Ferill 530. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 831  —  530. mál.
Frumvarp til lagaum stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)1. gr.

    Stofna skal hlutafélag um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Nafn félagsins skal vera Samábyrgðin hf. Hlutverk hlutafélagsins er að hafa á hendi þá starfsemi sem vátryggingafélögum er heimil samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.
    Ríkissjóður leggur allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum til hlutafélagsins. Við stofnun hlutafélagsins skal allt hlutafé vera í eigu ríkissjóðs.

2. gr.

    Viðskiptaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í Samábyrgðinni hf.
    Ráðherra ákveður heildarfjárhæð hlutafjár í félaginu við stofnun þess. Skal við það miðað að heildarfjárhæð hlutafjár á stofnfundi félagsins nemi eigi lægri fjárhæð en 75% af eigin fé Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum eins og það er samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi fyrir árið 1998. Hlutafé getur þó tekið breytingum til hækkunar.
    Ráðherra ákveður skiptingu hlutafjár í hluta.
    Ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, gildir ekki um innborgun hlutafjár. Þá gilda ákvæði 2. mgr. 3. gr., 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. þeirra laga ekki um fjölda stofnenda og hluthafa.


3. gr.

    Viðskiptaráðherra er heimilt að ákveða sölu á eignarhlut ríkissjóðs í félaginu að hluta til eða að öllu leyti.

4. gr.

    Allir starfsmenn Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum, sem taka laun samkvæmt kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga, skulu eiga kost á sambærilegu starfi hjá Samábyrgðinni hf. eftir yfirtöku hennar á Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.
    Nú tekur maður, sem gegnir starfi hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, við starfi hjá Samábyrgðinni hf. og skal hann á því tímamarki njóta sömu réttinda og hann hafði samkvæmt kjarasamningi eða ráðningarsamningi. Réttur hans til launa hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum fellur niður er hann tekur við starfinu.

5. gr.

    Hinn 1. júlí 2000 tekur Samábyrgðin hf. við starfsemi Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Á því tímamarki er Samábyrgð Íslands á fiskiskipum lögð niður. Starfsleyfi það er Samábyrgð Íslands á fiskiskipum hefur færist þá sjálfkrafa til hins nýja félags.
    Viðskiptaráðherra skipar þriggja manna undirbúningsnefnd til þess að annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna breytingarinnar. Nefndin skal hafa heimild til þess að gera hvers kyns löggerninga sem eru nauðsynlegir til undirbúnings stofnunar félagsins og fyrirhugaðrar starfrækslu og ekki falla undir valdsvið stjórnar Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Við stofnun skal félagið bundið við umrædda löggerninga.
    Kostnaður af stofnun hlutafélags greiðist af Samábyrgðinni hf.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Hinn 30. júní 2000 falla úr gildi lög um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, nr. 37/1978, með síðari breytingum. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um bátaábyrgðarfélög, nr. 18/1976, með síðari breytingum.
    Um Samábyrgðina hf. og starfandi bátaábyrgðarfélög gilda, að öðru leyti en leiðir af ákvæðum laga þessara, ákvæði laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum. Ákvæði laga um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum, eiga einnig við um Samábyrgðina hf., eftir því sem við á.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    
Frumvarp þetta, sem samið er samkvæmt ákvörðun viðskiptaráðherra, er samið í viðskiptaráðuneytinu. Samkvæmt frumvarpinu skal stofna hlutafélag um rekstur Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Er frumvarpið að meginefni til samhljóða frumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu.
    Tvær meginástæður liggja að baki frumvarpinu. Annar vegar er ætlunin að stofna hlutafélag um rekstur Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum til þess að ríkisstjórninni sé kleift að selja félagið ef viðunandi kauptilboð berst í það, en stefnt hefur verið að því um nokkurn tíma að ríkið dragi sig endanlega út úr rekstri vátryggingafélaga á hinum almenna markaði. Hins vegar á að afnema sérlög um bátaábyrgðarfélög og um leið skyldutryggingu þilfarsbáta að 100,49 rúmlestum brúttó.
    Frumvarp það er hér liggur fyrir, svo og allmörg atriði athugasemdanna, tekur mið af vinnu nefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sem skipuð var árið 1992 og semja átti frumvarp til laga um breytingar á lögum um Samábyrgðina og lögum um bátaábyrgðarfélögin.

