjörskrá, hvernig atkvæði hafa fallið á hvern framboðslista fyrir sig og atkvæðatölur hvers frambjóðanda. Landskjörstjórn lætur yfirkjörstjórnum í té eyðublöð undir þessar skýrslur.
    Sé atkvæðasending frá einhverri kjördeild ekki komin til yfirkjörstjórnar á þeim tíma sem nefndur er í 97. gr. skal yfirkjörstjórn eigi að síður opna atkvæðakassa og önnur kjörgögn á þeim tíma sem auglýstur hafði verið. Yfirkjörstjórn sendir þó ekki skýrslu um atkvæðatölur til landskjörstjórnar skv. 2. mgr. fyrr en talin hafa verið atkvæði úr sendingunni sem vantaði. Tilkynna skal umboðsmönnum lista, eftir því sem auðið er, hvenær sendingin verður opnuð til þess að þeir eigi kost á að vera þar viðstaddir.

XVI. KAFLI

Úthlutun þingsæta.

106. gr.

    Þegar landskjörstjórn hafa borist allar skýrslur um kosningaúrslit í kjördæmum eftir almennar alþingiskosningar, sbr. 105. gr., skal hún koma saman til að úthluta þingsætum, kjördæmissætum og jöfnunarsætum. Landskjörstjórn auglýsir með hæfilegum fyrirvara hvar og hvenær hún kemur saman í þessu skyni svo að umboðsmönnum þeirra stjórnmálasamtaka, sem boðið hafa fram, sbr. 39. gr., gefist kostur á að vera þar viðstaddir.

Úthlutun kjördæmissæta.

107. gr.

    Til þess að finna hve margir frambjóðendur hafa náð kosningu í kjördæmi af hverjum lista skal fara þannig að:
     1.      Deila skal í atkvæðatölur listanna með tölunum 1, 2, 3, 4 o.s.frv. Útkomutölur eru skráðar fyrir hvern lista.
     2.      Fyrsta kjördæmissæti fær sá listi sem hæsta útkomutölu hefur. Sú tala er síðan felld niður. Annað kjördæmissæti fær sá listi sem nú hefur hæsta útkomutölu. Þessu skal fram haldið uns úthlutað hefur verið jafnmörgum kjördæmissætum og kjósa á, sbr. 2. mgr. 8. gr.
     3.      Nú eru tvær eða fleiri útkomutölur jafnháar þegar að þeim kemur skv. 2. tölul. og skal þá hluta um röð þeirra.
    Listi í kjördæmi, sem hlotið hefur þingmann eða þingmenn kjörna samkvæmt þessari grein eða 109. gr., hefur rétt til jafnmargra varaþingmanna.

Úthlutun jöfnunarsæta.

108. gr.

    Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.
    Til þess að finna hve mörg jöfnunarsæti koma í hlut stjórnmálasamtaka, sem fullnægja skilyrðum 1. mgr., skal í fyrstu telja saman atkvæðatölur og fjölda þingmanna samtakanna, hverra um sig, kosinna í kjördæmum, skv. 107. gr.
    Síðan skal fara þannig að:
     1.      Deila skal í atkvæðatölur hverra samtaka með tölu kjördæmissæta hjá þeim, fyrst að viðbættum 1, síðan 2, þá 3 o.s.frv. Útkomutölur eru skráðar fyrir hver samtök.
     2.      Fyrsta jöfnunarsæti fá þau samtök sem hæsta útkomutölu hafa. Sú tala er síðan felld niður. Annað jöfnunarsæti fá þau samtök sem nú hafa hæsta útkomutölu. Þessu skal fram haldið uns úthlutað hefur verið öllum jöfnunarsætum, sbr. 2. mgr. 8. gr.
     3.      Nú eru tvær eða fleiri útkomutölur jafnháar þegar að þeim kemur skv. 2. tölul. og skal þá hluta um röð þeirra.

109. gr.

    Til þess að finna hverjir frambjóðendur hafa hlotið jöfnunarsæti skal fara þannig að, sbr. þó 110. gr.:
     1.      Taka skal saman lista með nöfnum tveggja efstu frambjóðenda á hverjum framboðslista, að frátöldum þeim sem náð hafa kosningu sem kjördæmiskjörnir þingmenn. Við hvern frambjóðanda skal skrá útkomutölu þá er sæti því, sem hann skipar, ber skv. 107. gr. og jafnframt hundraðstölu hennar af öllum gildum atkvæðum í kjördæminu.
     2.      Fyrsta jöfnunarsæti fær sá frambjóðandi þeirra stjórnmálasamtaka, sem úthlutað var því sæti skv. 108. gr., er hefur hæsta hundraðstölu skv. 1. tölul. Nafn þess frambjóðanda er síðan fellt niður. Annað jöfnunarsæti fær sá frambjóðandi þeirra samtaka, sem úthlutað var því sæti, er nú hefur hæsta hundraðstölu. Þessu skal fram haldið uns jöfnunarsætum hefur verið úthlutað, sbr. þó 3. tölul.
     3.      Þegar lokið hefur verið að úthluta til frambjóðenda þeim jöfnunarsætum, sem úthluta skal í hverju kjördæmi skv. 2. mgr. 8. gr., skulu nöfn annarra frambjóðenda í því kjördæmi numin brott af listanum og koma þeir ekki frekar til álita við úthlutun jöfnunarsæta.
     4.      Nú hafa nöfn allra frambjóðenda stjórnmálasamtaka, sem úthlutað var jöfnunarsæti samkvæmt ákvæðum 1.–3. tölul., verið numin brott og eiga þau samtök þá ekki rétt til frekari jöfnunarsæta þrátt fyrir ákvæði 108. gr. Skal þá haldið áfram úthlutun samkvæmt ákvæðum 1.–3. tölul. að frátöldum sætum þessara samtaka. Að lokinni úthlutun skal síðan úthluta eftir ákvæðum 1.–3. tölul. einu sæti í senn til lista þeirra samtaka sem næst stóðu því að fá jöfnunarsæti skv. 108. gr. uns öllum jöfnunarsætum hefur verið úthlutað.
     5.      Nú eru tvær eða fleiri hundraðstölur jafnháar þegar að þeim kemur skv. 2. tölul. og skal þá hluta um röð þeirra.
    Frambjóðendur, sem hljóta jöfnunarsæti, teljast þingmenn þess kjördæmis þar sem þeir eru í framboði, í þeirri röð sem sætum er úthlutað eftir þessari grein, sbr. 2. mgr. 107. gr.

Atkvæðatala frambjóðenda.


110. gr.

    Þeir frambjóðendur einir koma til álita sem þingmenn og varaþingmenn hvers framboðslista í kjördæmi er skipa efstu sæti hans, tvöfalt fleiri en komu í hlut listans samkvæmt kosningaúrslitum, sbr. 107. og 109. gr., þó aldrei færri en þrír. Þessi tala frambjóðenda kallast röðunartala listans.
    Til þess að finna hverjir þessara frambjóðenda hafa náð kosningu skal landskjörstjórn reikna þeim frambjóðendum sem til álita koma skv. 1. mgr. atkvæðatölu. Frambjóðandi sem skipar 1. sæti á óbreyttum atkvæðaseðli eða er raðað í það sæti á breyttum seðli fær eitt atkvæði. Sá sem lendir með sama hætti í 2. sæti fær það brot af atkvæði að í nefnara sé röðunartala en í teljara sú tala að frádregnum einum. Síðan lækkar teljarinn um einn við hvert sæti.
    Sá frambjóðandi á hverjum lista, sem fær hæsta atkvæðatölu skv. 2. mgr., hlýtur 1. sæti listans. Sá frambjóðandi, sem fær næsthæsta atkvæðatölu, hlýtur 2. sætið og þannig koll af kolli uns lokið er úthlutun þingsæta og sæta varamanna. Nú fá tveir eða fleiri frambjóðendur jafnháa atkvæðatölu og skal þá hluta um röð þeirra á listanum.
    Aðrir frambjóðendur en þeir sem koma til greina sem þingmenn og varaþingmenn skv. 1. mgr. halda þeim sætum sem þeir skipa á framboðslista án tillits til breytinga sem gerðar hafa verið á kjörseðlum.

XVII. KAFLI

Útgáfa kjörbréfa.

111. gr.

    Þegar landskjörstjórn hefur úthlutað þingsætum skv. 107.–110. gr. skal hún tafarlaust fá hinum kjörnu þingmönnum og að svo stöddu jafnmörgum varaþingmönnum kjörbréf sem samin skulu samkvæmt fyrirmynd er dómsmálaráðuneytið segir fyrir um.
    Jafnskjótt og kjörbréf hafa verið afhent skal landskjörstjórn tilkynna stjórnarráðinu um úrslit kosninganna og senda nöfn hinna kjörnu þingmanna til birtingar í Stjórnartíðindum.

112. gr.

    Nú er ágreiningur milli umboðsmanna stjórnmálasamtaka, sem þátt hafa tekið í alþingiskosningum, og landskjörstjórnar um felldan úrskurð og eiga þá umboðsmenn rétt á að fá bókaðan ágreining sinn í gerðabók landskjörstjórnar. Landskjörstjórn sendir dómsmálaráðuneytinu eftirrit af gerðabók sinni um úthlutun þingsæta, svo og skýrslur þær og skilríki frá yfirkjörstjórnum sem ágreiningur kann að vera um, en dómsmálaráðuneytið leggur það fyrir Alþingi í þingbyrjun með sömu ummerkjum og það tók við því.

113. gr.

    Nú hefur Alþingi úrskurðað, eftir almennar alþingiskosningar, að kosning einhvers lista sé ógild og uppkosning hefur farið fram, sbr. 120. og 121. gr., og skal þá landskjörstjórn endurúthluta kjördæmissætum þar sem uppkosning hefur farið fram skv. 107. gr. og úthluta jöfnunarsætum að nýju skv. 108. og 109. gr. Fyrri úthlutun fellur þá úr gildi.

XVIII. KAFLI

Kosningum frestað og uppkosningar.

114. gr.

    Nú ferst kosning fyrir í einhverri kjördeild á hinum ákveðna degi sökum óveðurs eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum, og kveður þá undirkjörstjórn til kjörfundar að nýju innan viku. Birta skal fundarboðið á sama hátt og venja er að birta opinberar auglýsingar.
    Farist kosning fyrir af því að kjörseðlasending kemur eigi til skila skal undirkjörstjórn tafarlaust tilkynna það yfirkjörstjórn sem endurnýjar sendinguna svo fljótt sem verða má. Undirkjörstjórn kveður síðan til kjörfundar að nýju á þann hátt sem fyrir er mælt í 1. mgr.
    Undirkjörstjórn getur frestað kosningu í kjördeild eftir að hún er hafin ef hún telur óviðráðanlegar ástæður eins og óveður hindra að kosning geti fram haldið og allir kjörstjórnarmenn eru sammála um frestunina, enda komi til samþykki yfirkjörstjórnar. Hafi kosningu verið frestað ber að kveðja til kjörfundar að nýju á sama hátt og segir í 1. mgr.
    Kjörstjórn sem kosin er skv. 2. mgr. 15. gr. kemur í stað undirkjörstjórna við ákvörðun skv. 1.–3. mgr.
    Þegar kosningu hefur verið frestað skal í öllu svo að farið sem fyrir er mælt í 95. gr., eftir því sem við á, að því viðbættu að kjörskráreintök þau sem kjörstjórnin hefur haft til afnota skulu lögð með öðrum kjörgögnum. Eftir að kjörfundur er settur hinn síðari kjördag opnar kjörstjórn umbúðir þær sem kjörgögnin eru í í viðurvist frambjóðenda eða umboðsmanna þeirra. Sé frambjóðandi eigi mættur eða umboðsmaður hans kveður hún til valinkunnan mann til að vera umboðsmaður frambjóðanda. Sé eigi unnt að fullnægja þessu ákvæði má þó opna umbúðir og hefja kosningu þegar klukkustund er liðin frá setningu kjörfundar. Um hinn síðari kjördag gilda ákvæði XIV. kafla, eftir því sem við á.
    Komi atkvæðasending frá kjördeild ekki til skila til yfirkjörstjórnar, en kosning hefur farið fram, lætur yfirkjörstjórn nýja kosningu fara fram í kjördeildinni og fer um hana að öllu leyti á sama hátt og fyrr segir.

115. gr.

    Nú verður uppkosning nauðsynleg fyrir það að kosning er úrskurðuð ógild skv. 46. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 120. og 121. gr. þessara laga, og skal þá dómsmálaráðuneytið með auglýsingu kveðja til nýrra kosninga í kjördæmi og ákveða kjördag svo fljótt sem því verður við komið og eigi síðar en innan mánaðar.
    Að öðru leyti fer kosning fram samkvæmt fyrirmælum þessara laga.

XIX. KAFLI

Skýrslur til Hagstofu.

116. gr.

    Kjörstjórnir skulu senda Hagstofu Íslands skýrslu um kosninguna ritaða á eyðublöð sem Hagstofan lætur í té.

XX. KAFLI

Óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll.

117. gr.

    Það er óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll:
     a.      að bera á mann fé eða fríðindi til að hafa áhrif á hvort hann greiðir atkvæði eða hvernig hann greiðir atkvæði, að svipta mann eða ógna manni með sviptingu atvinnu eða hlunninda í sama skyni, að heita á mann fé eða fríðindum ef kosning fari svo eða svo, að torvelda öðrum sókn á kjörfund eða til utankjörfundarkjörstaðar, svo og að beita þvingunarráðstöfunum í sambandi við kosningar,
     b.      að reyna að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu, hvort heldur er með ræðuhöldum, prentuðum eða skriflegum ávörpum eða auglýsingum, með því að bera eða hafa uppi merki stjórnmálasamtaka, merki lista eða önnur slík auðkenni á sjálfum kjörstaðnum, þ.e. í kjörfundarstofu, kjörklefa eða annars staðar í eða á þeim húsakynnum þar sem kosning fer fram, svo og í næsta nágrenni,
     c.      að hafa merki stjórnmálasamtaka, merki lista eða önnur slík auðkenni á bifreiðum meðan kjörfundur stendur yfir, svo og að nota gjallarhorn til áróðurs á sama tíma,
     d.      að gefa ónákvæmar eða villandi upplýsingar um sig eða aðra, svo sem um nafn, aldur, búsetu í landinu, heimilisfang eða annað, sem leiðir eða leitt getur til þess að maður verði settur á kjörskrá sem ekki á rétt á að vera þar, eða maður ekki settur á kjörskrá eða tekinn út af kjörskrá sem á rétt á að vera þar, eða maður verði látinn greiða atkvæði í stað annars manns er stendur á kjörskrá; hér undir heyrir sérstaklega ef maður telur sig til málamynda eiga lögheimili í kjördæmi, aðeins til þess að verða settur þar á kjörskrá,
     e.      að gefa út villandi kosningaleiðbeiningar,
     f.      að rangfæra atkvæðagreiðslu, hvort heldur er með því að eyðileggja eða breyta atkvæði sem greitt hefur verið, eða á annan hátt.

XXI. KAFLI

Kosningakærur.

118. gr.

    Nú kærir einhver kjósandi að þingmann er kosningu hlaut skorti einhver kjörgengisskilyrði eða að framboðslisti hafi verið ólöglega framboðinn eða kosinn svo að ógilda beri kosninguna, og skal hann þá innan fjögurra vikna frá því að kosningaúrslit voru auglýst, en þó áður en næsta Alþingi kemur saman, senda dómsmálaráðuneytinu kæru í tveimur samritum. Dómsmálaráðuneytið sendir þegar í stað umboðsmönnum framboðslistans annað samritið en hitt skal lagt fyrir Alþingi þegar í þingbyrjun.

119. gr.

    Kærum út af brotum á lögum þessum, að svo miklu leyti sem þau heyra ekki undir úrskurð sveitarstjórna, kjörstjórna eða Alþingis, skal beina til hlutaðeigandi lögreglustjóra og fer um þau að hætti opinberra mála.
    Engum kjósanda, sem greitt hefur atkvæði við kosningar til Alþingis, er skylt að skýra frá því fyrir rétti í nokkru máli hvernig hann hefur greitt atkvæði.

XXII. KAFLI

Úrskurður Alþingis um gildi kosninga.

120. gr.

    Ef Alþingi berst kæra um að nýkosinn þingmann skorti skilyrði fyrir kjörgengi eða sé á annan hátt ólöglega framboðinn eða kosinn rannsakar það kæruna og fellir úrskurð um hana jafnframt því sem það rannsakar kjörbréf hvers nýkosins þingmanns ásamt gögnum þeim er Alþingi berast frá landskjörstjórn og yfirkjörstjórn viðvíkjandi kosningu hans, og úrskurðar um gildi kosningarinnar á þann hátt sem nánar er fyrir mælt í þingsköpum.
    Ef þingmaður er ekki kjörgengur úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda.
    Ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda og einnig án þess ef þingmaðurinn sjálfur, umboðsmenn hans eða meðmælendur hafa vísvitandi átt sök á misfellunum, enda séu þær verulegar. Fer um alla þingmenn, kosna af listanum, eins og annars um einstakan þingmann ef misfellurnar varða listann í heild.
    Ef þingmaður hefur verið í kjöri á tveimur listum í kjördæmi eða kjördæmum við hinar sömu alþingiskosningar úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda.

