Ferill 536. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 837  —  536. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um ráðuneyti matvæla.

Flm.: Katrín Andrésdóttir, Lúðvík Bergvinsson,


Þórunn Sveinbjarnardóttir, Sigríður Jóhannesdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvort breyta skuli landbúnaðarráðuneyti í matvælaráðuneyti, ráðuneyti fyrir matvæli og landbúnað. Sérstaklega verði hugað að kostum þess og göllum að gera slíka breytingu á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins með hliðsjón af þörfum fyrir samræmt eftirlit með matvælum frá haga til maga, enn fremur hvort allt eftirlit með dýrahaldi skuli færast undir sama ráðuneyti.

Greinargerð.


    Í janúar sl. gaf ESB út svokallaða „Hvíta bók“ sem fjallar um hvernig matvælaeftirliti verði best fyrir komið í ESB-löndum í framtíðinni. Áhersla er lögð á að matvælaeftirlit skuli heyra undir eitt ráðuneyti, eina stofnun og ein lög, eftirlitið skuli vera samræmt allt frá hafi og haga til maga. Danir eru að þessu leyti lengst á veg komnir með stofnun ráðuneytis matvæla, landbúnaðar og fisks, Fødevareministeriet. Í Danmörku hefur allt eftirlit á vegum sveitarfélaganna verið fært til ríkisins.
    Í nýju matvælaráðuneyti yrði allt matvælaeftirlit fellt undir eina stofnun undir stjórn yfirdýralæknis. Yfirdýralæknisembættið hefur nú umsjón með miklum hluta innlendra landbúnaðarafurða og sjúkdómavörnum dýra, en ýmsir dýrasjúkdómar geta verið hættulegir mönnum. Við innflutning á hráum matvælum þarf einnig að gæta að ýmsum atriðum sem varða heilbrigði fólks.
    Eftirlit með dýrum og landbúnaðarafurðum heyrir nú að mestu leyti undir landbúnaðarráðuneyti en einnig undir umhverfisráðuneyti. Þetta getur valdið ýmsum vandkvæðum, nærtæk dæmi eru salmonellu- og kampýlóbakter-vandamálin, en þar hefur samstarf ýmissa stofnana ekki alltaf gengið sem skyldi. Vandamál sem þessi eiga yfirleitt upptök í landbúnaði og eðlilegast að leysa þau innan stofnunar undir stjórn yfirdýralæknis.
    Það torveldar mjög meðferð mála ef grunur leikur á um illa meðferð dýra að forðagæsla heyrir undir landbúnaðarráðuneyti en dýravernd undir umhverfisráðuneyti. Málin geta jafnvel orðið svo flókin að hrossin á bænum heyra undir landbúnaðarráðuneytið en hundarnir undir umhverfisráðuneytið. Hér er brýn þörf á samræmingu í löggjöf og stjórnsýslu og eðlilegast að þessi mál séu á vegum eins ráðuneytis.
    Nauðsynlegt er að koma á skipulagi sem hefur að leiðarljósi að gera eftirlit með matvælum og búfjárhaldi einfaldara og skilvirkara. Eftirlitið verður einnig að samræmast kröfum um matvælaeftirlit í helstu útflutningslöndum okkar, bæði austan hafs og vestan og njóta viðurkenningar erlendra yfirvalda.