2. Stutt ágrip af sögu Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum.
    Samábyrgð Íslands á fiskiskipum var stofnuð með lögum nr. 54/1909. Henni var þá ekki lagt til sérstakt stofnfé úr ríkissjóði né gert ráð fyrir að það kæmi frá öðrum. Henni var hins vegar tryggð ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum sínum upp að 200.000 kr. Auk þess lagði ríkissjóður Samábyrgðinni til fjármuni, alls 25.000 kr., vegna kostnaðar við stofnun og stjórn hennar.
    Samkvæmt fyrstu lögunum um Samábyrgðina skyldi hún vera gagnkvæmt tryggingafélag. Með lögum nr. 23/1921 voru þau ákvæði laga nr. 54/1909, sem kváðu á um að Samábyrgðin væri gagnkvæmt vátryggingafélag, felld brott og ábyrgð ríkissjóðs vegna skuldbindinga félagsins hækkuð úr 200.000 kr. í 800.000 kr. Bar ríkissjóður einn ábyrgð á skuldbindingum félagsins upp frá því eða allt til 1967 er fyrsta verulega breytingin var gerð á lögunum.
    Árið 1941 var ríkissjóði gert að leggja félaginu til stofnfé, 500 þús. kr. og árið 1947 var ríkissjóði enn gert að leggja því til viðbótarstofnfé, 1,5 millj. kr. Frá upphafi og fram til 1967 voru sérstök ákvæði í lögunum um það að ráðstafa skyldi eignum þess til Fiskveiðasjóðs ef félaginu yrði slitið.
    Árið 1967 eru sett ný lög um Samábyrgðina eins og áður sagði, lög nr. 47/1967. Með þeim lögum var ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum félagsins felld burtu og sömuleiðis ákvæðin um afdrif eigna félagsins við félagsslit. Árið 1976 eru enn sett ný lög um Samábyrgðina, lög nr. 19/1976. Breytingar á lögunum áttu fyrst og fremst rætur að rekja til nýrra laga um vátryggingastarfsemi, einkum ákvæða um Tryggingaeftirlitið og nýrra sérstakra laga um bátaábyrgðarfélögin sem samtímis voru samþykkt á Alþingi, lög nr. 18/1976. Þau lög gerðu ýmis ákvæði laganna um Samábyrgðina óþörf.
    Gildandi lög um Samábyrgðina voru sett árið 1978 sem lög nr. 37/1978. Helsta breytingin, sem þá var gerð, var sú að bráðafúatryggingin, sem sett var inn í lögin árið 1967, var felld niður en í hennar stað kom sjálfstæð tryggingargrein innan Samábyrgðarinnar, Aldurslagasjóður fiskiskipa. Gildandi lögum var breytt með lögum nr. 40/1990 og var þá felldur niður sá kafli laganna sem fjallaði um Aldurslagasjóð. Þá má einnig nefna breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 116/1993 og fjallað verður nánar um síðar.