121. gr.

    Nú hefur Alþingi úrskurðað kosningu heils lista í kjördæmi ógilda, og skal þá uppkosning fara þar fram.

XXIII. KAFLI

Hvernig varamenn taka þingsæti.

122. gr.

    Varamenn þingmanna taka þingsæti eftir reglum þeim er greinir í 107. og 110. gr. þegar þingmenn þess lista, sem þeir eru kosnir af, falla frá eða forfallast og án tillits til þess hver þingmaður listans það er. Forfallist varamaður sökum veikinda eða annars, segi hann af sér, missi kjörgengi eða falli frá tekur sá varamannssæti sem næstur er í röðinni og ekki var áður varamaður.
    Ef þingmaður deyr, segir af sér þingmennsku eða missir kjörgengi tekur varamaður sæti sem þingmaður út kjörtímabilið.

XXIV. KAFLI

Kostnaður.

123. gr.

    Um greiðslu kostnaðar við framkvæmd á lögum þessum fer sem hér segir:
     a.      Ríkissjóður greiðir nauðsynlegan kostnað við störf landskjörstjórnar og fyrir kjörgögn þau og áhöld er dómsmálaráðuneytið eða landskjörstjórn lætur í té, svo og fyrir húsnæði til afnota fyrir landskjörstjórn.
     b.      Ríkissjóður greiðir nauðsynlegan kostnað við störf yfirkjörstjórna og fyrir kjörgögn þau og áhöld er yfirkjörstjórnir láta í té, svo og fyrir húsnæði þar sem talning atkvæða fer fram.
     c.      Sveitarsjóðir greiða nauðsynlegan kostnað við störf undirkjörstjórna og kjörstjórna skv. 2. mgr. 15. gr. og fyrir kjörgögn þau og áhöld sem kjörstjórnir þessar láta í té, fyrir húsnæði til kjörfunda og fyrir atkvæðakassa.

XXV. KAFLI

Refsiákvæði.

124. gr.

    Það varðar sektum, ef ekki liggur þyngri refsing við eftir öðrum ákvæðum þessara laga eða eftir öðrum lögum, ef sveitarstjórn, kjörstjórn, utankjörfundarkjörstjóri eða embættismaður hagar fyrirskipaðri framkvæmd laga þessara vísvitandi á ólöglegan hátt eða vanrækir hana.

125. gr.

    Það varðar sektum:
     a.      ef maður býður sig fram til þingmennsku, vitandi að hann er ekki kjörgengur,
     b.      ef maður býður sig fram á fleiri listum en einum,
     c.      ef kjósandi ónýtir af ásettu ráði atkvæðaseðil sinn við kosningu á kjörfundi eða við kosningu hjá utankjörfundarkjörstjóra,
     d.      ef kjósandi sýnir af ásettu ráði hvernig hann kýs eða hefur kosið,
     e.      ef maður njósnar um hvernig kjósandi kýs eða hefur kosið,
     f.      ef kjósandi gerir sér upp sjónleysi eða önnur forföll til að fá aðstoð við kosningu,
     g.      ef maður vanrækir af ásettu ráði að koma til skila atkvæðisbréfi sem honum hefur verið trúað fyrir eða tefur vísvitandi fyrir sendingu atkvæða og kjörgagna,
     h.      ef maður gefur ónákvæmar eða villandi upplýsingar um sig eða aðra á þann hátt sem greint er í d-lið 117. gr., ef ekki liggur þyngri refsing við eftir öðrum ákvæðum þessara laga eða eftir öðrum lögum,
     i.      ef maður gefur út villandi kosningaleiðbeiningar.

126. gr.

    Það varðar sektum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum:
     a.      ef kjörstjórnarmaður eða utankjörfundarkjörstjóri njósnar um hvernig kjósandi kýs eða hefur kosið, eða gefur vísvitandi villandi kosningaleiðbeiningar,
     b.      ef kjörstjórnarmaður eða utankjörfundarkjörstjóri, sem aðstoð veitir, segir frá því hvernig kjósandi, sem hann hefur aðstoðað, hefur greitt atkvæði,
     c.      ef kjörstjórnarmaður, utankjörfundarkjörstjóri eða sá sem tekið hefur að sér flutning kjörgagna skv. 54. eða 95. gr. tefur fyrir að þau komist til skila,
     d.      ef maður torveldar öðrum sókn á kjörfund eða atkvæðagreiðslu utan kjörfundar,
     e.      ef maður greiðir atkvæði á tveimur stöðum við sömu alþingiskosningar.

127. gr.

    Það varðar sektum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum:
     a.      ef maður ber fé eða fríðindi á mann eða heitir manni fé eða fríðindum til að hafa áhrif á hvort hann greiðir atkvæði eða hvernig hann greiðir atkvæði, eða ef maður sviptir mann eða ógnar manni með sviptingu atvinnu eða hlunninda í sama skyni,
     b.      ef maður tekur fé eða fríðindi fyrir að greiða atkvæði, láta vera að greiða atkvæði eða að greiða atkvæði á ákveðinn hátt.

128. gr.

    Það varðar fangelsi allt að fjórum árum:
     a.      ef maður beitir þvingunarráðstöfunum eða ofbeldi eða hótunum um ofbeldi til að raska kosningafrelsi manns, annaðhvort á þann hátt að meina honum að greiða atkvæði eða neyða hann til að greiða atkvæði á annan veg en hann vill,
     b.      ef maður vísvitandi rangfærir atkvæðagreiðslu, annaðhvort á þann hátt að glata atkvæði, breyta atkvæði, skemma eða glata atkvæðasendingu, búa til kjörseðla, er líkjast mjög þeim sem notaðir eru við kosningu, og hagnýtir þá sjálfur eða lætur þá frá sér til þess að aðrir geti hagnýtt þá, rugla úrslit talningar atkvæða eða á annan hátt.

XXVI. KAFLI

Breytingar á lögum þessum.

129. gr.

    Lögum þessum verður breytt eins og fyrir er mælt í stjórnarskránni.
    Ákvæðum 6. gr. um kjördæmamörk og ákvæðum 107.–109. gr. um úthlutun þingsæta verður ekki breytt nema með samþykki 2/ 3 atkvæða á Alþingi, sbr. 6. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar.

XXVII. KAFLI

Gildistaka og breytingar á öðrum lögum.

130. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um kosningar til Alþingis, nr. 80 16. október 1987, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 10 19. mars 1991, nr. 92 23. desember 1991 og nr. 9 27. febrúar 1995.
    Frá sama tíma breytist 1. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands, sbr. 2. gr. laga nr. 43/1996, þannig að í stað orðanna „120. gr. og XVII., XXI. og XXII. kafla“ komi: 114. gr. og XIX., XX., XXIV. og XXV. kafla.
    Frá sama tíma falla brott orðin „og hafa ekki áhrif á skipan kjördæma við alþingiskosningar“ úr 2. gr. laga nr. 17/1998, um sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkur.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Þrátt fyrir ákvæði síðari málsliðar 1. mgr. 130. gr. skal beita lögum nr. 80/1987, um kosningar til Alþingis, með síðari breytingum, við forsetakjör á árinu 2000 eftir því sem við á og ekki er öðruvísi fyrir mælt í lögum nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands, með síðari breytingum. Jafnframt skulu yfirkjörstjórnir er kosnar voru samkvæmt þeim lögum að loknum alþingiskosningum 1999, á 124. löggjafarþingi, halda umboði sínu að því er það varðar.

II.

    Við gildistöku laga þessara fellur niður umboð yfirkjörstjórna sem kjörnar voru skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 80/1987, síðast í júní 1999, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða I. Alþingi skal þegar í stað kjósa yfirkjörstjórnir skv. 1. mgr. 13. gr. í lögum þessum.

Greinargerð.

I.

Inngangur.

    Hinn 25. október 1999 skipaði forsætisráðherra nefnd til að semja frumvarp til nýrra heildarlaga um kosningar til Alþingis. Í nefndina voru skipuð alþingismennirnir Geir H. Haarde fjármálaráðherra, formaður, Sigríður A. Þórðardóttir og Kristinn H. Gunnarsson samkvæmt tilnefningum þingflokka stjórnarflokkanna og Guðmundur Árni Stefánsson og Steingrímur J. Sigfússon samkvæmt tilnefningum þingflokka utan ríkisstjórnar. Með nefndinni hafa starfað Helgi Bernódusson, aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis, og Kristján Andri Stefánsson, deildarstjóri í forsætisráðuneytinu, sem jafnframt var ritari nefndarinnar.
    Í skipunarbréfi nefndarinnar sagði m.a. svo: „Hinn 24. júní sl. voru staðfest stjórnarskipunarlög nr. 77/1999, um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Forystumenn allra flokka, er sæti áttu á Alþingi á síðasta kjörtímabili, stóðu sameiginlega að undirbúningi og samþykkt þessara stjórnarskipunarlaga og samkomulag þeirra tók jafnframt til þeirra breytinga sem þau gera ráð fyrir að gerðar verði þeim til samræmis á lögum um kosningar til Alþingis. Drög að slíkum breytingum liggja þegar fyrir og fylgdu frumvarpi til framangreindra stjórnarskipunarlaga við meðferð fyrra þings. – Á vorþingi 123. löggjafarþings var jafnframt lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um kosningar til Alþingis sem ekki varð útrætt. Þar var um að ræða tillögur nefndar, er fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði samkvæmt tilnefningum allra þingflokka, er þá áttu sæti á Alþingi, til að endurskoða kosningalöggjöfina í heild sinni. Þessari nefnd vannst þó ekki tími til að ljúka nema hluta endurskoðunar sinnar og skilaði því auk tillagna sinna lista yfir fjölmörg atriði sem ekki hafði tekist að ljúka umfjöllun um. Taldi sú nefnd eðlilegt að þau atriði og eftir atvikum fleiri kæmu til athugunar í tengslum við þá endurskoðun kosningalaga sem framkvæma þyrfti vegna breytinga á stjórnarskránni síðar.“
    Á þessum grundvelli var nefndinni falið að semja frumvarp til nýrra heildarlaga um kosningar til Alþingis. Samkvæmt framangreindu var hlutverk hennar þríþætt: 1) Að útfæra breytt ákvæði 31. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 77/1999, um kjördæmaskipan og úthlutun þingsæta ásamt öðrum breytingum á kosningakerfinu sem samkomulag um þessar breytingar gerði jafnframt ráð fyrir, 2) að fjalla um áður fram komnar tillögur um breytingar á kosningalögum og 3) að ljúka endurskoðun kosningalaganna að öðru leyti.

II.

Stjórnarskrárbreytingin og tengd atriði.

    Stjórnarskrárbreytingin, sem samþykkt var á sumarþingi 1999, byggðist á tillögum nefndar er forsætisráðherra skipaði 8. september 1997 til að endurskoða kjördæmaskipan og tilhögun kosninga til Alþingis í því skyni að draga úr misvægi atkvæða og laga hana að þróun búsetu í landinu. Nefndin var skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka er þá áttu fulltrúa á Alþingi. Nefndin skilaði forsætisráðherra ítarlegri skýrslu um niðurstöður sínar og forsendur þeirra hinn 6. október 1998 og var hún lögð fyrir Alþingi þá um haustið (Alþt. 1998–99, A- deild, bls. 943–1023). Á grundvelli þessarar skýrslu og erindis nefndarinnar til forsætisráðherra, dags. 28. október s.á., ákváðu forustumenn stjórnmálaflokkanna, sem fulltrúa höfðu átt í nefndinni, að gera tillögur hennar að sínum og standa sameiginlega að þeim breytingum sem þar voru lagðar til. Í því skyni fluttu þeir sameiginlega frumvarp það er varð að stjórnarskipunarlögum nr. 77/1999 (254. mál á 123. löggjafarþingi, 1. mál á 124. löggjafarþingi). Um markmið og forsendur þessara breytinga vísast til framsögu og greinargerða með þeim frumvörpum, svo og skýrslu þeirrar er liggur þeim til grundvallar. Stjórnarskrárbreytingin lagði þó aðeins grunninn að hinu nýja kerfi og skapaði stjórnskipuleg skilyrði fyrir þeim breytingum sem hér er lagt til að kosningalögin mæli fyrir um.
    Í greinargerð með stjórnarskipunarlagafrumvarpi því, er fyrra þing hafði til meðferðar, kom fram að engin ákvæði stjórnarskrárinnar hefðu tekið jafnoft breytingum og fyrirmæli hennar um kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulag. Í því skyni að gera kosningakerfið í senn sveigjanlegra og varanlegra en verið hefði var því lagt til að í stað rækilegra ákvæða um kjördæmamörk og úthlutun þingsæta hefði stjórnarskráin að geyma heldur færri og að sama skapi almennari ákvæði um megindrætti í kjördæmaskipan landsins og tilhögun kosninga til Alþingis. Almenna löggjafnum yrði hins vegar eftirlátin útfærsla þeirra í lögum, sumpart með tilstyrk aukins meiri hluta atkvæða á Alþingi. Heildarfjöldi þingsæta og lengd kjörtíma eru eftir sem áður stjórnarskrárbundin, svo og tilhögun kosninga í megindráttum, svo sem að þær skuli vera leynilegar og hlutbundnar. Hins vegar er lagt í vald löggjafans að ákveða fjölda kjördæma og þingsæta í hverju kjördæmi, innan þeirra marka sem stjórnarskrá setur. Sömuleiðis þarf að setja í lög nánari fyrirmæli um kjördæmaskipan og fyrirkomulag kosninga, þar á meðal um kjördæmamörk utan Reykjavíkur og nágrennis og reglur um úthlutun þingsæta. Með þessu móti er hægt að breyta vissum atriðum er lúta að kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulagi án þess að til þurfi stjórnarskrárbreytingu. Þó er áskilið að breytingar á lögmæltum kjördæmamörkum og tilhögun á úthlutun þingsæta eins og þau eru ákveðin í frumvarpi þessu, ef að lögum verður, verði aðeins gerðar með tveimur þriðju hlutum atkvæða á Alþingi.
    Þá er í 31. gr. stjórnarskrárinnar að finna tvö nýmæli sem ekki voru þar áður. Annars vegar var horfið frá þeirri reglu núgildandi kosningalaga að þau stjórnmálasamtök ein komi til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem fengið hafa kjördæmissæti. Í staðinn var í stjórnarskrá tekin sú regla að þau samtök ein, sem hlotið hafa fimm af hundraði atkvæða á landsvísu eða meira, geti fengið úthlutað jöfnunarsæti, jafnvel þótt þau hafi ekki fengi þingsæti í kjördæmi. Hins vegar er komið í veg fyrir að misvægi á milli atkvæða kjósenda að baki hverju þingsæti í einstökum kjördæmum geti farið yfir 1:2 með því að fela landskjörstjórn að flytja þingsæti á milli kjördæma þar sem munurinn er mestur til að draga úr misvæginu.
    Í samræmi við framangreindar breytingar á stjórnarskrá og þær breytingar á kosningakerfinu, sem liggja þeim til grundvallar og forusta stjórnmálaflokkanna sameinaðist um á síðasta kjörtímabili, er í frumvarpi þessum lagt til að kosningalögin taki eftirtöldum breytingum:
     *      Kjördæmin verði sex að tölu. Mörk þeirra verði dregin í lögum, þó þannig að landskjörstjórn verði falið að ákveða mörkin milli kjördæmanna tveggja í Reykjavík á grundvelli íbúaskrár þjóðskrár fimm vikum fyrir kjördag.
     *      Þingsætatala í hverju kjördæmi verði ákveðin þannig að í hverju kjördæmi verði 9 kjördæmissæti og 1–2 jöfnunarsæti.
     *      Heimild landskjörstjórnar til að færa þingsæti á milli kjördæma til að draga úr misvægi atkvæða verði bundin við kjördæmissæti og þá eingöngu þau sem eru umfram stjórnarskrárbundið lágmark.
     *      Kjördæmissætum, eins og jöfnunarsætum, verði úthlutað samkvæmt d'Hondt-reglu.
     *      Úthlutun jöfnunarsæta verði felld að fyrirmælum stjórnarskrár.
     *      Möguleikar kjósenda til að hafa áhrif á röð efstu frambjóðenda á lista verði auknir.

III.

Aðrar breytingar á kosningalögum.

