Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 969  —  233. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands.

Frá minni hluta umhverfisnefndar.    Eftir talsverðar umræður í nefndinni og nákvæma yfirferð umsagna er það álit minni hlut ans að rök Magnúsar Jónssonar veðurstofustjóra, Steingríms Jónssonar, prófessors við Há skólann á Akureyri, og Guðrúnar Kvaran, forstöðumanns Orðabókar Háskólans, séu þess eðl is að fallast verði á þau. Inntak þeirra er að málvernd sé sannarlega verðugt baráttumál og þunga áherslu beri að leggja á mikilvægi málræktar. Hins vegar sé vandséð hvernig það geti verið hlutverk Veðurstofu Íslands að stunda þá málvernd sem þingsályktunartillagan virðist leggja henni á herðar.
    Í umsögn Orðabókar Háskólans segir: „Orðabók Háskólans er annt um hvert orð tungunn ar og reynir að gæta þess að ekkert þeirra lendi í glatkistunni. Við verðum þó að horfast í augu við að mörg orð, sem tengjast verkháttum, sem eru á undanhaldi í búskap og sjávarút vegi, munu hverfa úr daglegum orðaforða og aðeins lifa á bókum hvernig sem reynt verður að sporna á móti. Þannig hafa orð öldum saman fallið í gleymsku þegar viðmiðið breytist. Tungan hefur þó ekki orðið orðfærri og ný orð verða sífellt til í stað þeirra sem hverfa. Þau af umræddum veðurorðum, sem raunverulega eru hluti daglegs orðaforða, munu halda velli og lifa áfram í málinu. Hin verða að láta í minni pokann fyrir öðrum sömu merkingar. Þetta sýnir saga orðanna á liðnum öldum.“
    Í umsögn Háskólans á Akureyri koma fram svipuð sjónarmið: „Það er mitt álit að það sé tímaskekkja að fela Veðurstofunni það verkefni að gæta varðveislu íslenskra orða sem vænt anlega eru dauðadæmd hvort eð er. Ef orðin lifa ekki með þjóðinni í lífsbaráttunni á nýjum og breyttum tímum þá verður þeim ekki haldið á lífi með því að skylda stofnanir til að þylja þau í fjölmiðlum í tíma og ótíma. Þá verða þau með tímanum stofnanamál sem enginn skilur hvort eð er. Nær væri fyrir flutningsmenn að hafa áhyggjur af talnalæsi Íslendinga og beita sér fyrir því að fók fengi meiri og betri þekkingu í meðferð talna þar sem lífsmáti þjóðarinnar í framtíðinni byggist í æ ríkara mæli á því að geta metið upplýsingar á tölulegu formi, t.d. vindhraða í m/sek.“
    Í umsögn sinni lýsir Veðurstofan andstöðu við þingsályktunartillöguna, „enda mun hún litlu sem engu breyta í sambandi við málauðgi eða málfátækt íslenskrar tungu þegar rætt er um veður og vinda“. Í umsögn Veðurstofunnar og í máli Magnúsar Jónssonar veðurstofu stjóra á fundi nefndarinnar komu m.a. fram eftirfarandi rök:
     a.      Vindstyrkheitin hafa mismunandi merkingu í hugum fólks og eru breytileg í tíma og eftir landshlutum.
     b.      Almenn notkun veðurhugtaka í daglegu lífi eru yfirleitt án tengingar við ákveðinn vindstyrk og notuð jafnvel um annað en vind. Hugtakið kaldi er t.d. í huga margra hitahugtak fremur en vindhugtak.
     c.      Fjöldi orða um vind og vindstyrk er í almennri notkun, þótt þau hafi ekki verið notuð í veðurlýsingum Veðurstofunnar.
     .      Meiri hluti þjóðarinnar þekkir ekki veðurfræðilega merkingu þessara vindstyrksheita. Í nýlegri könnun vissi um 80% aðspurðra ekki eða svaraði rangt spurningu um veður fræðilega merkingu orðsins stinningskaldi.
     e.      Vindstigaheitin og mörk vindstiga hafa verið breytileg frá einum tíma til annars í veðurlýsingum Veðurstofunnar.
     f.      Sjómenn vilja nota töluleg heiti yfir vindstyrk fremur en vindheiti og var notkun vindheita hætt í sjóveðurspám fyrir fimm árum.
     g.      Vindheitin ná ekki yfir vindhviður sem geta haft mun meiri vindhraða en meðalvindur á tímaeiningu og nauðsynlegt er að geta notað mælanlega hraðaeiningu í lýsingu á þeim.
     h.      Ekki er eftirsóknarvert að tvítaka vindstyrk/vindhraða í veðurlýsingum í útvarpi og lengja þannig veðurfréttatíma.
     i.      Notkun m/sek. er nákvæmari en veðurhugtökin og samræmist mælikerfi nágrannaþjóðanna.
     j.      Veðurstofan notar oft ákveðin hugtök um vindstyrk til áhersluauka í veðurfréttum, sérstaklega þegar um er að ræða spá um mikinn vindstyrk eins og fárviðri og ofsaveður.
     k.      Óhentugt getur verið að nota veðurhugtök jafnhliða m/sek. þegar spá um vind er á ákveðnu vindbili. Til dæmis ná fjögur veðurhugtök yfir vindstyrk á bilinu 5–10 m/sek., þ.e. gola (3,4–5,2 m/sek.), kaldi (5,3–7,4 m/sek.), stinningsgola (7,5–9,8 m/sek.) og stinningskaldi (9,9–12,4 m/sek.).
    Þessu til viðbótar telur minni hlutinn það ekki eðlilega stjórnsýslu að Alþingi feli um hverfisráðherra að beina því til faglegrar undirstofnunar ráðuneytisins að breyta ákvörðun sem byggist á faglegum rökum.
    Að framansögðu leggur minni hlutinn til að þingsályktunartillagan verði felld.