3. Hver á Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og bátaábyrgðarfélögin?
    Við endurskoðun laga um Samábyrgðina og bátaábyrgðarfélögin hafa vaknað upp spurningar um það hver eigi þessi félög. Einkum má reikna með að ágreiningur sé varðaði eignarhald á Samábyrgðinni.
    Er nefnd sú er starfaði árið 1992 vann að tillögum sínum óskaði þáverandi forstjóri Samábyrgðarinnar, Páll Sigurðsson, eftir því við Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmann að hann tæki saman lögfræðilegt álit á þessu álitaefni. Um Samábyrgðina segir lögmaðurinn svo í álitinu:
    „… Samábyrgðin er einfaldlega stofnun, sem starfar eftir gildandi lögum á hverjum tíma. Afstaða ríkisvaldsins til félagsins ræðst af lagafyrirmælunum. Þar er ekki um að ræða eignarrétt í þeim skilningi sem það hugtak hefur venjulega. Þannig getur ríkisvaldið t.d. ekki gert með félagið neinar þær ráðstafanir, sem hefðbundinn eignarréttur venjulega heimilar eiganda eignar. Sama er að segja um bátaábyrgðarfélögin. Afstaða þeirra til Samábyrgðarinnar er ekki eignarréttur í lögfræðilegum skilningi. Hún ræðst einfaldlega af gildandi lagafyrirmælum á hverjum tíma.
    Af þessu leiðir, að Alþingi getur gert hverjar þær ráðstafanir með Samábyrgðina og eignir hennar, sem það kýs. Við þær ráðstafanir verður aðeins að gæta að því að ekki séu skertir hagsmunir þeirra aðila, sem eiga gild fjárhagsleg réttindi á hendur Samábyrgðinni skv. samningum við hana eða á öðrum grundvelli. Að því athuguðu sýnist löggjafinn geta t.d. lagt félagið niður og látið eignir þess renna í ríkissjóð, ákveðið að breyta félaginu í hlutafélag þannig að ríkissjóður fái allt hlutaféð eða þannig að hlutafénu sé deilt út til bátaábyrgðarfélaganna og annarra viðskiptamanna félagsins eftir gefnum reglum.“
    Um bátaábyrgðarfélögin segir lögmaðurinn svo í álitinu:
    „… bátaábyrgðarfélögin eru eins konar sjálfseignarstofnanir, sem hvorki eru í eigu ríkissjóðs né þeirra útgerðarmanna sem vátryggja skip sín hjá þeim. Því má velta fyrir sér, hvort félögin og eignir þeirra njóti verndar eignarnámsákvæðis 67. gr. stjórnarskrárinnar, þannig að hömlur setji á heimildir löggjafans til að breyta fyrirkomulagi félaganna og ráðskast með eignir þeirra. Með hliðsjón af því, hvernig félögin voru stofnuð, þ.e.a.s. fyrir forgöngu ríkisins með lagasetningu og svo hinu að „aðild“ manna að félögunum og stjórn þeirra er ekki bundin við ákveðna menn, heldur þá sem á hverjum tíma skyldutryggja báta sína hjá þeim, er það skoðun mín, að félögin njóti ekki slíkrar verndar beint. Niðurstaðan er þá sú, að löggjafinn hafi, með sama fyrirvara og áður var tilgreindur varðandi Samábyrgðina, þ.e. að ekki séu skertir hagsmunir þeirra aðila, sem eiga gild réttindi á hendur félögunum, heimild til að gera hverjar þær ráðstafanir um félögin, sem það kýs. Réttarstaða bátaábyrgðarfélaganna sé að þessu leyti hliðstæð réttarstöðu Samábyrgðarinnar.“
    Árið 1989 óskaði þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra eftir því að Jón Ingimarsson, lögfræðingur og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, tæki saman greinargerð um eignarhald á Samábyrgðinni. Hann komst að þeirri niðurstöðu að ríkið ætti Samábyrgðina og að löggjafinn gæti ráðstafað eignum hennar, réttindum og skyldum, ef þurfa þætti, samkvæmt þeim reglum sem á hverjum tíma giltu um ráðstöfun eigna ríkisins. Rök hans voru þessi:
