Ferill 577. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 879  —  577. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skattfrádrátt meðlagsgreiðenda.

Flm.: Ólafur Örn Haraldsson.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að skipa nefnd sem kanni hvort rétt sé að setja reglur sem heimili að meðlagsgreiðslur foreldra gangi til lækkunar á tekjuskattsstofni þeirra. Í þessu sambandi verði meðal annars skoðaðar þær reglur sem gilda annars staðar á Norðurlöndum og hvort rétt sé að binda heimildina við þá foreldra sem hafa stofnað til hjúskapar eða hafið sambúð að nýju.
    Nefndin skili niðurstöðum sínum fyrir 1. september 2000.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var flutt á 122. og 123. löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Hún miðar að því að kannað verði hvort rétt sé að setja í lög heimild til handa meðlagsskyldum foreldrum til að draga meðlagsgreiðslur frá tekjuskattsstofni og lækka þar með tekjuskattsgreiðslur þeirra. Hér eru fyrst og fremst hafðir í huga þeir foreldrar sem hafa gengið í hjónaband eða hafið sambúð að nýju. Þegar þannig háttar til hafa viðkomandi foreldrar framfærsluskyldu gagnvart nýju fjölskyldunni sem þeim gengur oft og tíðum illa að fullnægja vegna greiðslubyrði sinnar af meðlagsgreiðslum. Í sumum tilfellum verður afleiðingin að greiðslubyrðin verður einstaklingunum ofviða og þeir lenda í stöðu sem þeir ná ekki að vinna sig út úr, t.d. gjaldþroti. Slíkt leiðir síðan til þess að viðkomandi foreldrar sjá sér ekki annan kost en að hefja svarta atvinnustarfsemi svo að hin nýja fjölskylda hafi til hnífs og skeiðar. Með því að heimila slíkan skattfrádrátt í ákveðnum afmörkuðum tilvikum væri hægt að koma í veg fyrir margan fjölskylduharmleikinn.
    Í Noregi og Danmörku er foreldrum heimilt að draga frá tekjuskattsstofni greitt meðlag að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Eðlilegt er því að skoða hvort ekki sé rétt að hafa sama hátt á hér á landi.