    Í frumvarpi til laga um kosningar til Alþingis, sem dóms- og kirkjumálaráðherra lagði fyrir 123. löggjafarþing (523. mál) en varð ekki útrætt á því þingi, voru lagðar til ýmsar breytingar sem samstaða hafði tekist um á milli stjórnmálaflokkanna í þeirri nefnd er undirbjó frumvarpið. Breytingar samkvæmt því frumvarpi miðuðu flestar að því að auðvelda kjósendum að neyta kosningarréttar síns og bæta úr ýmsum ágöllum sem komið hafa fram við framkvæmd kosninga á undanförnum árum og höfðu almennt að markmiði að skapa umgjörð sem gert gæti framkvæmd kosninga einfaldari og greiðari án þess að draga úr öryggi hennar. Við gerð frumvarpsins var m.a. höfð hliðsjón af breytingum sem gerðar voru á ýmsum ákvæðum um framkvæmd sveitarstjórnarkosninga með lögum nr. 5/1998.
    Breytingartillögur þessa fyrra frumvarps hafa ásamt nokkrum öðrum verið felldar inn í þetta frumvarp og teljast þessar helstar:
     *      Umboðsmaður Alþingis skal ekki vera kjörgengur til Alþingis.
     *      Samræmdar eru reglur um öll sveitarfélög.
     *      Sveitarstjórnir ráði alfarið skiptingu sveitarfélags í kjördeildir og skipan undirkjörstjórna.
     *      Hverfis- eða yfirkjörstjórnir verði í sveitarfélögum þar sem eru fleiri en ein kjördeild á kjörstað og yfirkjörstjórn verði þar sem slíkir kjörstaðir eru fleiri en einn.
     *      Kjörstjórnarmaður verði vanhæfur ef til meðferðar er mál sem varðar þann sem er skyldur honum eða mægður.
     *      Kjörskrárstofn er miðaður við íbúaskrá þjóðskrár eins og hún er fimm vikum fyrir kjördag.
     *      Ekki má breyta kjörskrá vegna nýs lögheimilis nema flutningur hafi átt sér stað fimm vikum fyrir kjördag og tilkynning um nýtt lögheimili hafi borist Hagstofunni (þjóðskrá) til skráningar fyrir sama tíma.
     *      Kveðið er á um sérstaka tilkynningarskyldu sveitarfélags ef athugasemdir koma fram við kjörskrá.
     *      Ákvæði er um að á framboðslista skuli vera nöfn tvöfalt fleiri frambjóðenda en nemur þingsætum í kjördæminu, hvorki fleiri né færri.
     *      Ákvæði er um að enginn megi mæla með fleiri framboðslistum en einum við sömu kosningar.
     *      Ákvæði er um hvenær frambjóðandi getur afturkallað samþykki til framboðs.
     *      Ákvæði er um hvenær meðmælandi getur afturkallað stuðningsyfirlýsingu sína.
     *      Aukinn fjöldi kjósenda er áskilinn við umsókn um listabókstaf fyrir ný stjórnmálasamtök.
     *      Aukinn fjöldi kjósenda er áskilinn sem meðmælendur með framboði stjórnmálasamtaka.
     *      Ákvæði er um að heiti nýrra stjórnmálasamtaka megi ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem fyrir eru.
     *      Ákvæði er um að gera skuli leiðbeiningar um tilhögun atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.
     *      Sýslumanni verði heimilað að ákveða að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fari fram á öðrum stöðum í umdæmi hans en embættisskrifstofu eða útibúi.
     *      Ákvæði er um að ekki þurfi læknisvottorð til stuðnings ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi.
     *      Nægilegt verði að umsókn um að greiða atkvæði í heimahúsi hafi borist kjörstjóra fjórum dögum fyrir kjördag.
     *      Ákvæði er um að framkvæmd og afgreiðslutíma utankjörfundaratkvæðagreiðslu skuli haga þannig að kosning geti gengið sem greiðast fyrir sig.
     *      Utanríkisráðuneytið geti ákveðið að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fari fram á öðrum stöðum erlendis en í skrifstofu sendiráðs, fastanefndar eða ræðismanns og að tilnefndir verði sérstakir kjörstjórar í þessu skyni.
     *      Atkvæðagreiðsla um borð í skipi, sem er í siglingum erlendis eða á fjarlægum miðum, geti náð til farþega með skipinu auk áhafnar þess.
     *      Kennivottorð, t.d. vegabréf, ökuskírteini o.fl., verði tilgreind sem skilríki kjósanda við atkvæðagreiðslu, auk nafnskírteinis.
     *      Ákvæði er um að kjörfund skuli almennt setja kl. 9 árdegis en kjörstjórn geti ákveðið að kjörfundur hefjist síðar, þó ekki síðar en kl. 12 á hádegi.
     *      Einfölduð eru ákvæði um tilhögun atkvæðagreiðslu á kjörfundi í þeim tilgangi að gera athöfnina einfaldari og greiðari.
     *      Kveðið er á um hlutverk kjörstjórnar við að halda uppi vörslu og reglu á kjörstað.
     *      Ákvæði er um að á hverjum kjörstað skuli vera tilkynning um framboðslista með heiti stjórnmálasamtaka, listabókstöfum og nöfnum frambjóðenda.
     *      Ný ákvæði eru um meðferð utankjörfundaratkvæða hjá kjörstjórn.
    Nefnd sú er undirbjó fyrrgreint frumvarp, er lagt var fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi, skilaði jafnframt tillögum sínum lista yfir nokkur atriði sem ekki hafði tekist að ljúka umfjöllun um í því nefndarstarfi en hún taldi samt sem áður æskilegt að yrðu áfram til skoðunar, eftir atvikum í tengslum við þær breytingar sem gera þyrfti á kosningalögum vegna stjórnarskrárbreytinganna sem þá voru í undirbúningi. Nefnd þeirri, er undirbúið hefur þetta frumvarp, var því einnig falið að fjalla um þessi atriði. Umfjöllun um aðrar og brýnni breytingar á lögunum hefur hins vegar tekið lengri tíma en svo að tekist hafi að fjalla um þessi atriði að marki. Með því að brýnt er orðið að koma fyrir þingið frumvarpi um þær breytingar á kosningalögum sem breytt ákvæði stjórnarskrár kalla á hefur orðið að ráði að leggja fyrrnefndan lista yfir óútkljáð atriði enn til hliðar meðan þingið fjallar um þær tillögur sem samstaða er í meginatriðum um að öðru leyti.

IV.

Yfirlit um efnisskipan frumvarpsins.

    Til hægðarauka fylgir hér yfirlit yfir efnisskipan frumvarpsins, númer kafla og heiti, ásamt greinanúmerum:

Kafli Heiti (greinanúmer)
I. Kosningarréttur og kjörgengi (1.–5. gr.)
II. Kjördæmi (6.–9. gr.)
III. Kjördeildir (10. gr.)
IV. Kjörstjórnir (11.–19. gr.)
V. Kjördagur (20.–21. gr.)
VI. Kjörskrár (22.–29. gr.)
VII. Framboð (30.–37. gr.)
VIII. Listabókstafir stjórnmálasamtaka (38. gr.)
IX. Umboðsmenn (39.–40. gr.)
X. Úrskurður um framboð og auglýsing (41.–45. gr.)
XI. Kjörgögn (46.–55. gr.)
XII. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar (56.–67. gr.)
XIII. Kjörstaðir (68.–69. gr.)
XIV. Atkvæðagreiðsla á kjörfundi (70.–96. gr.)
XV. Kosningaúrslit í kjördæmum (97.–105. gr.)
XVI. Úthlutun þingsæta (106.–110. gr.)
XVII. Útgáfa kjörbréfa (111.–113. gr.)
XVIII. Kosningum frestað og uppkosningar (114.–115. gr.)
XIX. Skýrslur til Hagstofu (116. gr.)
XX. Óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll (117. gr.)
XXI. Kosningakærur (118.–119. gr.)
XXII. Úrskurður Alþingis um gildi kosninga (120.–121. gr.)
XXIII. Hvernig varamenn taka þingsæti (122. gr.)
XXIV. Kostnaður (123. gr.)
XXV. Refsiákvæði (124.–128. gr.)
XXVI. Breytingar á lögum þessum (129. gr.)
XXVII. Gildistaka og breytingar á öðrum lögum (130. gr.)
Ákvæði til bráðabirgða (I–II)

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Greinin er í samræmi við 1. gr. kosningalaga.

Um 2. gr.

    Í þessari grein eru ákvæði sem nú eru í 2. mgr. 15. gr. kosningalaga. Þykir rétt að flytja ákvæðin í I. kafla laganna þar sem þau varða skilyrði kosningarréttarins. Ákvæðin eru í meginatriðum samhljóða gildandi ákvæði. Nauðsyn þykir þó að kveða nánar á um hvernig fara beri með umsóknir þeirra sem flust hafa úr landi en eiga rétt á að vera teknir á kjörskrá. Er lagt til að fram komi í lögum að umsókn, sem berst meira en einu ári áður en réttur fellur niður, skuli ekki tekin til greina. Eitt skilyrði þessa réttar er að umsækjandi staðfesti í umsókn að hann sé enn íslenskur ríkisborgari. Ekki þykir annað við hæfi en að slík yfirlýsing þess sem lengi hefur búið erlendis sé nýleg. Ef umsókn berst of fljótt mun Hagstofan tilkynna umsækjanda það og leiðbeina um hvenær umsókn sé tímabær. Loks er það nýmæli að tekið er fram að ákvæðin gildi á sama hátt um endurnýjun kosningarréttarins.

Um 3. gr.

    Greinin kveður á um að skilyrði kosningarréttar sé að nafn kjósanda sé á kjörskrá. Ákvæði þessa efnis er nú í 25. gr. kosningalaga sem gert er ráð fyrir að falli brott, sbr. og 1. mgr. 80. gr. frumvarpsins þar sem segir að engum sem á kjörskrá stendur megi kjörstjórn meina að greiða atkvæði. Að kjósandi geti verið á kjörskrá á tveimur stöðum við sömu kosningar, sbr. 25. gr. laganna, á ekki að geta átt sér stað vegna reglna um kjörskrárgerð. Beri hins vegar svo við leiðir af sjálfu sér að kjósandi hlýtur sjálfur að eiga val um hvar hann neytir atkvæðisréttar síns, en skv. e-lið 126. gr. frumvarpsins er refsivert að greiða atkvæði á tveimur stöðum við sömu kosningar.

Um 4. gr.

    Greinin er samhljóða 2. gr. kosningalaga, en við hana hefur þó verið bætt því ákvæði að umboðsmaður Alþingis sé ekki kjörgengur. Er það í samræmi við 1. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, en þar segir að umboðsmaður megi ekki vera alþingismaður.

Um 5. gr.

    Greinin er samhljóða 3. gr. kosningalaga.

Um 6. gr.

    Í þessari grein er í samræmi við fyrri málslið 2. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 77/1999, lagt til að kjördæmin verði sex að tölu, þrjú kjördæmi á landsbyggðinni og þrjú á höfuðborgarsvæðinu. Til Norðvesturkjördæmis teljast miðað við fyrri skipan Vesturlandskjördæmi, Vestfjarðakjördæmi og Norðurlandskjördæmi vestra að undanskildum Siglufjarðarkaupstað, til Norðausturkjördæmis teljast Norðurlandskjördæmi eystra auk Siglufjarðarkaupstaðar og Austurlandskjördæmi að undanskildu Sveitarfélaginu Hornafirði, til Suðurkjördæmis Suðurlandskjördæmi auk Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Suðurnesja í Reykjaneskjördæmi og til Suðvesturkjördæmis Reykjaneskjördæmi án Suðurnesja og Kjalarness. Loks er Reykjavíkurkjördæmi skipt í tvö kjördæmi eins og óhjákvæmilegt er til að fjöldi þingsæta í hverju kjördæmi geti verið sem jafnastur.
    Þessi skipan kjördæmanna er í öllum meginatriðum í samræmi við þá afmörkun sem boðuð var í greinargerð með frumvarpi því er varð að stjórnarskipunarlögum nr. 77/1999 við meðferð fyrra þings. Sú skipting var í öllum meginatriðum í samræmi við aðaltillögu í nefndarskýrslu þeirri er lá því frumvarpi til grundvallar. Eftir að skýrslan kom fram hélt nefndin, er hana samdi, áfram störfum og fylgdist með umræðum um hana og ábendingum sem fram komu um tillögur hennar. Í erindi, er nefndin sendi forsætisráðherra, dags. 28. október 1998, taldi hún mega bregðast við gagnrýni á aðaltillögu hennar með tilteknum breytingum, m.a. þeim að telja Austur-Skaftafellssýslu eða Sveitarfélagið Hornafjörð til Norðausturkjördæmis í stað Suðurkjördæmis. Meðan frumvarp þetta var í smíðum kom bæjarstjórnin á Hornafirði hins vegar á framfæri einkar afgerandi niðurstöðum skoðanakönnunar, er hún lét gera meðal kosningarbærra manna í sveitarfélaginu, á því hvort þeir teldu að sveitarfélagið ætti frekar að tilheyra Suðurkjördæmi en Norðausturkjördæmi. Af þeim sem afstöðu tóku galt yfirgnæfandi meiri hluti jáyrði við þeirri spurningu eða rúmir 62 af hundraði. Þegar til þess er litið að þetta er og sú skipan sem upphafleg aðaltillaga kjördæmanefndarinnar gerði ráð fyrir og að breyting í þessa veru raskar ekki markmiðum hennar að öðru leyti er lagt til að Sveitarfélagið Hornafjörður teljist til Suðurkjördæmis í stað Norðausturkjördæmis.
    Annað frávik frá upphaflegum tillögum felst í því að hér er lagt til að Reykjavík verði skipt í norður- og suðurkjördæmi, í stað vestur- og austurkjördæmis. Er sú skipan talin gefa betri þverskurð af íbúum borgarinnar með tilliti til aldursdreifingar, hverfaskiptingar, þjónustu sem veitt er í hvoru kjördæmi um sig o.fl. Auk þess ættu meginumferðaræðar borgarinnar um Miklubraut og Vesturlandsveg að nýtast vel til að draga mörk hvors kjördæmis um sig, einnig með tilliti til uppbyggingar nýrra hverfa og framtíðarþróunar borgarinnar. Að öðru leyti vísast til 7. gr. frumvarpsins um þær viðmiðunarreglur sem landskjörstjórn ber að leggja skiptingu borgarinnar til grundvallar í þessu skyni. Tekið skal fram að eftir sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkur, sbr. 1. gr. laga nr. 17/1998, ber að telja kjósendur á Kjalarnesi til annars Reykjavíkurkjördæmanna, sbr. einnig þá breytingu sem lagt er til að þau lög taki í 3. mgr. 130. gr. frumvarpsins.
    Með þessu móti verða kjördæmin svipuð að stærð miðað við fjölda kjósenda í hverju þeirra. Það gerir að verkum að heildarfjöldi þingsæta í hverju þeirra getur verið áþekkur án mikils misvægis atkvæða milli kjördæma og hægt er úthluta fleiri þingsætum í kjördæmi á grundvelli úrslita í kjördæminu sjálfu, og ættu níu jöfnunarsæti að duga til að tryggja sæmilega vel jöfnuð á milli flokka á landsvísu. Miðað við skiptingu kjósenda milli þessara kjördæma ætti mesta misvægi atkvæða á milli kjördæma samkvæmt þessu að vera 1:1,85 ef miðað er við kjósendur á kjörskrá 8. maí 1999.
    Mörk kjördæma hafa fram til þessa verið dregin með því að telja upp þá kaupstaði og sýslur sem heyra til hverju kjördæmi. Skipting landsins í sýslur hefur hins vegar verið afnumin, skipan sveitarfélaga hefur breyst og ekki er lengur byggt á flokkun þeirra í kaupstaði og hreppa. Því er sjálfgefið að mörk kjördæma verði hér eftir dregin með því að tilgreina þau sveitarfélög sem heyra til hverju kjördæmi.
    Í 2. mgr. er skýrt hvernig með skuli fara ef heiti eða mörkum sveitarfélags er breytt eða sveitarfélög sameinuð eftir gildistöku nýrra kjördæmamarka skv. 1. mgr. Skv. 2. mgr. skal hið nýja sveitarfélag heyra til þess kjördæmis sem hið fyrra eða hin fyrri heyrðu til, nema sameinuð hafi verið tvö eða fleiri sveitarfélög sem hvort eða hvert hafa heyrt til sínu kjördæmi. Í því tilviki skulu kjördæmamörkin haldast óbreytt og áfram miðast við sömu mörk og fyrri sveitarfélög höfðu áður. Því má síðan breyta með breytingum á kosningalögum að tilskildu samþykki aukins meiri hluta, sbr. 2. mgr. 129. gr. frumvarpsins og 6. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 77/1999.

Um 7. gr.