     „Stjórnarráðið gerði fyrsta endurtryggingarsamning félagsins fyrir þess hönd, skv. skilningi aðila á upphafsákvæði 2. greinar laga 54/1909, en þar sagði: „Landsstjórnin gengst fyrir því, að á stofn sé sett vátryggingarfélag með gagnkvæmri ábyrgð.“
    Ríkið eitt hefur lagt félaginu til stofnfé og m.a.s. í tvö skipti (1941 og 1947). Frá lagabreytingunni 1921 hefur ríkið eitt borið ábyrgð á skuldbindingum félagsins, þeim sem ekki hefur verið unnt að endurtryggja.
    Enginn annar aðili en ríkið hefur öðlast með lögum né á annan hátt slík tengsl né aðild að félaginu, að jafnað verði til eignar- eða umráðaréttar, hvorki til handa einstaklingum né samtökum, sem hagsmuna hafa gætt.
    Fram til 1967 var gert ráð fyrir að eignir félagsins rynnu við félagsslit til fiskveiðasjóðs Íslands. Um þann sjóð eru og hafa ávallt verið ótvíræð lagaákvæði, sem beinlínis taka fram að hann sé eign ríkisins, sbr. nú síðast í 1. grein laga 44/1976: „Fiskveiðasjóður Íslands er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins.“
    Niðurfellingu ákvæða um ráðstöfun eigna Samábyrgðarinnar við félagsslit, sem gerð var á Alþingi 1967, ber eingöngu að túlka sem svo, að löggjafinn vilji hafa óbundnar hendur um það, hvert þessar eignir renni, innan ramma ríkisvaldsins.“
    Ráðuneytið hefur aflað upplýsinga um það hjá Hagstofu Íslands hvert væri uppreiknað núvirði þeirra framlaga er Samábyrgðin hefur fengið frá ríkissjóði eins og nánar verður að vikið síðar.
    Í 3. gr. laga nr. 54/1909 sagði að landssjóður ábyrgðist með allt að 200.000 kr. að félagið fullnægði skuldbindingum sínum. Ef það gæti ekki af eigin rammleik borgað skaðabætur, sem því væri skylt að greiða, legði landssjóður til það er á vantaði, þó aldrei meir en áðurnefnda upphæð. Í 13. gr. sagði að í stjórn Samábyrgðarinnar væru þrír menn, tveir skipaðir af Stjórnarráðinu og einn af vátryggingafélögum þeim sem Samábyrgðin væri í samvinnu við. Og í 13. gr. var einnig kveðið á um það að til kostnaðar við stofnun félagsins og stjórn legði landssjóður því til 5.000 kr. á ári fyrstu fimm árin. Og að lokum sagði í 15. gr. að ef félagið legðist niður félli tekjuafgangur þess til fiskiveiðasjóðs Íslands.
    Í núgildandi lögum um Samábyrgðina, sem eru lög nr. 37/1978, eins og áður segir, er hvergi minnst á stofnframlag né bakábyrgð ríkissjóðs. Um stjórn félagsins segir nú að í henni séu fimm menn, ráðherra skipi þrjá, einn án tilnefningar og tvo eftir tilnefningu LÍÚ, og að tveir komi frá bátaábyrgðarfélögunum.
    Þar sem í upphaflegu lögunum var aðeins gert ráð fyrir að ríkissjóður stæði á bak við félagið og að tekjuafgangur, væri Samábyrgðin lögð niður, rynni til fiskiveiðasjóðs sem var í eigu landssjóðs, sbr. lög nr. 52/1905, og ekki var gert ráð fyrir stofnframlagi frá öðrum aðilum, verður að draga þá ályktun að hugmyndir þeirra sem stóðu að stofnun Samábyrgðarinnar hafi miðast við að félagið væri opinbert fyrirtæki. Þannig lagði landssjóður til Samábyrgðarinnar 5.000 kr. á ári fyrstu fimm starfsár sjóðsins. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar hefur ársmeðaltal vísitölu neysluverðs án húsnæðis (áður vísitölu vöru og þjónustu) fyrir árið 1909 verið áætlað 89 stig og á sama grunni stóð sú vísitala í 3.778.011 stigum í desember 1999. Framreiknað þýðir þetta að 5.000 kr. á ári árin 1909 til 1913 samsvara um 10,5 millj. kr. í desember 1999. Er þá ekki tekið tillit til neinna vaxta.