Alþingi, 5. apríl 2000.Ásta Möller,


frsm.


Ísólfur Gylfi Pálmason.


Kolbrún Halldórsdóttir.
Fylgiskjal.


Umsögn Veðurstofu Íslands.
(1. mars 2000.)


    Veðurstofa Íslands fagnar öllum aðgerðum sem miða að því að styrkja og bæta íslenska tungu og málfar, enda hefur stofnunin ávallt lagt sig fram um að leggja slíkri viðleitni lið. Þá hefur stofnunin notið þess frá upphafi að við hana hafa starfað miklir áhugamenn um íslenskt mál og málfar og nægir þar að nefna veðurfræðingana Jón Eyþórsson og Pál Bergþórsson. Veðurstofan telur hins vegar að fyrrnefnd þingsályktunartillaga nái ekki yfirlýstum tilgangi flutningsmanna og að áhrif þess að stofnunin noti veðurhæðarhugtökin andvari, kul, gola o.s.frv. í veðurfregnum séu stórlega ofmetin. Margar ástæður eru fyrir þessu og helstar eru:
     a.      Flest þessara orða voru til í málinu löngu fyrir daga Veðurstofunnar (1920) og einnig löngu fyrir daga vindstigakvarðans Beaufort frá 1805. Hafa þessi vindstigaheiti því áður haft margs konar merkingu, sem er breytileg í tíma og eftir landshlutum.
     b.      Almenningur notar daglega þessi orð án tengingar við ákveðinn vindstyrk og jafnvel um allt annað en vind. Þannig er kaldi í huga margra spurning um hita en ekki vind. Stormur eða rok í daglegu tali hefur almennt aðra merkingu heldur en 9 eða 10 vindstig og hefur Veðurstofan litlu breytt þar um.
     c.      Fjöldi orða yfir vind og vindstyrk sem Veðurstofan hefur aldrei notað í veðurfregnum er notaður í ýmsum landshlutum og lifir góðu lífi. Einnig má benda á að mikill fjöldi vindheita hefur fallið í gleymsku meðal þjóðarinnar og auðvitað má halda því fram að eftirsjá sé af mörgum þessara orða. A.m.k. kannast undirritaður ekki við ein sextán stinn ings-vindheiti sem gefin eru upp í Orðabók Háskólans. Þannig er þar að finna stinnings vind, stinningskul, stinningshvass, stinningsstormur, stinningsrok og margt fleira góðra orða.
     d.      Meiri hluti þjóðarinnar þekkir ekki stífa veðurfræðilega merkingu þessara vindstyrksheita. Um 80% af tæplega 800 manna úrtaki í könnun Gallup nýlega vissi ekki eða svaraði rangt spurningunni um veðurfræðilega merkingu orðsins stinningskaldi. Aðeins liðlega fimmtungur svaraði spurningunni rétt og það þrátt fyrir mikla umræðu um þessi mál, bæði vegna breytingarinnar hjá Veðurstofunni sl. ár og einnig vegna þeirrar tillögu sem hér er til umræðu.