    Samkvæmt 6. gr. frumvarpsins skal Reykjavík skipt í tvö kjördæmi. Til að vægi atkvæða í hvoru þeirra um sig sé sem jafnast þurfa kjördæmin að vera því sem næst jafnstór með tilliti til fjölda kjósenda að baki hverju þingsæti. Mörkin milli kjördæmanna þurfa því að vera hreyfanleg eftir því sem íbúatala Reykjavíkur breytist og borgin stækkar. Í þessari grein er því lagt til að nýtt verði heimild í síðari málslið 2. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 77/1999, til að víkja frá lögbundnum kjördæmamörkum í Reykjavík og nágrenni og landskjörstjórn falið að ákveða mörk kjördæmanna innan borgarinnar eftir búsetu kjósenda. Við það verk eru henni settar ákveðnar viðmiðunarreglur í samræmi við framangreindar forsendur. Samkvæmt þeim skulu mörkin dregin þannig að kjósendur að baki hverju þingsæti, að jöfnunarsætum meðtöldum, verði nokkurn veginn jafnmargir í hvoru kjördæmi um sig. Til að þessir útreikningar fari saman við fjölda kjósenda á kjörskrá er jafnframt lagt til að hvort tveggja sé miðað við íbúaskrá þjóðskrár eins og hún er fimm vikum fyrir kjördag, sbr. einnig 23. gr. frumvarpsins. Gengið er út frá að skipulag borgarinnar í götur og hverfi verði lagt þessari skiptingu til grundvallar rétt eins og tíðkast hefur við skiptingu borgarinnar í kjördeildir. Enda þótt miða beri við að kjördæmin verði á hverjum tíma jafnstór með tilliti til fjölda kjósenda ber einnig að leitast við að haga skiptingunni þannig að hvort kjördæmi um sig verði sem samfelldust heild með tilliti til hverfa- og götuskipulags.
    Ekki þykir rétt að festa í lög nánari ákvæði um það hve miklu má muna á fjölda kjósenda að baki þingsætum í hvoru Reykjavíkurkjördæmanna en miðað er við að ekki skakki meira en 2–3%.
    Í 2. mgr. er landskjörstjórn gert að auglýsa mörk Reykjavíkurkjördæmanna í Stjórnartíðindum jafnskjótt og þau liggja fyrir, og eigi síðar en fjórum vikum fyrir kjördag. Vitaskuld ber þó að hraða því verki eins og við verður komið, enda getur kjörskrárgerð fyrir hvort kjördæmi um sig ekki hafist fyrr en mörkin hafa verið dregin.

Um 8. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 77/1999, er tala þingmanna bundin við 63 sæti sem kosið er um í leynilegri hlutbundinni kosningu. Skv. 3. mgr. sömu greinar skulu í hverju kjördæmi vera minnst sex kjördæmissæti en skipting þingsæta milli kjördæma að öðru leyti ákveðin í lögum. Hugtakið kjördæmissæti er í 3. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar skýrt sem þingsæti sem úthlutað er á grundvelli kosningaúrslita í viðkomandi kjördæmi og notað til aðgreiningar frá jöfnunarsætum sem úthlutað er á grundvelli landsfylgis, sbr. 4. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt síðastnefndu ákvæði skal jöfnunarsætum ráðstafað í kjördæmi.
    Í samræmi við framangreint er í 1. mgr. þessarar greinar lagt til að öll þingsætin verði bundin tilteknum kjördæmum og heildarfjöldi í hverju þeirra verði nokkurn veginn sá sami, þ.e. tíu þingsæti í hverju landsbyggðarkjördæmanna, en ellefu sæti í hverju þéttbýliskjördæmanna. Í 2. mgr. er lagt til að þessi þingsæti skiptist þannig að í hverju kjördæmi verði kjördæmissætin níu talsins, en jöfnunarsæti tvö í hverju þéttbýliskjördæmanna og eitt í hverju landsbyggðarkjördæmanna. Með því móti verða kjördæmissæti í hverju kjördæmi jafnmörg en það þýðir að stjórnmálasamtök þurfa að fá hlutfallslega jafnmörg atkvæði í hverju þeirra til að fá úthlutað slíku sæti. Jafnframt benda útreikningar ekki til annars en að samtals níu jöfnunarsæti í sex álíka stórum kjördæmum eigi að duga til að tryggja sæmilegan jöfnuð milli stjórnmálasamtaka miðað við heildarfylgi þeirra á landsvísu.
    Í 3. mgr. greinarinnar er á því hnykkt að lögbundin skipting þingsæta í kjördæmi komi þó ekki í veg fyrir að þingsæti verði flutt á milli kjördæma ef þau skilyrði skapast sem vísað er til í 5. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar. Þau eru nánar útfærð í 9. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Í 5. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 77/1999, var tekið það nýmæli sem ætlað er að koma í veg fyrir að misvægi atkvæða fari fram úr 1:2 milli einstakra kjördæma. Þar var tekin upp sú regla að landskjörstjórn skuli breyta fjölda þingsæta í kjördæmum ef kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, verða eftir alþingiskosningar orðnir helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru kjördæmi.
    Í þessari grein er þessi regla útfærð nánar að því leyti að heimild landskjörstjórnar til að færa þingsæti á milli kjördæma til að draga úr misvægi atkvæða í einstökum kjördæmum er einskorðuð við flutning kjördæmissæta. Svo sem hnykkt er á í 3. mgr. þessarar greinar er jafnframt litið svo til að heimild landskjörstjórnar til að flytja kjördæmissæti taki einvörðungu til þeirra kjördæmissæta í kjördæmi sem eru umfram stjórnarskrárbundið lágmark, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar.
    Bent skal á að 5. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar bindur atkvæðamisvægi á milli einstakra kjördæma eingöngu við tiltekið hámark. Þannig er heimilt að draga enn frekar úr atkvæðamisvæginu í lögum, innan þeirra marka sem 2. og 3. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar setja, þótt ekki sé gerð tillaga um það hér.

Um 10. gr.

    Greinin svarar til 6. gr. kosningalaga. Lagt er til að samræmd verði ákvæði um skiptingu sveitarfélaga í kjördeildir og að almenna reglan verði að sveitarstjórn ákveði skiptinguna. Felld er niður núgildandi 2. mgr. greinarinnar sem áskilur samþykki yfirkjörstjórnar kjördæmis til að skipta sveitarfélagi í kjördeildir, svo og 3. mgr. um að 15 kjósendur í sama hreppshluta í hreppi, þar sem eru færri en fjórar kjördeildir, geti krafist þess að gerð verði sérstök kjördeild fyrir þá. Vegna breyttra samgangna eru þessi ákvæði óþörf.
    Í 2. mgr. er lagt til að sama meginregla gildi um hvernig auðkenna skuli einstakar kjördeildir til aðgreiningar og verði þær að jafnaði kenndar við kjörstað eða tölusettar.

Um 11. gr.

    Greinin samsvarar 7. gr. kosningalaga. Lagt er til að bætt verði í upptalningu kjörstjórna vísun til sérstakra kjörstjórna í sveitarfélögum þar sem kjördeildir eru fleiri en ein, sbr. 2. mgr. 15. gr.

Um 12. gr.

    Greinin samsvarar 8. gr. kosningalaga en fellt er brott ákvæði um að beita skuli hlutfallskosningu. Um það efni gilda almenn ákvæði í lögum um þingsköp Alþingis, sbr. 68. gr. laga nr. 55/1991.

Um 13. gr.

    Greinin samsvarar í aðalatriðum 9. gr. kosningalaga. Þar eð mörk kjördæmanna í Reykjavík verða framvegis hreyfanleg milli kosninga er þó lagt til að búseta yfirkjörstjórnarmanna í viðkomandi kjördæmi falli brott sem almennt hæfisskilyrði þeirra, enda sýnist ekki sérstök ástæða til að halda í þetta skilyrði að öðru leyti. Þá er ákvæði í 5. málsl. 1. mgr. 9. gr. kosningalaga um staðgöngu fyrir forfallaðan landskjörstjórnar- eða yfirkjörstjórnarmann flutt í 14. gr. frumvarpsins.

Um 14. gr.

    Greinin kemur í stað 5. málsl. 1. mgr. 9. gr. kosningalaga. Í samræmi við brottfall skilyrðis um búsetu yfirkjörstjórnarmanna í viðkomandi kjördæmi er skylda til að skipa staðgengil þegar yfirkjörstjórnarmaður flyst úr kjördæmi einnig felld brott úr þessu ákvæði.

Um 15. gr.

    Greinin kemur í stað 10. gr. kosningalaga.
    Lagt er til að ákvæði um skipan undirkjörstjórna verði samræmd og að sveitarstjórn ráði því ein hverjir sitja í undirkjörstjórn. Af því leiðir að lögbundin seta hreppstjóra sem formanns undirkjörstjórnar fellur niður. Þá eru felld niður ákvæði um að kjörstjórnarmenn skuli kosnir úr hópi kjósenda í sveitarfélaginu og um hlutfallskosningu, en um það efni gilda almennar reglur sveitarstjórnarlaga, sbr. 2. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 45/1998.
    Kveðið er nánar en í gildandi lögum á um kjörstjórnir í sveitarfélögum þar sem eru fleiri en ein kjördeild. Er miðað við að í sveitarfélagi þar sem kjördeildir eru fleiri en ein geti sveitarstjórn kosið sérstaka kjörstjórn til að hafa umsjón með starfi undirkjörstjórna. Í sveitarfélögum þar sem kjördeildaskipting er landfræðileg, hún ræðst t.d. af fyrri hreppaskipan, kann að vera heppilegt að hafa eina kjörstjórn til að samræma störf undirkjörstjórna, auglýsa kosningu, annast skýrslugerð o.fl. Í þessum sveitarfélögum verði þó ekki skylt að kjósa slíka kjörstjórn. Hins vegar er gert ráð fyrir sérstakri kjörstjórn, hverfiskjörstjórn eða yfirkjörstjórn, þar sem kjördeildir eru fleiri en ein á sama kjörstað, er hafi með höndum stjórn undirkjörstjórna á kjörstaðnum, svo sem er í gildandi lögum. Loks er lagt til að þar sem slíkir kjörstaðir eru fleiri en einn kjósi sveitarstjórn sérstaka yfirkjörstjórn. Yfirkjörstjórn þessi gæti eftir atvikum jafnframt gegnt hlutverki hverfiskjörstjórnar. Í Reykjavík mundi slík yfirkjörstjórn þá hafa umsjón með framkvæmd kosninganna í hvoru kjördæmi og hlutverk yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmum yrði þá hliðstætt starfi yfirkjörstjórna í öðrum kjördæmum. Gert er þó ráð fyrir að með samþykki yfirkjörstjórna kjördæmanna geti borgarstjórn ákveðið að þær kjörstjórnir fari með verkefni yfirkjörstjórnar í hvoru kjördæmanna í borginni.
    Loks er lagt til að kjörstjórnir í sveitarfélögum verði ekki kosnar til eins árs í senn heldur verði þær kosnar á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar til fjögurra ára svo sem tíðkanlegt er um nefndir sveitarfélaga. Þar sem kosnar eru sérstakar kjörstjórnir skv. 2. mgr. verði þó heimilt að fresta kosningu undir- og hverfiskjörstjórna þannig að þær verði kosnar fyrir hverjar almennar alþingiskosningar og til eins árs. Er ákvæðið hliðstætt ákvæði 14. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna. Þá er einnig lagt til að sveitarstjórn megi fresta kosningu eins eða fleiri varamanna. Í Reykjavík og víðar þar sem eru margar kjördeildir í sveitarfélagi þykja ekki vera efni til að kjósa þurfi fulla tölu varamanna í allar undirkjörstjórnir.

Um 16. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er í samræmi við 11. gr. kosningalaga en tilgreiningu einstakra kjörstjórna er sleppt.
    Með 2. mgr. er lagt til að vanhæfisástæður kjörstjórnarmanna verði tilgreindar fleiri en nú er. Ekki þykir þó ástæða til að sömu vanhæfisástæður gildi um kjörstjórnarmenn og almennt er í stjórnsýslu. Er lagt til að kjörstjórnarmaður skuli víkja sæti ef mál sem er til úrskurðar varðar maka hans, þann sem er skyldur honum eða mægður í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti við ættleiðingu. Er um að ræða sömu vanhæfisástæður og greinir í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Um 17. gr.

    Greinin er í samræmi við 1. mgr. 12. gr. kosningalaga. Felld er niður tilgreining einstakra kjörstjórna en því bætt við að kjörstjórnarmaður kunni að vera skipaður, sbr. 14. gr. frumvarpsins.

Um 18. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er flutt úr 12. gr. kosningalaga. Tekið er fram að það er ekki einungis borgaraleg skylda að taka við kosningu í kjörstjórn heldur einnig að taka sæti í kjörstjórn. Sumir kjörstjórnarmenn eru skipaðir. Þannig skipar ráðherra varamenn vegna forfalla, sbr. 14. gr. frumvarpsins. Aðrir taka sæti samkvæmt kvaðningu, sbr. 15. gr.
    Ákvæði 2. mgr. er nýtt en í samræmi við framkvæmd og 50. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.

Um 19. gr.

    Greinin svarar til 35. gr. kosningalaga. Í 1. mgr. er kjörstjórnum gert að halda gerðabók og bóka þar allar gerðir sínar svo sem verið hefur. Þó er lagt til að í sveitarfélagi þar sem kosin er yfirkjörstjórn verði heimilað að víkja frá því að undirkjörstjórn skuli nota löggilta gerðabók og að nægilegt verði að undirkjörstjórnir færi skýrslu sína á þar til gerð eyðublöð sem látin eru í té. Eins og verið hefur er í 2. mgr. getið um þær athafnir sem kjörstjórnum er skylt að færa til bókar. Þá er orðið „stjórnmálasamtök“ notað í stað hugtaksins „landsframboð“, sbr. athugasemdir við 32. gr.

Um 20. gr.

    Almennt ákvæði um kjördag er nú í IX. kafla (57. gr.) kosningalaga. Lagt er til að ákvæðið flytjist framar og komi áður en fjallað er um einstök atriði við framkvæmd alþingiskosninga. Eru 1. og 3. mgr. samhljóða 57. gr.
    Í 2. mgr. er lagt til að komi nýtt ákvæði þar sem tekið er fram að dómsmálaráðuneytið skuli auglýsa hvenær almennar reglulegar alþingiskosningar eigi að fara fram, en ákvæði þess efnis er ekki í lögum. Þótt ákvæði um kjördag við almennar reglulegar alþingiskosningar hafi verið í lögum, löngum síðasti sunnudagur í júní, síðasti laugardagur í júní frá 1981, annar laugardagur í maí frá 1987 og nú, frá 1995, miðað við lok fjögurra ára kjörtímabils, sami vikudagur í mánuði talið frá mánaðamótum, hefur kjördagur oftar en ekki verið ákveðinn í tengslum við þingrof, sbr. auglýsingar nr. 7/1995 og nr. 64/1999, um þingrof og almennar kosningar til Alþingis, með lagaákvæði í tengslum við breytingar á kjördæmaskipan og reglum um skiptingu þingsæta eða með sérstöku lagaákvæði svo sem var 1971, sbr. lög nr. 22/1971. Alþingiskosningar 1978 voru haldnar á reglulegum kjördegi í lok kjörtímabils og var kjördagurinn þá auglýstur sérstaklega með auglýsingu dómsmálaráðuneytisins. Áhrif auglýsingar eru m.a. þau að þegar kjördagur hefur verið auglýstur getur kosning utan kjörfundar hafist, sbr. 57. gr. frumvarpsins.

Um 21. gr.

    Ákvæði þetta svarar til upphafs 122. gr. kosningalaga en hefur að öðru leyti verið fært til samræmis við breytt þingrofsákvæði 24. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 56/1991. Niðurlagsákvæði 122. gr. telst vera óþarft og er fellt brott.

Um 22. gr.

    Greinin er í samræmi við 14. gr. kosningalaga.

Um 23. gr.