    Varðandi frekari fjárframlög úr ríkissjóði til Samábyrgðarinnar er næst kveðið á um þau í lögum nr. 37/1941, en þar segir að ríkissjóður leggi félaginu til stofnfé, 500.000 kr., er greiðist með jöfnum greiðslum á næstu tíu árum. Séu þessar greiðslur reiknaðar til núvirðis með sömu vísitölu og áður verður fjárhæðin um 29,8 millj. kr.
    Árið 1947 er enn lagt fé til Samábyrgðarinnar úr ríkissjóði, sbr. lög nr. 52/1947, í þetta skipti 1,5 millj. kr., sem skuli greiðast eftir samkomulagi fjármálaráðherra og stjórnar Samábyrgðarinnar. Ekki eru handbærar upplýsingar um greiðsludreifingu þess framlags. Ljóst virðist af ríkisreikningi að búið hefur verið að inna greiðslur af hendi árið 1950. Að gefinni þeirri forsendu að upphæðin hafi verið greidd með þremur jöfnum greiðslum á þremur árum er núvirði hennar um 73,7 millj. kr.
    Þannig virðist liggja ljóst fyrir að ríkissjóður lagði um 114 millj. kr. á núvirði til Samábyrgðarinnar fyrstu rúm 40 starfsár félagsins. Ekki hefur í útreikningum þessum verið tekið tillit til vaxta, arðs af stofnfé, né þess hagræðis sem af því hefur hlotist að félagið var skattfrjálst til 1993. Eigið fé félagsins í árslok 1996 var samkvæmt ársreikningi þess um 253 millj. kr., í árslok 1997 um 265 millj. kr. og í árslok 1998 um 273 millj. kr. Væru framlög ríkissjóðs vaxtareiknuð, eða gert ráð fyrir hæfilegum arði af stofnfénu, mætti reikna með að ríkissjóður ætti a.m.k. jafnháa fjárhæð inni hjá Samábyrgðinni.
    Í ríkisreikningi frá 1950 og til dagsins í dag hefur verið eignfært stofnfé Samábyrgðar Íslands, 2 millj. kr., sem nú standa í 20.000 kr. eftir myntbreytingu. Ríkisreikningur er opinber og hefur samkvæmt upplýsingum frá Ríkisbókhaldi ekki verið gerð athugasemd við eignfærslu þessa. Spyrja má sig hvernig á því standi að mótfærsla skuli ekki vera í ársreikningum Samábyrgðarinnar og hvers vegna eignarhlutur ríkissjóðs í Samábyrgðinni skuli ekki hafa verið uppfærður einhvern tímann undanfarin 47 ár. Eignfærsla þessi eru stofnframlög skv. lögum nr. 37/1941, 500.000 kr., og lögum nr. 52/1947, 1,5 millj. kr.
    Umfjöllun þessari um eignarhald á Samábyrgð Íslands á fiskiskipum er ætlað að vera til upplýsingar frekar en að henni sé ætlað að vera sérstakur rökstuðningur fyrir því að Samábyrgðin sé í eigu ríkissjóðs. Ráðuneytinu er reyndar ekki kunnugt um að ágreiningur sé lengur um eignarhald á Samábyrgðinni, sbr. það að fulltrúar frá einu bátaábyrgðarfélagi, Gróttu, og stjórnarformaður Samábyrgðarinnar gerðu viðskiptaráðherra tilboð í félagið en tilboð þetta fylgdi með frumvarpi því sem lagt var fram á 122. löggjafarþingi. Þá hefur og Vörður-Vátryggingafélag (áður Vélbátatrygging Eyjafjarðar) gert tilboð í Samábyrgðina. Ráðuneytinu er kunnugt um að samkomulagsumleitanir hafa verið í gangi um nokkurt skeið á milli fulltrúa frá bátaábyrgðarfélögunum um möguleika þessara aðila á því að gera sameiginlegt tilboð í Samábyrgðina. Rétt er einnig að rifja það upp að stjórnarformaður Vélbátaábyrgðarfélags Ísfirðinga hefur lýst því yfir á opinberum vettvangi að enginn ágreiningur væri að sínu mati um það að ríkið ætti Samábyrgðina.
    Varðandi eignarhald á bátaábyrgðarfélögunum telur ráðuneytið engan vafa leika á því að raunverulegir eigendur þeirra séu þeir sem þar hafa tryggt enda eru þau gagnkvæm vátryggingafélög.

