Ferill 405. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 984  —  405. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna.

Frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar.    Meginefni frumvarpsins er að festa í lög reglur um framkvæmd tiltekinna þátta í varnar samstarfi Íslands og Bandaríkjanna, m.a. þess sem lýtur að verktöku fyrir varnarliðið, starfs samningum, verksamningum og kaupum á vöru og þjónustu, svo og um umferð um varnar svæðið, undanþágu varnarliðsins frá sköttum og gjöldum o.s.frv. 1. minni hluti nefndarinnar gerir ekki ágreining um þau atriði enda er verið að lögfesta viðteknar venjur og samstarfs samninga. Þó er vakin athygli á því að í k-lið 1. gr. frumvarpsins eru íslenskum fyrirtækjum sett mun strangari skilyrði fyrir leyfi til þess að teljast slík en almennar reglur segja fyrir um. Vafi er á hvort ástæða sé til þess að setja jafnströng skilyrði og þarna eru sett í almennu rekstrarumhverfi þar sem stöðugt meiri áhersla er lögð á frjálsa samkeppni og verkútboð.
    Ákvæði til bráðabirgða II orkar hins vegar tvímælis svo ekki sé meira sagt. Þar er gert ráð fyrir að forvalsnefnd sé heimilað að stöðva framlengingu þegar gerðra samninga við verktaka þótt báðir samningsaðilar óski eftir framlengingunni og gert sé ráð fyrir henni í verksamn ingum þeirra á milli að því tilskildu að forval hafi ekki farið fram áður en frá upphaflegum samningum var gengið. Ákveði forvalsnefnd að stöðva framlengingu samnings samkvæmt þessari heimild skal hún auglýsa forval og er þá skilyrði fyrir því að fyrri viðsemjandi komi til greina að hann uppfylli þær ströngu kröfur sem gerðar eru til þess að fyrirtæki geti talist vera íslenskt skv. k-lið 1. gr.
    Augljóslega er hér verið að grípa inn í samningsgerð um flutninga fyrir varnarliðið á vegum fyrirtækisins Atlantsskip sem er fyrirtæki skráð á Íslandi og hlaut þann samning sem lægsti íslenski tilboðshafinn. Samningurinn var gerður til tveggja ára en ákvæði eru um að heimilt sé að framlengja hann um eitt ár í senn um þrjú ár til viðbótar þannig að heildartími samningsins um flutninga fyrirtækisins fyrir varnarliðið gæti numið fimm árum frá gildistöku hans. Samningurinn kemur til fyrstu framlengingar 31. október nk. Verði bráðabirgðaákvæði II lögfest og taki það gildi þegar í stað eins og frumvarpið gerir ráð fyrir er auðsætt að tilgangurinn er sá að stöðva framlengingu samningsins og efna til forvals þar sem fyrirtækið Atlantsskip ætti litla möguleika á að ná að uppfylla hin ströngu skilyrði k-liðar 1. gr. og væri þá fyrir fram úrskurðað úr leik.
    Vissulega má deila um hvort fyrirtækið hafi í raun verið íslenskt fyrirtæki — þ.e. fyrirtæki í íslenskri eigu og undir íslenskri stjórn — þegar samningurinn við það var upphaflega gerður og hvort með þeim samningi hafi verið brotið það samkomulag sem gert hafði verið á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda um fyrirkomulag flutninga á sjó fyrir varnarliðið. Á það hefur verið látið reyna fyrir bandarískum dómstólum og er úrskurður áfrýjunarréttar þar sá að samningurinn brjóti ekki samkomulag stjórnvalda. Málaferlum er þó enn ekki lokið því að til stendur að fá málið tekið upp fyrir hæstarétti í Bandaríkjunum.
    Á hitt verður þó að horfa að nærfellt tvö ár eru liðin frá því að samningurinn var gerður og hefur málið verið í uppnámi síðan. Þá hafa þær breytingar verið gerðar á eignarhaldi flutn ingafyrirtækisins að ekki verður annað séð en að það sé nú ótvírætt í íslenskri eigu. Einnig er á það að líta að hér er ekki um ríka fjárhagslega hagsmuni að ræða þar sem heildarflutn ingsgjöld þeirra farma sem hér um ræðir eru um 130 millj. kr. á ári en farmarnir eru fyrst og fremst búslóðir varnarliðsmanna, bifreiðar, matföng og vistir. Einhver samkeppni hefur þó orðið fyrir tilverknað félagsins í flutningum fyrir íslenska aðila milli Íslands og Bandaríkj anna, en þeir flutningar eru enn sem komið er óverulegir og geta vart talist ógna samkeppnis aðstöðu annarra íslenskra sjóflutningsfyrirtækja.
    Þegar til þess er litið hve umfang þessara flutninga er lítið og hve litlir fjárhagslegir hags munir eru í húfi fyrir íslenskt fyrirtæki og enn fremur að æskilegt er að a.m.k. einhver sam keppni — þótt óveruleg sé — geti orðið á þessari flutningaleið til hagsbóta fyrir íslenska neytendur verður ekki séð hvað kallar á svo harkaleg viðbrögð íslenskra stjórnvalda sem í bráðabirgðaákvæðinu felast. Sé talin svo brýn nauðsyn á að gera miklu strangari kröfur um íslenskt eignarhald, íslenskt stjórnunarforræði og innlent starfslið þeirra fyrirtækja, skráðra á Íslandi, sem vinna að verktöku fyrir varnarliðið en til annarra fyrirtækja íslenskra hlýtur a.m.k. að teljast eðlilegt að gefa fyrirtækjum, sem gert hafa gilda verksamninga við varnarlið ið með ákvæðum um heimild til framlengingar, eðlilegan umþóttunartíma til þess að laga rekstur sinn og starfsemi að þeim kröfum. Ákjósanlegast væri að sjálfsögðu að leyfa þeim að ljúka heildarsamningaferlinu með umsömdum framlengingarmöguleikum áður en ákvæði k-liðar 1. gr. yrði beitt. Ef ekki, ætti a.m.k. að gefa þeim tíma til þess að laga sig að nýju kröfunum þannig að ekkert standi í vegi fyrir því að af framlengingu geti orðið með eðli legum hætti. Þetta er hins vegar ekki gert og ósk sem borin hefur verið fram af 1. minni hluta um að slíkur umþóttunartími verði gefinn hefur verið hafnað. Er málatilbúnaði meiri hlutans þannig bókstaflega stefnt gegn einu ákveðnu fyrirtæki, Atlantsskipum, og er það að áliti 1. minni hluta gróf mismunun.
    Fyrsti minni hluti leggur því fram í sérstöku þingskjali breytingartillögu þess efnis að ákvæði til bráðabirgða II öðlist ekki gildi fyrr en við upphaf ársins 2001. Er hér um sjálfsagða málamiðlunartillögu að ræða sem gefur viðsemjendum, Atlantsskipum og varnarliðinu, kost á að framlengja samning sinn 31. október nk. um eitt ár til viðbótar ef þeir óska þess og gæfist fyrirtækinu þar með ráðrúm til þess að laga sig að þeim kröfum sem frumvarpið gerir til fyrirtækja sem teljast mega kalla sig íslensk. Verði þeirri málamiðlunartillögu hafnað er málið keyrt fram af kappi fremur en forsjá af hálfu stjórnarmeirihlutans og mun 1. minni hluti þá greiða atkvæði gegn bráðabirgðaákvæðinu.

Alþingi, 10. apríl 2000.Sighvatur Björgvinsson,


frsm.


Jóhann Ársælsson.