    Fyrri málsgrein greinarinnar er í megindráttum samhljóða 1. mgr. 15. gr. kosningalaga en ákvæðin, sem þar eru í 2. mgr., eru flutt í 2. gr. frumvarpsins, sbr. athugasemdir við þá grein.
    Með breytingum á 15. gr. kosningalaganna 1991 og 1995 var ákveðið að á kjörskrá skuli færa þá sem skráðir voru með lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag. Í athugasemdum kom fram að kjörskráin skyldi því verða eins og íbúaskrá þjóðskrár er hverju sinni þremur vikum fyrir kjördag. Þeir sem flytjast milli kjördæma eða kjördeilda eftir áðurgreindan tíma skulu þá teknir á kjörskrá þar sem þeir voru þá skráðir með lögheimili. Í athugasemdunum kom einnig fram að kjósandi geti ekki kært sig á kjörskrá vegna flutnings eftir þennan tíma né heldur ef flutningur hafði ekki verið tilkynntur fyrir þann tíma. Eldri ákvæði höfðu leitt til þess að fólk sem ekki hafði tilkynnt breytingu á lögheimili fyrir 1. desember átti rétt á að vera tekið á kjörskrá á nýja staðnum þar sem það átti lögheimili. Það kerfi fól í sér mikla vinnu hjá sveitarstjórnum og óvissu við frágang kjörskrár. Þessu var ætlunin að breyta þannig að breytingar á kjörskrárstofni Hagstofunnar yrðu tiltölulega fáar.
    Með því að rétt þykir að sömu upplýsingar liggi til grundvallar kjörskrárgerð og afmörkun kjördæmanna í Reykjavík er hér lagt til að svigrúm til að undirbúa kjörskrár og leggja þær fram verði aukið nokkuð og kjörskrá miðuð við íbúaskrá þjóðskrár fimm vikum fyrir kjördag. Þetta tímamark kann síðar að mega stytta aftur þegar reynsla er fengin af hinu nýja kerfi í framkvæmd. Ákvæði a-liðar er óbreytt frá núgildandi 1. tölul. 1. mgr. 15. gr. að öðru leyti. Þykir ekki ástæða til að breyta ákvæðinu. Ákvörðun um í hvaða sveitarfélagi kjósandi skal vera á kjörskrá ræðst af því sem skráð hefur verið í íbúaskrá þjóðskrárinnar. Skilyrði þessa eru þá annars vegar að efnislegar forsendur lögheimilisskráningar séu fyrir hendi fimm vikum fyrir kjördag og hins vegar að tilkynning um nýtt lögheimili hafi verið send og hún borist þjóðskránni fyrir sama tíma. Þessi regla kemur einnig fram á ótvíræðari hátt en áður í 3. mgr. 27. gr. frumvarpsins (sbr. nú 3. málsl. 1. mgr. 21. gr. laganna).
    Samkvæmt b-lið fyrri málsgreinar þessarar greinar eru kjósendur búsettir í útlöndum færðir á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir áttu síðast lögheimili. Með því að Reykjavík er skv. 6. og 7. gr. frumvarpsins skipt í tvö því sem næst jafnstór kjördæmi með tilliti til fjölda kjósenda ber nauðsyn til að skipta þessum hópi, svo og öðrum óstaðsettum í Reykjavík, milli kjördæmanna. Hér er lagt til að þessi skipting verði byggð á fæðingardegi þessara kjósenda þannig að þeir sem fæddir eru í fyrri hluta mánaðar lendi allir í öðru kjördæminu, en þeir sem fæddir eru í seinni hluta mánaðar í hinu. Skipting samkvæmt þessari viðmiðun ætti m.a. að tryggja tiltölulega jafna aldursdreifingu innan hvors hóps um sig.

Um 24. gr.

    Greinin er í samræmi við 16. gr. kosningalaga. Hagstofan hefur um langt árabil haft umsjón með frágangi kjörskrárstofna til sveitarstjórna og er lagt til að sú skipan verði lögfest þannig að ekki þurfi atbeina dómsmálaráðuneytisins.

Um 25. gr.

    Greinin samsvarar 20. gr. kosningalaga. Þar segir að almenna auglýsingu um framlagningu kjörskráa skuli birta í útvarpi og dagblöðum. Er lagt til að tekið verði fram að með auglýsingu í útvarpi sé átt við auglýsingu í Ríkisútvarpi (hljóðvarpi og sjónvarpi).

Um 26. gr.

    Greinin samsvarar 19. gr. kosningalaga. Lagt er til að alfarið verði á valdi sveitarstjórnar og án tillits til eðlis sveitarfélags eða stærðar hvar og á hve mörgum stöðum í sveitarfélagi kjörskrá er lögð fram.
    Ákvæði, sem samsvarar 23. gr. kosningalaga, er ekki tekið í frumvarpið. Frestir til að leggja fram kjörskrá hafa verið styttir frá því sem var og hefur ákvæðið því misst gildi sitt.

Um 27. gr.

    Greinin samsvarar 21. gr. kosningalaga.
    Með 23. gr. frumvarpsins er byggt á því að kjörskrá skuli miðuð við skráð lögheimili í sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár fimm vikum fyrir kjördag. Fullnægjandi gögn til skráningar á lögheimili þurfa þá að hafa borist þjóðskránni (Hagstofu Íslands) fyrir þennan tíma. Tilkynning, sem berst þjóðskránni síðar, er því of seint fram komin, jafnvel þótt hún kunni að hafa borist sveitarstjórn innan þessa tíma en hún ekki framsent þjóðskrá hana, og kemur hún því ekki til álita við kjörskrárgerð. Nauðsynlegt þykir að ákvæði um þetta séu gerð skýrari en nú, en nokkur álitaefni hafa komið upp við gerð kjörskráa í undanfarandi kosningum. Þessi sjónarmið eru því undirstrikuð enn frekar en áður í 3. mgr. Segir þar að skilyrði þess að kjörskrá verði breytt vegna nýs lögheimilis sé að flutningur hafi átt sér stað í síðasta lagi fimm vikum fyrir kjördag og að tilkynning um nýtt lögheimili þurfi að hafa borist Hagstofu Íslands (þjóðskrá) fyrir sama tíma. Er með því lögð áhersla á að lögheimilisflutningur þarf ekki einungis að hafa átt sér stað heldur þarf tilkynning einnig að hafa borist þjóðskránni sjálfri en ekki einhverjum þeim sem tekur við tilkynningum á hennar vegum, allt innan þeirra tímamarka sem greind eru.
    Með breytingu á 21. gr. kosningalaganna 1995 var reglum um meðferð breytinga á framlagðri kjörskrá breytt og meðferðin gerð einfaldari. Breytingin var gerð vegna þess að talið var að tilvikum, sem geta orðið tilefni athugasemda við kjörskrá, hefði fækkað þar sem kjörskrá væri samin miðað við skráð lögheimili í sveitarfélagi eins og það er samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár tiltekinn dag fyrir kjördag eða í samræmi við umsóknir sem borist hefðu Hagstofu Íslands á grundvelli 2. mgr. 15. gr. laganna. Álitaefni vegna lögheimilis hefðu því nánast horfið og tilefni athugasemda við kjörskrá væru því nánast eingöngu vegna nýrra ríkisborgara sem fá ríkisborgararétt stuttu fyrir kosningar.
    Gert er ráð fyrir að reglur um meðferð breytinga á framlagðri kjörskrá verði í meginatriðum óbreyttar og að leiðréttingar megi gera fram á kjördag. Verður að treysta því að sveitarstjórnir virði þær reglur sem settar eru um skil sveitarfélaga á því hvar kjósandi skuli vera á kjörskrá. Á því var byggt 1995 að eiginleg álitaefni við kjörskrárgerð yrðu nánast eingöngu þau að mistök hefðu orðið við samningu kjörskrár þannig að nafn vantaði eða hefði fallið niður fyrir vangá. Önnur tilefni vörðuðu einkum andlát og öflun eða missi íslensks ríkisfangs. Tilefni dómsmála hyrfu þannig og var sérstök meðferð kjörskrármála fyrir dómi því felld niður. Hins vegar var litið svo á að að því leyti sem tilefni yrði til dómsmáls mundu almenn ákvæði laga um meðferð einkamála eiga við og að innan þeirra ákvæða ætti vegna eðlis kjörskrármála að vera unnt að tryggja hraða málsmeðferð. Á það skal bent að röng skráning lögheimilis getur fallið undir kosningaspjöll skv. d-lið 117. gr. og verið refsiverð skv. h-lið 125. gr.
    Í 2. mgr. er þó nýmæli er varðar meðferð sveitarstjórnar á athugasemdum við kjörskrá. Í athugasemdum við breytingu á 21. gr. kosningalaganna 1995 kom fram að ekki væri ástæða til að setja sérstök ákvæði um það efni í kosningalögin. Um það efni gildi almenn ákvæði stjórnsýslulaga. Meðferð á leiðréttingum þurfi af eðlilegum ástæðum að hraða og gæta verði þess að gefa aðila er mál varðar færi á að koma að athugasemdum. Nú þykir rétt að kveða sérstaklega á um nokkur atriði varðandi málsmeðferðina. Er lagt til að þegar athugasemd er gerð um að nafn skuli tekið af kjörskrá skuli það þegar tilkynnt hlutaðeigandi. Einnig er lagt til að þegar athugasemd er gerð um að taka skuli á kjörskrá einhvern sem ætla má að sé á kjörskrá í öðru sveitarfélagi skuli það þegar tilkynnt hlutaðeigandi sveitarstjórn. Frestur verði þá veittur til að koma að athugasemdum eftir því sem tími og atvik leyfa. Ef ágreiningur verður um mál skal úrskurður ritaður með fáum orðum í gerðabók sveitarstjórnar. Í 28. gr. eru svo ákvæði um að tilkynna skuli leiðréttingar sem sveitarstjórn ákveður. Að öðru leyti fer um mál þessi samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Um 28. gr.

    Greinin er samhljóða 22. gr. kosningalaga.

Um 29. gr.

    Greinin er samhljóða 17. gr. kosningalaga.

Um 30. gr.

    Greinin er í samræmi við 26. gr. kosningalaga. Nauðsynlegt er að nöfn frambjóðenda komi skýrt fram, sem og önnur deili á þeim. Um nafnskráningu almennt vísast til ákvæða í 19. gr. laga um mannanöfn, nr. 45/1996, en þar segir að á „öllum opinberum skrám og öðrum opinberum gögnum skulu nöfn manna rituð eins og þau eru skráð í þjóðskrá á hverjum tíma“.

Um 31. gr.

    Ákvæði þessarar greinar á sér hliðstæðu í fyrri málslið 30. gr. kosningalaga. Hér er þó gerð krafa um að nöfn frambjóðenda á lista séu ávallt tvöfalt fleiri en nemur þingsætum í viðkomandi kjördæmi, hvorki fleiri né færri, enda nauðsynlegt til að nægur fjöldi varamanna sé til reiðu.
    Ákvæði síðari málsliðar 30. gr. kosningalaga er flutt í 34. gr. frumvarpsins.

Um 32. gr.

    Greinin er í samræmi við 27. gr. kosningalaga. Lagt er til að í 1. mgr. bætist ákvæði um hvernig meðmælandi skuli tilgreina sig. Meðmælendur úr Reykjavík þurfa vitaskuld að vera úr réttu kjördæmi eins og annars staðar.
    Ákvæðum um fjölda meðmælenda er breytt og mörkin hækkuð nokkuð. Lætur nærri samkvæmt frumvarpinu að lágmarksfjöldi meðmælenda sé 1% af kjósendum en óheppilegt þykir, vegna breytinga sem geta orðið á kjörskrá, að miða við hana. Með þessari breytingu er enn frekar stuðlað að því að að baki hverju framboði sé full alvara og að það eigi sér einhvern raunverulegan hljómgrunn meðal kjósenda.
    Þá er lagt til að í stað hugtaksins „landsframboð“, sem nú er notað um framboð á vegum stjórnmálasamtaka sem saman eiga, verði notað orðið „stjórnmálasamtök“. Þessi breyting varðar allmargar greinar kosningalaganna.

Um 33. gr.

    1. mgr. er samhljóða 28. gr. kosningalaga.
    2. mgr. er nýmæli. Er þar kveðið á um að sama kjósanda sé einvörðungu heimilt að mæla með einum framboðslista við hverjar alþingiskosningar. Vafi hefur þótt leika á hvort þetta sé heimilt og er lagt til að tekið skuli af skarið um að það skuli óheimilt.

Um 34. gr.

    Í grein þessa er safnað saman ákvæðum um það hvað gera skuli þegar framboð er ekki í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.
    1. mgr. er samhljóða 2. málsl. 30. gr. kosningalaga og 2. mgr. er samhljóða 29. gr. laganna.
    3. mgr. er nýmæli. Ákvæðið tekur til þess að sami kjósandi mælir með fleiri en einu framboði sem ekki er heimilt skv. 2. mgr. 33. gr. frumvarpsins. Verður kjósandinn þá ekki talinn meðmælandi neins framboðanna.

Um 35. gr.

    Ákvæði greinarinnar er nýmæli. Rétt þykir að kveða á um það hvenær frambjóðandi annars vegar og meðmælandi hins vegar geti í síðasta lagi afturkallað samþykki sitt svo að áhrif hafi á framboð.

Um 36. gr.

    Greinin er samhljóða 31. gr. kosningalaga.

Um 37. gr.

    Greinin er samhljóða 32. gr. kosningalaga.

Um 38. gr.

    Greinin samsvarar 40. gr. kosningalaga en lagðar eru til nokkrar breytingar.
    Lagt er til að fjöldi kjósenda sem undirrita þarf tilkynningu um nýjan listabókstaf stjórnmálasamtaka verði hækkaður úr 50 í 300 og er það sami fjöldi og minnst þarf til að mæla með framboðslista í kjördæmi, sbr. 32. gr. Áskilinn fjöldi meðmælenda með hverjum framboðslista var hækkaður 1991 en ákvæðið um listabókstafina kom í kosningalögin 1987 en þá var áskilinn meðmælendafjöldi í kjördæmi minnst 50. Bætt er við nánara ákvæði um efni tilkynningar um ný stjórnmálasamtök, ákvæði um að heiti nýrra samtaka megi ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem þegar eru á skrá, svo og ákvæði þess efnis að samtökum sem eru á skrá skuli tilkynnt um ný samtök og um ósk þeirra um listabókstaf. Loks er nýtt ákvæði sem varðar breytingu á heiti stjórnmálasamtaka sem eru á skrá.

Um 39. gr.

    Greinin er samhljóða 33. gr. kosningalaga.

Um 40. gr.

    Greinin er samhljóða 34. gr. kosningalaga að því undanskildu að í stað hugtaksins „landsframboð“ er vísað til „stjórnmálasamtaka“, sbr. athugasemdir við 32. gr.

Um 41. gr.

    Greinin er í samræmi við 38. gr. kosningalaga. Samkvæmt henni skal umboðsmönnum framboðslista gefinn kostur á að bæta úr göllum á fram komnum listum, svo sem ef þau atvik koma upp sem greinir í 34. og 35. gr. frumvarpsins. Lagt er þó til að yfirkjörstjórn skuli koma saman til fundar þegar næsta dag eftir að framboðsfrestur er liðinn til að fjalla um framboðslista. Nauðsynlegt er að hraða sem mest afgreiðslu yfirkjörstjórnar á framboðum. Nú segir að yfirkjörstjórn skuli koma til fundar á næsta virkum degi. Miðað við að kjördagur sé á laugardegi rennur framboðsfrestur út á föstudegi. Fundardagur er þá laugardagur sem telst virkur dagur. Breytingin er einkum lögð til svo að forðast megi misskilning.

Um 42. gr.

    Greinin er samhljóða 39. gr. kosningalaga.

Um 43. gr.

    Greinin er samhljóða 41. gr. kosningalaga nema að því leyti að vísað er til lista stjórnmálasamtaka í stað landsframboða.

Um 44. gr.

    Greinin samsvarar 42. gr. kosningalaga. Tekið er upp hugtakið „stjórnmálasamtök“ í stað „landsframboðs“. Þá er kveðið á um að auglýsing landskjörstjórnar á listabókstöfum, sem birta á í útvarpi, skuli birt í Ríkisútvarpinu (hljóðvarpi og sjónvarpi). Nýtt ákvæði er að landskjörstjórn skuli senda dómsmálaráðuneytinu framboðslista en skv. 50. gr. sér ráðuneytið um gerð kjörseðla.

Um 45. gr.

    Greinin samsvarar 43. gr. kosningalaga en hefur verið breytt til samræmis við 44. gr. Ákvæði um að dómsmálaráðuneytið skuli tilkynna breytinguna öllum yfirkjörstjórnum og öllum kjörstjórum utan kjörfundar er talið óþarft og fellt niður.

Um 46. gr.

    Greinin er samhljóða 44. gr. kosningalaga, en bætt er við ákvæði um sérstakar leiðbeiningar um tilhögun atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og um afgreiðslu kjörgagna til hreppstjóra og skipstjóra sem annast atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, sbr. 60. gr., og til kjörstjóra erlendis.

Um 47. gr.

    Greinin er samhljóða 45. gr. kosningalaga en bætt er við ákvæði um stimpla með listabókstöfum sem gert er ráð fyrir í 62. gr. og notaðir hafa verið um árabil. Nú er hvergi í lögum kveðið á um útvegun stimplanna. Dómsmálaráðuneytið hefur lagt embættum sýslumanna og sendiráðum til stimpla en stimplar hafa ekki verið til afnota hjá öðrum kjörstjórum. Er ekki gert ráð fyrir breytingu á því.