4. Sérlög um bátaábyrgðarfélög felld úr gildi.
    
Um allnokkurt skeið hefur skyldutrygging sú sem lögð er á herðar eigenda vélbáta með þilfari, 100,49 rúmlestir brúttó að stærð eða minni, verið gagnrýnd. Ýmsir hafa talið þessa skyldutryggingu tímaskekkju enda var henni komið á er bátafloti landsmanna var annar en hann er nú og aðstæður aðrar. Hefur það enda komið fram í ályktunum hagsmunasamtaka í útgerð að afnema bæri skyldutryggingu skipa undir 100 lestum.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, er fór með málefni vátryggingastarfsemi til 28. febrúar 1995, skipaði í þrígang nefndir til að vinna að endurskoðun þessara mála.
    Fyrsta nefndin var skipuð 23. apríl 1986 og var henni falið að gera tillögur um breytingar á lögum um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og lögum um bátaábyrgðarfélög til þess að afnema skyldutryggingu skipa undir 100 lestum og gera þær frjálsar. Nefndarstarfinu lauk aldrei formlega. Nefndin skilaði áfangaskýrslu til ráðherra hinn 30. desember 1986 og gerði þar grein fyrir hugmyndum sínum. Nefndin taldi ekki ástæðu til að halda í gildi sérlögum um bátaábyrgðarfélög eftir að skyldutrygging væri felld niður enda hefði afnám skyldutryggingarinnar veruleg áhrif á rekstur félaganna. Þar sem bátaábyrgðarfélögin væru fjárhagslega veik sem vátryggingafélög gæti samkeppni sem hugsanlega fylgdi í kjölfar breytinga á skyldutryggingunni reynst þeim erfið. Nefndin taldi þá lausn heppilegasta að breyta bátaábyrgðarfélögunum í undirdeildir Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Lög um bátaábyrgðarfélög yrðu felld úr gildi. Engin afstaða var tekin til þessara tillagna nefndarinnar og af frekara nefndarstarfi varð ekki.
    Önnur nefndin var skipuð 15. nóvember 1989 og var henni falið að gera tillögur um með hvaða hætti mætti losa eigendur þilfarsbáta undir 100 brúttórúmlestum undan því að bátar þeirra væru skyldutryggðir. Nefndin skilaði áliti sínu til ráðherra 23. mars 1990. Kom þar fram tillaga um að opna eigendum báta minni en 100 lesta leið til að tryggja á frjálsum markaði. Lögin myndu að öðru leyti standa óbreytt meðan reynsla fengist af breytingunni. Að mati Tryggingaeftirlitsins voru tillögur þessar vart framkvæmanlegar.
    Enn gerði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tilraun til að endurskoða lögin árið 1992. Þann 25. mars það ár skipaði hann nefnd sem hafði þau markmið m.a. að afnema skyldutryggingu þilfarsbáta undir 100,49 rúmlestum brúttó, að afnema hlutverk ráðherra við iðgjaldaákvörðun og að aðlaga rekstur bátaábyrgðarfélaganna aukinni samkeppni sem óhjákvæmilega myndi leiða af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Frumvarp það er sú nefnd skilaði af sér var ekki lagt fram. Nokkur atriði þess, sem einkanlega snertu nauðsynlegar breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, voru tekin inn í frumvarp sem síðar varð að lögum nr. 116/1993.

