Ferill 601. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 915  —  601. mál.




Fyrirspurn



til umhverfisráðherra um erfðabreyttar afurðir.

Frá Kolbrúnu Halldórsdóttur.



     1.      Hver eru helstu stefnumið ríkisstjórnarinnar að því er varðar erfðabreyttar afurðir, þ.m.t. matvæli?
     2.      Hvernig metur ráðuneytið reynsluna af lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur? Eru uppi áform um að fá fram breytingar á lögunum og ef svo er, um hvaða efnisþætti? Hverjir eiga sæti í ráðgjafanefnd, sbr. 6. gr. laganna?
     3.      Hefur reynt á ákvæði 19. gr. laga um erfðabreyttar lífverur sem gerir ráð fyrir að ráðherra geti „að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins og umsögn ráðgjafanefndar, bannað eða takmarkað hér á landi markaðssetningu tiltekinna erfðabreyttra lífvera eða vöru sem inniheldur þær ef hætta er talin á að markaðssetningin hafi í för með sér skaðleg áhrif á heilsu manna eða umhverfi“?
     4.      Er munur á stöðu Íslands og Noregs innan EES-samningsins að því er varðar erfðabreyttar lífverur og afurðir þeirra og ef svo er, í hverju er hann fólginn? Hver er afstaða Íslands gagnvart þeim fimm erfðabreyttu afurðum sem Noregur hefur hafnað (miðað við haust 1999) en ESB leyft, sem og til GUR-tækninnar (genetic use restriction technologies)?
     5.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja að almenningur/neytendur fái hlutlausar og faglegar upplýsingar um erfðabreytt matvæli og þau áhrif sem erfðabreyttar lífverur geta haft á umhverfið?
     6.      Hvenær er áformað að gefa út reglugerð um merkingar erfðabreyttra matvæla og hvernig má gera ráð fyrir að erfðabreytt matvæli verði merkt í verslunum?
     7.      Hvernig verður hagað auðkenningu eða merkingum dýrafóðurs, sáðvöru og annarra aðfanga framleiðenda landbúnaðarafurða þar sem erfðabreyttar lífverur og/eða afurðir þeirra eru notaðar við framleiðsluna?
     8.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir sértækum aðgerðum til að tryggja stöðu lífrænnar ræktunar hér landi með tilliti til erfðabreyttra lífvera þar sem alþjóðlegt bann er í gildi við notkun þeirra við lífræna landbúnaðarframleiðslu?
     9.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir sértækum aðgerðum til að koma í veg fyrir hugsanlega erfðamengun í íslensku lífríki af völdum erfðabreyttra lífvera, t.d. í plöntum og fiski?


Skriflegt svar óskast.