Um 48. gr.

    Greinin er í samræmi við 47. gr. kosningalaga. Ákvæði 2. mgr. þeirrar greinar um sérprentun kosningalaga er þó fellt brott. Þess í stað kemur ákvæði í 1. mgr. 46. gr. um kosningaleiðbeiningar sem eiga að vera hjá þeim sem annast atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.

Um 49. gr.

    1. mgr. samsvarar 48. gr. kosningalaga en ákvæðið, sem varðar skipstjóra sem annast atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, er orðað á annan hátt án efnislegra breytinga. Niðurlag núverandi ákvæðis um að ekki megi aðrir greiða atkvæði en lögskráðir skipverjar er fellt brott. Ákvæði þessa efnis er í 60. gr. frumvarpsins og drengskaparheit um að kosning fari fram samkvæmt fyrirmælum laganna nær þá til þessa.
    Með 2. mgr. er lagt til að sömu ákvæði og um skipstjóra gildi um kjörstjóra sem tilnefndur verður til að annast atkvæðagreiðslu utan kjörfundar erlendis, sbr. 2. mgr. 59. gr. Aðrir kjörstjórar eru opinberir trúnaðarmenn og er þá ekki þörf á að þeir undirriti sérstakt drengskaparheit.

Um 50. gr.

    Greinin kemur í stað 49. og 50. gr. og 1. málsl. 52. gr. kosningalaga. Tekið er fram að dómsmálaráðuneytið annist gerð kjörseðla og er það í samræmi við það sem verið hefur um langt skeið. Þá er lagt til að tekið verði fram um gerð kjörseðla að þeir skuli ekki einungis vera úr haldgóðum pappír sem skrift sést ekki í gegnum heldur komi og fram hver skuli vera lágmarksþyngd pappírsins.

Um 51. gr.

    Greinin kemur í stað 2. málsl. 52. gr. kosningalaga.

Um 52. gr.

    Greinin samsvarar 51. og 53. gr. kosningalaga.

Um 53. gr.

    Greinin er samhljóða 54. gr. kosningalaga.

Um 54. gr.

    Greinin samsvarar 55. gr. kosningalaga. Lagt er til að ákvæði um að kjörseðlar skuli fullgerðir eigi síðar en sjö dögum fyrir kjördag verði breytt þannig að nægilegt sé að það skuli að jafnaði gert fyrir þann tíma. Ástæðulaust er að ætlast til að prentun kjörseðla fyrir kjördæmi á höfuðborgarsvæðinu skuli lokið svo snemma. Þá er lagt til að orðalag greinarinnar um sendingu kjörseðla frá yfirkjörstjórn til undirkjörstjórna verði einfaldað. Jafnframt er tekið fram að nægilegt sé að yfirkjörstjórn kjördæmis sendi sérstökum kjörstjórnum í sveitarfélögum þar sem eru fleiri en ein kjördeild, sbr. 2. mgr. 15. gr., kjörseðla óflokkaða fyrir kjördeildir og að þær kjörstjórnir annist þá afhendingu kjörseðlanna til undirkjörstjórna.

Um 55. gr.

    Greinin samsvarar 56. gr. kosningalaga en bætt er inn ákvæðum um þau gögn sem ætlast er til að dómsmálaráðuneytið og yfirkjörstjórnir láti undirkjörstjórnum í té. Í stað skýrslu um þingmannaefni sem nú er getið í niðurlagi 2. mgr. 56. gr. laganna kemur tilkynning um framboðslista, sbr. 1. mgr., sem festa skal upp á kjörstað, sbr. 77. gr.

Um 56. gr.

    Greinin samsvarar 62. gr. kosningalaga. Ákvæðið er einfaldað þar sem ekki er lengur ætlast til að kjósandi þurfi að gera grein fyrir af hverju hann vill greiða atkvæði utan kjörfundar.

Um 57. gr.

    Greinin er samhljóða 64. gr. kosningalaga.

Um 58. gr.

    Grein þessi fjallar um hvar atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram innan lands og kemur í stað ákvæða sem nú eru í 13. og 63. gr. kosningalaga. Ákvæðin eru í meginatriðum í samræmi við gildandi reglur en lagðar eru til nokkrar breytingar til að auðvelda framkvæmd atkvæðagreiðslunnar.
    Í fyrsta lagi er lagt til að fram komi að atkvæðagreiðsla á vegum sýslumanna fari fram í aðalskrifstofu sýslumanns eða í útibúi frá sýslumannsembætti. Útibú eru tilgreind í reglugerð um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna. Jafnframt er tekið fram að sýslumaður geti ákveðið að atkvæðagreiðsla á aðsetri embættisins fari fram á sérstökum kjörstað utan aðalskrifstofu. Er það staðfesting á því fyrirkomulagi sem m.a. hefur verið tíðkað í Reykjavík. Til viðbótar er sýslumanni síðan heimilað að ákveða að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum í umdæmi hans, auk atkvæðagreiðslu hjá hreppstjórum, svo sem verið hefur. Ákvæði um atkvæðagreiðslu hjá hreppstjórum eru óbreytt, en til að koma til móts við breytingar sem orðið hafa við fækkun hreppstjóra, m.a. vegna stækkunar sveitarfélaga, þar sem vegalengdir til kjörstjóra lengjast, er lagt til að sýslumaður geti brugðist við og ákveðið sérstakan kjörstað í umdæmi sínu, allt eftir aðstæðum á hverjum stað. Að því er varðar hverjir annist atkvæðagreiðslu á vegum sýslumanns er loks lagt til að sýslumaður þurfi ekki að fá sérstakt samþykki dómsmálaráðuneytisins til að fela öðrum en starfsmönnum sínum það verkefni. Eftir sem áður getur sýslumaður þurft að leita til ráðuneytisins um fjárveitingar til þessa verkefnis.
    Orðalagi 2. og 3. mgr. er breytt þannig að ljóst sé að þeir kjósendur, sem undir ákvæðin falla, eigi rétt á að greiða atkvæði á hlutaðeigandi stofnun eða í heimahúsi og að kjörstjóra beri þá að hlutast til um að kosningin fari fram. Um framkvæmdina gilda svo nánari reglur settar skv. 5. mgr. Í 3. mgr. eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum um rétt til að greiða atkvæði í heimahúsi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar. Er lagt til að slakað verði á kröfu um vottun á högum kjósanda sem vill fá að greiða atkvæði á þennan hátt. Í stað læknisvottorðs komi vottorð lögráða manns um hagi kjósandans. Þá er tekið fram að kosning í heimahúsi eigi ekki við ef kjósandi á kost á að greiða atkvæði á stofnun skv. 2. mgr. Loks er lagt til að ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skuli hafa borist kjörstjóra eigi síðar en kl. 16 fjórum dögum fyrir kjördag í stað hádegis þann dag þegar ein vika er til kjördags. Rétt þykir að rýmka þessa reglu frá því sem verið hefur þannig að kjósandi geti lagt fram ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi nær kjördegi ef atvik koma upp sem gera honum ókleift að fara á kjörstað. Er þá miðað við að umsókn hafi borist kjörstjóra kl. 16 á þriðjudegi, miðað við kjördag á laugardegi. Hafa verður í huga að ef ósk er síðbúin kunna aðstæður að reynast þær að annmörkum sé háð að komast til kjósanda á þeim tíma sem eftir er fram til kjördags.
    Með 4. mgr. er lagt til að kjörstjóri skuli ekki einungis auglýsa hvenær atkvæðagreiðsla utan kjörfundar getur farið fram heldur skuli hann einnig auglýsa hvar hún fer fram. Þá er tekið fram að framkvæmd og afgreiðslutíma skuli haga þannig að kosning geti gengið sem greiðast fyrir sig. Er áhersla lögð á nauðsyn þess að reglur um hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram verði samræmdar og að þær verði vel kynntar, og að í því sambandi sé jafnan tekið tillit til aðstæðna á hverjum stað eftir því sem unnt er. Þá er nýmæli að tekið er fram að atkvæðagreiðsla á sjúkrahúsi skuli fara fram sem næst kjördegi.
    Ákvæði 5. mgr. er óbreytt. Gildandi leiðbeiningar um utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra o.fl., nr. 120 20. mars 1991, þarf að endurskoða vegna breyttra ákvæða í 2.–4. mgr. Atkvæðagreiðslu á stofnunum skv. 2. mgr. skal skipuleggja í samráði við stjórn hlutaðeigandi stofnunar, sbr. 4. mgr., og í leiðbeiningum segir að ákvörðun skuli taka eigi síðar en viku fyrir kjördag. Aðstæður á hverri stofnun ráða hve mikinn tíma þarf að ætla þar til atkvæðagreiðslu, hve nærri kjördegi atkvæðagreiðslan eigi að fara fram og þá einnig hvort ástæða geti verið til að atkvæðagreiðsla fari fram oftar en einu sinni. Í 4. mgr. er nú sérstaklega tekið fram að atkvæðagreiðsla á sjúkrahúsi skuli fara fram sem næst kjördegi og skv. 5. mgr. skal umboðsmönnum lista tilkynnt hvenær atkvæðagreiðsla fer fram á stofnun.

Um 59. gr.

    Í grein þessari eru sameinuð ákvæði um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar erlendis sem nú eru í 13. og 63. gr. kosningalaga. Lagt er til að auk þess sem atkvæðagreiðsla erlendis fer fram í skrifstofu sendiráðs eða fastanefndar, í sendiræðisskrifstofu eða í skrifstofu kjörræðismanns, svo sem verið hefur, verði utanríkisráðuneytinu heimilað að ákveða að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum. Stöðum þar sem íslenskir ríkisborgarar dveljast erlendis hefur fjölgað og hafa verið annmarkar á að koma við atkvæðagreiðslu á slíkum stöðum. Þegar aðstaða hefur verið fyrir hendi hefur utanríkisráðuneytið reynt að koma til móts við þarfir slíkra hópa og hafa sendierindrekar í nokkrum tilvikum verið sendir á þessa staði. Rétt þykir að lögfesta þá skipan, en jafnframt er lagt til að utanríkisráðuneytið geti tilnefnt í þessu skyni sérstaka kjörstjóra sem ekki eru sendierindrekar. Slíkir kjörstjórar yrðu væntanlega fyrst og fremst íslenskir ríkisborgarar sem búsettir eru eða dveljast erlendis. Þeir mundu þá fá send kjörgögn sem þeir taka við gegn drengskaparyfirlýsingu um að kosning fari fram samkvæmt fyrirmælum kosningalaga, sbr. 49. gr. Gert er ráð fyrir að samráð verði haft milli utanríkisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis um hvar slíkir kjörstjórar verða, svo og við aðra sem þekkja til dvalar Íslendinga erlendis, svo sem Lánasjóð íslenskra námsmanna. Tillögur þessar miða við að áfram verði trúnaðarsamband milli íslenskra stjórnvalda og kjörstjóra erlendis, enda er framkvæmd kosninga á ábyrgð stjórnvalda. Meðal annars ber að tryggja að kosning sé leynileg og að rétt sé að öllu leyti að henni staðið. Misferli við framkvæmd getur varðað kjörstjóra refsiábyrgð skv. 124. gr. og er því brýnt að innlend yfirvöld hafi eftir því sem unnt er lögsögu yfir hlutaðeigandi.
    Samkvæmt niðurlagi 4. mgr. 63. gr. kosningalaga er nú einungis gert ráð fyrir að utanríkisráðuneytið auglýsi hvenær atkvæðagreiðsla utan kjörfundar getur farið fram hjá kjörræðismönnum sem eru kjörstjórar. Í framkvæmd hefur ráðuneytið auglýst hvar og hvenær öll atkvæðagreiðsla fer fram erlendis og er lagt til að orða ákvæðið þannig í 3. mgr.

Um 60. gr.

    Ákvæði um kosningu um borð í skipum eru nú í 13. og 63. gr. kosningalaga, auk ákvæða í 47. og 48. gr. og 4. mgr. 66. gr. Ákvæði þessi eru dregin saman í eina grein í frumvarpinu.
    Lagt er til að auk skráðra skipverja (áhafnar) á skipi í siglingum erlendis eða á fjarlægum miðum megi farþegar um borð í skipinu einnig greiða þar atkvæði. Eðlilegt þykir að miða við áhöfn skips en binda réttinn ekki við lögskráða skipverja til að hafið verði yfir vafa að ekki sé eingöngu átt við hefðbundna áhöfn skips heldur nái rétturinn einnig til annarra sem starfa um borð í skipi í förum, svo sem vísindamenn við rannsóknir, lækna og ýmsa aðra starfshópa með skipi, jafnvel þótt þeir séu ekki lögskráðir. Þá er lagt til að farþegar með skipi megi einnig greiða þar atkvæði. Til farþega mundu og teljast maki og annað náið skyldmenni sem fylgir skipverja, auk venjulegra farþega samkvæmt skilgreiningu siglingalaga, sbr. 120. gr. laga nr. 34/1985.
    Í 2. mgr. er tekið fram að skipstjóri geti tilnefnt annan til að vera kjörstjóri. Kemur það ákvæði þá í stað ákvæða um varamann og staðgengil sem nú eru í 2. mgr. 13. gr. og 4. mgr. 66. gr. laganna.

Um 61. gr.

    Ákvæði greinarinnar samsvarar 1. og 4. málsl. 2. mgr. 13. gr. kosningalaga. Ákvæði í þeirri málsgrein um varamenn er óþarft, enda er í 58.–60. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að aðrir séu að jafnaði til staðar til að gegna starfi kjörstjóra. Að því leyti sem svo er ekki mundu gilda almennar reglur um skipun varamanna, svo sem að sýslumaður skipar varamann fyrir hreppstjóra, sbr. 5. gr. laga um hreppstjóra, nr. 62/1965.

Um 62. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er flutt úr upphafi 63. gr. kosningalaga.
    2. mgr. er í samræmi við 65. gr. laganna.

Um 63. gr.

    Greinin samsvarar 66. gr. kosningalaga.
    Í 1. mgr. er lagt til að skýrar verði kveðið á um hvernig kjósandi skuli gera grein fyrir sér áður en hann fær að greiða atkvæði. Kjósandi þarf að sjálfsögðu að greina frá nafni, heimili og fæðingardegi, en hann skal auk þess framvísa viðhlítandi skilríkjum um hver hann er. Auk nafnskírteinis sem hjálpargagns, svo sem nú er tilgreint, er lagt til að tilgreind verði kennivottorð, þ.e. persónuskilríki með mynd og eftir atvikum undirskrift handhafa. Slík skilríki, oft opinber skjöl, eru nú algengari en áður, svo sem vegabréf, ökuskírteini, bankakort, greiðslukort o.fl. Kennivottorð og nafnskírteini eru einungis nefnd sem dæmi. Auk þess er tilgreint að kjósandi geti gert grein fyrir sér á annan fullnægjandi hátt og þá að mati kjörstjóra. Gera verður ráð fyrir að ríkari kröfur um skilríki verði gerðar við atkvæðagreiðslu erlendis en innan lands.
    Í 2. mgr. hafa orðin „í einrúmi“ verið felld niður þar sem nú segir að kjósandi skuli greiða atkvæði „aðstoðarlaust, í einrúmi og án þess að nokkur maður sjái“. Verði þannig fullnægjandi að atkvæði sé greitt „aðstoðarlaust og án þess að nokkur annar sjái“ hvernig það er greitt. Ekki er alls staðar fyrir hendi aðstaða sem fallið getur undir það að vera „í einrúmi“. Aðstoð sem veitt er skv. 3. mgr. skal hins vegar fara fram í einrúmi.
    Þá er lagt til að ákvæði sem nú er í 3.–5. málsl. 2. mgr. flytjist í sérstaka málsgrein, 4. mgr. Er þar breytt orðalagi þannig að kjósandi þurfi ekki sjálfur að leggja kjörseðilsumslagið og fylgibréfið í sendiumslagið og loka því. Ekki hefur verið áskilið að kjósandinn áriti sendiumslagið sjálfur og er það óbreytt. Loks er breytt orðalagi þar sem nú er vísað til hrepps, kaupstaðar eða kjördeildar og kemur þess í stað tilvísun til umdæmis þar sem kjósandinn telur sig standa á kjörskrá.

Um 64. gr.

    Greinin er samhljóða 69. gr. kosningalaga.

Um 65. gr.

    Ákvæði 1. mgr. samsvarar 2. mgr. 71. gr. kosningalaga. Tekið er fram að atkvæðakassinn skuli innsiglaður af hlutaðeigandi kjörstjórn en ekki undirkjörstjórn. Þar sem kosin er yfirkjörstjórn skv. 2. mgr. 15. gr. mundi hún annast innsiglun. Ákvæðið um innsiglun kassanna er úr niðurlagi 1. mgr. 71. gr.
    Ákvæði 2. mgr. samsvarar 70. gr. laganna.
    Ákvæði 3. mgr. er flutt úr 5. mgr. 71. gr. laganna en niðurlag þeirrar málsgreinar kemur í frumvarpinu fram í 4. mgr. 90. gr.