5. Stutt ágrip af sögu bátaábyrgðarfélaganna.
    
Lögin um bátaábyrgðarfélög eru upphaflega frá árinu 1938 en þá var skyldutrygging á fiskiskipum, 70 smálestum brúttó eða minni, lögfest, sbr. lög um vátryggingarfélög fyrir vélbáta, nr. 27/1938. Þá voru nokkur bátaábyrgðarfélög þegar starfandi en þeim fjölgaði verulega við þessa lagasetningu. Lögin hafa breyst nokkuð í tímans rás. Þau voru endurskoðuð í byrjun fimmta áratugarins í ljósi reynslunnar af rekstri félaganna, sbr. lög nr. 32/1942. Þá var skyldutryggingin útvíkkuð og hún látin ná til vélbáta með þilfari allt að 100 smálestum að stærð. Enn voru lögin endurskoðuð með lögum nr. 61/1947 og var þá heiti laganna breytt í lög um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip. Hér var helsta breytingin sú að félagssvæði bátaábyrgðarfélaganna voru stækkuð og þeim fækkað enda hafði reynslan sýnt að þau voru of lítil og höfðu iðulega orðið að leita til ríkisábyrgðarinnar vegna tjónauppgjörs.
    Næst er lögunum breytt árið 1967 með lögum nr. 41 og enn er heiti laganna breytt og verður nú lög um bátaábyrgðarfélög. Fyrirhugað var að útvíkka skyldutrygginguna með þessum lögum úr 100 rúmlestum í 400 rúmlestir brúttó. Í meðförum Alþingis var þessu breytt og gildissvið skyldutryggingarinnar haft óbreytt. Aðrar breytingar voru þær að vátryggingarskilmálar, sem áður höfðu verið í lögunum, voru færðir í reglugerð. Einnig var félögunum heimilað með vissum skilyrðum að taka að sér aðrar tryggingar fyrir útgerðina en skyldutrygginguna. Þá var einnig fellt niður ákvæði, sem fram að þessum tíma hafði verið í lögunum, um ábyrgð ríkisins á bótagreiðslum og um það hvert eignir félaganna skyldu renna ef þau yrðu lögð niður.
    Gildandi lög um bátaábyrgðarfélög eru nr. 18/1976. Er það samsett útgáfa laga nr. 41/1967 og breytinga á þeim lögum, nr. 91/1975. Með lögunum frá 1975 var stærðarmörkum breytt úr 100 rúmlestum brúttó í 100,49 rúmlestir brúttó og var það gert til að taka af öll tvímæli um stærðarmörk þeirra skipa sem féllu undir skyldutrygginguna. Ýmsar breytingar voru einnig gerðar vegna tilkomu laga um vátryggingastarfsemi og vegna starfsemi Tryggingaeftirlits. Með lögum nr. 116/1993 voru gerðar þær breytingar á lögum nr. 18/1976 sem nauðsynlegar voru vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. M.a. var felldur niður einkaréttur bátaábyrgðarfélaganna til þess að vátryggja fiskiskip undir 100,49 rúmlestum brúttó, einkaréttur Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum að endurtryggja skipin var afnuminn og afnumin var undanþága bátaábyrgðarfélaganna og Samábyrgðarinnar frá greiðslu tekju- og eignarskatts. Þá var bátaábyrgðarfélögunum gert að setja sér samþykktir með ákvæðum um eignarhald og félagsslit. Eru félögin nú gagnkvæm vátryggingafélög samkvæmt samþykktum sínum.
    Bátaábyrgðarfélögin eru nú fjögur talsins, Vélbátaábyrgðarfélagið Grótta, Bátatrygging Breiðafjarðar og Vélbátaábyrgðarfélag Ísfirðinga. Stærsta bátaábyrgðarfélagið, Vélbátatrygging Eyjafjarðar, hefur nýlega fengið starfsleyfi til alhliða vátryggingastarfsemi og skipt um nafn og heitir nú Vörður-Vátryggingafélag. Formlega séð telst það þó enn þá bátaábyrgðarfélag.
    Árið 1992 er nefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra var að störfum við að semja frumvarp til breytinga á lögunum voru bátaábyrgðarfélögin sjö talsins.

