Ferill 550. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 852  —  550. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)


1. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „0,2%“ í 1. og 2. málsl. 8. mgr. 2. gr. laganna kemur: 0,4%.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í frumvarpinu er lagt til að hlutfall tryggingagjalds, sem launagreiðendur eða menn sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi geta haldið eftir af gjaldstofni tryggingagjalds ef sá hluti er lagður fram sem mótframlag við iðgjaldshluta launamanns vegna viðbótarlífeyrissparnaðar, verði hækkað úr 0,2% í 0,4%. Með lögum nr. 148/1998 var ákvæðum laganna breytt þannig að launagreiðendum var gert að leggja til viðbótarframlag til handa launamönnum sem höfðu gert samning um viðbótarlífeyrissparnað í formi lækkunar á tryggingagjaldi. Markmiðið með breytingunni var m.a. að auka þjóðhagslegan sparnað og að auka lífeyrissparnað þannig að lífeyrir verði í æskilegu hlutfalli við þau laun sem menn hafa yfir starfsævina. Mótframlaginu var ætlað að auka áhuga og fjárhagslegan ávinning einstaklinga af sparnaðinum. Var það hugsað sem tíundi hluti fjárhæðarinnar sem launamaður leggur til hliðar í lífeyrissparnað.
    Lagt er til í frumvarpi til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem lagt verður fram samhliða þessu frumvarpi, að rýmkaðar verði heimildir launaþega til að draga frá tekjum iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda í svokölluðum séreignarsjóðum. Aukning á heimildum launþega geta þó verið nokkuð breytilegar eftir kjarasamningum. Til að auka áhuga og fjárhagslegan ávinning einstaklinga á frekari lífeyrissparnaði er lagt til í frumvarpi þessu að mótframlag launagreiðanda í formi lækkunar á tryggingagjaldi, svokölluð tíund, verði aukið í allt að 0,4% af gjaldstofni almenna tryggingagjaldsins.
    Ef miðað er við heilt ár og staðgreiðsluárið 2000 má gera ráð fyrir því að lækkun tekna af almennu tryggingagjaldi geti orðið allt að 180 m.kr., við hækkun hlutfallstölunnar úr 0,2% í 0,4%, miðað við að 25% launþega nýttu sér heimildina til fulls.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 113/1990,
um tryggingagjald, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta felur í sér að tryggingagjald geti lækkað um 0,4% af gjaldstofni, í stað 0,2% samkvæmt gildandi lögum hjá launagreiðendum, sem leggja þann hluta fram sem mótframlag við iðgjaldahluta launamanns vegna viðbótarlífeyrissparnaðar. Áætlað er að við þessa breytingu gætu tekjur af almennu tryggingagjaldi lækkað um 180 m.kr. miðað við að 25% launþega nýti sér heimildina til fulls. Ekki er talið að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs svo nokkru nemi.