Um 66. gr.

    Grein þessi kemur í stað ákvæða sem nú eru í 1. og 3. mgr. 71. gr., 2. málsl. 1. mgr. 66. gr. og 67. gr. kosningalaga. Ákvæði um skáningu utankjörfundaratkvæða eru færð á einn stað, bæði þeirra atkvæðisbréfa sem greidd eru hjá kjörstjóra og bréfa hinna sem greidd hafa verið hjá öðrum kjörstjórum og kjörstjóri móttekur.

Um 67. gr.

    Greinin er samhljóða 72. gr. kosningalaga.

Um 68. gr.

    Greinin samsvarar 58. gr. kosningalaga. Lagt er til að sveitarstjórn ákveði kjörstað fyrir hverja kjördeild svo sem verið hefur. Ákvæðið er hins vegar einfaldað, og felld eru brott ákvæði um að þingstaður skuli að jafnaði vera kjörstaður og að samþykki yfirkjörstjórnar þurfi til að hafa kjörstað utan hreppsfélags. Eftir sem áður verður þetta á valdi sveitarstjórnar. Þá er tekið fram að á sama kjörstað megi vera fleiri en ein kjördeild.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að kjörstað skuli auglýsa með nægum fyrirvara. Þá auglýsingu mundi mega sameina auglýsingu um upphaf kjörfundar, sbr. 2. mgr. 70. gr.

Um 69. gr.

    Greinin kemur í stað ákvæða sem eru í 59. og 60. gr. kosningalaga. Lýsing á því hvernig kjörklefi skal búinn er einfölduð. Nauðsynlegt er að hafa í huga að aðstaða á kjörstað þarf að vera þannig að kjósandi í hjólastól geti kosið, svo og að aðstoð megi veita þar, sbr. 86. gr. Ákvæði 2. og 3. mgr. um atkvæðakassa koma í stað 60. gr. laganna, nokkuð einfölduð.

Um 70. gr.

    Greinin samsvarar 73. gr. kosningalaga. Lagt er til að ákvæði um upphaf kjörfundar greini ekki á milli þess hvort sveitarfélag telst hreppur eða kaupstaður. Er lagt til að meginreglan verði að kjörfundur hefjist kl. 9 að morgni en ákveða megi að hann skuli hefjast síðar, þó ekki síðar en kl. 12, og er það í samræmi við 47. gr. laga um sveitarstjórnarkosningar.
    Þá er lagt til að upphaf kjörfundar skuli alltaf auglýsa, enda verður að gera ráð fyrir að kjörfundur sé auglýstur á hverjum stað. Þessa auglýsingu má sameina auglýsingu skv. 2. mgr. 68. gr.

Um 71. gr.

    Greinin svarar til 74. gr. og 1. mgr. 75. gr. kosningalaga. Ákvæði um að í kjörfundarstofu skuli ekki vera fleiri kjósendur en einn á kjörklefa er fellt brott en í staðinn kemur ákvæði í 78. gr. um reglu á kjörstað og í kjörfundarstofu. Við ákvæðið um að kjörstjórnarmaður feli öðrum úr kjörstjórninni starf sitt ef hann víkur frá er bætt: nema varamaður sé tiltækur. Ákvæði frumvarpsins um framkvæmd kosninganna geta gert aukna kröfu til viðveru fullrar tölu kjörstjórnarmanna.

Um 72. gr.

    Greinin samsvarar 2. mgr. 75. gr. kosningalaga en er nokkuð einfölduð. Efni 1. mgr. greinarinnar er flutt í 71. gr. og að nokkru í 78. gr.

Um 73. gr.

    Ákvæði 1. og 3. mgr. greinarinnar koma í stað 76. gr. kosningalaga. Í 1. mgr. er bætt við frekari ákvæðum um flokkun utankjörfundaratkvæðanna hjá kjörstjórn. Er gert ráð fyrir að kjörstjórn kanni þegar hvort atkvæði, sem henni berast, skuli taka til greina og opni sendiumslagið í því sambandi. Ef atkvæði skal taka til greina, sbr. 91. gr., verði sett sérstakt merki til bráðabirgða við nafn kjósandans í kjörskránni. Ef það skal ekki taka til greina verði sendiumslagið áritað um ástæðuna. Kjörseðilsumslagið ásamt fylgibréfinu verði í báðum tilvikum lagt í sendiumslagið á ný og geymt þar til atkvæðagreiðslunni lýkur. Utankjörfundaratkvæðin koma þá til meðferðar að nýju, sbr. 90. gr.
    Ákvæði 2. mgr. samsvarar 4. mgr. 71. gr. laganna.
    Ákvæði 4. mgr. er nýmæli. Þar er heimilað að hefja flokkun utankjörfundaratkvæða daginn fyrir kjördag í sveitarfélögum þar sem kosin er sérstök yfirkjörstjórn, sbr. 2. mgr. 15. gr., og verði atkvæðisbréfum þá komið í rétta kjördeild á kjördag.

Um 74. gr.

    Greinin samsvarar 77. gr. kosningalaga.

Um 75. gr.

    Greinin samsvarar 89. gr. kosningalaga. Þar er gert ráð fyrir að allir þrír kjörstjórnarmenn hafi hver sitt eintak kjörskrár fyrir sér. Svo hefur ekki verið í reynd og er lagt til að miðað verði við að kjörstjórn hafi tvö eintök af kjörskránni.

Um 76. gr.

    Greinin er í samræmi við 90. gr. kosningalaga.

Um 77. gr.

    Ákvæði greinarinnar koma í stað ákvæða sem nú eru í 61., 78. og 79. gr. kosningalaga. Nýmæli er ákvæði um að á kjörstað skuli festa upp tilkynningu um framboðslista í kjördæminu með heiti stjórnmálasamtaka, listabókstöfum og nöfnum frambjóðenda, auk kosningaleiðbeininga svo sem nú er. Gögn þessi skulu fylgja kjörgögnum sem yfirkjörstjórn leggur til, sbr. 1. mgr. 55. gr.

Um 78. gr.

    Grein þessi kemur í stað 80. gr. kosningalaga. Lagt er til að meginregla verði að kjósendur skuli greiða atkvæði í þeirri röð sem þeir gefa sig fram. Þá er gert ráð fyrir að skipun sérstaks dyravarðar við hverja kjördeild falli niður. Verður það þá hlutverk kjörstjórnar að sjá til þess að á kjörstað sé fullnægjandi regla, eftir atvikum þannig að einn fulltrúi úr kjörstjórn annist dyravörslu. Þá er fellt niður ákvæði um að í kjörfundarstofu megi ekki vera fleiri kjósendur í senn en kjörklefar eru margir. Með þeirri breytingu á framkvæmd kosninga að kjósandi þurfi ekki að ganga að kjörborðinu til að stinga atkvæði í atkvæðakassann, sbr. 85. gr., á kosning að geta gengið greiðar fyrir sig en nú er. Getur þá farið saman eftirlit með því að kjósandi leggi kjörseðil í kassann og dyravarsla. Ef þörf þykir getur kjörstjórn takmarkað fjölda kjósenda í kjörfundarstofu. Um viðveru umboðsmanna í kjörfundarstofu vísast til ákvæða í 39. og 94. gr.
    Í 3. mgr. er lagt til að kjörstjórn skuli að öðru leyti sjá til þess að á kjörstað og næsta nágrenni hans fari hvorki fram óleyfilegur kosningaáróður eða kosningaspjöll né önnur starfsemi sem truflar eða hindrar framkvæmd kosninga. Um óleyfilegan kosningaáróður og kosningaspjöll er fjallað í 117. gr. Önnur starfsemi, sem fram fer á kjörstað, kann að valda truflun á framkvæmd kosninga, t.d. koma í veg fyrir greiðan aðgang kjósenda að kjörstað eða kjörfundarstofu. Á kjörstað fer oft fram ýmiss konar starfsemi sem ekki tengist sjálfum kosningunum, svo sem merkjasala og sala happdrættismiða. Kjörstjórn verður að meta hvaða starfsemi getur farið þar fram og hlýtur að láta mál til sín taka ef starfsemin hefur truflandi áhrif. Kann kjörstjórnin að þurfa að kalla eftir aðstoð sem sveitarstjórn eða hverfis- eða yfirkjörstjórn lætur í té, og lögregla ef í harðbakka slær.

Um 79. gr.

    Greinin samsvarar 81. gr. kosningalaga. Lagt er til að nokkru nánar verði kveðið á um hvernig kjósandi skal gera grein fyrir sér áður en hann fær afhentan kjörseðil. Nauðsynlegt er að kjósandi segi til sín, og þá með nafni, heimili og fæðingardegi (kennitölu). Heimilisfang kemur ekki fram á öllum skilríkjum. Auk þess skal hann framvísa viðhlítandi skilríki og eru þá nefnd til kennivottorð, þ.e. persónuskilríki með nafni handhafa og mynd og eftir atvikum undirskrift, svo sem vegabréf, ökuskírteini, bankakort og greiðslukort, auk nafnskírteinis sem nú er eitt tilgreint í ákvæðinu. Kennivottorð og nafnskírteini eru einungis nefnd sem dæmi. Kjósandi kann einnig að geta gert grein fyrir sér á annan hátt, t.d. með því að leiða vitni sem kjörstjórn tekur gild. Það er komið undir mati kjörstjórnar hverju sinni hvenær kjósandi telst hafa gert grein fyrir sér á fullnægjandi hátt. Í 2. málsl. er tekið fram að kjörstjórn afhendi kjósanda kjörseðil í stað þess að nú segir að oddviti geri það. Getur því hvaða kjörstjórnarmaður sem er afhent kjörseðilinn.

Um 80. gr.

    Greinin er í samræmi við 82. gr. kosningalaga. Úr 1. mgr. er fellt brott ákvæði þar sem gert var ráð fyrir að athugasemd kynni að vera um að einhver hefði ekki fengið atkvæðisrétt á kjördegi. Á kjörskrá eru nú eingöngu teknir þeir sem atkvæðisrétt eiga á kjördegi. Ákvæðið á því ekki lengur við. Þá er tekið fram að vottorð kjörstjórnar skv. 2. mgr. 15. gr., þar sem slík kjörstjórn er kosin, geti komið í stað vottorðs undirkjörstjórnar. Þar sem aðstæður hafa verið til þess hafa mótast liprari samskiptareglur milli kjörstjórna og er gert ráð fyrir að þær haldist.

Um 81. gr.

    Greinin er í samræmi við 83. gr. kosningalaga. Tekið er sérstaklega fram að kjósandi megi einn vera í kjörklefanum.

Um 82. gr.

    Greinin er í samræmi við 84. gr. kosningalaga. Orðin „af þeim, sem í kjöri eru“ í niðurlagi 1. mgr. eru óþörf og því felld brott.

Um 83. gr.

    Greinin er samhljóða 86. gr. kosningalaga.

Um 84. gr.

    Greinin er samhljóða 85. gr. kosningalaga.

Um 85. gr.

    Greinin er í samræmi við 87. gr. kosningalaga en textinn nokkuð einfaldaður. Af ákvæðinu leiðir að þess er ekki krafist að atkvæðakassinn standi við kjörborðið þar sem kjörstjórnin situr og að nægilegt er að fulltrúi kjörstjórnar fylgist með þegar atkvæði er lagt í kassann, sbr. athugasemdir við 78. gr.

Um 86. gr.

    Greinin samsvarar 88. gr. kosningalaga en bætt hefur verið við ákvæði þess efnis að aðstoð megi því aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim sem aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði. Er ákvæðið samhljóða texta sem gilt hefur um aðstoð við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, sbr. 3. mgr. 63. gr.

Um 87. gr.

    Greinin er samhljóða 91. gr. kosningalaga.

Um 88. gr.

    Greinin samsvarar 92. gr. kosningalaga. Felld er brott tilvísun um ráðgerð forföll sem síðan reynast ekki fyrir hendi á kjördegi, enda eru sérstök forföll ekki lengur forsenda þess að greiða megi atkvæði utan kjörfundar.

Um 89. gr.

    Greinin er samhljóða 93. gr. kosningalaga.

Um 90. gr.

    Greinin samsvarar 95. gr. kosningalaga en hefur verið breytt til samræmis við ákvæði sem eru í 73. gr. Er nú gert ráð fyrir að flokkun og könnun utankjörfundaratkvæða hafi þegar farið fram en atkvæðin lögð til hliðar og varðveitt meðan atkvæðagreiðslan fer fram. Endanleg afstaða til utankjörfundaratkvæða verður hins vegar ekki tekin fyrr en atkvæðagreiðslunni er lokið.

Um 91. gr.

    Greinin samsvarar 96. gr. kosningalaga. Í e-lið 1. mgr. er tekið skýrar fram en nú að ekki megi vera nema eitt fylgibréf og eitt kjörseðilsumslag í sendiumslagi. Þá er bætt við nýjum lið, h-lið, um að atkvæði skuli því aðeins tekið til greina að það hafi verið greitt á þeim tíma sem atkvæðagreiðsla utan kjörfundar má fara fram, sbr. 57. gr. og 5. mgr. 58. gr.

Um 92.–94. gr.

    Greinarnar eru samhljóða 97.–99. gr. kosningalaga.

Um 95. gr.

    Greinin samsvarar í meginatriðum 100. gr. kosningalaga. Bætt hefur verið við ákvæði um að fara skuli með utankjörfundaratkvæði sem eiga að fara í aðra kjördeild á sama hátt og önnur kjörgögn sem send eru yfirkjörstjórn. Ákvæðin um frágang kjörgagna eru einfölduð með tilliti til breyttra aðstæðna við flutning. Meðal annars er ekki gert ráð fyrir sérstökum strigapoka undir kjörgögn.

Um 96. gr.

    Greinin er samhljóða 101. gr. kosningalaga en ákvæði sem þar er í 2. málsl. 2. mgr. er flutt í 104. gr.

Um 97. og 98. gr.

    Greinarnar eru samhljóða 102. og 103. gr. kosningalaga.

Um 99. gr.

    Greinin er í samræmi við 104. gr. kosningalaga en við 1. mgr. er bætt ákvæði þess efnis að yfirkjörstjórn skuli kanna hvort tala kjósenda, sem greitt hafa atkvæði, sé í samræmi við afhenta atkvæðaseðla og skýrslur kjörstjórna.

Um 100. gr.

    Greinin er í samræmi við 105. gr. kosningalaga en með e-lið er bætt við ákvæði um það ef í umslagi með utankjörfundarseðli er eitthvað annað en kjörseðill eða meira en einn kjörseðill. Hvort tveggja er til þess fallið að vekja athygli á kjörseðli og er sambærilegt við þau tilvik sem greinir í d-lið. Ákvæði, sem var svipað þessu, var fellt úr 105. gr. með lögum nr. 10/1991 þegar lögfest voru ákvæði um ný kjörgögn við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar en lagt er til að hliðstætt ákvæði komi nú aftur í lögin.

Um 101. gr.

    Greinin er samhljóða 106. gr. kosningalaga.

Um 102. gr.

    Greinin er samhljóða 107. gr. kosningalaga.

Um 103. gr.

    Greinin er að mestu samhljóða 1.–4. mgr. 108. gr. kosningalaga.
    Fellt er niður ákvæði þess efnis að talningu skuli stöðva meðan úrskurðað er um ágreiningsseðla. Er það í samræmi við breytt vinnulag við talningu atkvæða. Hins vegar er bætt við ákvæði þess efnis að bóka skuli um fjölda ógildra atkvæða, svo og um ástæður þess, t.d. miðað við flokkun ógildingarástæðna skv. 100. gr. Er æskilegt að slíkar upplýsingar liggi fyrir, hvort heldur um er að ræða atkvæði greidd utan kjörfundar eða á kjörfundi.
    Upphafi 3. mgr. er einnig breytt til samræmis við breytt vinnulag við talningu og ákvæði bætt við þess efnis að niðurstaða kosninganna skuli kunngerð þeim sem viðstaddir eru, auk þess sem hún er færð í gerðabók.

Um 104. gr.