     e.      Vindstigaheitin og mörk vindstiga hafa verið svolítið breytileg frá því að notkun þeirra var fyrst sett í reglugerð um starfsemi Veðurstofunnar 1929. Þá hefur stundum valdið ruglingi að á ensku merkir „storm“ 10 vindstig en stormur í veðurfregnum frá Veðurstofu Íslands merkir 9 vindstig.
     f.      Fyrir fimm árum hætti Veðurstofan að nota vindheitin í sjóveðursmám. Var það m.a. gert vegna óska sjómanna sem vildu fremur tölur en heiti. Þá hafa vindheitin aldrei verið notuð, hvorki á sjó eða landi, í veðurlýsingu heldur tölur (vindstig).
    Margar ástæður eru fyrir því að Veðurstofan ákvað að breyta úr kvarða áætlaðs vindstyrks yfir í einingu mælds vindhraða og eru þær helstu raktar í grein minni „Vindstigin kvödd“ sem finna má á vefsíðu Veðurstofunnar „vedur.is“. Verða þær því ekki raktar hér. Bæta má við að Veðurstofan stefnir að því að gefa út viðvaranir um hættulegar vindhviður sem gjarnan koma af fjöllum og standa í örfáar sekúndur. Vindstigin eða heiti þeirra hafa engin tengsl við slík vindfyrirbæri og vegna hins stutta tíma sem þessar hviður standa er eðlilegra að nota hraðaeininguna metra á sekúndu en kílómetra á klukkustund. Þá má enn fremur benda á að hvorki Veðurstofunni eða Ríkisútvarpinu þykir eftirsóknarvert að lengja veðurfregnatíma með því að fara að tvítaka vindstyrk/hraða.
    Veðurstofa Íslands lýsir sig því andsnúna þeirri þingályktunartillögu sem hér er til um sagnar enda mun hún litlu sem engu breyta í sambandi við málauðgi eða málfátækt íslenskrar tungu þegar rætt er um veður og vinda. Vindmælavæðingin verður til þess að við notum mælieiningu á vindhraða með sama hætti og tilkoma hitamælisins varð til að menn fóra að mæla hita. Huglægt mat manna á hita og einhver heiti á hitaviðmiðunum varð því eðlilega að víkja fyrir gráðunum hvort sem menn nota nú Celsíus eða Fahrenheit. Með hliðstæðum rökum og koma fram í tillögunni má halda því fram að lengdareiningin metri hafi dregið úr notkun eða jafnvel útrýmt einhverjum lengdarheitum úr málinu!
    Að lokum þykir undirrituðum rétt að benda á að orðhagir menn, sem oft eru styrkustu stoðir tungunnar, munu tryggja að góð orð munu lifa í málinu þótt þau taki merkingarbreytingum frá einni kynslóð til annarrar. Þannig er víst að ónefndur læknir á Akureyri hefur tryggt tilvist orðsins stinningskaldi í eftirfarandi vísu:

    Getulaus á göngu,
    geðlægð haldinn.
    Stríði veldur ströngu,
    stinningskaldinn.

Virðingarfyllst,
Magnús Jónsson
veðurstofustjóri.