5. Lokaorð.
    Þann 24. maí 1996 óskaði viðskiptaráðherra eftir því við Landssamband íslenskra útvegsmanna, Vélbátaábyrgðarfélagið Gróttu, Vélbátaábyrgðarfélag Ísfirðinga og Vátryggingaeftirlitið að þessir aðilar tilnefndu fulltrúa til setu í nefnd er fengi það hlutverk að endurskoða lög um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og lög um bátaábyrgðarfélög. Að fengnum tilnefningum skipaði ráðherra síðan Svein Hjört Hjartarson, hagfræðing LÍÚ og stjórnarformann Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum, Hjálmar Styrkársson, framkvæmdastjóra Vélbátaábyrgðarfélagsins Gróttu, Einar Odd Kristjánsson, alþingismann og stjórnarformann Vélbátaábyrgðarfélags Ísfirðinga, og Erlend Lárusson, þáverandi forstöðumann Vátryggingaeftirlitsins, í nefndina ásamt Kjartani Gunnarssyni, skrifstofustjóra í viðskiptaráðuneytinu, sem skipaður var formaður. Starfsmaður og ritari nefndarinnar var Páll Gunnar Pálsson, þáverandi deildarstjóri í viðskiptaráðuneytinu.
    Ekki varð samstaða í nefndinni um starfið og lauk nefndarstarfinu án þess að niðurstaða fengist.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að stofnað verði hlutafélag um rekstur Samábyrgðarinnar, að sérlög um bátaábyrgðarfélög verði felld úr gildi þannig að þau bátaábyrgðarfélög, sem eftir lifa, falli undir ákvæði laga um vátryggingastarfsemi og að ekki verði lengur krafist skyldutryggingar vegna þilfarsbáta undir 100,49 brúttórúmlestum.
    Eins og fram kemur í inngangi var frumvarp efnislega samhljóða þessu frumvarpi lagt fram á 122. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu. Með því fylgdi sem fylgiskjal tilboð stjórnarformanns Samábyrgðarinnar, Sveins Hjartar Hjartarsonar, og framkvæmdastjóra Vélbátaábyrgðarfélagsins Gróttu, Hjálmars Styrkárssonar, í hlut ríkissjóðs í Samábyrgðinni upp á 190 millj. kr. Ríkissjóður er ekki bundin tilboði þessu né tilboðsgjöfum þar sem frumvarpið náði ekki fram að ganga og ekki reyndist samkomulag á meðal þeirra er talið var að hefðu staðið að tilboðinu. Fyrir liggur einnig tilboð Varðar-Vátryggingafélags upp á 200 millj. kr.
    Frumvarp það sem hér er lagt fram fjallar fyrst og fremst um stofnun hlutafélags um rekstur Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum en ekki um sölu þess. Hafa ber þó hugfast að það er ásetningur ríkisstjórnarinnar að ríkið dragi sig út úr vátryggingastarfsemi.

Athugasemdir við einstaka greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Ekki er lengur gert ráð fyrir sérlögum um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Reiknað er með að almenn lög um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum, gildi um starfsemi hlutafélagsins sem tekur yfir rekstur Samábyrgðarinnar.

Um 2. og 3. gr.

    Greinarnar gera ráð fyrir að viðskiptaráðherra fari með eignarhlut ríkisins í Samábyrgðinni hf.

Um 4. gr.

    Lagt er til að núverandi starfsmönnum Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum verði boðið sambærilegt starf hjá Samábyrgðinni hf. eftir stofnun þess.

Um 5. gr.

    Ekki er gert ráð fyrir að Samábyrgðin hf. þurfi að sækja um starfsleyfi til þess að mega stunda þá vátryggingastarfsemi sem Samábyrgð Íslands á fiskiskipum stundar nú. Komi til þess að Samábyrgðin hf. vilji útvíkka starfssvið sitt fer um slíkt samkvæmt ákvæðum laga um vátryggingastarfsemi.
    Hlutverk undirbúningsnefndar sem viðskiptaráðherra kemur til með að skipa, verði frumvarpið að lögum, verður m.a. að tryggja að yfirfærsla starfsmanna verði með þeim hætti er segir í 4. gr. og að ganga frá nauðsynlegum formsatriðum vegna stofnunar hlutafélagsins.

Um 6. gr.

    Greinin gerir ráð fyrir að þau bátaábyrgðarfélög sem nú eru starfandi komi til með að starfa eftir lögum um vátryggingastarfsemi. Af sjálfu leiðir að afnám sérlaga um bátaábyrgðarfélög afnemur skyldu til þess að hafa þilfarsbáta að 100,49 brúttórúmlestum tryggða. Er það í samræmi við það sem gildir um önnur skip og báta, stærri og minni. Um leið er einnig afnumin skylda bátaábyrgðarfélags til þess að taka í tryggingu hvern þann er óskar eftir tryggingu á félagssvæði viðkomandi bátaábyrgðarfélags.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags
um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að Samábyrgð Íslands á fiskiskipum verði breytt í hlutafélag í eigu ríkissjóðs. Samkvæmt frumvarpinu er viðskiptaráherra heimilt að ákveða sölu á eignarhlut ríkissjóðs í félaginu að hluta til eða öllu leyti. Samkvæmt ársreikningum 1998 var hagnaður af rekstri félagsins 9,7 m.kr. og eigið fé í árslok var 278,4 m.kr.