    Ákvæði 1. mgr. er samhljóða 5. mgr. 108. gr. kosningalaga.
    Í 2. mgr. er nýtt ákvæði um geymslu notaðra kjörseðla. Nokkur óvissa hefur ríkt um hvað gera skuli við þessa kjörseðla að talningu lokinni. Ekki þykir rétt að þeim verði þegar eytt heldur verði beðið með það þar til Alþingi hefur úrskurðað um kosninguna, enda sé þeirra eigi þörf vegna kæru sem beint hefur verið til lögreglustjóra. Þangað til verði kjörseðlarnir geymdir undir innsigli.
    3. mgr. samsvarar ákvæði sem nú er í niðurlagi 2. mgr. 101. gr. kosningalaga, en lagt er til að geymslutími kjörskránna verði styttur úr tveimur árum í eitt ár. Þá er lagt til að tekið verði fram að kjörskránum skuli eytt en það ekki bundið við að þær skuli brenndar. Eðlilegt er að nota megi til þess tæki sem gerð eru til að eyða pappír. Tekið skal fram að til þess getur komið að nauðsynlegt sé að rjúfa innsigli kjörskrárpakka, t.d. hefur þess verið þörf til að afla nauðsynlegra gagna við gerð kosningaskýrslna.

Um 105. gr.

    Greinin er í meginatriðum samhljóða 109. gr. gildandi kosningalaga að breyttu breytanda að því er varðar 110. gr. frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að yfirkjörstjórnir reikni atkvæðatölu frambjóðenda skv. 110. gr. Breytingar á kjörseðlum skipta þó aðeins máli fyrir þá frambjóðendur sem eru í aðal- og varamannssætum (þó aldrei færri en þremur efstu sætunum). Ekki liggur endanlega fyrir hver þau sæti eru fyrr en landskjörstjórn hefur úthlutað jöfnunarsætum, sbr. 108. og 109. gr. En í ljósi þess að kosningaúrslit liggja alla jafna í megindráttum fyrir þegar á kosninganótt og jöfnunarsæti eru aðeins eitt eða tvö í hverju kjördæmi geta yfirkjörstjórnir hagað skýrslugerð sinni til landskjörstjórnar um þessi atriði með hliðsjón af því.

Um 106. gr.

    Greinin er samhljóða 110. gr. gildandi kosningalaga að breyttu breytanda að því er varðar tilvísun til annarra greina.

Um 107. gr.

    Í þessari grein er að finna ákvæði um þá reiknireglu sem lagt er til að beitt verði við útreikning á úrslitum kosninga og úthlutun kjördæmissæta samkvæmt þeim. Samkvæmt gildandi lögum eru mismunandi reglur notaðar við úthlutun kjördæmissæta annars vegar og jöfnunarsæta hins vegar. Við úthlutun kjördæmissæta hefur í núverandi kerfi verið notuð „regla stærstu leifa“. Þeirri reglu hefur verið ætlað að auka möguleika minni flokka í fámennari kjördæmum til að fá kosinn þingmann og ná þannig á auðveldari hátt jöfnuði milli flokka á landsvísu. Þessi reikniregla hefur hins vegar ýmsa galla og með því að nýskipan kjördæma miðar að því að stækka þau og draga úr misvægi atkvæða milli þeirra þykir ekki vera sama þörf og áður á þessari reglu til að tryggja jöfnuð milli flokka. Við útfærslu þessara breytinga á kosningakerfinu var því lagt til grundvallar að útreikningur á úrslitum kosninga og úthlutun þingsæta, bæði kjördæmissæta og jöfnunarsæta, byggðist á svonefndri d'Hondt-reglu. Það er og sú regla sem lengst hefð er fyrir hér á landi og hefur verið notuð við úhlutun jöfnunarsæta á landsvísu.
    Í 2. mgr. greinarinnar er að finna sams konar ákvæði og verið hefur 4. mgr. 115. gr. gildandi laga um að listi í kjördæmi, sem hlotið hefur þingmann eða þingmenn kjörna, eigi rétt á jafnmörgum varaþingmönnum af listanum.

Um 108. gr.

    Í 1. mgr. greinarinnar er áréttuð sú regla sem fest var í síðari málslið 4. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 77/1999, og mælir fyrir um að þau stjórnmálasamtök komi ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa að minnsta kosti fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu. Skiptir þá ekki máli hvort framboð hafi náð þingsæti í kjördæmi eins og nú er, sbr. síðari málslið 1. mgr. 112. gr. kosningalaga, ef það hefur á annað borð náð þessu lágmarksfylgi á landsvísu.
    Í 2. og 3. mgr. greinarinnar er lagt til að úthlutun jöfnunarsæta til stjórnmálasamtaka byggist á d'Hondt-reglu eins og verið hefur. Sú regla hefur gilt hér frá því að hlutfallskosningar voru teknar upp í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum, nema í einstökum kjördæmum við alþingiskosningar frá 1987. Óþarft þykir því að skýra þessa reglu nánar hér.

Um 109. gr.

    Í þessari grein er mælt fyrir um hvernig þeir frambjóðendur verði fundnir sem hljóta kosningu í þau jöfnunarsæti sem hverjum stjórnmálasamtökum hefur verið úthlutað skv. 108. gr. frumvarpsins. Hér er lögð til sú breyting að jöfnunarsætum verður úthlutað til þeirra frambjóðenda hvers flokks sem hafa hæst hlutfall gildra atkvæða í sínu kjördæmi. Með þessu móti næst talsverð einföldun á því kerfi sem jöfnunarsætum er úthlutað eftir samkvæmt núgildandi lögum. Úthlutun jöfnunarsæta til einstakra frambjóðanda fer þá þannig fram að fyrst er litið til þess hvaða samtök eiga rétt á slíku sæti hverju sinni en síðan er atkvæðahlutfall hjá frambjóðendum samtakanna, miðað við gild atkvæði í kjördæmi, látið skera úr um það hver þeirra hlýtur sætið. Þessi regla takmarkast þó af því að jöfnunarsætin eru bundin við tiltekin kjördæmi.

Um 110. gr.

    Í þessari grein er mælt fyrir um hvernig þeir frambjóðendur verði fundnir, sem hlotið hafa kosningu í þau sæti, sem hverjum lista hefur verið úthlutað skv. 107.–109. gr. frumvarpsins.
    Jafnframt er í þessari grein lagt til að möguleikar kjósenda til að hafa áhrif á röð einstakra frambjóðenda á lista, þ.e. með því að breyta röð þeirra eða strika þá út, verði auknir nokkuð. Samkvæmt gildandi lögum þarf t.d. meira en helmingur kjósenda að strika frambjóðanda út til þess að hann falli úr sæti sínu og fellur hann þá reyndar út af listanum. Sama gildir um umröðun, þ.e. að meira en helmingur kjósenda lista þarf til að hreyfa frambjóðanda milli sæta. Með hliðsjón af því hvernig þetta kerfi hefur reynst er lagt til að þessi mörk (helmingur kjósenda listans) verði færð talsvert neðar, en verði þó breytileg eftir því hve margir frambjóðendur eru kjörnir af hverjum lista. Í því skyni er lagt til að tekin verði upp regla sem gilti fram að breytingu á kosningalögunum 1959 og með breytingu (þrengingu) fram til þess að núgildandi kosningalög voru sett (þ.e. „Borda-reglan“). Til að mörkin verði þó ekki óeðlilega lág er lagt til að reglunni verði aðeins beitt á þá frambjóðendur á lista sem ná aðal- eða varamannssæti, þó aldrei færri en þrjá. Þykja með því móti mynduð hófleg mörk fyrir breytingar á framboðslistum. Fái listi sem dæmi 4.000 atkvæði og tvo menn kjörna eru fjórum efstu mönnum listans reiknuð atkvæði og ef engar breytingar hafa verið gerðar á kjörseðlum (útstrikun eða umröðun) hefur fyrsti maður 4.000 atkvæði, annar maður 3/ 4 eða 3.000 atkvæði, þriðji maður 2/ 4 eða 2.000 atkvæði og fjórði maður 1/ 4 eða 1.000 atkvæði. Í þessu dæmi þyrfti meira en 800 útstrikanir hjá einum frambjóðanda, ef engar aðrar breytingar væru gerðar á kjörseðlum, til að hreyfa hann milli sæta. Um nánari útskýringar á reglunni vísast til skýrslu forsætisráðherra til Alþingis um breytingar á kjördæmaskipan og tilhögun kosninga til Alþingis, sbr. Alþt. 1998–99, A-deild, bls. 969.

Um 111. gr.

    Greinin er í megindráttum samhljóða 116. gr. kosningalaga. Þó er hert á því að stjórnarráðinu skuli birta tilkynningu um úrslit kosninga jafnskjótt og kjörbréf hafa verið afhent, enda sé þá ekkert því til fyrirstöðu að kveðja þing saman hvenær sem henta þykir. Sjálfsagt er að almenningi sé einnig gert kunnugt um úrslitin með sama hraða á þeim vettvangi sem stjórnvöldum er til þess búinn.

Um 112. gr.

    Greinin er samhljóða 118. gr. kosningalaga.

Um 113. gr.

    Greinin er samhljóða 119. gr. kosningalaga.

Um 114. gr.

    Greinin er í samræmi við 120. gr. kosningalaga en lagðar eru til breytingar á 1. og 3. mgr. vegna tilvísana til kaupstaða og kauptúna. Þá er í 4. mgr. lagt til að samræmd regla gildi um að kjörstjórnir sem kosnar eru skv. 2. mgr. 15. gr. skuli taka ákvarðanir um frestun kosninga og boðun þeirra að nýju en ekki hver undirkjörstjórn í hlutaðeigandi sveitarfélagi.

Um 115. gr.

    Greinin samsvarar 121. gr. kosningalaga. Fellt er brott ákvæði um að auglýsing um uppkosningar skuli birt í Lögbirtingablaði, svo og ákvæði sem þar er í 2. mgr. um sérstaka tilkynningu til yfirkjörstjórnar. Eftir stendur að kosningin á að fara fram samkvæmt fyrirmælum laganna og gilda þá ákvæði 2. mgr. 20. gr. um auglýsinguna.

Um 116. gr.

    Greinin felur í sér nýtt almennt ákvæði um skýrsluskil til Hagstofu Íslands. Í 117. gr. kosningalaga er kveðið á um skýrsluskil landskjörstjórnar til Hagstofunnar. Í 2. mgr. 101. gr. laganna (2. mgr. 96. gr. frumvarpsins) er almennt ákvæði um skýrslugerð undirkjörstjórna. Hins vegar er í lögunum ekkert ákvæði um skýrslugerð yfirkjörstjórna. Hagstofan hefur í raun safnað skýrslum um kosningar samkvæmt eigin lagaheimild, sbr. a-lið 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um hagstofu Íslands, nr. 24/1913. Rétt þykir að hafa í kosningalögum almennt ákvæði um skýrsluskil allra kjörstjórna til Hagstofunnar.

Um 117. gr.

    Greinin er samræmi við 125. gr. kosningalaga að því undanskildu að ákvæði 1. og 2. tölul. þeirrar greinar um óleyfilega söfnun undirskrifta og þess háttar eru felld niður í samræmi við ákvæði 92. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna. Þá er með a-lið lagt til að það verði almennt talin óleyfileg kosningaspjöll að torvelda öðrum að greiða atkvæði við kosningar en það ekki eingöngu bundið við hjú og aðra sem menn hafa yfir að ráða.

Um 118. gr.

    Greinin er samhljóða 126. gr. kosningalaga.

Um 119. gr.

    Greinin er samhljóða 127. gr. kosningalaga að því undanskildu að í stað tilvísunar til úrskurða hreppsnefnda og bæjarstjórna er vísað til úrskurða sveitarstjórna. Þá er lagt til að kærum út af brotum á lögunum skuli beint til hlutaðeigandi lögreglustjóra en ekki dómsmálaráðuneytisins. Er það í samræmi við almennar reglur um kærur út af opinberum málum.

Um 120. og 121. gr.

    Greinarnar eru samhljóða 128.–129. gr. kosningalaga.

Um 122. gr.

    Greinin svarar til 130. gr. kosningalaga.

Um 123. gr.

    Greinin er í samræmi við 131. gr. kosningalaga. Til samræmingar eru sveitarsjóðir almennt tilgreindir í c-lið en ekki hreppssjóðir og bæjarsjóðir. Þá er í sama lið bætt inn tilvísun til kjörstjórna skv. 2. mgr. 15. gr.

Um 124. gr.

    Greinin er samhljóða 132. gr. kosningalaga, þó þannig að sveitarstjórn er tilgreind í stað hreppsnefndar og bæjarstjórnar.

Um 125. gr.

    Greinin er samhljóða 133. gr. kosningalaga að því undanskildu að felldur er niður 3. tölul. þeirrar greinar um óleyfilega söfnun undirskrifta og þess háttar í samræmi við niðurfellingu ákvæða sem lýstu slíka starfsemi óleyfilega, sbr. athugasemdir við 117. gr.

Um 126. gr.

    Greinin er samhljóða 134. gr. kosningalaga að því undanskildu að í c-lið er póstur ekki sérstaklega tilgreindur sem flytjandi kjörgagna og d-liður breytist í samræmi við breyttan a- lið 117. gr.

Um 127. gr.

    Greinin er samhljóða 135. gr. kosningalaga.

Um 128. gr.

    Greinin er samhljóða 136. gr. kosningalaga eins og hún er eftir að varðhaldsrefsing var afnumin með lögum nr. 82/1998, um breyting á almennum hegningarlögum.

Um 129. gr.

    Í fyrri málsgrein þessarar greinar segir að kosningalögum verði breytt eins og fyrir mælt í stjórnarskránni. Samkvæmt 44. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 56/1991, er áskilinn tiltekinn umræðufjöldi til að lagafrumvarp teljist samþykkt og skv. 53. gr. hennar, sbr. 20. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 56/1991, að tilskilinn fjöldi þingmanna þurfi að taka þátt í atkvæðagreiðslu til að þingfundur teljist ályktunarbær. Í 6. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 77/1999, er enn fremur áskilið samþykki aukins meiri hluta atkvæða til að breytingar verði gerðar á ákvæðum kosningalaga um kjördæmamörk og tilhögun á úthlutun þingsæta, sbr. einnig síðari málsgrein þessarar greinar og 6. og 107.–109. gr. frumvarps þessa. Að þessum ákvæðum frátöldum er hins vegar lagt í vald almenna löggjafans að ákveða hvert atkvæðamagn þurfi til afgreiðslu mála á Alþingi. Skv. 67. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, ræður afl atkvæða úrslitum mála, en skv. 2. mgr. 64. gr. s.l. er engin ályktun lögmæt nema meira en helmingur fundarmanna, þeirra er atkvæði greiða, ljái henni atkvæði sitt. Almennt dugir því með öðrum orðum einfaldur meiri hluti til að breyta öðrum ákvæðum kosningalaga en að framan greinir.

Um 130. gr.

    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi.
    Þá er lagt til að tilvísunum í ákvæði laga um kosningar til Alþingis sem er að finna í 14. gr. laga um framboð og kjör forseta Íslands verði breytt til samræmis við nýja greina- og kaflaskipan frumvarpsins.
    Loks er í samræmi við 6. gr. frumvarpsins lagt til að brott falli ákvæði er tekið var í lög nr. 17/1998, um sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkur, fyrir síðustu alþingiskosningar þegar Kjalarnes varð sökum stjórnarskrárbundinnar kjördæmaskipunar að fylgja Reykjaneskjördæmi þótt sveitarfélagið hefði þá sameinast Reykjavík.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Samkvæmt 6. gr. stjórnarskrárinnar og 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands, sbr. 1. gr. laga nr. 6/1984, skal forsetakjör fara fram síðasta laugardag í júnímánuði fjórða hvert ár. Forsetakjör fór síðast fram árið 1996 og ber því upp á ný á yfirstandandi ári, nánar tiltekið hinn 24. júní nk. Lögum samkvæmt er undirbúningur að kjörinu þegar hafinn með birtingu auglýsingar um framboð og kjör forseta. Nokkur sérákvæði eru í lögum um framboð og kjör forseta um framkvæmd kjörsins en að öðru leyti er yfirleitt um það vísað til laga um kosningar til Alþingis. Með því að óvarlegt þykir að breyta reglum um kjörið eftir að undirbúningsferlið er hafið er hér lagt til að lög nr. 80/1987, um kosningar til Alþingis, með síðari breytingum, gildi eftir því sem við á um það forsetakjör sem fram skal fara á sumri komanda. Af þessu tilefni skal tekið fram að enda þótt þau lög falli ekki að gildandi stjórnarskrárákvæði um alþingiskosningar, sbr. 1. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 77/1999, gildir það ákvæði ekki um forsetakosningar. Ekki þarf því að efast um stjórnskipulegt gildi laga nr. 80/1987, með síðari breytingum, með tilliti til forsetakjörs.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Á sumarþingi 1999, 124. löggjafarþingi, að loknum alþingiskosningum í maí 1999, kaus Alþingi yfirkjörstjórnir svo sem skylt var skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 80/1987. Með hliðsjón af því að fyrri kjördæmamörk breytast, kjördæmum fækkar og fyrri kosning getur ekki átt við lengur er lagt til að Alþingi kjósi þegar í stað, eftir samþykkt frumvarpsins, nýjar yfirkjörstjórnir skv. 1. mgr. 13. gr. þess.